Jakob Jóhann Havsteen fæddist 26. apríl 1941. Hann lést á Landsspítalanum Háskólasjúkrahúsi í Reykjavík 2. september síðastliðinn. Foreldrar hans voru Thora Emalie Marie Havsteen og Bárður Jakobsson lögfræðingur. Þau eru bæði látin. Bræðurnir Jakob Jóhann og Jóhannes Júlíus voru ættleiddir af móðurafa sínum Júlíusi Havsteen sýslumanni á Húsavík. Börn Júlíusar sýslumanns og Þórunnar Havsteen voru: Ragnheiður Lára, Jakob Valdemar, Jóhann Henning, Jón Kristinn, Soffía Guðrún, Þórunn Kristjana og Hannes Þórður. Þau eru öll látin. Eftirlifandi eiginkona Jakobs Jóhanns er Ragnheiður Eggertsdóttur fyrrv. gjaldkeri í Landsbanka Íslands. Jakob Jóhann ólst upp á Húsavík. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1961 og lagaprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 1968. Hann öðlaðist héraðsdómslögmannsréttindi 1978. Jakob Jóhann var fulltrúi hjá sýslumanninum í Árnessýslu 1968 til 1977, hann var útibússtjóri Iðnaðarbanka Íslands á Selfossi 1977 til 1982 og rak eigin lögfræðistofu á Selfossi um nokkurra ára skeið. Jakob Jóhann starfaði hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til dauðadags. Útför Jakobs Jóhanns Havsteen fór fram í kyrrþey.

Óneitanlega brá mér við að fregna andlát Jakobs J. Havsteen.  Vegna kynna minna af honum var hann einn þeirra manna sem ég hlakkaði til að hitta næst, þó að strjálir væru samfundir okkar í seinni tíð.

Þegar ég hóf prestsskap á Selfossi var Jakob formaður sóknarnefndar í Selfosssókn.  Af þeim sökum hlaut að koma til nokkurs samstarfs okkar á milli þegar ég einmitt var að stíga hin áhættusömu skref byrjandans.  Allt varð það samstarf með þeim hætti að ég minnist þess þakklátum huga, og raunar stendur söfnuðurinn á Selfossi í nokkurri þakkarskuld við Jakob vegna framlags hans í sóknarnefndinni.  Áður en ég kom til starfa á Selfossi hafði verið rætt um þörf þess að byggja safnaðarheimili við kirkjuna auk þess sem margir höfðu áhuga á að byggja við hana klukknaturn.  Ekki voru allir á einu máli um slík áform og ekki greindi menn síst á um hvernig forgangsraða skyldi þessum tveimur verkefnum.  Þegar ég lýsti yfir áhuga á uppbyggingu safnaðarheimilis sagðist Jakob einfaldlega hljóta að vera sömu skoðunar og presturinn sem ætti að nýta þau húsakynni.  Man ég að hann sagði mér og sóknarnefndarmönnum að hann mæti stöðuna svo, að annað hvort væri að gera ekki neitt eða ráðast í að byggja turn og safnaðarheimili í einu, um annað yrði seint sátt í söfnuðinum.  Þá var samþykkt að velja síðari kostinn.  Í framhaldinu lagði Jakob á sig mikla vinnu með kynningarfundum, samráðsfundum og fortölum til að ýta verkinu úr vör.  Í því öllu reyndist hann laginn mannasættir og átti mikilvægan þátt í því að til framkvæmda kom, og byggingarnefnd gat ótrauð gengið til verka.  Margt fleira gæti ég tilgreint úr þessu samstarfi og öðrum kynnum mínum af Jakobi gegnum tíðina til að lýsa skýrum mannkostum hans.  Ekki verður það þó gert að sinni með einstökum dæmum.

Í aðkomu Jakobs að málefnum kirkjunnar og félagsmálaþátttöku hans fannst manni gæta uppeldisáhrifanna frá Húsavík þar sem hann að eigin sögn ólst upp við kirkjurækni og félagslega ábyrgð.  Það pund leitaðist hann við að ávaxta í samtíð sinni.  Jakob var glæsimenni, ræðinn og glaður á góðri stund.  Vakandi áhuga hafði hann á samtíðinni og kom gjarnan auga á sitthvað það sem þar mætti færa til betri vegar.  Eins og ég kynntist því bar tal hans um menn og málefni þó ávallt vitni um heiðarleika og fordómaleysi.  Ef einhverjum varð á fann fólk til samúðar hans en aldrei dómhörku.  Raunar vildi hann hvers manns vanda leysa eftir því sem það stóð í hans valdi.  Í mínum huga einkennist minning hans af hinni glaðlegu framkomu og hlýju ásamt miklu persónulegu örlæti.

Að leiðarlokum þökkum við, ég og Arndís kona mín, allar þær góðu minningar um leið og við biðjum frú Ragnheiði blessunar.  Góðum Guði felum við kæran samferðamann.


Sigurður Sigurðarson Skálholti.

Við minnumst af miklum hlýhug og væntumþykju frænda okkar, Jakobs Jóhanns Havsteen, sem nú er látinn. Bræðurnir Jakob og Júlíus voru nátengdir æskuheimili okkar og kærleikar milli þeirra og föður okkar og fjölskyldunnar allrar. Þeir voru synir Þóru föðursystur og Bárðar Jakobssonar, ólust upp á heimili afa okkar, Júlíusar Havsteen sýslumanns á Húsavík og voru honum kærir sem eigin synir. Jóhannes Júlíus bróðir Jakobs var skipstjóri og dó langt fyrir aldur fram.

Milli föður okkar og Jakobs var bræðraþel og leit faðir okkar á hann sem litla bróður. Við systkinin og foreldrar okkar tengdumst Jakobi og Ragnheiði eiginkonu hans sterkum og hlýjum böndum alla tíð. Um hver áramót hringdi Jobbi á slaginu tólf í kapp við kirkjuklukkurnar, fyrstur manna það árið eins og öll önnur, til þess að óska fjölskyldunni í Skeiðarvogi gleðilegs árs.

Jakob var glæsilegur maður og þegar við minnumst hans kemur í hugann mynd af honum í stofunni í Skeiðarvoginum, brosandi og kátum að þiggja kaffisopa og spjalla áður en haldið var heim á Selfoss, þegar þau Ragnheiður bjuggu þar. Hann var góður frændi og okkur þótti afar vænt um hann.

Áhugi hans á lífi og starfi okkar systkinanna, gleði hans þegar vel gekk og hugsunarsemi þegar tók í var fölskvalaus. Hann var gamansamur í spjalli og áhugasamur um alla rökræðu, frjór í hugsun, fróður og víðlesinn. Jakob var áhugasamur um pólitík og lagði lið innan Sjálfstæðisflokksins.  Því miður hrakaði heilsu hans hin síðari ár en því tók hann af æðruleysi og hugrekki.

Á þessari stundu hugsum við til vinkonu okkar Ragnheiðar, eftirlifandi eiginkonu Jakobs. Hennar missir er mikill. Við systkinin sendum Ragnheiði innilegar samúðarkveðjur. Megi minningin um mætan mann veita henni styrk á sorgarstundum.

Stefán Jón, Þórunn Júníana, Sigrún Soffía, Hildur Björg og Hannes Júlíus.