Sigurveig Sólmundsdóttir fæddist á Stöðvarfirði 22. júní 1924. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 21. apríl 2009. Foreldrar hennar voru Sólmundur Kristján Sigurðsson, f. 19. júlí 1897, d. 31. maí 1936, og Guðrún Auðunsdóttir, f. 11. nóv. 1897, d. 16. sept. 1951. Sigurveig var þriðja í röðinni af 9 systkinum, hin eru Auður Katrín, f. 14. maí 1920, Sigríður, f. 28. maí 1921, Jóna Margrét, f. 24. jan. 1927, d. 1. júlí 1973, Laufey, f. 27. sept. 1928, Friðrik Júlíus, f. 12. feb. 1930, d. 31. ágúst 1998, Bergur, f. 4. maí 1931, d. 31. okt. 1992, Jóhanna, f. 19. ágúst 1932, og Sólmundur Kristján, f. 22. mars 1936, d. 4. apríl, 1949. Árið 1950 giftist Sigurveig Björgvini Kristni Hannessyni húsasmiði, f. 25. jan. 1926, d. 14. júní, 1998. Foreldrar hans voru Guðrún Hallbjörnsdóttir, f. 3. feb. 1896, d. 29. júlí 1940, og Hannes Friðsteinsson, f. 3. jan. 1894, d. 27. júlí 1977. Börn Sigurveigar og Björgvins eru: 1) Hannes Karl, f. 27. okt. 1949, kvæntur Guðrúnu Jensdóttur, f. 3. júlí 1950. 2) Rúnar Freysteinn, f. 14. feb. 1951, búsettur í Svíþjóð, kvæntur Bimölu, f. 6. nóv. 1976. 3) Sólmundur Kristján Björgvinsson, f. 10. okt. 1953, kvæntur Arndísi Þorsteinsdóttur, f. 10. maí, 1959. 4) Sigurveig Björg, f. 30. nóv. 1958, gift Sigurði Sigurðssyni, f. 22. mars, 1956. Sigurveig og Björgvin eignuðust 12 barnabörn, þar af 2 stjúpbarnabörn, og 13 barnabarnabörn, þar af 2 stjúpbarnabarnabörn. Á unglingsárunum flutti Sigurveig til Reykjavíkur og bjó þar til æviloka. Auk heimilisstarfa og barnauppeldis vann hún m.a. við saumaskap og síðustu ár starfsævinnar starfaði hún á dvalarheimilinu að Droplaugarstöðum. Útför Sigurveigar fór fram í kyrrþey.

Veiga, tengdamóðir mín, fæddist að Laufási á Stöðvarfirði. Hún var þriðja í hópi 9 systkina. Henni þótti vænt um átthagana og minntist oft áhyggjulausra og bjartra daga bernskunnar. Alltaf var gnægð matar og hún gat leikið við systkini sín í hinu fallega umhverfi Stöðvarfjarðar, þar sem Súlurnar standa svo tignarlegar og mikilfenglegar. Faðir Veigu, Sólmundur, var þúsundþjalasmiður og mjög laghentur. Hann smíðaði sinn eigin bát og reri til sjávar til að sjá fjölskyldunni farborða. Hann var tónelskur og spilaði á harmonikku, öllum til mikillar gleði. Móðir hennar, Guðrún, sinnti heimilinu og börnunum. Hún var blómaunnandi og sagði Veiga oft frá því að bæði rósir og nellikkur hefðu verið ræktaðar í glugganum að Laufási, þó svo vaxtarskilyrðin hefðu ekki verið þau bestu. Veiga lærði snemma að prjóna og sauma, sem var hennar líf og yndi alla ævi. Móðuramma hennar, Kathinka, bjó á bernskuheimili hennar og var hún mjög hænd að henni og minntist hennar oft. Við 12 ára aldur dó faðir Veigu í kjölfar veikinda. Sum systkina hennar fóru í fóstur til ættingja og við 14 ára aldur flutti hún sjálf til Reykjavíkur til að vinna fyrir sér. Þar kynntist hún síðar eiginmanni sínum, Venna, sem alinn var upp í Reykjavík. Hann var mikill öðlingsmaður, félagslyndur og afar vinnusamur. Þau hjónin bjuggu á Guðrúnargötu þegar ég kom inn í fjölskylduna. Börn og barnabörn komu þar oft í heimsókn og oft var glatt á hjalla. Með árunum byggðist upp náið samband milli okkar Veigu og reyndist hún mér einstaklega vel alla tíð. Heimili þeirra hjóna var okkur alltaf opið í heimsóknum okkar til Íslands. Þau hjónin komu líka nokkrum sinnum til okkar til Bergen og áttum við ógleymanlegar stundir saman. Veigu var umhugað um að afkomendunum liði sem best og veitti þann stuðning sem hver og einn þarfnaðist hverju sinni. Almennt séð stóð hún með þeim sem minna máttu sín og þoldi ekkert óréttlæti. Hún var verkalýðskona, tjáði skoðanir sínar opinskátt og hafði ímugust á allri stéttaskiptingu og peningagræðgi. Veiga var afar bókelsk og þegar sjónin fór að daprast fékk hún lánaðar hljóðsnældur sem hún hlustaði á þegar hún sat og prjónaði. Eftir að Venni dó, bjó Veiga ein í Hjallaselinu. Þrátt fyrir sjónleysi spjaraði hún sig ótrúlega vel, barmaði sér aldrei og sýndi að vanda mikinn viljastyrk. Hún naut þess að sinna garðverkunum, fara í gönguferðir og kíkja til Siggu systur sinnar. Veigu leiddist aldrei og mætti lífinu með æðruleysi. Síðustu árin hrjáði hana minnissjúkdómur, sem dró úr lífsgæðum hennar. Fyrir ári síðan flutti hún á hjúkrunarheimilið í Skógarbæ og naut góðrar umönnunar þar. Ég vil þakka Veigu fyrir allt og vona að henni líði vel þar sem hún nú er komin. Ég er þakklát fyrir að Bjöggi, Sóli og Sigurveig Ankíta hafi átt svona góða ömmu og veit að bæði þau og langömmubörnin kveðja hana með söknuði. Einnig er ég þakklát fyrir að Veiga skyldi ganga Katrínu Öldu, systurdóttur minni, í ömmustað. Guð blessi minningu góðrar og sterkrar konu.

Arndís Þorsteinsdóttir.

Mig langar til að minnast móður minnar, Sigurveigar Sólmundsdóttur, í nokkrum orðum.

Nú er hún elsku mamma mín búin að fá hvíldina eftir nokkur erfið ár og hvílir hjá föður mínum. Mamma var mjög sterk og ákveðin kona, sem þurfti frá ungum aldri að sjá um sig sjálf. Hún hugsaði fyrst og fremst um þarfir barnanna sinna, var mikil handavinnukona, saumaði og prjónaði á okkur föt þegar við systkinin vorum yngri. Mamma var mjög pólitísk og lét óspart í ljós skoðun sína, var mjög hreinskilin og lét mann vita ef sér var misboðið. Það var mjög gott að leita til hennar ef manni leið illa, hún hlustaði og reyndi að leiðbeina og aðstoða. Mamma lagði mikla áherslu á að við börnin menntuðum okkur og héldum áfram í skóla, en hún sjálf hafði ekki átt kost á slíku. Báðir synir mínir voru þess aðnjótandi að hafa verið töluvert hjá pabba og mömmu. Ég veit að þeir minnast þeirra með söknuði í hjarta.

Eftir að faðir minn lést þá bjó mamma ein í mörg ár. Hún var dugleg að vinna í garðinum sínum, fór daglega út í göngutúr og fékk oft nágranna sína með sér. Það var alveg ótrúlegt hvað hún var dugleg, þrátt fyrir að hún var orðin mjög sjónskert. Þó að hún væri orðin nánast blind þá prjónaði hún fallegar flíkur á barnabörn og langömmubörnin sín.

Síðustu tvö til þrjú árin leið henni oft mjög illa. Hún greindist með Alzheimer sjúkdóm og vegna ört vaxandi veikinda þá lá leið hennar inn á hjúkrunarheimilið Skógarbæ þar sem hún andaðist.

Mig langar til að þakka starfsfólkinu í Skógarbæ fyrir þá góðu umönnun sem hún fékk.

Einnig langar mig að þakka Siggu frænku fyrir þá hjálp og hlýhug sem hún sýndi mömmu og okkur í hennar veikindum.

Þegar ég las þessar ljóðlínur hér að neðan þá datt mér í hug mamma.

Við umhyggju þinni og hjartahrein

hér tekið á móti höfum,

og sjálf hefur þú alltaf verið ein,

af okkar bestu gjöfum.

(höf. óþekktur)

Sigurveig Björg.

Elsku amma okkar. Við áttum okkur ekki ennþá á því að þú sért farin frá okkur og að við munum ekki hitta þig aftur í mörg ár. Við erum þó glaðar yfir því að þú varðst ekki verri af veikindum og sjónvandanum þínum. En alltaf, sama hvað gerðist, stóðst þú með sjálfri þér og lést ekkert stoppa þig. Þó þú hafir haft slæma sjón eru enn til mörg listaverk af prjónaskapnum þínum. Þú lést lífið ráða hvaða örlög þú myndir takast á við og vannst alltaf vel úr vandanum. Við höfum aldrei heyrt neina sögu af þér þegar þú gafst upp, frekar höfum við heyrt þegar þú sigraðist á erfiðleikum. Við vonum að þú hafir loksins hitt Venna afa aftur og alla ættingja sem að þú hefur þurft að kveðja í lífinu. En eitt máttu vita við elskum og elskuðum þig alltaf af öllu hjarta og okkur þótti afar vænt um þig og gerum það ennþá. Okkur fannst gaman að koma til þín í Hjallaselið og á Skógarbæ, og vildum helst aldrei fara. En það kom að því að við þurftum að kveðja þig. En við gleymum þér aldrei. Við söknum þín og Venna afa mikið þótt við höfum aldrei hitt hann. Daginn sem þú fórst frá okkur var einn af mestu sorgardögum lífs okkar. En við vissum þó að þú vildir ekki að það væri gert mál úr hlutunum svo við reyndum að harka þetta af okkur, en innra með okkur grétum við og gátum ekki hætt að hugsa til þín og allra góðu stundanna sem við áttum með þér. Við grétum vegna þess að þú varst góð amma og vinkona og það var auðvelt að tala við þig og vegna þess að þú hlustaðir af alvöru og athygli á okkur. Við grétum vegna þess að okkur þótti vænt um þig og vegna alls þess góða sem við áttum með þér. Við munum koma oft heim til þín í Hjallaselið þó þú sért ekki þar, við munum finna fyrir þér í anda.

Ástarkveðjur,

Sigurveig Ankita og Katrín Alda.