Mikill og merkur maður er fallinn frá, afi minn, Arnþór Þórðarson er lést á heimili sínu 7. júlí s.l. Af mörgu er að taka þegar skrifa á minningargrein um hann afa, en fyrst og fremst verður hans minnst fyrir það dálæti er hann sýndi dætrum sínum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Hann afi var ekki maður margra orða, var hlédrægur og oft á tíðum svolítið utan við sig. Að vissu leiti stafaði þetta af þeim veikindum sem hrjáðu hann síðastliðin ár. Hins vegar var ávallt stutt í glettnina hjá honum og sé ég hann ljóslifandi fyrir mér með glottið sem oft brá fyrir þegar hann náði að spila með okkur. Kunni afi best við sig aftan við myndbandsupptökuvél í fjölskylduboðum þar sem allt var tekið upp í beinni lýsingu hans. Oft hefur fjölskyldan hlegið af upptökum hans og skemmtilegum lýsingum. Það er afa að þakka að til er margra ára fjársjóður af upptökum af æsku og uppvexti hinna ýmsu fjölskyldumeðlima. Afi sýndi syni mínum, líkt og öðrum langafabörnum, mikinn áhuga og aðdáun og var alltaf að spyrja um hvernig "Höfðinginn" hefði það, eins og hann kaus að kalla hann. Þegar afi frétti að mín litla fjölskylda hyggðist flytja af landi brott sagði hann: "Ísland verður ekki samt án þeirra". Einlægni sem þessi var ávallt einkennandi fyrir hann. Það er með þakklæti fyrir góðar minningar og skemmtilegar samverustundir sem við kveðjum hann afa okkar. Dóra Björg, Andri og Dagur.

Elsku Gurra mín, þá ertu farin frá okkur eftir erfið veikindi, komin á yndislegan stað, þar sem guð og englarnir allir vernda þig og láta þér líða vel. Þú varst algjör hetja í baráttu þinni við ólæknandi sjúkdóm, æðruleysi þitt og dugnaður þinn, sýndi mér hversu sterk þú varst, mér er minnisstætt þegar ég lagði hönd mína á hné þitt, er við sátum saman í eldhúsinu heima hjá þér og þú sagðir hættu þessu og ég spurði þig af hverju, þá var svarið ég vil enga vorkunn. Á þeirri stundu sá ég hversu gríðarleg hetja þú varst.

Elsku Gurra mín, í minningu minni, sem á eftir að lifa í huga mínum allt mitt líf, varst þú yndisleg frænka og góð kona. Þegar ég var lítill drengur fékk ég þau forréttindi að gjöf að fá að vera mikið hjá þér og Árna, það var yndislegur tími. Nú sit ég og minnist þín, og upp kemur í hugann svo mikið þakklæti fyrir að hafa átt þig að, þakklæti að hafa fengið allan þann tíma í mínu lífi með þér, þú varst persóna sem allir elskuðu, og glöddust að vera í návist með. Að fara með þér í bæinn tók nú oft langan tíma því allir virtust þekkja þig, heilsuðu þér og spjölluðu við þig. Vinsæl og yndisleg persóna varst þú Gurra mín.

Við vorum alltaf mjög náin, og gleymi ég því aldrei þegar þú varst mjög lasin árið 1997 og allt virtist vera búið hjá þér, ættingjar voru að kveðja þig og þú sýndir ekki nein viðbrögð, en þegar ég kom síðastur að þér opnaðir þú augun og réttir út hendurnar og baðst mig hljóðlaust um að taka utan um þig. Blessunarlega læknaðist þú af þeim veikindum og ég fékk lengri tíma af mínu lífi til þess að vera með þér. En nú líður þér orðið vel elsku Gurra mín, laus úr stríði við veikindi þín og komin á þann stað sem þú varst búin að gera þér grein fyrir að þú mundir enda á, því eins og þú sagðir við mig um daginn, gerðir þú þér alveg grein fyrir því og bættir við Valdi minn þú veist aldrei hvar þú sefur á morgun, þau orð þín voru svo sannarlega orð að sönnu.

Á afmælisdaginn þinn naust þú þín mikið með Hebba og Erlu, fóruð þið í Perluna og nutuð dagsins. Daginn eftir lá leið þín í hinsta sinn á spítalann, þar sem eilífðin tók við þér innan fárra daga. Þegar ég sagði börnunum mínum frá því að þú væri dáin, sagði Hafdís Líf: Pabbi nú er Gurra orðin engill. Sakleysi barnsins og þessi fallegu orð, minna mann á hversu vel þér líður í dag, á himninum með mömmu og pabba þínum og honum Árna, fullfrísk og glöð.

Elsku Gurra mín takk fyrir allar þær dýrmætu stundir sem við áttum saman.

Hvíldu í friði og megi guð vera með þér elsku Gurra mín.

Þinn,

Valdi.