Torfi Jónsson fæddist á Torfalæk 28. júlí 1915. Hann lést á Héraðshælinu á Blönduósi 17. júlí 2009. Hann var sonur hjónanna Jóns Guðmundssonar, f. 22. janúar 1878, d. 7. september 1967, og konu hans Ingibjargar Björnsdóttur, f. 28. maí 1875, d. 10. september 1940. Bræður Torfa voru Guðmundur skólastjóri á Hvanneyri (1902-2002), Björn Leví, veðurfræðingur og læknir (1904-1979), Jóhann Frímann umsjónarmaður (1904-1980), Jónas Bergmann fræðslustjóri (1908-2005) og Ingimundur (1912-1969). Fóstursystur þeirra bræðra voru Ingibörg Kristín (Imma) Pétursdóttir (f. 1921) á Blönduósi og Sigrún Einarsdóttur (f. 1929) í Reykjavík. Torfi kvæntist Ástríði Jóhannesdóttur, f. 23. maí 1921, d. 13. mars 1988, dóttur Jóhannesar Jónssonar útvegsbónda á Gauksstöðum í Garði og konu hans Helgu Þorsteinsdóttur. Þau eignuðust tvo syni, þeir eru: 1) Jóhannes bónda á Torfalæk, f. 11. apríl 1945, kvæntur Elínu Sigurlaugu Sigurðardóttur frá Ísafirði, f. 19. maí 1944. Börn þeirra eru Sigurður, f. 1967, maki Sigrún Lovísa Sigurðardóttir, þau eiga þrjá syni. Torfi, f. 1969, maki Þórunn Pétursdóttir., þau eiga einn son en frá fyrri sambúð á Torfi son með Önnu Karlsdóttur. Fyrir á Þórunn þrjú börn. Ástríður, f. 1971, maki Alexander Richter, þau eiga dóttur og son. Gunnar Þór, f. 1976, maki Halla Valgeirsdóttir, þau eiga tvo syni. Elvar Ingi, f. 1983. 2) Jón skjalavörður í Reykjavík, f. 27. mars 1949, kvæntur Sigríði Kristinsdóttur, f. 13. júlí 1943, sonur þeirra er Torfi Stefán, f. 1983, maki Margrét Aðalheiður Markúsdóttir, þau eiga eina dóttur. Sigríður á tvær eldri dætur, Sigfríði Magnúsdóttur og Ernu Kristínu Sigurðardóttur. Síðustu árin átti Torfi sambúðarkonu, Sigurlaugu Arndal Stefánsdóttur, og bjuggu þau í íbúðum aldraðra á Flúðabakka á Blönduósi þar til Torfi lagðist inn á sjúkradeild Héraðshælisins árið 2005. Torfi stundaði nám í Héraðsskólanum á Laugarvatni veturinn 1934-1935 en gerðist síðan bóndi á Torfalæk til 1987 að hann lét að mestu af búskap en hélt þó heimili á Torfalæk fram yfir árið 2000. Þau Ástríður réðust í mikla uppbyggingu, reistu íbúðarhús og peningshús frá grunni og juku mjög ræktun á jörðinni. Torfi sat í hreppsnefnd Torfalækjarhrepps frá 1954-1990, þar af oddviti frá 1962, og kom víða við opinber mál í héraði sem oddviti, sat m.a. í samninganefnd um Blönduvirkjun frá 1975-1990 og var framkvæmdastjóri og gjaldkeri við byggingu Húnavallaskóla frá 1962-1990 en þar er barna- og unglingaskóli Húnavatnshrepps. Hann var gjaldkeri við byggingu kirkju á Blönduósi frá 1986 en kirkjan var vígð 1993. Einnig var hann hvatamaður að stofnun félags eldri borgara í Austur-Húnavatnssýslu, fyrsti formaður þess og hafði umsjón með byggingu íbúða fyrir eldri borgara við Flúðabakka á Blönduósi. Einnig var hann mjög virkur í Lionsklúbbnum á Blönduósi. Útför Torfa fer fram frá Blönduóskirkju í dag, 28. júlí, og hefst athöfnin kl. 14.
Þá er síðastur þeirra Torfalækjarbræðra fallinn frá, Torfi Jónsson,
föðurbróðir okkar. Um hann eigum við góðar minningar allt frá blautu
barnsbeini, er við vorum ásamt foreldrum okkar gestkomandi að Torfalæk og
síðar á eigin vegum með fjölskyldur okkar. Alltaf mættum við velvilja og
hlýju af hálfu þeirra hjóna Ástu og Torfa, sem ævinlega tóku á móti okkur
með opinn faðminn.
Á Torfalæk var myndarbragur, regla yfir öllu og yfirbragð allt á þá lund að
hugsað væri stórt og til framfara. Maður fylltist stolti yfir ættartengslum
við Torfalæk.
Torfi Jónsson var félgslyndur maður, hafði ríkar skoðanir á þjóðmálum en
hlustaði vel eftir sjónarmðium annarra. Hann var maður rökræðu, alvarlegur
og glettinn í senn.
Að leiðarlokum þökkum við margar góðar stundir. Hlýtt bros Torfa frænda
okkar mun fylgja minningunni um hann.
Sigurlaugu og allri fjölskyldu Torfa færum við samúðarkveðjur.
Jón Torfi, Ögmundur, Ingibjörg og Björn.