Sigurjón Ingólfsson fæddist á Prestsbakka í Hrútafirði 19. febrúar 1925. Hann lést á líknardeild Landspítala, Landakoti, 4. júní síðastliðinn. Fjölskylda Sigurjóns flyst um vorið 1925 að Gilhaga í sömu sveit, og á þar heima til vors 1943 þá flytur fjölskyldan aftur að Prestsbakka. Foreldrar Sigurjóns voru Ingólfur Jónsson, f. 26.7. 1893, d. 11.7. 1932 og Anna Sigurjónsdóttir, f. 11.9. 1900, d. 24.9. 1987. Sigurjón átti fjórar systur og einn hálfbróður, Guðjón, f. 1912, d. 1993, syturnar eru Sigríður Jóna, f. 1922, d. 2004, Dagmar, f. 1926, d. 2006, Kristjana Halla, f. 1930 og Inga, f. 1932. Sigurjón kvæntist 12. nóvember 1949 Sigfríði Jónsdóttur frá Skálholtsvík, f. 14.8. 1926 og bjuggu þau þar til 1997 þegur þau fluttu til Reykjavíkur. Foreldrar Sigfríðar voru Jón Magnússon frá Miðhúsum, f. 15.5. 1891, d. 28.7. 1956 og Guðrún Grímsdóttir frá Kirkjubóli, f. 11.7. 1894, d. 11.2. 1956. Dætur Sigurjón og Sigfríðar eru Þorgerður, f. 7.6. 1950, gift Gunnari Benónýssyni, f. 22.12. 1952. Börn Þorgerðar og Eggerts Waage, f. 19.4. 1950, d. 23.5. 1984, eru a) Sigfríður, gift Guðjóni Valgeir Guðjónssyni, þau eiga 4 börn, b) Guðmundur á 3 börn, hann er kvæntur Jean Adele Vartabedian, c) Sigrún á 3 börn, hún er gift Heiðari Þór Gunnarssyni, d) Anna, f. 1.5. 1953 gift Guðjóni Jóhannessyni, f. 17.3. 1949, börn þeirra Sigfríður, í sambúð með Gunnar Sigríkssyni og eiga þau eitt barn, e) Jóhannes, í sambúð með Önju Huber, þau eiga eitt barn, e) Fjóla, í sambúð með Haraldi Inga Hilmarssyni, og f) Sigurjón. Kveðjuathöfn var í Grensáskirkju 12. júní. Sigurjón verður jarðsunginn frá Prestbakkakirkju í dag, 13. júní og hefst athöfnin kl. 15.
Svo kom það, stutt símtal við ömmu og við tóku tilfinningarnar og eftirsjáin, sorgin og óöryggi en samt viss léttir að þessu veikindabasli væri lokið.
Mín fyrsta minning er þannig: ,,Ég er að leika mér heima hjá mér og ömmu og afa. Inn koma pabbi og mamma, það er langt síðan ég hef séð mömmu og hún er eitthvað svo mikið breytt og inn kemur pabbi með lítið rúm sem er eins og kassi og segir mér að þarna ofan í sofi litli bróðir. Þessi skyndilega árás inn í líf mitt verður mér um of og ég hleyp á harða spretti í fangið á afa, fasta punktinn í tilveru minni, þar sem hann sat, eins og svo oft áður,við endann á borðstofuborðinu á móti hurðinni fram á gang, og hjúfra mig í fangið á honum eins fast og ég get. Ennþá man ég viðkomuna á ullarpeysunni sem stakk mig í andlitið og afalyktina, og þarna var ég örugg.
Ég er þeirrar lukku njótandi að hafa alist upp með ömmu og afa mér við hlið alltaf og taldi það hið sjálfsagðasta mál lengi vel, en hef áttað mig á því núna í seinni tíð hversu dýrmætt það hefur verið mér.
Heimili afa og ömmu var okkur barnabörnum alltaf opið hús og þangað hlupum við í tíma og ótíma, ,,ég ætla aðeins að skreppa yfir sagði ég og var þotin, stakk mér í næstu skó, klossana hennar mömmu eða spariskóna hans pabba og stundum komin í náttkjólinn. Alltaf mætti manni sama hlýjan og alltaf nógur tími til að spjalla.
Sveitalífið í Skálholtsvík var tilvera afa í nær hálfa öld og var unnið af áhuga og dugnaði. Hann var alltaf með fjárbú, og lengi kýr og á tímabili með nokkur svín.
Það var nóg að gera og hver árstíðin rak aðra með þeim verkum sem henni fylgdi. Ég man ekki eftir að afi færi mikið að heiman og fannst honum það yfirleitt hinn mesti óþarfi en það kom nú samt fyrir og var ég ansi eigingjörn á þær ferðir, eins og svo margt annað hjá afa og ömmu, og fannst hið mesta óréttlæti ef ég fengi ekki að fara með.
Það er hægt að segja um afa að hann hafi verið svona kostulegur karl sem mörgum þótti gaman að hitta og taka tal á hressilegum nótum, þá lét hann oft gamminn geysa í gleði og kátínu og úr varð stund sem allir nutu.
Hann var í meira lagi ör í skapi og gat hann skammað mann, hlegið að manni og síðan hrósað á sama andartakinu, stundum í sömu setningu.
Ég get t.d. nefnt hamarinn í fjárhúsunum, en hann notaði afi til að gera við, ja ég held bara allt, vandinn var bara sá hvar hann var að gera við síðast. Þá var kallað á einhvern af krökkunum og sagt : ,,náðu fyrir mig í hamarinn og þá var bara eins gott að vera snöggur að þefa uppi síðasta verk með hamrinum, sem gekk ekki alltaf vel og fór afa fljótt að leiðast biðin. Ég var komin með sérstakan stað fyrir hamarinn og tók hann alltaf upp þar sem ég fann hann og var oft snögg að sækja og fékk þá iðulega hól sem mér þótti gaman.
Þó oft hafi verið mikið að gera fengum við krakkarnir alltaf frí á kvöldin sem voru notuð í fótbolta eða annarskonar íþróttir á heimatúninu, en afi var mikill íþróttaáhugamaður og sá til þess að hefðum aðstöðu til að spila bolta og hafði umburðarlyndi fyrir því þegar við tróðum niður sprettuna á heimatúninu.
Í sveitinni var sameiginleg íþróttaæfing einu sinni í viku og var afi ólatur að keyra okkur þangað og þegar voru keppnisleikir í fótbolta var hann stuðningsmaður númer eitt og hafði hátt á línunni og hvatti okkur til dáða. Þá var ég á viðkvæmum árum unglingsins og fannst þessi mikli stuðningur með hrópum og köllum ekki alltaf sniðugur eða skemmtilegur, þó ég sé þakklát og gleðjist þegar ég hugsa um þetta í dag.
Þar sem ég sit hér heima og lít út um gluggann, sé ég á bílaplani nágrannans bláan Land Rover og get ég ekki varist því að brosa út í annað. Margar salibunurnar er maður búinn að fara í slíkri bifreið, þá iðulega að eltast við fé og ef féð var að sleppa þá skipti engu hvort fyrir væri þúfa eða hola, það var bara gefið í botn og við krakkanir endastungumst í aftursætinu og síðan snarstoppað og við send út að hlaupa eftir fénu eins og fætur toguðu.
Land Roverinn fékk ég líka að keyra mjög ung eða svo ung að ég ætla ekki að uppljóstra því hér.
Annars fannst afa það frekar karlmannsverk að keyra og fékk Gummi bróðir mikið meira að keyra en ég og svo lítill að hann þurfti að standa í dráttarvélinni til að sjá yfir stýrið.
Afi vildi frekar að við stelpurnar færum inn að hjálpa ömmu og gera kvenmannsverk, en þar sem hann var með svo margar kvensur í kringum sig var hann oft kveðinn í kútinn með það.
Afi fylgdist af áhuga með öllu sem ég og síðan mín fjölskylda tókum okkur fyrir hendur, stappaði í mann stálinu eða skammaði, nú í seinni tíð skammaði hann okkur fyrir eyðslusemi, að þurfa alltaf að vera að kaupa eitthvað í þessum búðum þegar maður kemur til Reykjavíkur, það væru nógir peningarnir eða að nú væri ég orðin alltof feit.
Afi var nefnilega þessi áreiðanlegi vinur sem bæði sagði manni til syndanna og var til taks þegar eitthvað bjátaði á.
Það var afi sem tilkynnti okkur Gumma að pabbi væri dáinn og það var á svipuðum tíma, fyrir 25 árum síðan, um há sauðburð.
Afa á ég svo mikið að þakka hvaða manneskja ég er í dag.
Hann kenndi mér að vera dugleg og vinnusöm, hörð af mér en samt sanngjörn, vera nýtin og ekki matvönd, að kætast og gleðjast á góðri stund, hafa húmor, taka upp hanskann fyrir minnimáttar, fylgjast með málefnum líðandi stundar, taka afstöðu, mynda mér skoðanir og standa síðan eða falla með þeim, hafa áhuga á íþróttum og lestri góðra bóka og spila, þá sérstaklega á jólum, og þetta er sko bara brot.
Elsku afi, með hjartað fullt af þakklæti yfir að hafa átt þig fyrir afa og sorg að komin sé kveðjustundin, kveð ég þig í dag og bið góðan Guð að geyma þig og varðveita og styrkja ömmu á þessum erfiðu tímum.
Minning þín er mér og minni fjölskyldu skýr og hana eigum við að eilífu.
Þín,
Sigfríður Eggertsdóttir (Siffý).