Haraldur Guðni Bragason fæddist 22. apríl 1947 á Vopnafirði. Hann lést á heimili sínu Sælingsdalstungu 22. september síðastliðinn. Foreldrar Haraldar voru Bragi Haraldsson, fæddur á Borgafirði eystra 1918 og Guðbjörg Þorsteinsdóttir fædd á Húsavík við Borgafjörð eystri 1926. Bæði eru þau látin. Systkini Haraldar eru Svanur Bragason og Unnur Sólrún Bragadóttir. Haraldur kvæntist Sesselju Antonsdóttur. Þau eignuðust soninn Braga Haraldsson sem er kvæntur Lilju Jónsdóttur og eiga þau synina Daníel Leví og Lars Erik. Haraldur var um tíma í sambúð með Else Marie Jensen og eignuðust þau soninn Bjarna Jensen, unnusta hans er Rikke Östergaard. Þá kvæntist Haraldur Elínborgu Jónsdóttur en þau slitu síðar samvistum. Haraldur hóf sambúð með núverandi eiginkonu sinni Guðbjörgu Björnsdóttur 1989. Börn þeirra eru Auðunn Haraldsson, Helga Haraldsdóttir og Margrét Haraldsdóttir. Haraldur byrjaði snemma að spila á gítar í hljómsveitum á Austurlandi og spilaði lengi með hljómsveitinni Örnum í Reykjavík. Haraldur nam píanóleik við Tónlistarskóla Reykjvíkur hjá Rögnvaldi Sigurjónssyni. Síðar nam hann orgelleik hjá prófessornum Gerald Dickel í Hamborg í Þýskalandi, en einnig var hann lengi til sjós. Frá 1980 starfaði Haraldur samfleytt sem skólastjóri og kennari við tónlistarskóla víða um land, og var þá jafnframt organisti og kórstjóri, hann samdi einnig mikið af lögum. Útför Haraldar Guðna fer fram frá Hjarðarholtskirkju í Dalabyggð mánudaginn 5. október.
Sviplegt fráfall Haraldar setti mig hljóðan. Svo skammt um liðið þegar fundum bar saman síðast og hann fylgdi móður sinni sem jarðsungin var frá Eskifjarðarkirkju. Við þá athöfn spilaði hann sjálfur og stjórnaði söng. Í þeirri þjónustu lagði hann sig greinilega allan fram.
Og þannig voru kynni mín af honum. Um árabil var hann organisti og kórstjóri við Eskifjarðarkirkju. Þar fór ljúfur maður í samskiptum. Hann hafði samt ákveðnar skoðanir, óhræddur við að tileinka sér nýungar ekki síst varðandi þau hljóðfæri sem nýttust í helgihaldi. Hann hreifst af hljóðgervlum og þeirri nýju tækni og möguleikum sem slík hljóðfæri buðu uppá. Ég dáðist af einlagni hans, ákafa og dugnaði og ekki taldi hann eftir sér viðvikin. Hann var í sínu fagi hugsjónamaður og brautryðjandi.
Óþreytandi fullhugi, sem vildi þjóna Guði sínum heilshugar og vildi öllum vel.
Í stuttri kveðju þakka ég gefandi kynni og bið Guð að styrkja eftirlifandi ástvini og veita þeim huggun sína.
Davíð Baldursson.