Hjörtur Dagfinnur Hansson fæddist 14. nóvember 1954. Hann andaðist 18. júní 2009. Foreldrar hans voru Hanna Sigurrós Halldórsdóttir og Hans Peter Larsen, bæði látin. Eftirlifandi bræður Hjartar eru Hreiðar Gíslason, hann á 4 börn og 6 barnabörn, og Helgi Hilmar Hansson, hann á 2 börn og 3 barnabörn. Börn Hjartar eru a) Fanný Lára, f. 20. júní 1975, maki Ólafur Ragnarsson, f. 20. júní 1966, sonur þeirra er Victor Breki, f. 8.maí 2008, og b) Unnar Steinn, f. 9. júní 1995. Útför Hjartar verður gerð frá Bústaðakirkju í dag, 3. júlí og hefst athöfnin klukkan 11.
Elsku frændi, ég er enn að átta mig á því að þú skulir vara farinn.
Minningarnar hrannast upp í huga mér. Umhyggja þín til okkar í fjölskyldunni og örlætið þitt til barna minna verður aldrei gleymd frændi minn.
En ég brosi í gegnum tárin þegar ég hugsa til baka, símtölin frá þér síðustu 20 ár á afmælisdegi dóttir minnar til að minnast þess þegar ég hringdi í þig til að láta vita að hún sé fædd og grátið af því að hún kom ekki í heiminn á afmælisdeginum þínum. Þú hagaðir þér alltaf eins og stoltur afi þegar börnin mín fæddust og Guðrúnar, enda áttu mikið í okkur systrum.
Elsku frændi ég mun geyma góðar stundir um þig, ömmu og afa á Bald. Góðu sunnudagana sem við áttum þar í lambahrygg og búðing með rjóma.
Í grenndinni veit ég um vin sem ég á,
í víðáttu stórborgarinnar.
En dagarnir æða mér óðfluga frá
og árin án vitundar minnar
En yngri vorum við vinirnir þá,
af vinnunni þreyttir nú erum.
Hégómans takmarki hugðumst við ná
og hóflausan lífróður rérum.
Ég hringi á morgun, ég hugsaði þá,
svo hug minn fái hann skilið,
en morgundagurinn endaði á
að enn jókst á milli okkar bilið.
Dapurleg skilaboð dag einn ég fékk,
að dáinn sé vinurinn kæri.
Ég óskaði þess er að gröf hans ég gekk,
að í grenndinni ennþá hann væri.
Sjálfur ef vin þú átt góðan í grennd,
gleymdu ekki hvað sem á dynur,
að albesta sending af himnunum send,
er sannur og einlægur vinur.
Höf.: ókunnur.
Hjörtur frændi, þú varst sannur og einlægur vinur.
Elsku Fanný Lára og Unnar Steinn ég votta ykkur mína dýpstu samúð, eins bræðrum hans Hreiðari og Helga og fjölskyldum.
Karólína M Hreiðarsdóttir.