Gísli Sigurbergur Gíslason fæddist í Neskaupstað 30. júlí árið 1939. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 25. júní 2009. Foreldrar hans voru Gísli Bergsveinsson útgerðarmaður, f. í Mjóafirði 11. júní 1894, d. 20. mars 1971, og Eyleif Jónsdóttir, f. á Vestra-Horni 2. mars 1908, d. 2. apríl 1989. Systkini Gísla Sigurbergs eru Ólöf Sigríður, Jóna Guðbjörg, Bergsveina Halldóra og Sólveig Sigurjóna. Gísli Sigurbergur kvæntist 13. október 1963 Guðrúnu Maríu Jóhannsdóttur, f. í Neskaupstað 5. ágúst 1944. Foreldrar Jóhann Pétur Guðmundsson, f. 11. nóvember 1918, d. 19. mars 1989, og María Ingiríður Jóhannsdóttir, f. 11. september 1923. Gísli og Guðrún bjuggu í Neskaupstað allan sinn búskap. Þau eignuðust fjóra syni: 1) Jóhann Pétur vélstjóri, Neskaupstað, f. 19. maí 1962, kvæntur Sigríði Þorgeirsdóttur. Sonur þeirra er Sigurbergur Ingi. Fyrir átti Jóhann Pétur syni, Rúnar Þór, barnsmóðir Ólöf Másdóttir, og Kristin Þór, barnsmóðir Lára Kristinsdóttir. Fyrir átti Sigríður, Jónínu Hörpu Njálsdóttur. 2) Gísli lífefnafræðingur, Álftanesi, f. 22. apríl 1964, kvæntur Bergrós Guðmundsdóttur. Börn hans frá fyrra hjónabandi eru Eyleif Ósk og Gísli Veigar, barnsmóðir Aðalheiður Ósk Þorleifsdóttir. 3) Guðmundur Rafnkell framkvæmdastjóri, Neskaupstað, f. 19. febrúar 1970, kvæntur Guðrúnu Smáradóttur. Dætur þeirra eru Eyrún Björg og María Bóel. 3) Eyleifur Þór, f. 5. janúar 1973, d. 12. febrúar 1989. Fyrir átti Gísli Sigurbergur soninn Heimi Berg, f. 12. júlí 1960, kvæntur Sólrúnu Hansdóttur og eiga þau 4 dætur, þær eru: Hildur Valgerður, Sólborg Berglind, Dagbjört Ósk og Eyleif Þóra. Gísli Sigurbergur fór strax eftir skyldunám til sjós á Björgu NK 103 sem faðir hans gerði út. Hann varð vélstjóri og síðar skipstjóri við útgerðina. Hann lauk vélstjórnarprófi árið 1957 og skipstjórnarprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1960. Eftir það var hann skipstjóri á Björgu NK 103. Árið 1975 var útgerðin seld og þá um vorið hóf Gísli störf hjá Norðfjarðarhöfn og starfaði þar allan sinn starfsaldur, lengst af sem hafnarstjóri. Mörg haust fór Gísli Sigurbergur á síldveiðar og var með ýmis skip en einnig sigldi hann mörg sumur í afleysingum á skipum Síldarvinnslunnar með ísvarinn fisk til Bretlands. Hann starfaði einnig tímabundið hjá Landhelgisgæslunni þegar Íslendingar háðu baráttuna um 12 mílna landhelgina. Það atvikaðist að Bretar tóku til fanga varðskipsmenn sem tóku breskan togara í landhelgi. Þá vantaði tímabundið mannskap á varðskipið Þór og var Gísli í hópi vaskra manna frá Norðfirði sem fylltu það skarð. Gísli lærði snemma á harmonikku, trompet og spilaði einnig á fleiri hljóðfæri. Hann var í fyrstu lúðrasveit Norðfjarðar en hafði áður leikið með Lúðrasveit verkalýðsins í Reykjavík. Gísli Sigurbergur var mjög virkur í harmonikkufélagi Norðfjarðar (FHUN) og spilaði þar síðast með félögum sínum þann 1. maí sl. Hann var einnig félagi í Lions-klúbbi Norðfjarðar á meðan hann starfaði og hann var einnig um tíma ritari í Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Sindra í Neskaupstað. Útför Gísla Sigurbergs fer fram frá Norðfjarðarkirkju í dag, 2. júlí, og hefst athöfnin kl. 14.

Í dag er Gísli Beggi vinur minn lagður til hinstu hvílu. Gísli Beggi hafnarstjóri á Norðfirði var einn af mínum nánustu samstarfsmönnum í þau tæpu 16 ár meðan ég gegndi starfi bæjarstjóra í Neskaupstað og síðar í Fjarðabyggð.Vart leið svo dagur að við vorum ekki í einhverjum samskiptum.

Höfnin er lífæð samfélagsins í litlum sjávarþorpum og þar gerast hlutirnir. Gísli gegndi starfi hafnarstjóra af einlægni og trúmennsku. Hann hafði góða reglu á hlutunum  og nákvæmni einkenndi  öll hans vinnubrögð. Hann hafði gríðarlegan metnað fyrir  því að umsvif hafnarinnar yrðu sem mest á öllum sviðum og líkt og mörgum eldri skipstjórum þá skipti tonnafjöldinn stundum meira máli en verðmætin!

Á þeim tímum sem Gísli gegndi starfi hafnarstjóra átti sér stað gríðarleg uppbygging á öllum sviðum í höfninni á Norðfirði. Höfnin stækkaði mikið, hafnarkantarnir lengdir og nýjir byggðir. Höfnin á Norðfirði  varða miðstöð umskipunar á frystum fiski eftir að Síldarvinnslan byggði frystigeymslur sínar. Mínum manni líkaði traffíkin sem það leiddi af sér.

Mér  verður ætíð minnisstætt er tölvuvæðing fiskihafnanna hófst með innleiðingu Lóðsins, tölvukerfis sem hélt m.a. utan um landaðan afla. Tölva var keypt og boðað til námskeiðs hér eystra. Ekki var nú tölvukerfið betur úr garði gert en það að endalaust komu upp hnökrar í því á námskeiðinu. Efldi það ekki tiltrú þeirra sem nota áttu það og voru að komast í fyrsta skipti í snertingu við tölvur. Enda fór svo að í námskeiðislok kom Gísli með tölvuna á skrifstofuna til mín og taldi að hún ætti ekki eftir að vera notuð á hafnarskrifstofunni  meðan hann réði þar ríkjum! Það fór þó svo að talvan var sett þar upp og fáir urðu flínkari í að meðhöndla Lóðsinn en Gísli Beggi þegar fram liðu stundir og ósjaldan leituð aðrir til hans eftir aðstoð!

Árleg hafnarsambandsþing voru skemmtileg tilbreyting frá daglegu amstri. Þangað létum við okkur aldrei vanta. Þingin voru jafnt vettvangur kjörinna fulltrúa og embættismanna. Þessi þing voru afar mikilvægur þáttur í starfi hafnanna þó ekki væru alltaf teknar einhverjar tímamóta  ákvarðanir á þessum þingum. Þingin voru vettvangur samskipta og samræðna og  loknum þingstörfum var vel tekið á því. Þá var nú fjör. Með Sissa fremstan í flokki leiddist ekki nokkrum manni á þessum samkomum og minningarnar frá þeim gleymast seint.

Fyrir tveimur árum greindist Gísli með krabbamein í ristli, líkt og sá sem þetta ritar hafði greinst með ári fyrr. Það styrkti enn vinaböndin og oft ræddum við um það hversu mikivægt það er að vera heilsuhraustur. Menn gera sér ekki almennt grein fyrir því hversu dýrmæt heilsan er fyrr en  á reynir.

Að leiðarlokum vil ég þakka Gísla mikil og góð samskipti í gegnum tíðina sem aldrei bar skugga á.

Guðrúnu  og öllum í fjölskyldunni sendum  við Klara okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Hvíl í friði kæri vinur.

Guðmundur Bjarnason