Soffía Felixdóttir fæddist í Reykjavík 15. nóvember 1935. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut fimmtudaginn 1. október 2009. Foreldrar hennar voru Sigríður Jónsdóttir, f. 8.6. 1906, d. 29.9. 1982 og Felix Ottó Sigurbjarnason, f. 1.10. 1908, d. 1.2. 1969. Systkini Soffíu eru Jón Guðmundsson, f. 27.5. 1925, Ingibjörg Guðmundsdóttir, f. 19.12. 1926, d. 30.9. 2006 og Hörður Matthías Felixson, f. 17.11. 1933, d. 10.7. 1985. Soffía giftist 3.4. 1964 Sigurði Eggert Sigurðssyni, f. 21.4. 1936, þau skildu. Foreldrar hans voru Guðrún Sigurlín Eggertsdóttir, f. 16.12. 1914, d. 19.12. 2001 og Sigurður Guðmundsson, f. 18.4. 1901, d. 29.9. 1982. Synir Soffíu og Sigurðar eru: 1) Felix Gunnar, f. 13.12. 1963, kvæntur Svanhildi Hauksdóttur, f. 23.3. 1961, dætur þeirra eru Soffía, f. 5.8. 1989 og María Ósk, f. 3.4. 1992. 2) Sigurður Freyr, f. 12.4. 1965, kvæntur Sóleyju Helgu Björgvinsdóttur, f. 16.7. 1966, börn þeirra eru Tinna Huld, f. 26.1. 2003 og Gunnar Þór, f. 28.11. 2008. 3) Jón Þór, f. 1.8. 1967, kvæntur Jórunni Dóru Sigurjónsdóttur, f. 10.4. 1972, dætur þeirra eru Erla Dögg, f. 5.5. 1992, Hildur Karen, f. 20.12. 1997 og Eyja Sigrún, f. 1.10. 2001. Soffía giftist 29.8. 1981 Jóhannesi Péturssyni, f. 3.2. 1933, þau skildu. Soffía ólst upp á Laugaveginum í Reykjavík og gekk í Laugarnesskólann. Hún fór ung út á vinnumarkaðinn og starfaði við ýmis verkakonustörf. Soffía fylgdist töluvert með íþróttum í gegnum syni sína og sat um tíma í stjórn fimleikadeildar Fylkis. Soffía hafði gaman af því að standa að alls konar mannfögnuðum og reyndi að gera það sem oftast bæði með ættingjum og vinum og hélt því áfram fram á síðustu daga í félagsstarfinu í Þórðarsveig þar sem hún bjó síðustu árin. Útför Soffíu fór fram í kyrrþey.
Elsku besta mamma mín, nú ert þú horfin á braut og komin á stað þar sem krabbamein er ekki til í orðabókum. Þú varst alltaf á því að lifa lífinu á meðan maður gæti og ef einhver gerði það sem hjartað bauð þá varst það þú. Allt til loka nýttir þú þann ógnarkraft sem í þér bjó til að gleðja aðra og þar með þig, því að það sem gladdi þig mest var þegar þú gladdir aðra.
Snemma á sjöunda áratug síðustu aldar var Landsvirkjun stofnuð og það er mitt mat að þeirra stærstu mistök voru að virkja þig ekki og þína gífurlegu orku. Það olli okkur bræðrunum engu hugarangri því að við nutum orku þinnar út í eitt án þess kannski að verðskulda hana alltaf eða endurgjalda hana. Við áttum fína æsku þar sem hnallþórur og roastbeaf voru á borðum þegar síst var von á. Þú þurftir ekki einhverja tylliástæðu til að gera þér og okkur dagamun. Bara af því að þér fannst gott að gera eitthvað fyrir okkur.
Við komum suður í byrjun september þegar þú varst nýkomin úr strangri meðferð vegna krabbameinsins. Þú komst heim klukkan 16 og við mættum klukkan 18 í mat til þín, léttan málsverð, sem varð 3ja rétta matur og allt heimagert. Það var dæmigert fyrir þig.
Vinamörg varstu þegar árunum fjölgaði og þú varst dugleg að halda sambandi við vinina. Þú ferðaðist gjarnan, fórst víða, hittir marga og skoðaðir margt. Þú vildir ekki dvelja of lengi á sama stað og nú er spurningin hvernig Guð hefur taumhald á þér úr því að hvorki pabbi, Jói né við bræðurnir gátum haldið þér á einhverjum einum stað í einhvern smátíma. Þú fórst þínar eigin leiðir og lést engan og ekkert koma í veg fyrir það. Veikindi skiptu þig ekki höfuðmáli ef þú vissir af því að þú gætir ferðast eitthvert þar sem var fjör. Þar vildir þú vera. Ef ekki til að skemmta þér þá a.m.k. til að smyrja, baka eða elda handa þeim sem þar voru. Þú þurftir bara að vera á staðnum.
Manstu útilegurnar, þessi í Þórsmörk með Herði og Distu þar sem rigndi eldi og brennistein en samt var gaman, svo önnur á Blönduósi þar sem var skítkalt en samt var gaman. Sú síðasta í Vaglaskógi var svo í glaða sólskini og góðu veðri og auðvitað var gaman. Það var bara þannig að þú vildir hafa gaman og það var gaman, veður var bara hugarástand.
Þú vilt örugglega fylgjast áfram með barnabörnunum og uppeldinu þá þeim. Þú munt kaupa himnapóstinn, fá þér alnetið og spjalla við þann sem öllu ræður til að fá þitt í gegn. Ef ég þekki þig gamla rétt þá ertu þegar búin að bjóða kallinum með hvíta skeggið í mat og hefur roastbeaf og heita sósu og bananasplit og pönnsur í eftirrétt. Þú munt þar segja honum aðeins til og benda honum á að þú þurfir að fylgjast með okkur. Hann leyfir þér það til að fá annað matarboð. Maturinn hjá þér brýtur alla veggi niður með það sama.
Þú varst og verður ein besta manneskja sem ég þekkti. Þú Þú gerðir lífið lifandi og varst til eftirbreytni með að lifa því lifandi. Hafðu það gott þar sem þú ert. Vonandi sérðu þetta ef þú ert ekki búin að segja upp Mogganum.
kveðja,
Þinn sonur,
Bibbi.
Elsku amma.
Þú varst mjög skemmtileg amma, fórst í bíó með mér og leyfðir mér að leika að öllu dótinu þínu. Það var alltaf gaman að koma til þín, þá fékk maður sko góðan mat og stundum gafstu mér dót og bækur til að lesa. Þú spilaðir Olsen Olsen við mig og eldaðir mjög góðar kjötbollur svo gafstu mér oft ís því ég elska ís. Ég man eftir því að þegar ég hljóp úr lyftunni heima hjá þér þá komstu fram og ég hljóp beint í fangið á þér, það var mjög skemmtilegt.
Ég held að ég líkist þér dálítið því að ég vil oft halda partý, bjóða vinum og hafa margmenni og fjör í kringum mig. Ég er fljót að gleyma ef ég reiðist og mér finnst mjög gaman að gefa t.d. með því að hjálpa til. Ég á eftir sakna þín og Gunnar fær sko að heyra sögur um þig þegar hann fer að vita eitthvað því að hann náði ekki að kynnast þér eins vel og ég.
Ég elska þig og vona að þú hafir það gott upp á himnum.
Tinna Huld Sigurðardóttir.
Nú er elsku Soffía amma farin.
Þegar við sitjum hér og hugsum um tímann sem við áttum með ömmu þá koma í hugann margar skemmtilegar og góðar minningar sem munu lifa með okkur lengi. Soffía amma var ákveðin og röggsöm kona sem gaman var að vera í kringum. Amma var mikil félagsvera og það var alltaf fjör í kringum hana sama hvernig stóð á. Hún gat aldrei verið kyrr, hún varð helst alltaf að vera að gera eitthvað og þá helst með einhverjum öðrum.
Þegar við vorum litlar fór amma oft með okkur í Kolaportið og splæsti í lukkupakka handa okkur. Það var alltaf jafn spennandi að sjá hvað kom úr pakkanum. Þegar við urðum eldri fór amma ennþá með okkur í Kolaportið og í staðinn fyrir lukkupakkana kom eitthvað gúmmelaði. Amma var mikill sælkeri og það var alltaf hægt að fá eitthvað gott í gogginn hjá henni og henni fannst maður aldrei borða nógu mikið.
Amma var snillingur í pönnukökubakstri og nýtti hvert tækifæri til að skella í nokkrar pönnsur. Í barnaafmælum voru pönnukökurnar hennar Soffíu ömmu alltaf mjög vinsælar og fyrstar til að klárast. Öll stórfjölskyldan vissi hver Soffía frænka var og þótti öllum mjög vænt um hana, amma var einnig mjög stolt af fjölskyldunni og var dugleg að segja okkur sögur af henni. Minningar um þessa góðu konu munu lifa hjá mjög mörgum. Takk fyrir skemmtilega tíma elsku amma okkar.
Soffía og María Ósk.
Elsku amma Soffía.
Við systurnar sitjum hér að skrifa minningargrein um þig, þegar við erum
ekki búnar að ná því að fullu að þú sért farin og hringir ekki oftar í
okkur. Þú hefur kennt okkur margt sem mun gagnast okkur um ókomna framtíð,
m.a. að meta lífið meir en við gerðum, að hugsa betur um hvort annað, að
spila Olsen, Olsen og síðar meir að svindla í Olsen, Olsen án þess að
svindlið komist upp á yfirborðið. Fyrir þetta erum við þakklátar.
Amma gerði bestu pönnukökurnar og alltaf biðu allir spenntir eftir næsta
fjölskylduafmæli til þess að fá pönnukökurnar hennar ömmu Soffíu. Þessar
pönnukökur voru frægar. Hún dekraði okkur barnabörnin eins mikið og eins
oft og hún gat. Þegar hún passaði okkur eldaði hún alltaf kjötfarsbollur,
spilaði við okkur, spjallaði um ættingja sem við vissum ekki að við ættum
og margt fleira með því skilyrði að hún fengi að horfa á Leiðarljós í
friði.
Elsku amma Soffía. Þú varst einstök. Við söknum þín.
Þín barnabörn,
Erla Dögg Jónsdóttir, Hildur Karen Jónsdóttir, Eyja Sigrún Jónsdóttir.
Mig langar aðeins að minnast Soffíu frænku minnar og vinkonu sem mér þótti svo vænt um. Við höfðum sko brallað ýmislegt saman um tíðina og alltaf var gaman hjá okkur jafnvel þótt við værum bara tvær á flakkinu hvort sem var í útlöndum eða bara hér heima. Þú varst alltaf til í allt elsku frænka og ekki stóð á því ef einhverjum vantaði aðstoð við eitthvað að þá varst þú alltaf þar fyrir alla og gerðir gott úr öllum hlutum.
Þú varst snillingur í veislugerð og lærði ég margt af þér á þeim sviðum og er ég þakklát fyrir það. Mikið er ég ánægð með að þú skildir vilja halda ættarmótið síðasta sumar þér fannst svo gaman að hitta alla þar og við hin þökkum þann tíma sem við áttum með þér þar. Það eru ekki margir sem hafa jafn mikla orku og þú og vilja og veit ég hve erfitt var fyrir þig að veikjast en þú varst sko fljót að rísa upp aftur og bjarga þér. Ég veit að þú verður með okkur áfram og þú átt stórt hólf í mínu hjarta.
Ég, Ingi og börnin eigum eftir að sakna þín mikið og vottum Jóa , strákunum þínum og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.
Kristín Anný og fjölskylda.
Elsku Soffía
Við fráfall þitt höfum við, fjölskyldan þín, misst svo óendanlega mikið. Þú varst svo hlý og góð manneskja og greiðviknari manneskju hef ég aldrei kynnst. Þú vildir allt fyrir okkur gera og hafðir alltaf nógan tíma fyrir okkur. Þetta eru þeir eðliskostir sem ég mun minnast þín fyrir auk þess hvað þú varst hress og skemmtileg. Eftir að þú fluttir í Þórðarsveiginn gistum við Bibbi alltaf hjá þér þegar við komum í bæinn. Við fluttum inn til þín með allt okkar hafurtask og þú gekkst úr rúmi fyrir okkur. Þú svafst á hörðum bedda, manneskja komin yfir sjötugt, þetta var nú ekki neitt mál sagðir þú. Við höfðum alltaf svolítið samviskubit yfir þessari meðferð á þér en núna þegar þú ert farin sjáum við hvað þetta var dýrmætur tími sem við fengum saman í þessum heimsóknum.
Tinna Huld líkist þér um svo margt, hún er strax farin að halda partý, helst um hverja helgi. Ennþá eru partýgestirnir oftast bara við fjölskyldan en eitthvað segir mér að hún eigi eftir að vera dugleg við að framkvæma það sem henni finnst skemmtilegt eins og þú gerðir alla tíð. Ég þakka fyrir það að Tinna skyldi fá að eiga þig að þessi fyrstu 6 ár ævinnar og ég ætla að gera mitt til að hún varðveiti minninguna um þig. Gunnar Þór fer á mis við mikið, hann er svo lítill ennþá. Þú kallaðir hann prinsinn þinn og ef þú hefðir fengið lengri tíma þá hefðir þú örugglega dekrað jafn mikið við hann og þú gerðir við prinsessurnar þínar sex.
Með þessum fáu orðum vil ég þakka þér fyrir yndisleg kynni, elsku tengdamamma mín.
Blessuð sé minning þín.
Sóley Björgvinsdóttir.
Við vissum það fyrir ári síðan að á brattan yrði að sækja, að ná upp
heilsu. Þú lést ekki segja þér það tvisvar heldur hélstu ótrauð áfram og
tókst öllum læknismeðferðum með æðruleysi. Þar kom þrjóskan og lífsgleðin
að góðum notum. Þú varst svo hamingjusöm að komast heim í Þórðarsveiginn og
geta séð um þig sjálf og ekki var langt í að þú varst farin á flakk í
þessari sífelldu leit af fjöri og félagsskap.
Félagsvera varstu mikil og ævinlega stór hópur fólks í kringum þig. Þú
varst líka ætíð boðin og búin að hjálpa til hvort sem það var stórveisla
með brauðtertum eða nokkrar pönnsur á disk. Alltaf varstu tilbúin að koma
heim til okkar og líta eftir börnum, hundum, kanínum og hömstrum þegar við
þurftum að bregða frá. Þú varst stelpunum okkar svo ómetanlega góð og
hafðir áhuga á öllu sem þær tóku sér fyrir hendur. Mættir á fimleikamót,
útskriftir og tókst virkan þátt í fermingarfræðslunni. Þú beiðst spennt
eftir úrslitum og einkunnum og varst alltaf stoltasta amman.
Við minnumst með hlýhug ferðanna okkar til Kaupmannahafnar. Við ráfuðum um
götur Køben, drukkum jólaglögg, borðuðum eplaskífur og versluðum
jólagjafir. Þú talaðir reiprennandi dönsku - að þú hélst - okkur
fjölskyldunni til ómældrar skemmtunar og Dönum til furðu.
Þú hafðir svo mikla útþrá og ferðalög þín erlendis eru óteljandi eins og
sögurnar sem þeim fylgdi.
Gleði, gjafmildi og forvitni einkenndu þig og leyndarmálum gast þú alls
ekki þagað yfir.
Jólin voru ekki komin fyrr en þú varst mætt. Spenntust varstu að vita hvort
jólakort frá Gittu og Magga hefði borist. Við hlógum óstjórnlega mikið og
veltum svo fyrir okkur lengi vel hvaða og hvernig fólk Gitta og Maggi væru
og hvenær þau myndu komast að því að þau hafa verið að senda rangri
fjölskyldu jólakort í mörg ár.
Þú naust lífsins. Dansaðir mest, söngst hæst og hlóst mest. Þú skipulagðir,
framkvæmdir og varst óeigingjörn á vinnu þína. Þú varst besta mamman,
tengdamamman og amman.
Hjörtu okkar eru brotin. Elsku mamma og tengdamamma, við kveðjum þig með
djúpum söknuði.
Hvíldu í friði.
Jón Þór og Dóra.
Mig langar aðeins að minnast Soffíu frænku minnar og vinkonu sem mér þótti svo vænt um.
Við höfðum sko brallað ýmislegt saman um tíðina og alltaf var gaman hjá okkur jafnvel þótt við værum bara tvær á flakkinu, hvort sem var í útlöndum eða bara hér heima. Þú varst alltaf til í allt og ekki stóð á því ef einhvern vantaði aðstoð við eitthvað, þá varst þú alltaf þar fyrir alla og gerðir gott úr öllum hlutum. Þú varst snillingur í veislugerð og lærði ég margt af þér á þeim sviðum og er ég þakklát fyrir það.
Mikið er ég ánægð með að þú skildir vilja halda ættarmótið síðasta sumar þér fannst svo gaman að hitta alla þar og við hin þökkum þann tíma sem við áttum með þér þar. Það eru ekki margir sem hafa jafn mikla orku og þú og vilja og veit ég hve erfitt var fyrir þig að veikjast en þú varst sko fljót að rísa upp aftur og bjarga þér. Ég veit að þú verður með okkur áfram og þú átt stórt hólf í mínu hjarta.
Ég, Ingi og börnin eigum eftir að sakna þín mikið og vottum strákunum þínum og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.
Kristín Anný Jónsdóttir og fjölskylda.
Allar stundir okkar hér
er mér ljúft að muna.
Fyllstu þakkir flyt ég þér
fyrir samveruna.
(Har. S. Mag.)
Með þessum nokkrum ljóðlínum sit ég og kveð þig elsku vinkona. Því miður gat ég ekki komið og verið viðstödd útför þína, þar sem ég bý í Danmörku. En í október 2008 kom ég til til Íslands og heimsótti þig þá sársjúka á Landspítalanum og brá mér mikið hversu veik þú varst. En svo kom ég aftur til Íslands í júlí og þá hittumst við aftur, mín glaða og hressa Soffía, eins og ég alltaf hef þekkt þig í gegnum öll árin. Þú leist svo vel út þegar þú komst akandi niður Skólavörðustíginn, eins og þér einni var líkt, að sækja mig. Við fórum saman á veitingastaðinn Þrjá Frakka og fengum okkur að borða, yndislegan íslenskan fiskrétt þar. Þessari yndislegu stund með þér, gleymi ég aldrei!
Við töluðum mikið um mjúku árin okkar og er við bjuggum í Árbænum og þar sem börnin okkar voru á líkum aldri og þú varst svo ánægð með barnabörn þín og svo stolt af þeim og sonum þínum. Við vorum svo lengi heimagangar hjá hvor annarri, en nú eru börnin okkar öll orðin fullorðið fólk og með sínar fjölskyldur, svo við fylgjumst ekki eins vel með þeim. En ég gleymi ekki konuboðunum sem ég hélt stundum í febrúar kringum afmælið mitt og þú varst eins og alltaf hrókur alls fagnaðar.
Þú komst nokkrum sinnum til Danmerkur á meðan ég hef verið búsett hér,
til að hitta frænkur þínar. Þá hittumst við og Ruth vinkona okkar sem býr í
Helsingør. Það er margs að minnast, en hjá fjölskyldu Ruthar í Þórscafé
vannst þú í mörg ár eins og ég. Fyrir 3 árum síðan dó besta vinkona þín
Rakel systir Ruthar úr þessum illvíga sjúkdómi, sem nú hefur fellt
þig.
Elsku vinkona, við Siddi og börnin mín vottum sonum þínum, Felix (Fella),
Sigurði (Bibba), Jóni Þór og fjölskyldum þeirra, okkar dýpstu samúð.
Kæra vinkona,
Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífs þíns nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði nú sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum
þín veröld er björt á ný.
(Þórunn Sigurðardóttir.)
Þín vinkona,
Bryndís Flosadóttir, (Biddý), Hornbæk, Danmörku.