Hróðný Einarsdóttir fæddist á Hróðnýjarstöðum í Laxárdal í Dalasýslu 12.5.1908. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu í Skógarbæ, 6.9. s.l. Foreldrar: Einar Þorkelsson bóndi á Hróðnýjarstöðum f.20.4.1858, d.7.2.1958 og kona hans Ingiríður H. Hansdóttir f.20.2.1864, d.18.12.1938. Einar og Ingiríður bjuggu allan sinn búskap á Hróðnýjarstöðum í meira en hálfa öld. Börn þeirra voru: Salóme María,f.3.6.1888, d.19.9.1977. Þorkell,f.22.12.1889, d.14.11.1974, Sigríður f.25.5.1892, d.18.5.1982. Sigurhans Vignir, f.12.5.1894, d.16.7.1975. Herdís, f.11.3.1897, d.2.8.1965. Guðrún Solveig, f.7.1.1899, d.27.3.1995. Kristján f. 25.2.1901, d.1.2.1973, Helgi, f.25.7.1905, d.28.9.1995. Hróðný giftist 24.6.1930 Jóhannesi skáldi úr Kötlum, f.4.11.1899, d.27.4.1972. Foreldrar hans voru Jónas Jóhannesson bóndi, f.29.9.1866, d.1.8.1954 og kona hans Halldóra Guðbrandsdóttir, f.29.9.1859, d.23.1.1945. Hróðný og Jóhannes eignuðust þrjú börn.
I. Svanur f. 23.9.1929 kvæntur Ragnheiði Ragnarsdóttur f.1.1.1933. Börn: 1) Einar f.1.7.1958. Maki I. Sigríður Sigurðardóttir f.18.12.1961. Skildu. Börn: a) Sigurður Ágúst f.3.4.1981, sambýliskona Bergdís Björk Sigurjónsdóttir f.21.6.1984. b) Ragnheiður f.16.4.1986, sambýlismaður Darri Kristmundsson f.17.8.1987. c) Svanhildur f.30.4.2000. Maki II. Sigrún Lilja Einarsdóttir f.9.4.1974. Þeirra barn, d) Einar Björgvin f.9.2.2007. Hennar barn, e) Þorgerður Sól f.5.12.1999. 2) Máni Ragnar f.20.6.1961. Sonur: Daði f.1.8. 1992, móðir Jónína Marteinsdóttir f.11.4.1974. 3) Páll f.9.12.1964. Dætur: a) Lea Rut f.17.6.1995, móðir Ása Arnaldsdóttir, f.7.9.1972 og b) Silja Snædal f.13.12.1998, móðir Drífa Snædal f.5.6.1973.
II. Inga Dóra f.27.9.1940, gift Jóni Hafsteini Eggertssyni f.15.9.1937. Börn: 1) Eggert Elfar f.21.3,1960. Maki, Sólveig Sigurþórsdóttir, f.13.4.1960. Börn: a) Jón Þór f.12.12.1985, b) Sindri Snær f.31.5.1994, c) Fannar Freyr f.26.5.1998. 2) Jóhanna Lind f.11.7.1967. Maki, Þórhallur Sverrisson f.13.5.1964. Sonur: Ingi Þór f.8.3,1998.
III. Þóra f.25.5.1948. Maki I. Sigtryggur Sigtryggsson f.14.2.1950. Börn: 1) Jóhannes Bjarni f.15.1.1973. Maki, Bryndís Guðmundsdóttir, f. 31.7.1974. Synir þeirra: a) Guðmundur f.24.9.1999. b) Sigtryggur f. 9.2.2007. c) Eysteinn f.8.1.2009. 2) Bryndís f.24.9.1975. Maki, Stefán Einar Stefánsson f.14.8.1975. Sonur þeirra: Bragi f.6.4.2005. Maki II. Jóhannes Jóhannsson, f.16.1.1949.
Hróðný ólst upp á Hróðnýjarstöðum við alhliða sveitastörf, Heimilið var rómað fyrir listhneigð, svo sem söng, orgel- og harmonikkuleik og fallegt handbragð: listmálun, skrautritun og ljósmyndun. Hróðný fór í Kvennaskólann á Blönduósi einn vetur. Eftir að þau Hróðný og Jóhannes giftust hófu þau búskap að Sámsstöðum í Laxárdal, en fluttust til Reykjavíkur 1932 þar sem Jóhannes hóf kennslustörf og starfaði síðan sem rithöfundur og skáld. Árið 1940 fluttu þau til Hveragerðis þar sem þau bjuggu í nær tuttugu ár. Þau reistu sér hús í Skáldagötunni og voru þar frumbyggjar í götunni sem nú heitir Frumskógar. Árið 1946 fóru þau til Svíþjóðar og voru þar í eitt ár og ferðuðust þá um Norðurlöndin. Þegar þau komu frá Svíþjóð fluttu þau aftur til Hveragerðis og komu sér upp húsi í Bröttuhlíð ofar í þorpinu. Þar bjuggu þau til 1959 að þau fluttust til Reykjavíkur. Vorið 1955 urðu þau fyrstu skálaverðir Ferðafélags Íslands í Þórsmörk og voru þar á hverju sumri til 1962. Eftir lát Jóhannesar bjó Hróðný í Reykjavík og síðustu árin dvaldist hún á hjúkrunarheimilum, fyrst í Foldabæ og síðar í Skógarbæ. Útför Hróðnýjar fer fram frá Fossvogskirkju í dag 16.september, og hefst athöfnin klukkan 13.00.
Mig langar að minnast ömmu minnar sem mun lifa alla tíð í mínum huga sem tákn um hreinleika og hlýju. Ég minnist mörgu stunda æskuáranna þegar við bræðurnir fórum í heimsókn með mikilli tilhlökkun til ömmu og afa á Kleppsveginum. Amma stóð alltaf brosandi í dyrunum sem hið ljósa man og tók á móti okkur opnum örmum með þeirri gestrisni sem einkenndi þessa góðu konu.
Amma var ákaflega dugleg og nægjusöm kona eins og svo margir samtíðarmenn og konur af hennar kynslóð. Ef eitthvað eitt orð lýsti skaphöfn hennar og framgöngu þá væri það þjónusta enda var hún yfirmáta þjónustulipur og gestagóð þótt lítil efni væru oft hjá þeim ömmu og afa til að taka rausnarlega á móti fólki. Í mínum huga er amma ein þessara oft vanmetnu og gleymdu kvenna sem þjóna samfélaginu á mikilvægan hátt með því að standa sterk að baki fjölskyldu eða þá styðja mann sinn með ráðum og dáð eins og amma gerði svo dyggilega. Sagan mun án efa geyma minningu þessarar ljúfu konu sem umfram allt var amma mín.
Ég votta öllum ættingjum hennar samúð mína. Ég kveð þig amma með söknuði og vona að þú fáir að hvíla í friði eftir öll þín rúmu hundrað ár og ég veit að við munum hittast síðar á fallegum blómsturvöllum fjarlægra dala þar sem fjólurnar fella aldrei blóm eða tár.
Ósvartur svanni
um sannleik spyr
skilin skulda.
/
Hrærir ung tungu
himins sálmi
heitum kulda.
/
Sú til orustu
óttann ei ber
eindregin er.
/
Fögur er sólin
frá dreyrstöfum
fölbleik hún fer.
Einar Svansson