Fríða Emma Eðvarðsdóttir fæddist í Lossa í Mið-Þýskalandi 31. maí 1927. Hún lést laugardagsmorguninn 30. maí síðastliðinn á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks. Foreldrar hennar voru Berta Emma Karlsdóttir, f. 8. ágúst 1904, d. 12. apríl 1991, og Edmund Ulrich, f. 1901, d. 1989. Systur Fríðu eru Bryndís Ágústa, f. 6. ágúst 1935, d. 25. nóvember 1936, Bryndís Súsanna, f. 28. apríl 1938, og Ingibjörg, f. 27. september 1940. Eiginmaður Fríðu var Finnbogi Margeir Stefánsson, f. 6. febrúar 1919, d. 12. ágúst 1995. Þau giftu sig 30. nóvember 1960. Foreldrar hans voru Stefán Jónatansson, f. 16. október 1892, d. 7. júní 1931, og Kristín Jónsdóttir, f. 25. janúar 1886, d. 1. júní 1948. Börn þeirra eru: 1) Kristín Emma Finnbogadóttir, f. 13. maí 1952, d. 29. júní 2003, gift Guðbirni Jósep Guðjónssyni, f. 9. júlí 1955, þau skildu. Börn þeirra eru: Guðjón Eðvarð, f. 21. apríl 1975, sambýliskona hans er Sandra Björk Gunnarsdóttir, f. 15. janúar 1976, dóttir þeirra er Kristín Björk; Sandra Björk á þrjú börn, Daníel Ágúst, Ásdísi Birtu og Örvar Reyr. Finnborg Elsa, f. 29. mars 1978, gift Benedikt Elvari Jónssyni, f. 14. okt. 1971, þau eiga fjögur börn, Eyjólf Böðvar, Elvar Kristin, Eið Helga og Ellen Elsí. Heimir Logi, f. 12. mars 1986, sambýliskona Guðbjörg Sandra Óðinsdóttir Hjelm, f. 9. október 1984. Sambýlismaður Kristínar frá 1994 var Kristinn Valberg Gamalíelsson, f. 30. maí 1945, d. 8. maí 1998. 2) Berta Margrét, f. 7. nóv. 1954, sambýlismaður Sigtryggur Gíslason, f. 5. júní 1954, þau slitu samvistir. Dætur þeirra eru: María Fríða, f. 27. febrúar 1982, dóttir hennar er Sóley Dögg Maríudóttir. Heiða Guðbjörg, f. 5. okbóber 1987. 3) Böðvar Hreinn, f. 24. maí 1957, kvæntur Guðbjörgu Guðmannsdóttur, f. 28. nóvember 1963. Börn þeirra eru: Guðmann Þór, f. 10. apríl 1981, kvæntur Dagnýju Rut Magnúsdóttur, f. 11. janúar 1986, sonur þeirra er Anton Orri; Dagný á dóttur, Viktoríu Rós Egilsdóttur. Eva Rún f. 7. september 1992. 4) Stefanía Fjóla, f. 2. feb. 1959, gift Guðmundi Magnússyni, f. 18. ágúst 1958. Synir þeirra eru: Guðmundur Rúnar, f. 18. júlí 1979, sambýliskona hans er Þuríður Elín Þórarinsdóttir, f. 11. janúar 1987, sonur þeirra er Aron Snær. Sævar Örn, f. 4. ágúst 1984. Róbert Ragnar, f. 27. september 1994. 5) Dóttir Fríðu af fyrra hjónabandi er Violet Elizabeth Wilson, f. 2. júní 1945, gift David Wilson, f. 24. maí 1943. Þau eru búsett í Newcastle á Englandi. Börn þeirra eru: Mark, f. 16. mars 1971, kona hans er Claire, f. 21. mars 1973, þau eiga tvær dætur, Georgina Megan og Philippa Erin. Anne Morton, f. 9. júlí 1976, gift Shaun Morton, f. 3. janúar 1971, þau eiga tvö börn, Faye Nicola og Sam Joseph.

Elsku mamma. Mig langar að kveðja þig með örfáum orðum, sem fylla þó ekki í það skarð sem myndaðist við fráfall þitt.

Stundum er léttir að fá að fara, eins og var í þínu tilfelli, en erfitt fyrir okkur sem eftir sitjum. Ég er þegar farin að sakna þess að heyra frá þér á hverjum degi jafnvel oft á dag og er oft búin að gleyma því að þú ert ekki hér á meðal okkar lengur, nema í huga okkar. Þú varst alltaf glöð og hafðir mjög létta lund sem var þér til á happs á þínum erfiðu stundum. Alltaf var gaman þegar þú tókst gítarinn og fórst að spila og við eða aðrir gestir að syngja. Lífið lék ekki við þig en þú gerðir úr því það besta sem völ var á hverju sinni.

Öll sumur sem ég man eftir varst þú með börn í sveit, bara til að hjálpa öðrum, endurgjaldslaust og neitaðir aldrei neinum og aðstoðaðir af öllum mætti. Þú varst alltaf fyrst til að hjálpa öllum og þar á meðal þínum börnum ef á þurfti að halda, með pössun og fleira. Nú, í þínum erfiðu veikindum, sagðir þú oft ,,slæmt að vera þessi aumingi og ekki getað hjálpað til. Margar stundirnar varst þú hjá okkur að hjálpa okkur með barnabörnin þín og þegar erfiðleikarnir steðjuðu að hjá okkur varst þú alltaf tilbúin að koma ef þú gast það. Öllum börnunum þínum hjálpaðir þú við svo ótal marga hluti og aðstoðaðir af öllum mætti.

Þú varst alltaf svo flughrædd að þú sagðist ekki fljúga nema einhver veikindi myndu steðja að og það sýndir þú svo sannarlega þegar Kristinn mágur dó, þá var ekki talað um hræðslu heldur bara farið og það strax. Allar veitingar sem þú veittir voru af slíkum myndarskap að það var og verður erfitt að slá þér við í þeim efnum sem og öðru sem að heimilinu sneri og allt var það framkvæmt af einmuna myndarskap sem þú sinntir ásamt hinum ýmsum útistörfum.

Þú varst búin að vera sjúklingur til margra ára en lést það ekki aftra þér frá að vera með í hvers kyns félagsskap og fyrst var það kvenfélagið í þínum hrepp og kirkjukórinn ásamt ýmsu öðru. Eftir að þú fluttist á Sauðarkrók fórst þú á skemmtanir með eldri borgurum, má nefna þar bridds, kórsöng, postulínsmálun, dans og svo margt fleira. Oft varst þú að keyra með konur í svo margt út um alla sveit meðan þú gast það sjónarinnar vegna og varst að snúast fyrir marga og þar á meðal okkur börnin þín, það sýnir þitt rétta innræti.

Veturinn í vetur var búinn að vera þér erfiður fyrir margra hluta sakir og má þar nefna sjúkdóminn sem var farin að herja á þig alltaf meira og meira og svo var líkaminn orðinn ansi þreyttur og gafst upp að lokum. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa getað verið að mestu hjá þér þennan hálfan mánuð sem þú lást á sjúkradeildinni, mjög veik og aðstoðað þig ef þú þurftir á því að halda. Aldrei kvartaðir þú, varst þakklát fyrir allt sem gert var fyrir þig, þó ekki væri það mikið. Gott var að sofa hjá þér seinustu nóttina sem þú varst hér á meðal okkar. Takk mamma og Guð blessi þig, þín er sárt saknað.

Að lokum langar mig til að láta fylgja ljóð sem Kristján frá Skálá orti fyrir mig á sjötíu og fimm ára afmælinu þínu þar sem ég og fjölskylda mín færðum þér það og vildir þú fara með það alla leið.

Þú lést ekki hlaða þér hásæti neitt,
en hugðir að annarra þörfum.
Og lífið sem sjaldan er óskabarn eitt
það úthlutar misjöfnum störfum.

En hvert væri maðurinn kominn á skrið,
ef kærleik og hlýju ei fengi?
Fjársjóð þú átt þar við himnanna hlið,
með hækkandi mennskunnar gengi.

Megi þér ellin svo auðveld sem má,
að endingu skapa þér haginn.
Og minninga kertin þín marglit að sjá,
á merkis- og afmælisdaginn.

Hljóttu svo þakklætið heita frá mér,
hugljúfar minningar streyma.
Um vináttu þína sem verðug þess er,
að virða og muna og geyma.


Að endingu langar mig til að þakka deild 6 á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks fyrir góða umönnun þessa mánuði sem hún dvaldi þar og eins starfsfólki sjúkradeildar fyrir þeirra ummönnun í hennar erfiðu veikindum. Sólborg og Kári nágrannar hennar fá sérstakar þakkir en með henni og Sólborgu myndaðist einstakur vinskapur sem var ómetanlegur fyrir mömmu vegna hennar heilsubrest. Margir fleiri sem komu að heimsækja hana og gerðu henni lífið léttara, langar mig til að þakka fyrir. Guð blessi ykkur öll.

Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(Vald. Briem.)



Stefanía Fjóla Finnbogadóttir og fjölskylda.