Guðmundur Marinósson fæddist í Reykjavík 16. júlí 1940. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 10. ágúst. Foreldrar hans voru hjónin Guðrún Guðmundsdóttir, f. 10. maí 1898, d. 16. maí 1951, húsfreyja, og Marinó B. Valdimarsson, f. 15. apríl 1906, d. 3. mars 1979. Systur Guðmundar eru Sigríður Ólína, f. 6. okt. 1932, og Inga Randolph, f. 6. júní 1934. Á aðfangadag árið 1960 kvæntist Guðmundur Þorgerði Sigrúnu Einarsdóttur frá Hlíðarenda á Ísafirði, f. 6. jan. 1940, d. 1. mars 2006. Dætur þeirra eru: 1) Ingibjörg, f. 22. des. 1959, gift Gísla Blöndal, og á hún þrjá syni, Christian Marinó, f. 8. júlí 1982, Arnar Má, f. 27. júní 1987, og Guðmund Ragnar, f. 18. júlí 1988; og 2) Guðrún, f. 12. maí 1961, gift Rúnari Helga Vignissyni, og eiga þau tvo syni, Ísak Einar, f. 20. apríl 1992, og Þorra Geir, f. 24. apríl 1995. Guðmundur lauk prófi frá Miðskóla Selfoss árið 1955. Hann var á sjó um tíma, en sextán ára hóf hann störf sem sölumaður, fyrst hjá Rolfi Johansen og síðar hjá Íslensk erlenda verslunarfélaginu. Sumarið 1960 fluttist Guðmundur til Ísafjarðar þar sem hann vann m.a. hjá Jóni Þórðar, Vélsmiðjunni Þór, sem fulltrúi og staðgengill skattstjóra á Skattstofu Vestfjarða og hjá Ísafjarðarkaupstað, m.a. sem forstöðumaður skíðasvæðisins og bæjargjaldkeri. Hann sat í stjórn Djúpbátsins og var um árabil umboðsmaður fyrir Stef á Vestfjörðum, sem og fyrir hljóðfæraverslanirnar Rín og Poul Bernburg. Þá rak hann Sjálfstæðishúsið ásamt hljómsveitinni B.G. og Árna um tíma. Árið 1982 varð hann framkvæmdastjóri Fjórðungssjúkrahússins og Heilsugæslustöðvarinnar á Ísafirði og gegndi því starfi í tíu ár. Þá hóf hann störf hjá Póls rafeindavörum, fyrst sem fjármálastjóri og síðar sem framkvæmdastjóri. Í ársbyrjun 1997 gerðist hann rekstrarstjóri veitingastaðarins Á Eyrinni og Gallerys Pizza. Árið 1998 fluttist hann til Reykjavíkur og starfaði um skeið sem fjármálastjóri hjá Auglýsingastofu Reykjavíkur, en hóf störf á Skattstofu Reykjaness í janúar 1999 og vann þar til æviloka. Guðmundur tók virkan þátt í félagslífi á Ísafirði og gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir félög þar í bæ. Hann starfaði m.a. fyrir Skíðafélag Ísafjarðar og sá um Skíðavikuna í mörg ár, hann var í Lionsklúbbi Ísafjarðar og gegndi þar formennsku í tvígang. Þá var hann félagi í Frímúrarastúkunum Njálu og Glitni og starfaði árum saman ötullega fyrir Sjálfstæðisfélögin á Ísafirði, sá um fjármál fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í mörg ár og var um skeið formaður þess. Enn fremur var hann varabæjarfulltrúi fyrir flokkinn og sat í ýmsum nefndum og ráðum á vegum hans fyrir bæjarfélagið. Á yngri árum lék Guðmundur með hljómsveitinni V.V. og Barði og var umboðsmaður hljómsveitarinnar B.G. og Árni þegar hún var sem þekktust. Útför Guðmundar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, föstudaginn 21. ágúst, og hefst athöfnin kl. 15.

Það er einhvernveginn erfiðara að kveðja jafnaldra sinn, en fólk af öðrum tímaskeiðum. Með jafnaldranum er maður meira að kveðja hluta af sjálfum sér. Hjá okkur þessum tvennu hjónum var þetta óvenjulega náið. Dedda og Ína fæddar í janúar og við Guðmundur í júlí, sama árið. Auk þess voru þau mikið sterkari til líkama og sálar en við Ína.
Í fyrstu Reykjavíkurferð minni um tíu ára aldurinn með móður minni var farið í heimsókn til Guðrúnar og Marinós, sem þá bjuggu í gömlum hermannabragga.
En það eftirminnilegasta frá þessum dögum var að fara með Guðmundi að selja Vísi. Óli blaðasali var þá byrjaður og búinn að hertaka bestu gatnamótin ásamt öðrum fullorðnum manni. En Guðmundur var snjall að finna út hvernig straumarnir lágu og á undraskömmum tíma var hann búinn með blöðin en ég bara búinn að selja tvö eða þrjú. Þarna voru karaktereinkenni Guðmundar berlega komin í ljós. Útsjónarsemi, harðfylgi og sjarmerandi framkoma.
Næst hittumst við sumarið 1949. Þá var ég í sveit að Dvergasteini í Álftafirði og hann á næsta bæ Svarthamri hjá ættingjum, en móðir hans var þá orðin fársjúk af krabbameini. Síðan leið nærri áratugur þar til við hittumst næst. Hann var þá orðinn þekktur sölumaður hjá Rolf Johansen og ferðaðist með strandferðaskipunum um landið og hafði meira vit á denier gildi silkisokka og vellyktöndum frá Dior en við sjóararnir vestur á fjörðum kærðum okkur um að vita.
Guðmundur var gríðarlegur sjarmur og vafði kvenfólkinu um fingur sér á þessum tíma, auk þess að vera afbragðs dansari. Það var því ekkert að undra þótt Dedda frænka mín á Hlíðarenda, ein aðalskvísan í bænum, félli fyrir honum.
Fyrsta samkvæmið, sem þau sátu saman á Ísafirði var svo í brúðkaupi okkar Ínu í febrúar 1960.
Dedda vildi ekki flytja suður svo Guðmundur lét af vel launuðu framtíðarstarfi við eina öflugustu heildverslun landsins til að brjóta sér braut á nýjum vettvangi og án nokkurrar framhaldsmenntunar.
Fljótlega eftir að hann flutti vestur á Ísafjörð hóf hann að leika í hljómsveit B.G. sem síðan varð til þess að hljómsveitin stofnaði félag um rekstur Uppsala, veitinga- og danshúss í eigu Sjálfstæðisflokksins. Guðmundur var potturinn og pannan í undirbúningi málsins og síðan ráðinn framkvæmdastjóri og stjórnaði rekstrinum með einstökum glæsibrag allt þar til sjálfstæðismenn gengu svo harkalega fram með leigugjald að hætta varð starfseminni. Í upphafi var allt tekið í gegn áður en opnað var og borðbúnaður og áhöld að öllu endurnýjað.
Glæsileg salarkynni og ein besta danshljómsveit landsins á þessum tíma, ásamt fjölda aðkeyptra skemmtikrafta olli straumhvörfum í dansmenningu Ísfirðinga auk þess sem hljómsveitin túraði um landið öll sumur.
Við Ína unnum bæði hjá honum lengst af og minnumst þess samstarfs af miklum hlýhug. Það var líka gaman að fylgjast með því hversu Ísfirðingar voru einhugu um að halda staðnum óskemmdum og hreinum A La Guðmundur Marinósson og minnist ég þess þegar hópur manna ætlaði að ráðast inn þótt fullt væri, en reglur um gestafjölda voru jafn vel haldnar og allar aðrar reglur að þá komu fastagestirnir, sem voru nú reyndar þeir sem fastast drukku og við þurftum oftast að hafa afskipti af og hjálpuðu okkur við að koma óboðnu gestunum út fyrir aftur.
Guðmundur starfaði um langt skeið hjá skattinum, fyrst á Ísafirði og síðar í Hafnarfirði.
Þar gilti aðeins ein regla: að allir eru jafnir fyrir lögunum og að fólki bæri að greiða lögbundna skatta refjalaust.
Mér sagði maður, sem er kunnugur á skattstofunni í Hafnarfirði að þegar Guðmundur kom þar til starfa hafi hann byrjað á að fara ofan í saumana á skatta og tolla endurgreiðslum, sem þóttu nokkuð háar og skilagögn orkuðu stundum tvímælis.  Áður en árið var liðið voru þessi mál komin í eðlilegt horf og kúnnarnir hættir að hóta honum með alþingismönnum eða ráðherrum.
Guðmundur var um skeið forstjóri Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði og kom þar á miklum rekstarumbótum, sem meðal annars leiddi til þess að það var alltaf tekjuafgangur af rekstrinum þó grátið væri á öllum öðrum sjúkrahúsum landsins, vegna peningaleysis. En þarna mætti hann ofjarli sínum. Kerfið lætur ekki að sér hæða og neyddist hann til að láta af störfum, þótt með hreinan skjöld væri.
Guðmundur Marinósson tók virkan þátt í félagsmálum, hann var félagi í frímúrarastúkunni Njálu og féhirðir hennar um árabil. Þar nýttust kraftar hans vel og þrátt fyrir miklar fjárfestinagar í nýju stúkuhúsi á gjaldkeratíma hans urðu þar aldrei vanskil af neinu tagi.
Hann var jafnframt félagi í Lionsklúbbi Ísafjarðar og á þeim tímum sem aðalfjáröflunarleiðin fólst í að ganga í hús og selja páskaliljur og ljósaperur, var hann alltaf söluhæstur og oft lang söluhæstur. Þar fór saman eins og áður krafturinn, sjarminn og viljinn til að leggja góðum málum lið. Þótt hann sé búinn að búa um árabil í Reykjavík var hann áfram í Lionsklúbbnum og borgaði þar öll sín gjöld.
Guðmundur var ekki allra og býsna erfitt að nálgast hann. En hann var traustur félagi og vinur, sem aldrei brást og þótt hann sæi stundum bara eina leið, sína leið, þá var hann alltaf sanngjarn og tilbúinn að hlusta á þá sem komu fram af heiðarleika og hreinskilni.
Einhvernveginn var það svo að mér fannst ekki ástæða til að trúa því að Guðmundur væri að deyja.
Þessi gríðarlega sterki Birgisvíkur skrokkur og harkan í að bjarga sér var þannig, en við verðum víst öll að lúta í lægra haldi fyrir manninum með ljáinn, en skárinn hans er misstór og mjög stór þegar ljárinn sveiflaðist í þetta sinn.
Við Ína sendum dætrunum Ingibjörgu og Guðrúnu, mökum þeirra, börnum og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur. Minninginn um Guðmund og Deddu er okkur afar kær.


ÚlfarÁgústsson.