Örn Harðarson fæddist í Reykjavík 23. október 1931. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum 27. júní sl. Foreldrar hans voru Guðrún Björg Sveinsdóttir húsmóðir og Hörður Jóhannesson málarameistari. Eiginkona Arnar er G. Kristín Jónsdóttir, f. 1. nóvember 1945. Foreldrar hennar voru Jón Guðbrandsson og Ásta Þórarinsdóttir frá Höfða á Vatnsleysuströnd. Dætur Arnar og Kristínar eru: 1) Guðrún Ásta, f. 15. apríl 1983, sambýlismaður Jón Sævarsson, f. 17. janúar 1983, og 2) Arna, f. 21. október 1984. Börn Kristínar frá fyrra hjónabandi eru: 1) Ásthildur Erla Gunnarsdóttir, f. 24. nóvember 1966, gift Skúla Skúlasyni, f. 25. maí 1962. Dætur þeirra eru Inga Kristín, f. 23. júlí 1987 og Ágústa Rut, f. 31. janúar 1990. 2) Magnús Jón E. Gunnarsson, f. 25. maí 1972, kvæntur Hönnu Rún Eiríksdóttur, f. 13. ágúst 1971. Synir þeirra eru Gunnar Þorri, f. 22. ágúst 1999 og Ísak Einir, f. 2. október. 2005. Örn ólst upp í Reykjavík og lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands. Einnig lauk hann námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Árið 1956 fór hann til frekara náms við UCLA í Kaliforníu. Að loknu námi starfaði hann sem kvikmyndatökumaður í Hollywood. Hann kvæntist Kristjönu Stefánsdóttir en þau skildu. Örn fluttist aftur heim 1966 og hóf störf við Ríkissjónvarpið. Hér heima vann hann mikið við kvikmynda- og auglýsingagerð. Hann stofnaði og rak fyrirtækið Gistiheimili Snorra ásamt konu sinni, sem er enn rekið af fjölskyldunni. Útför Arnar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, 3. júlí og hefst athöfnin kl. 13.
En núna þarf ég að kveðja þig og ég mun sakna þín svo mikið, en ég veit að þér líður mun betur núna og munt vaka yfir okkur og passa okkur. Hvíl í friði elsku afi minn.
Þín
Ágústa Rut.