Kristinn Torfason fæddist í Hafnarfirði 15. ágúst 1928. Hann lést á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði 1. október sl. Foreldrar hans voru hjónin Torfi Kr. Gíslason, f. 24.10. 1903, d. 12.1. 1959, og Ingileif Sigurðardóttir, f. 16.5. 1905, d. 30.10. 1979. Tveir yngri bræður hans létust fárra daga gamlir en eftirlifandi eru Sigurbjörn, f. 21.8. 1931, og Gísli, f. 2.8. 1934. Eiginkona Kristins er Sigurbjörg Vigfúsdóttir, f. í Hafnarfirði 28.11. 1930. Foreldrar hennar voru hjónin Vigfús Jón Vigfússon, f. 7.9. 1898, d. 21.10. 1965, og Epiphanía Ásbjörnsdóttir, f. 6.1. 1902, d. 19.6. 1956. Kristinn og Sigurbjörg giftu sig hinn 7. janúar 1950. Börn þeirra eru: 1) Torfi Kristinn, f. 13.4. 1949, maki Helga Eyberg Ketilsdóttir, f. 3.10. 1952. Synir þeirra eru: Kristinn, f. 1984, og Ingvar, f. 1986. 2) Sigurður, f. 17.11. 1951, maki Dórótea Elísa Jónasdóttir, f.5.2. 1954, d. 25.8. 2006. Börn þeirra eru: Sólveig Helga, f. 1977, og Sigurbjörg Kristín, f. 1981. 3) Ingileif, f. 10.4. 1954, maki Sigurður Þórir Eggertsson, f. 9.12. 1948. Börn þeirra eru: Kristinn, f. 1977, Sverrir, f. 1981, og Anna Björk, f. 1982. 4) Hallgerður, f. 13.10. 1955, maki Símon Már Ólafsson, f. 15.7. 1957. Börn þeirra eru: Ólafur Már, f. 1980, Albert, f. 1983, Birgir, f. 1983, og Elísabet, f. 1991. 5) Vigfús Kristinsson, f. 3.11. 1957. 6) Kristinn, f. 6.1. 1959, maki Stefanía Vilhjálmsdóttir, f. 25.11. 1956. Börn þeirra eru: Stella Björg Kristinsdóttir, f. 1989, Vilhjálmur Steinar, f. 1991, og Sigurbjörg Lára, f. 1991. Kristinn hóf ungur störf við eigin atvinnurekstur í Hafnarfirði. Fyrst við rekstur eigin vörubifreiðar en síðar stofnaði hann Fiskverkun Torfa Gíslasonar ásamt föður sínum og bræðrum og vann við það um árabil. Þegar fyrirtækið hætti störfum hóf Kristinn aftur störf við akstur atvinnubifreiða fyrir ýmsa aðila í nokkur ár. Kristinn aflaði sér réttinda sem fiskmatsmaður og tók að sér verkstjórn í frystihúsum, m.a. við Sjólastöðina í Hafnarfirði. Seinni hluta starfsævinnar hóf Kristinn aftur rekstur eigin vörubifreiðar og starfaði við það til 75 ára aldurs er hann hætti störfum. Alla tíð lögðu þau hjónin Kristinn og Sigurbjörg metnað sinn og alúð í að búa sínum nánustu gott og hlýlegt heimili. Fyrst byggðu þau hjónin sér hús að Hellisgötu 35 og þar ólust börnin upp. Þegar bygging norðurbæjarins í Hafnarfirði hófst, byggðu þau sér nýtt heimili í einbýlishúsi að Miðvangi 23 í Hafnarfirði og hafa búið þar síðan. Útför Kristins fór fram í kyrrþey að hans ósk.
Elsku afi minn, ég kveð þig með svo miklum söknuði. Þegar ég hugsa um allt sem þú hefur gefið mér þá læðist að mér bæði bros og tár.
Þú varst bæði mér og öðrum afabörnum svo hlýr, gjafmildur og örlátur. Það er með sanni sagt að þú vildir allt fyrir okkur gera. Þær eru ófáar minningarnar þar sem þú laumaðir til okkar nammi, pening eða öðru með bros á vör. Minningarnar þegar ég fór með þér og ömmu í bíltúr um helgar eru mér einnig ómetanlegar.
Afi á vörubílnum er án efa ríkasta minningin sem ég á um þig. Gleðin sem ríkti hjá okkur systkinunum þegar við fengum að fara með þér í stóra vörubílnum mun aldrei gleymast.
Ég varð svo ánægð þegar ég byrjaði að æfa mark og þú sagðir mér að ég væri að feta í þín spor. Ég fann fyrir svo miklu stolti og tengingu sem ég á bara með þér afi minn. Það er yndisleg tilfinning sem ég mun alltaf geyma.
Ég verð ævinlega þakklát að dóttir mín hafi fengið að kynnast þér þó svo að sá tími hafa verið stuttur. Í hennar augum ertu nú orðinn engill á himni með risastóra vængi. Það er björt og hlý tilhugsun.
Síðustu ár voru þér erfið og það þótti mér ákaflega erfitt. Ég er glöð í hjarta mínu að nú líði þér vel og að þú munir nú vaka yfir mér og mínum. Ég mun ætíð sakna þín og minnast þín sem sterkum afa, með hlýjan faðm og stórt hjarta.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Takk fyrir allt elsku afi minn.
Þín afastelpa,
Anna Björk.