Eggert Snorri Símonsen fæddist í Reykjavík 6. maí 1943. Hann lést á Hjartadeild Landsspítalans við Hringbraut 24. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans voru Ottó W. Símonsen f. 19. september 1916, d. 22. ágúst 1979 og Emilía J. Símonsen f. 13. maí 1920, d. 7. desember 2006. Systur hans eru: 1) Guðný Kristín f. 1937, 2) Sigrún f. 1939, 3) Margrét Jóna f. 1941, 4) Þórunn Guðrún f. 1944. Þær eru búsettar í Bandaríkjunum. Eggert kvæntist 24. maí 1964 Brynju Símonsen f. 17. febrúar 1944. Hennar foreldrar eru Sigrún Árnadóttir f. 30. desember 1923 og fósturfaðir Bárður Vigfússon f. 10. apríl 1927. Eggert og Brynja eiga fjögur börn: 1) Ottó W. f. 17. september 1961, giftur Rut Guðmundsdóttur f. 1960, sonur þeirra er Andri Fannar f. 1982, eiginkona hans er Linda Heiðarsdóttir f. 1982, dóttir þeirra er Ágústa Rut f. 2007. 2) Sigrún Bára f. 27. apríl 1965, hennar börn eru: Brynja Dögg f. 1986, maki Andri Leó Egilsson f. 1983, Arnór Óli f. 1988 og Bjarki f. 1994. 3) Hafdís Linda f. 1. apríl 1967, gift Magnúsi Geir Gunnarssyni f. 1961, þau eiga þrjú börn: Eggert Aron f. 1990, Thelmu Dís f. 1993 og Magnús Geir f. 2006. Fyrir átti Magnús Söndru Björk f. 1980. 4) Þórunn Marsibil f. 4. apríl 1972 gift Böðvari Bjarka Þorvaldssyni f. 1971, þau eiga þrjú börn: Þorvald Breka f. 1996, Emilíu Katrínu f. 1999 og Guðmund Mána f. 2006. Eggert fluttist ungur að árum með fjölskyldu sinni til Stykkishólms og ólst þar upp til unglingsára. Fluttist þá fjölskyldan til Keflavíkur og síðar til Reykjavíkur n.t.t. á Lokastíg. Eggert stundaði nám í veggfóðrun og dúklagningu við Iðnskólann í Reykjavík. Meistari hans var Stefán Jónsson. Lauk hann sveinsprófi 1964 og meistaraprófi 1967 í iðn sinni. Eggert starfaði við grein sína til ársins 2000 en það ár hóf hann störf sem umsjónarmaður í Réttarholtsskóla. Útför Eggerts verður gerð frá Grafarvogskirkju miðvikudaginn 2. september kl. 13.

Eggert Snorri Simonsen er fallinn frá eftir skammvinn veikindi, það eru óvægin tíðindi sem erfitt er að átta sig á. Minningar um góðar samverustundir koma upp í hugann, ekki síst ferðirnar okkar til þeirra hjóna í sumar.

Það var ánægður hópur sem ók upp að Skarfanesi og í Lambhagaskóg í júlí þrátt fyrir sandrok í Holta- og Landsveit. Ferðin var farin með elstu kynslóðina í fjölskyldunni í tilefni af því að tuttugu ár voru liðin frá ættarmóti Skarfanesættarinnar. Eggert og Brynja þekktu vel svæðið og  voru í fararbroddi en þau hafa búið sér fallegan reit í landi Klofa og eru að byggja þar reisulegt sumarhús. Það er óskiljanlegt að nú svo skömmu seinna skuli hann svo snögglega vera allur og gott að hugsa til ánægjulegra stunda með þeim bæði fyrr og nú.

Við kynntumst Egga eins og hann var kallaður fyrir hart nær  hálfri öld þegar hann kom í fjölskylduna sem unnusti Brynju frænku minnar, fallegur, ungur maður. Frá þeim tíma er margs að minnast meðal annars ferðalaga sem við fjögur fórum í með allflest að láni til útilegunnar þar með talda bíla, þetta voru góðir tímar.

Eggi bjó yfir mörgum mannkostum, hann var drengur góður, rólegur og hlýr í viðmóti og barngóður. Þau Binna voru samhent hjón, ung fjárfestu þau í lítilli íbúð við Álfheima og þó efnin hafi ekki verið mikil í þá daga unnu þau vel úr sínu. Þau stækkuðu við sig eftir því sem börnunum fjölgaði en þau eiga fjögur börn, hóp af barnabörnum og langafabarn. Fjölskyldur barnanna eru þeim nánar og una þau vel í Lækjarhvammi með ömmu og afa. Sama er að segja um vini þeirra og aðra í stórfjölskyldunni. Það var alltaf jafn ánægjulegt að heimsækja þau hjónin hvort sem var á fallegt heimili þeirra þar sem listrænt handbragð þeirra beggja var áberandi eða í sumarbústaðinn.

Þó oft væri vík milli vina og of langur tími liði án þess við hittumst þá breyttist ekkert, alltaf voru þau jafn góð heim að sækja, gestrisin og traustir vinir. Eftir Skarfanesferðina átti að bæta úr þessu og hittast oftar en nú er skarð fyrir skildi sem ekki verður bætt.

Góður maður er genginn sem verður sárt saknað. Elsku Binna, börn og fjölskyldur og aðrir ættingjar. Við og fjölskylda okkar sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur og biðjum ykkur styrks og blessunar.

Erna M. Sveinbjarnardóttir og Jón S. Garðarsson.