Fanney Magnúsdóttir fæddist 7. október 1924 í Miðhúsum í Naustahvammi á Norðfirði og ólst þar upp. Hún lést á Sólvangi í Hafnarfirði 22. júní 2009. Foreldrar hennar voru Magnús Guðmundsson frá Fannadal, f. 18. maí 1890, d. 27. október 1946, og Anna Guðrún Aradóttir, Naustahvammi, f. 15. júní 1889, d. 14. október 1970. Systkini Fanneyjar eru: Sammæðra, Drengur Guðjónsson, f. um 1910, dáinn 1910, Guðmundur Helgi Bjarni , f. 1916, d. 1962, Vilhelmína María, f. 1917, Guðjón, f. 1919, d. 1986, Lukka Ingibjörg, f. 1920, d. 2008, Hjalti, f. 1923, d. 2001, Ari, f. 1927, d. 2005, Albert, f. 1928, d. sama ár, Albert, f. 1929, d. 1993. Fanney giftist árið 1950 Ólafi Brandssyni, f. 28.10. 1919, d. 23.3. 2008. Börn Ólafs og Fanneyjar eru 1) Anna Magnea, f. 1948, maður hennar Þórarinn Sigvaldi Magnússon, f. 1944. Barn þeirra er a) Ólafur Thorarinsson Munk, f. 1968, kona hans Eva Munk, f. 1967, og eiga þau tvo syni, Magnús Ólafsson Munk, f. 1993, og Karl Ólafsson Munk, f. 1997. Búa þau í Danmörku. 2) Tryggvi, f. 11. október 1953, kona hans er Theódóra Gunnlaugsdóttir, f. 11. maí 1955. Börn þeirra eru: a) Rakel, f. 17. ágúst 1977. Maður hennar er Þórir Tryggvason, f. 4. mars 1973, og barn þeirra er Róbert Tryggvi Þórisson, f. 7. júní 2007. b) Logi , f. 31. júlí 1981 og c) Gunnlaugur Atli, f. 12. okt. 1990. 3) Lára, f. 18. febrúar 1956, lést af slysförum 21. janúar 1963. 4) Lára, f. 17. febrúar 1964, maður hennar er Sveinn Andri Sigurðsson, f. 24. aprí 1967, eiga þau saman dótturina Fanneyju Lísu, f. 31. ágúst 2002. Úr fyrra sambandi eiga Lára og Sveinn Hallgrímsson, f. 23. júní 1961, synina a) Sigurð Axel, f. 4. júlí 1980, unnusta hans er Erla Dögg Kristjánsdóttir, f. 20. apríl 1985, sonur þeirra er Ólafur Sverrir, f. 18. september 2008, og b) Fannar Frey, f. 8. júlí 1987, unnusta hans er Margrét Hlíf Óskarsdóttir, f. 6. febrúar 1989. Fanney vann sem vinnukona eitt sumar, síðar þrjár vertíðar sem matráðskona fyrir báta frá Neskaupstað sem reru frá Suðurnesjum og Hafnarfirði. Hjónin fluttu til Hafnarfjarðar með tvö börn en Ólafur var mikið á sjó á þessum erfiða tíma. Fanney og Ólafur byggðu lítið hús að Mosabarði 5 í Hafnarfirði, sem síðar var selt og notað sem sumarbústaður, en eftir það byggðu þau það hús sem nú stendur þar. Uppeldi og velgengni barnanna var mjög ofarlega í huga Fanneyar og var hún mjög úrræðagóð húsmóðir og saumaði hún öll föt á börnin og sig sjálfa, mikil prjóna- og hannyrðakona, og bar heimilið vel þess merki. Útför Fanneyjar fór fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði mánudaginn 29. júní 2009.
Fanney mín, þá er þessari baráttu lokið og ert þú eflaust núna glöð og ánægð í góðum félagsskap.
Mig langar til með þessum fátæklegu orðum að þakka þér fyrir hve þú tókst vel á móti mér þegar hún dóttir þín kom með sinn útvalda heim til ykkar Óla, en þá var krepputími eins og núna og ég í skóla þar að auki en aldrei var minnst á það einu orði, ég varð bara hluti af fjölskyldunni um leið og allar götur síðan. Þið Óli voruð þá búin að byggja ykkar fallega heimili á Mosabarðinu og var gaman að sjá hve fólki þótti gaman af að heimsækja ykkur en alltaf var stutt í gamansemina hjá þér og ykkur.
Eftir skólann var ég nú lítið heima og eftir að við fluttumst til Danmerkur var gaman að sjá hve þú naust þín vel í heimsóknum til okkar og fórum við þá í góð ferðalög til Norðurlanda og Evrópu.
Eftir að við fluttum heim 1994 og heilsan fór að versna hjá þér þá var gott að geta endurgoldið alla þína hjálpsemi og hlýju fyrir þann tíma þegar við vorum ung og undir verndarvæng ykkar Óla.
Bara það að hafa okkur Önnu og litla Óla inni á þínu heimili þennan tíma var okkur mikil og ómetanleg hjálp sem aldrei gleymist.
Fanney mín, enn og aftur innilegt þakklæti fyrir allt.
Tryggvi og Lára og fjölskyldur, ég samhryggist ykkur innilega, einnig vil ég þakka öllu því góða starfsfólki á 4 hæð Sólvangs í Hafnarfirði, fyrir alla ykkar ómetanlegu umönnun.
Þinn tengdasonur
Þórarinn.