Ólafía Ásbjarnardóttir, eða Lollý eins og hún var ávallt kölluð, fæddist á Kagaðarhóli í Austur-Húnavatnssýslu 28. júlí 1935. Hún lést á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði 24. október síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Ásbjörn Ólafsson stórkaupmaður, f. 23. ágúst 1903, d. 13. desember 1977, og Gunnlaug Jóhannsdóttir, f. 8. júlí 1912, d. 18. maí 1991. Lollý átti eina systur, Unni Grétu, f. 14. desember, 1937, d. 23. desember 1984. Sonur hennar er Ólafur, f. 3. júní 1959. Lollý giftist 29. september 1956 Birni Guðmundssyni, f. 24. september 1937, d. 20. júní 1996. Foreldrar hans voru þau Guðmundur Gíslason og Ásta Þórhallsdóttir. Lollý og Björn eignuðust fimm börn sem eru: 1) Ásbjörn rekstrarhagfræðingur, f. 6. júlí 1957, kvæntur Helgu Einarsdóttur hjúkrunarfræðingi. Sonur þeirra er Björn Orri. Ásbjörn á dótturina Ólafíu Bjarnheiði og Helga soninn Einar Örn. 2) Ásta Friðrika deildarstjóri, f. 28. mars 1962, sambýlismaður Svafar Magnússon útfararstjóri. Dóttir þeirra er Ylfa Guðrún. Ásta á dótturina Unni Grétu og Svafar soninn Vigni Arnar. 3) Guðmundur Karl framkvæmdastjóri, f. 9. júní 1966, sambýliskona Guðrún Svava Þrastardóttir mastersnemi. Dóttir þeirra er Þóra. Guðrún á soninn Þröst. 4) Gunnlaugur Rafn flugstjóri, f. 28. janúar 1969, sambýliskona Linda Gunnarsdóttir flugstjóri. Börn þeirra eru Birna Katrín og Húni Páll. 5) Ólafur Björn viðskiptafræðingur, f. 2. september 1971, kvæntur Lindu Björk Ingadóttur, löggiltum bókara. Börn þeirra eru Ásbjörn, Benedikta Ýr, Friðrik Ingi og Margrét Birna. Barnabarnabörnin eru tvö, þær Heiða Sigríður og Hanna Birna. Sambýlismaður Lollýjar undanfarin ár er Kristófer Kristjánsson, f. 23. janúar 1929, frá Köldukinn II í Austur-Húnavatnssýslu. Kaldakinn II var hennar annað heimili undanfarin ár þó svo að hún hafi alltaf haldið heimili sitt í Reykjavík. Lollý ólst upp í Reykjavík en dvaldist löngum í sveitinni að Kagaðarhóli á sínum uppvaxtarárum þar sem hún kunni vel við sig. Eftir grunnskólagöngu stundaði hún nám í Húsmæðraskólanum í Reykjavík. Á sínum yngri árum stundaði hún ýmiss konar störf við fyrirtæki föður síns, en þegar börnunum þeirra Björns fjölgaði, helgaði hún fjölskyldunni krafta sína. Eftir fráfall föður hennar eignuðust þau hjónin fyrirtækið Ásbjörn Ólafsson ehf. og stýrði Björn því til æviloka. Fyrirtækið hefur verið áfram í eigu Lollýjar og barna hennar og gegndi hún stöðu stjórnarformanns fyrirtækisins fram á dánardag. Útför Lollýjar fer fram frá Langholtskirkju í dag, 30. október kl. 13. Jarðsett verður í Gufuneskirkjugarði.

Nú er komið að kveðjustund og minningarnar um ömmu mína elskulegu streyma fram.

Ég var svo heppin að vera mikið hjá ömmu og afa á mínum yngri árum og mun ég búa að því alla tíð. Þá kynntist ég ömmu, þessari brosmildu, kærleiksríku, duglegu, jákvæðu, lífsglöðu og í senn, ákveðnu manneskju.

Mig langar að þakka allar þær ómetanlegu stundir sem við áttum saman, allan stuðninginn og hvatninguna sem hún hefur veitt mér í gegnum árin.

Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem.)

Hvíl þú í friði elsku amma, hetjan mín.

Þín

Ólafía (litla Lollý).

Elsku Lollý.

Það var mikil gæfa að fá að kynnast þér og vera þér samferða í lífinu. Þú yndislega kona, sem bjóst yfir þessari ótrúlegu hlýju, gleði og hjartagæsku, og með þessu þú litaðir mína æsku.

Þegar ég sit og hugsa til baka um stundir með þér kemur fyrst upp í hugann hvað það var gaman og hvað þú elskaðir að vera umvafin fólki, þú þeyttist um allt og hafðir miklar áhyggjur að allir hefðu nóg af öllu. Smitandi bros þitt ljómaði af öllum konum sem og börnum og jafnvel af léttkenndum körlum. Eftir að ég kynntist þér sá ég alltaf betur og betur hversu fallegur karakter þú varst - þú komst endalaust á óvart. Þú gerði allar samverustundir ómetanlegar með þínu hlýja hjarta og þinni einstöku nærveru.  Þegar ég hugsa um þig þá heyrir ég rödd þína óma sem sagði svo blítt sæll elskan, já elskan eða takk elskan og um leið þessi magnaði svipur sem ljómaði af þér, þessari einstöku konu sem þú varst. Þessar stundir létu mann finna eitthvað svo sérstakt.

Í kveðjuskini vill ég tileinka þér þessa litlu vísu.

Hvíl þú í frið,i elsku Lollý mín.

Farinn þú ert á æðri stað.

Fegra  munt þú lífið þar.

Minning þín í okkur lifir,

Þér ég aldrei gleymi meðan ég lifi.

Vignir Arnar Svafarsson.

Kæra Lollý, nú ertu farin yfir móðuna miklu og ég veit að það var breiður faðmur sem tók á móti þér.

Ég þakka þér fyrir þann tíma sem ég fékk að kynnast þér. Þú varst kraftmikil kona sem gustaði af og maður kom nú ekki að tómum kofanum. Húmorinn og bjartsýnin í fyrirrúmi, hvað sem á gekk. Ég veit að gatan var oft ansi erfið en það mátti engan tíma missa og varð að drífa hlutina af hvað sem á gekk.

Líf þitt og yndi var fjölskyldan og ömmubörnin og vil ég þakka þér fyrir hópinn minn sem þú áttir nú töluvert í.

Þú lætur nú gamminn geysa með bros á vör. Þín er sárt saknað.

Ásgeir Rafn.