Sigurveig Valdimarsdóttir fæddist á Þórshamri í Sandgerði 26. febrúar 1935. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 15. júní 2009. Foreldrar hennar voru Valdimar Sigurðsson sjómaður, f. 26. sept. 1902, d. 20. apríl 1985 og seinni kona hans Árný Sveinbjörg Þorgilsdóttir húsfreyja, f. 17. okt. 1906, d. 6. febr. 1997. Valdimar og Árný Sveinbjörg bjuggu í Reykjavík, fyrst á Freyjugötu 10a, svo á Grundarstíg 5b og loks á Leifsgötu 24 frá 1947 til æviloka. Systir Sigurveigar er Unnur Ósk handavinnukennari í Sandgerði, f. 30. maí 1931, ekkja eftir Bjarna P. Sigurðsson bifreiðarstjóra, f. 5. nóv. 1928, d. 6. júní 1981. Hálfsystir Sigurveigar er Vilhelmína Guðrún Valdimarsdóttir, lengi húsfreyja í Seljatungu í Gaulverjabæ, f. 30. júlí 1927, gift Gunnari Sigurðssyni bónda, f. 16. júlí 1924. Hinn 4. janúar 1958 giftist Sigurveig Friðriki Andréssyni múrarameistara, f. 9. mars 1934, d. 17. febr. 2005. Friðrik var formaður Múrarameistarafélags Reykjavíkur 1985-2004. Foreldrar hans voru Andrés Guðbjörn Magnússon sjómaður á Drangsnesi en síðast í Sandgerði, f. 8. sept. 1906, d. 12. des. 1979 og kona hans Guðmundína Arndís Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 20. sept. 1911, d. 28. sept. 1978. Í upphafi búskapar síns byggðu Friðrik og Sigurveig eina hæð ofan á húsið á Leifsgötu 24. Frá 1998 var heimili þeirra á Kirkjusandi 1. Sigurveig var öll sumur á barns- og unglingsárum hjá föðurafa sínum og ömmu, þeim Sigurði Magnússyni smið og konu hans Sólveigu Helgadóttur sem bjuggu á Sjónarhóli á Stokkseyri. Hún var einn vetur við nám í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Sigurveig vann í áratugi við afgreiðslu í Tösku- og hanskabúðinni á Skólavörðustíg 7. Útför Sigurveigar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 22. júní og hefst athöfnin kl. 11.

Þegar ég minnist Sissu þá koma upp tvö orð, glæsileiki og hlýja.

Ég á góðar minningar úr æsku minni af Sissu frænku og Friðriki. Reykjavíkurferð endaði mjög oft með að koma til Sissu og Friðriks á Leifsgötunni og hitta Sveinu frænku og Valdimar. Þar var ávallt margt um manninn enda nutu þau þess að fá fólk í heimsókn. Ég var heppin að fá að njóta þess að dvelja í sumarbústað þeirra hjóna og læra að synda í sundlauginni góðu. Sissa og Friðrik voru óendanlega barngóð, og maður fann svo sannarlega fyrir einlægni og væntumþykju.

Mamma og Sissa voru nánar frænkur og ég veit það eru endurfundir hjá þeim núna enda sagði Sissa mér síðast þegar ég hitti hana að þær ætluðu nú að gera mikið saman þegar þær yrðu gamlar og það standa þær við núna. Þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda, fór ég með mömmu og Sissu til Danmerkur og Svíþjóðar í ógleymanlega ferð sem við rifjuðum oft upp og hlóum og slíkar minningar er gott að eiga. Það var mikill kærleikur á milli Sissu og mömmu og þegar ég fékk að heyra að ég líktist Sissu frænku þá var það mikil viðurkenning fyrir mig. Sissa með brosið ljúfa og faðminn opinn er mín minning sem ég geymi fyrir mig og börnin mín.

Ég votta Ósk frænku innilega samúð mína.

Guðbjörg Sigríður Finnsdóttir.

Elsku Sissa.

Þá ertu farin á æðri stað. Vonandi búin að hitta þinn elsku mann sem fór frá þér svo snemma og þú syrgðir svo mikið.

Sissa mín, þú varst sérstök manneskja, alltaf hlý, bjartsýn og réttlát. Það eru margir sem mega þakka þér fyrir öll elskulegheitin, sem þú sýnir öllum sem þú umgengst. Þið Friðrik voruð svo samhent með allt á ykkar samleið. Systkinabörn Friðriks nutu elsku ykkar og góðvild í mikilum mæli. Afmæli, ferming eða hvað var í fjölskyldum ykkar voru þið alltaf tilbúin að taka þátt í því.

Þið Friðrik stóðuð fyrir því fyrir 32 árum að systkini Friðriks kæmu saman með sínar fjölskyldur. Það var kærkomið til að styrkja og efla fjölskylduböndin.

Að heimsækja ykkur hvort sem var heim eða í sumarbústaðinn, alltaf var slegið upp veislu því nóg var til að gefa gestunum, gott viðmót og allsnægtir á borðum.

Elsku Sissa, þú tókst alltaf þátt í öllu sem tilheyrði fjölskyldu okkar. Sömu leiðis hefur þú átt mikið og gott sambandi við þína fjölskyldu.

Börnin mín og barnabörn sakna þín og þakka þér allt sem þú hefur sýnt þeim.

Við hjónin þökkum þér alla þína góðvild til okkar í gegnum árin. Ég veit að Guð hefur tekið vel á móti þér og leiðir þig í faðm ættinga þinna sem farnir eru.

Elsku Ósk, þú hefur misst mikið, samúð okkar er hjá ykkur systrum og fjölskyldum.

Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem.)


Anna, Kolbeinn, börn og fjölskyldur.

Hjartkær frænka mín Sigurveig Valdimarsdóttir, alltaf kölluð Sissa frænka, lést 15. júní  eftir stutta sjúkdómslegu og sakna ég hennar sárt. Sissa frænka var auðmjúk og æðrulaus og hafði öll þau góðu gildi sem gera það að fólk sóttist eftir að vera í návist hennar, hún hafði svo góða nærveru. Ég var svo heppin að eiga hana fyrir frænku og vinkonu og naut ég margra gleði og sorgarstunda með henni og því á ég svo margar minningar og myndir í hjarta mínu sem ég nú hugga mig við. Sissa frænka var hamingjusöm því hún hitti Strandamanninn Friðrik Andrésson og var alltaf talað um þau sem Friðrik og Sissu eða Sissu og Friðrik, þau gerðu allt saman og ríkti jafnræði og virðing hjá þeim alla tíð. Þeim hjónum varð ekki barna auðið, en hjartahlýju og umhyggju nutu börn okkar í báðum fjölskyldum því þau voru mikið fyrir að hlúa að fjölskyldum sínum og vinum.

Sorgin knúði dyra þegar Friðrik lést fyrir fjórum árum, það var mikill missir fyrir frænku mína. Nú síðustu ár hef ég notið margra gleðistunda, við ferðuðumst til Lóu frænku okkar og fyrir ári síðan vorum við Sissa frænka hjá Bjarti mínum í Slóvakíu og er það okkur öllum ógleymanlegt.

Elsku Sissa mín ekki hvarflaði að mér þegar ég kom suður og þú orðin veik að þetta yrðu okkar leiðarlok í bili, en mín huggun er að nú hvílir þú í faðmi Friðriks þíns. Guð geimi þig elsku Sissa mín og takk fyrir allt og allt.

Þín frænka

Margrét.