Ingólfur Guðbrandsson fæddist á Kirkjubæjarklaustri 6. mars 1923. Hann lést á Landspítalanum 3. apríl sl. Foreldrar hans voru Guðrún Auðunsdóttir húsmóðir, f. 1895, d. 1973 og Guðbrandur Guðbrandsson bóndi á Prestbakka á Síðu, f. 1892, d. 1981. Systir Ingólfs var Rósa, f. 1926, d. 1995. Eiginkona Ingólfs 1943-63 var Inga Þorgeirsdóttir kennari, f. 1920. Börn þeirra eru: 1) Þorgerður, kórstjóri, f. 1943, gift Knut Ødegård, skáldi; 2) Rut, fiðluleikari, f. 1945, gift Birni Bjarnasyni, fv. ráðherra, börn þeirra eru Sigríður Sól og Bjarni Benedikt; 3) Vilborg, hjúkrunarfræðingur, f. 1948, gift Leifi Bárðarsyni, lækni, dætur þeirra eru Margrét María og Inga María; 4) Unnur María, fiðluleikari, f. 1951, gift Thomas Stankiewicz, arkitekt, börn þeirra eru Catherine María, Helene Inga og Thomas Davíð; 5) Inga Rós, sellóleikari, f. 1953, gift Herði Áskelssyni, organista, börn þeirra eru Guðrún Hrund, Inga og Áskell. Eiginkona Ingólfs 1964-68 var Laufey Kristjánsdóttir, f. 1931. Börn þeirra eru: 6) Eva Mjöll, fiðluleikari, f. 1962, gift Kristni Sv. Helgasyni, viðskiptafræðingi, dóttir þeirra er Andrea; 7) Andri Már, forstjóri, f. 1963, kvæntur Valgerði Franklínsdóttur, snyrtifræðingi, synir þeirra eru Alexander Snær og Viktor Máni. Barnsmóðir Ingólfs er Sigrún E. Árnadóttir, f. 1949, sonur þeirra er: 8) Árni Heimir, tónlistarfræðingur, f. 1973. Ingólfur átti 11 barnabarnabörn. Ingólfur lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1943 og stundaði tungumálanám við Háskóla Íslands á árunum 1944 til 1949. Síðar hélt hann til tónlistarnáms við Guildhall School of Music í London og nam ensku og hljóðfræði við University College í London. Þá stundaði hann framhaldsnám í tónlist við Tónlistarháskólann í Köln, í Augsburg og í Flórens. Árið 1943 hóf Ingólfur störf sem kennari við Laugarnesskóla og bryddaði þar upp á ýmsum nýjungum í tónlistarkennslu, þar á meðal morgunsöng sem enn er lifandi hefð í skólastarfinu. Hann var námstjóri tónlistarfræðslu hjá menntamálaráðuneytinu og starfaði sem skólastjóri Barnamúsíkskólans í Reykjavík um skeið. Ingólfur stofnaði ferðaskrifstofuna Útsýn árið 1955 og var forstjóri hennar til ársins 1988. Hann stofnaði ferðaskrifstofuna Prímu og Heimsklúbb Ingólfs, og starfaði á vettvangi ferðamála allt til ársins 2006. Ingólfur var frumkvöðull í kórstarfi og tónlistarflutningi á Íslandi. Árið 1957 stofnaði hann Pólýfónkórinn og undir hans stjórn voru frumflutt á Íslandi mörg af stærstu verkum tónbókmenntanna. Kórinn hélt tónleika víða um heim og hafa margar plötur og geisladiskar komið út með söng hans. Ingólfur hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1977 og ítölsku riddaraorðunni Cavaliere della Repubblica Italiana sama ár. Árið 1972 var hann gerður að heiðursfélaga Félags íslenskra tónmenntakennara. Þá var hann útnefndur Capo dell’Ordine „Al Merito della Repubblica Italiana“ árið 1991. Í febrúar síðastliðnum hlaut hann heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna. Útför Ingólfs verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag kl. 15.
Ingólfur Guðbrandsson kom víða við og af mörgu er að taka þegar líf hans er skoðað. Ég ætla hér að segja frá einum þætti lífs hans, sem eru tónlistarnámskeið hans handa almenningi. Þegar grannt er skoðað eru slík námskeið ekki víða í boði. Þeir sem fara á mis við tónlist í föðurhúsum hafa því ekki um auðugan garð að gresja og eftirleikurinn er ekki léttur. Margir átta sig þó á því að á þessu þarf að gera bragarbót ef þeir ætla að njóta þeirra lífsgæða sem góð tónlist færir þeim.
Þá gerðist það árið 1993 að Ingólfur auglýsti fyrsta tónlistarnámskeið sitt í samvinnu við Endurmenntun Háskóla Íslands. Hann stóð þá á sjötugu. Fyrsta námskeiðið hélt hann í venjulegri kennslustofu og það sóttu 25-30 manns. Hópurinn var æði fjölbreyttur. Þarna voru nokkrir hljóðfæraleikarar og annað tónlistarfólk, en að stærstum hluta voru þátttakendur óskólagengnir í tónlist og fæstir þeirra höfðu hlotið tónlistaruppeldi. Ég var þarna og veit að allmargir áttu ekki einu sinni plötuspilara. Ingólfur kynnti okkur ekki aðeins fyrir tónlistinni, heldur einnig tónskáldum og flytjendum. Við fengum inngrip í sögu tónlistar, hljóðfæra og hljóðritunar, enda var það ætlun Ingólfs að þátttakendur kæmu sér upp góðu hljómplötusafni (CD), sem ég veit að mörgum tókst. Jafnframt útskýrði Ingólfur fyrir okkur tæknileg atriði í uppbyggingu tónlistar, hvernig hún þróaðist og gerði samanburð á tónskáldum og tímabilum, allt með vel völdum tóndæmum.
Það fór ekki á milli mála að Ingólfur naut sín vel á þessum vettvangi. Það fór enda þannig að hann hélt áfram allt til ársins 2001 og hafði þá haldið tíu námskeið, hvert með sínu sniði. Það var haldið námskeið á hverju ári og tvö árið 2000. Þau færðust úr kennslustofunni inn í hátíðarsal H.Í., en þaðan í safnaðarheimili Hallgrímskirkju og að lokum í safnaðarheimili Háteigskirkju. Hvert námskeið stóð ýmist saman af 5, 8 eða 10 skiptum. Mestur varð fjöldi þátttakenda á annað hundrað manns, en var iðulega 50 til 80 manns.
Ingólfur lagði á það áherslu að góð hljómflutningstæki væru á staðnum og safnaði fé svo hátíðarsalurinn mætti eignast góð tæki. Þannig fengum við nú notið tónlistarinnar á besta mögulega máta. Ingólfur áleit jafnframt að aðgangur skyldi vera ódýr og þess vegna tók hann alla umsjón námskeiðanna á sínar hendur síðari árin.
Einlægni Ingólfs í fölskvalausri aðdáun hans á tónlistinni vakti aðdáun mína. Lýsing hans á tónskáldum, stjórnendum, hljóðfæraleikurum og söngvurum var stórbrotin og borin fram á þann hátt að við fengum hlutdeild í skynjun kennarans. Við fengum ekki aðeins innsýn í tónlist og tækni, heldur vorum við hrifin með inn í hugarheim tónlistarunnanda og eins reyndasta flytjenda okkar á klassískri tónlist. Og allt var þetta borið fram á afar vönduðu máli sem var okkur hinn dýrmætasti fjársjóður. Ingólfur hafði þann háttinn á að hann tók saman efni hvers tíma og dreifði meðal þátttakenda í prentuðu máli. Það nálgast að vera full mappa af tónlistarsögu.
Árið 1996 kynnti Ingólfur okkur fyrir meistara Bach. Í framhaldi þess námskeiðs var farið á slóðir Bachs í Þýskalandi, ferð sem er ógleymanleg öllum sem hana fóru. Ingólfur fór með okkur til Eisenach, fæðingarborgar meistarans, og síðan til hverrar borgarinnar á fætur annarri, sem allar tengdust lífi og starfi hins stórbrotna snillings. Á þessum slóðum gafst tækifæri til að heyra tónlist Bachs leikna á þau hljóðfæri sem hann hafði sjálfur leikið á. Ferð þessi var endurtekin að ári.
Í kjölfar námskeiðs um Beethoven var farið á slóðir hans, allt frá Bonn til Salzburg og Vínar. Sú ferð verður lengi í minnum höfð. Eftir námskeið sem snerist mestmegnis um Mozart var farið í fræðandi og stórskemmtilega ferð á heimaslóðir hans í Salzburg og Vín. Í Vín sóttu ferðalangarnir af Íslandi marga tónleika, m.a. Brúðkaup Fígarós í Vínaróperunni og úrval sönglaga Mozarts í Musikverein. Nokkrir sáu og heyrðu Placido Domingo og Dmitri Hvorostovsky í Spaðadrottningu Tchaikowskis undir stjórn Japanans Seiji Ozawa. Þaðan var haldið til Prag að sjá Brúðkaup Fígarós (aftur) í húsi sem frumsýndi margar óperur Mozarts á sínum tíma. Þessi ferð var síðar endurtekin.
Eftir tvö námskeið árið 2000 var haldið í Ítalíuferð sem er algerlega óviðjafnanleg, svo skipulögð og skemmtileg var hún. Af öllu því sem þar var í boði nefni ég aðeins Verdióperuna Nabucco í hringleikahúsinu (Arena) í Verona, ferð á veitingahúsið Caruso í Sorrento og sjóferð til Capri.
Þetta var þrekvirki, Ingólfur, og megi þín ætíð verða minnst fyrir það.
Hafðu kærar þakkir.
Már Viðar Másson
Ég sit og læt hugann reika til fyrri tíma og finn fyrir eftirsjá, þakklæti og auðmýkt.
Ég heyrði fyrst minnst á Ingólf Guðbrandsson, er ég var lítil stúlka og söng í Kór Öldutúnsskóla í Hafnarfirði. Við vorum að æfa fyrir tónleika og Egill Friðleifsson kórstjórinn okkar, sagði okkur frá Ingólfi, að hann ætlaði að koma á tónleikana og hlusta á okkur. Egill sagði okkur að þessi maður heyrði betur en aðrir menn og ég sem hafði á þessum árum ekki heyrt minnst á tóneyrað góða, skáskaut augunum á þennan framandi mann sem skar sig úr í útliti og fasi. Ég hugsaði um allt sem maðurinn gæti heyrt; blómin vaxa, grasið gróa og jafnvel hugsanir annarra. Ég fylltist lotningu og lagði mig fram um að syngja sérstaklega vel - og að gæta að hugsunum mínum.
Margrét Pálmadóttir kórstjóri hvatti mig til að koma með sér á æfingu hjá Pólýfónkórnum þegar ég var á sextánda ári. Þá var ekki aftur snúið -þar opnaðist fyrir mér nýr heimur stórverka Bachs.
Ég varð fyrir sterkum áhrifum við að syngja í kór hjá Ingólfi. Hann lagði djúpa áherslu á að ná hinum fagra hljómi í kórsöngnum. Hann gekk ötullega til verks, gerði miklar kröfur til okkar sem sungu og til sjálfs síns um leið. Hann stefndi hátt og smitaði okkur af áhuga sínum og vilja til að ná árangri og náðum við undir hans leiðsöng þeim stigum í sönglistinni sem okkur hafði ekki órað fyrir. Við komum úr ólíkum áttum, sumir voru að kynnast kórsöng í fyrsta sinn af eigin raun. Hann gaf fólki tækifæri til að vera með, leggja sitt af mörkum og uppskera hæðir í söngnum sem við gleymum aldrei. Starf hans auðgaði líf okkar og einnig tónlistarlífið á Íslandi. Fyrir það er ég þakklát.
Ingólfur kom nefnilega með nýjan tón til Íslands. Hann breytti kórsöngnum hér á landi, það vita þeir sem voru samferðamenn hans í tónlistinni. Það vita þeir sem voru í hans höndum í Lauganesskóla og á fyrstu árum Pólýfónkórsins. Þessi nýi tónn var léttari, skírari og fókuseraðri en hafði tíðkast hér til lands. Margir nemenda hans úr Lauganesskóla hafa farið með það veganesti sem þeir hlutu við leiðsögn Ingólfs, út í lífið og orðið tónlistarfólk og tónlistarkennarar. Margföldunaráhrifin af starfi Ingólfs Guðbrandssonar eru ómetanleg.
Ingólfur hlaut heiðursverðlaun Tónlistarverðlaunanna í ár. Það var löngu tímabært. Hann var vel að þeim kominn svo vægt sé til orða tekið. Ég sat hrærð og hlustaði á Þorgerði dóttur hans tala fyrir hans hönd. Orðin hljómuðu sem fegursta tónlist, hrein og sönn.
Blessuð sé minning Ingólfs Guðbrandssonar.
Ég votta fjölskyldu hans og öðrum aðstandendum samúð mína.
Kveðja,
Brynhildur Auðbjargardóttir.
Líklegt má telja að um 1000 manns hafi einhvern tíma tengst starfsemi Pólýfónkórsins, annað hvort með því að syngja í kórnum eða sækja námskeið í tónlist og söng sem haldin voru marga vetur undir nafninu Kórskóli Pólýfónkórsins. En Ingólfi var ljóst að lítil undirstöðumenntun í söng og tónlist gerði fólki erfitt að taka þátt í að flytja stóru verkin, sem nánast útilokað er að læra utanbókar.
Þegar Pólýfónkórinn hætti hefðbundinni starfsemi 1988 urðu nokkur þáttaskil hjá mörgum kórfélögum. Sumir höfðu að vísu verið með í starfi annarra kóra og héldu þar áfram að syngja sér til sáluhjálpar. En félagarnir reyndu að hittast þó stopult væri og tengslin slitnuðu aldrei alveg. Vorið 1996 var stofnað félag, Pólýfónfélagið, til að halda á lofti minningu um starf Pólýfónkórsins og þó ekki síður að vinna að útgáfu á því mikla efni sem til er á tónböndum hjá útvarpinu. Þrátt fyrir aldursárin nálægt 80 og að sjón væri farið að hnigna gekk Ingólfur ötullega að störfum fyrir félagið. Hann sat dögum saman með tónmeisturum útvarpsins, hlustaði á gamlar upptökur og lagði á ráðin um hvernig mætti endurbæta það sem misfarið hefði við upptökur eða smáslys í flutningi. Því hér er eingöngu um konsertupptökur að ræða. Árangur var sá að á 50. afmælisárinu komu út samtals 6 diskar með flutningi kórsins á þekktum verkum til viðbótar því sem áður var komið út. Það var Ingólfi til óblandinnar ánægju að hitta kórfélaga í veislu sem efnt var til 29.mars 2008 í tilefni þess að 50 ár voru liðin frá fyrstu tónleikum kórsins. Nú að leiðarlokum þakka kórfélagar Ingólfi Guðbrandssyni fyrir samstarfið og framlag til íslenskrar menningar en senda aðstandendum hans innilega samúðarkveðjur.
Pólýfónkórinn – Pólýfónfélagið.
Stór persónuleiki og mikilhæfur maður er horfinn af sjónarsviðinu við andlát Ingólfs Guðbrandssonar. Ég kynntist honum snemma í lífi mínu, eða 10 ára að aldri. Það var að sjálfsögðu tónlistin sem leiddi okkur fyrst saman, en tónlistin var Ingólfi ætíð heilög köllun, þótt önnur störf tækju drjúgan toll af lífi hans. Einhvers konar undanfari Pólýfónkórsins var lítill barnakór, sem ég var svo heppinn að lenda í og njóta handleiðslu Ingólfs. Í þessum litla kór voru t.d. tvær dætur Ingólfs, Rut og Þorgerður, en báðar áttu þær eftir að verða þjóðþekktir tónlistarmenn. Þetta hafði varanleg áhrif á mig. Eftir stutta viðdvöl í Pólýfónkórnum var ætíð kært með okkur Ingólfi. Þegar ég lenti í poppinu á unglingsárunum, ráðlagði hann mér eindregið að beina hæfileikum mínum í aðra átt. Þessi ráðlegging hans hafði úrslitaáhrif á þá ákvörðun mína að leggja fyrir mig klassiska tónlist sem ævistarf. Fyrir þetta er ég honum ævinlega þakklátur. Heimili Ingólfs og fyrri konu hans, Ingu Þorgeirsdóttur að Hofteigi 48, verður mér ætíð ógleymanlegt. Þar réð ríkjum hlýjan, gestrisnin og menningin, í bestu merkingu þess orðs. Ingólfur var stór í sniðum í öllu, sem hann tók sér fyrir hendur, hvort sem það var á sviði tónlistar eða í ferðamálum. Í báðum þessum greinum var hann tvímælalaust merkilegur brautryðjandi. Hljóðfæri Ingólfs og tjáningartæki var kórinn og hann leitaði sífellt að hinum eina sanna tóni, oft með stórbrotnum árangri. Sú leit og viðleitni takmarkast ekki af þröngum ramma jarðlífsins, en verður áfram þungamiðja eilífrar tilveru okkar. Ég bið þann sem allt vald er gefið, að blessa og lýsa Ingólfi á nýrri vegferð hans. Öllum ættingjum og vinum hans votta ég innilega samúð.
Gunnar Kvaran.