Sigurður Lindberg Pálsson fæddist í Stykkishólmi 12. nóvember 1946. Hann lést á heimili sínu 13. september 2009. Móðir hans var Guðbjörg Árnadóttir, f. 17. nóvember 1921, d. 15. ágúst 2002 og uppeldisfaðir Páll Jónsson, f. 12. desember 1916, d. 2. nóvember 2001. Sigurður átti 4 hálfsystkini og systur, börn Páls. Þau eru Lilja, f. 11. júní 1944, d. 28. september 2003, hún átti 3 börn, Anna María, f. 25. nóvember 1949, hún á 3 börn, Ólafur, f. 27. október 1950, d. 22. júli 2006, hann átti 2 börn, Árni Breiðfjörð, f. 18. janúar 1957 og Ragnheiður, f. 3. júlí 1958, hún á 5 börn. Sigurður Lindberg fluttist til Reykjavíkur með fjölskyldu sinni 1954. Hann hóf sjómennsku ungur og vann við það í mörg ár. Þegar hann hætti til sjós fór hann að vinna við byggingar og húsamálun og gegndi því starfi til æviloka. Útför Sigurðar Lindbergs fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 24. september, kl 13.
Í dag kveð ég félaga minn til margra ára, Sigurð Lindberg Pálsson, sem
lést hinn 13. september eftir erfið veikindi. Fréttir af erfiðum veikindum
Sigga voru óvæntar og í nokkrar vikur var beðið og vonað það besta, að hann
myndi ná sér af veikindum sínum þótt útlitið væri ekki bjart. Það er sárt
að sjá á eftir kærum vini sem fellur frá svo skyndilega og þegar útlit var
fyrir að líf hans væri heldur að taka stefnu í betri farveg en hann átti að
venjast.
Ég kynntist Sigga fyrst á unga aldri þegar við störfuðum saman í
byggingarvinnu. Siggi var kraftmikill ærslabelgur sem var harðduglegur í
vinnu og hafði ákaflega gaman af að spjalla við fólk og það var alltaf
stutt í húmorinn hjá honum. Leiðir okkar Sigga hafa legið reglulega saman
eftir þetta og vinskapur okkar hélst fram á síðustu stund. Siggi var hreinn
og beinn, hreinskilin, auðmjúkur og sagði yfirleitt það sem hann hugsaði.
Hann annaðist mjög vel það fólk sem stóð honum næst og Ágúst Smári, litli
frændi hans var sá sem átti yfirleitt hug hans allan. Hann gekk alltaf með
mynd af litla frænda sínum og sýndi hana flestum sem hann þekkti.
Ég er þakklátur fyrir kynni mín af Sigga og hefði gjarnan viljað þekkja
hann miklu lengur og fá að eyða meiri tíma með honum. Minning hans er ljós
í mínu lífi og okkar allra sem þekktu hann. Siggi gerði samferðafólk
sitt að betra fólki með návist sinni sem einkenndist af lítillæti og
mannvirðingu.
Fjölskyldu Sigga, ættingjum og vinum sendi ég mínar innilegustu
samúðarkveðjur. Farðu í friði elsku drengurinn minn .
Georg Mikaelsson