Guðrún Lára Kjartansdóttir fæddist á Akureyri 28. júlí 1952. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi, 8. október síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Kjartan Steingrímsson, útgerðarmaður, f. 16.7. 1918 á Flateyri, d. 16.6. 1981 og Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, leikskólakennari, f. 26.1. 1929 á Akureyri, d. 8.2. 2009. Bróðir Guðrúnar er Kjartan f. 22.5. 1955, maki Halla Guðmundsdóttir, f. 7.10. 1962. Dætur Kjartans eru Fríða Björg, f. 4.8. 1977, Inga Kristín f. 14.1. 1984 og Sandra Salvör f. 24.12. 1987. Hálfsystir Guðrúnar er Kristín Kjartansdóttir f. 29.9. 1944 og á hún þrjú börn. Sonur Guðrúnar er Jón Kjartan Kristinsson f. 19.7. 1974, kvæntur Elsu Guðrúnu Jóhannesdóttur f. 5.10. 1975, börn þeirra eru Arnar f. 7.7. 2004 og Karítas f. 5.9. 2006. Faðir Jóns er Kristinn Guðmundsson f. 14.2. 1953. Guðrún giftist 15.10. 1977 Sverri Péturssyni f. 22.1. 1956 en þau skildu 1980. Sambýlismaður Guðrúnar er Bjarni Sólbergsson f. 30.11. 1956. Foreldrar hans eru Lucie Einarsson f. 3.9. 1936 og Sólberg Jónsson f. 29.8. 1935. Börn Bjarna eru Eyþór f. 5.1. 1987, Anna Lucie f. 22.6. 1989 og Elísabet f. 10.1. 1991. Guðrún bjó fyrstu árin í Keflavík og Garðabæ. Bjó síðan ásamt foreldrum sínum á Hellissandi árin 1960-68. Lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar 1969. Fluttist til Reykjavíkur haustið 1969 og stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands og lauk þaðan verslunarprófi vorið 1971. Vann í Búnaðarbanka Íslands 1971-72. Stundaði þá framhaldsnám í Verzlunarskóla Íslands veturinn 1972-73. Vann hjá Jóhanni Ólafssyni og Co. árin 1973-78. Hóf störf hjá GBB auglýsingastofu árið 1978 sem heitir núna Hvíta húsið auglýsingastofa. Síðustu árin vann hún hjá ABS fjölmiðlahúsi og hafði umsjón með birtingu á auglýsingum. Bjó í Hafnafirði á árunum 1977-80. Flutti til Reykjavíkur árið 1980 en síðustu tvö árin hefur hún búið í Kópavogi. Helstu áhugamál Guðrúnar voru m.a. ferðalög innalands og utan, útivera, t.d. gönguferðir og hlaup, einnig lestur góðra bóka ofl. Guðrún var virkur félagi í Trimmklúbbi Seltjarnaness og sat þar í stjórn í nokkur ár. Útför Guðrúnar Láru fer fram frá Háteigskirkju í dag, 16. október, og hefst athöfnin klukkan 13.

Hvíldu í friði, elsku Gunna frænka, og takk fyrir allar góðu samverustundirnar, þín verður sárt saknað.

Kveðja,

Helgar stjörnur, háreist fjöll,

himininn og sæinn,

líka norðurljósin öll

og ljúfa vestanblæinn

og allt sem fagurt augað sér

á ævilöngum vegi

bið ég kveðju að bera þér

bæði á nótt og degi

(Páll Ólafsson.)

Fríða, Addi og Saga.