Richard L. Richardsson lést 24. júní í Boston, USA. Hann var fæddur í Reykjavík 27. júlí 1926. Foreldrar hans voru hjónin Louisa Norðfjörð Sigurðardóttir húsmóðir f. 15. febrúar 1892 d. 14. janúar 1953 og Richard Eiríksson, pípulagningameistari f. 4. maí 1986 d. 30. september 1971. Bræður Richards, Jón Sigmar Richardsson, arkitekt f. 1924 d. 1996 og Sigurður Richardsson, kennari f. 1932. Richard giftist Joan Mary Keary, 25. ágúst 1958 og bjuggu þau í Tuxedo Park, New York , þau skildu. Synir þeirra eru 1) Peter Keary, f. 7. janúar 1964, BBA frá University of Maine, giftur Kate Richardsson synir þeirra eru William og Henri 2) Richard Keary, f. 30. mars 1965 arkitekt og Richmond Howard f. 18. desember 1974, endurskoðandi giftur Jennifer Richardsson , sonur þeirra er H. Edward. Richard var stúdent frá Verslunarskóla Íslands, og Cand. Oecon. frá HÍ 1953. Hann starfaði hjá Loftleiðum í Reykjavík og Osló Fjármálastjóri Icelandic Airlines Inc. Í New York frá 1956 til 1968. Aðstoðarforstjóri og meðeigandi Intercontinental Airline Club í New York . Rak sjálfstætt ráðgjafafyrirtæki í New York og Charlotte í North Carolina .
Kynni okkar Rikka hófust þegar við unnum saman hjá frænda mínum Helga
Kristjánssyni við byggingu vinnustofu Reykjalundar árið 1952. Hefur sá
vinskapur staðið yfir síðan.
Rikki bjó í Bandaríkjunum og eru ófáar heimsóknir okkar hjóna til hans
þangað, fyrst til New York og síðar til N-Caroline. Margar eru minningar
eftir þessar ferðir sem myndu fylla margar síður.
Ein minning er mér minnisstæð frá því í gamla daga að eitt sinn er ég
heimsótti hann og við vorum staddir á Manhattan þá hittum við írska
leikritaskáldið Brendan Beehan. Við eyddum með honum part úr degi. Fórum
við vítt og breytt um Manhattan með honum en ekki þýddi mikið að fara inn á
vinsælustu barina því Brendan var vel þekktur þar og var okkur alls staðar
hent út þar sem við komum inn. Það var alveg nýtt fyrir okkur að fá ekki að
vera inni á börunum og höfðum við gaman af þessu og gerði þetta þennan dag
ógleymanlegan.
Önnur nýlegri minning er líka sterk þegar við hjónin fórum til hans og ég
hélt uppá 70 ára afmælið hjá honum. Dætur okkar komu með og var þá glatt á
hjalla hjá Rikka. Áttum við ógleymanlega 10 daga saman.
Rikki var höfðingi heim að sækja og sótti hann mig hvert sem var þegar ég
kom til USA. Hann keyrði jafnvel í 8 klst. til sækja mig þannig að við
gætum örugglega hist.
Um árabil heimsóttum við hjónin hann a.m.k tvisvar á ári og var hús hans
alltaf opið fyrir okkur eins og öðrum gestum. Símasamband var líka mikið og
leið ekki sú vika að við höfðum ekki samband og var alltaf endirinn á
símtalinu hjá Rikka Eruð þið ekki örugglega að koma, hvenær á ég að koma
út á völl að sækja ykkur?.
Rikki var sérlega lífsglaður maður og alltaf í stuði. Það var alltaf
ánægjulegt að dvelja hjá honum og höfum við átt ógleymanlegar stundir saman
sem maður geymir í minningunni. Ég og eiginkona mín viljum þakka fyrir
allar þessu góðu stundir, alla gestrisnina og vonum að við hittumst aftur
hinumegin. Þar bíður Rikki örugglega með opið hús og jafnvel
rauðvínsflösku.
Ég vil þakka Rikka og fjölskyldu hans fyrir ánægjulegan vinskap.
Sverrir Guðjónsson.
Kær frændi okkar systra, Rikki í Ameríku hefði orðið 83 ára í dag 27. júlí en hann lést í Boston 24. júní síðastliðinn.
Við eigum góðar minningar um Rikka frænda en það var hann ávallt kallaður í okkar húsum. Í heimsóknum sínum hingað heim Þegar við vorum litlar stelpur kom hann með fullar töskur af dóti og sælgæti, Basoca-kúlutyggjó og rauðan lakkrís. Þá var nú hátíð í bæ svo ekki sé minnst á allt Barbiedótið sem hann færði okkur. Hann var skemmtilegur, alltaf kátur og hrókur alls fagnaðar. Svo liðu árin og lengri tími leið á milli heimsókna.
Seinna fengum við svo nokkur tækifæri að heimsækja hann og eru þær heimsóknir ógleymanlegar, alltaf tekið á móti okkur eins og við værum að koma heim. Hann hafði sjálfur skoðað heiminn á yngri árum, ferðast heimshorna á milli meðan hann vann við flugið, en síðustu árin fannst honum best að vera heima, þá var gaman að búa til notarlegar stundir með honum í litla húsinu í Gastonia NC, elda góðan mat, spjalla og hlæja langt fram á nótt.
Þrátt fyrir að hann hafi búið í Ameríku í 53 ár var yndislegt að finna hvað ræturnar voru sterkar á Íslandi. Hann fylgdist með fréttum í gegnum blöðin og var íslenskan hans lítalaus. Íslenski maturinn gladdi hann ævinlega, steikti fiskurinn hennar mömmu var í uppáhaldi og svið, skyr, harðfiskur og kókósbollur sem við bárum oft til hans.
Herramaður var hann í orðsins fyllstu merkingu.
Við þökkum góðum frænda fyrir góðar stundir, Við sendum sonum hans , tengdadætrum og barnabörnum samúðarkveðjur .
Louisa, Anna María og Brynja.
Elsku Rikki frændi minn.
Þú varst skemmtilegi, góði og yndislegi frændinn í Ameríku. Þó ég hafi ekki hitt þig oft í gegnum tíðina þá eru stundir okkur ómetanlegar. Það var alltaf svo gaman þegar við hittumst og svo gott að tala við þig. Þú sagðir mér sögur, stundum lygasögur, af sjálfum þér sem við skulum bara hafa fyrir okkur. Ég get ennþá hlegið þegar ég hugsa um þær, svo skemmtilegar voru þær. Þú varst svo léttlyndur og svo gott að vera í kringum þig. Það eru 5 ár síðan ég sá þig síðast, allt of langur tími en þá áttum við nokkra góða daga. Kom ég með mömmu og Sigríði og held ég að þú hafir verið þakklátur fyrir þessa heimsókn sem og við. Við sátum úti í sólinni, drukkum smá vín og spjölluðum lengi fram eftir. Það er svo ógleymanlega fyndin stund þegar komið var að því að keyra okkur út á flugvöll. Þú tókst ameríska drekann sem var í innkeyrslunni þinni, aðeins kominn til ára sinna, og keyrðir af stað. Þegar við höfðum keyrt í nokkrar mínútur sprakk drekinn bókstaflega. Eins og sannir Íslendingar þá var bíllinn stappfullur af ferðatöskum sem henda þurfti út úr bílnum svo allt fína, nýja dótið myndi ekki brenna. Við rétt komumst á flugvöllinn í tæka tíð og gátum svo sannarlega kvatt þig með bros á vör eftir vel heppnaða ferð.
Í dag hefðir þú átt afmæli, ég vildi að ég gæti hringt og óskað þér til hamingju en ég veit að amma gerir það fyrir mig.
Guð geymi þig elsku Rikki og hugur minn er hjá strákunum þínum og litlu barnabörnunum þínum. See you later alligator, after a while crocodile.
Þín eina,
Hildur.