Þórður Viðar Viðarsson fæddist í Reykjavík 26. júlí 1957. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans v/Hringbraut 28. maí síðastliðinn. Foreldrar hans eru Viðar Þórðarson, f. 28. febrúar 1931 og Erla Gestsdóttir, f. 11. janúar 1934. Bróðir Þórðar er Birgir, f. 14. maí 1962, kvæntur Svölu Erlendsdóttur. Börn þeirra eru Andri Már og Bjarni Valur. Systir Þórðar samfeðra er Guðrún Ruth, f. 29. október 1950. Börn hennar eru Björn Ingi, Elísa Guðrún, Þórður, Halla Rut og Silja Björg. Þórður kvæntist 22. október 1983 Sigurlínu Ellertsdóttur, f. 16. nóvember 1957. Börn þeirra eru Viðar, f. 12. júlí 1983, Elísa Hildur, f. 15. nóvember 1986 og Arnar, f. 12. maí 1993 Þórður fæddist í Reykjavík og átti heima á Njörvasundi. Hann bjó þar til 11 ára aldurs en þá flutti hann til Hafnarfjarðar á Svöluhraun 8, árið 1968. Hann bjó í foreldrahúsum þar til hann stofanði sitt eigið heimili. Hann gekk í Langholtskóla er hann bjó á Njörvasundinu en þegar hann fluttist í Hafnarfjörðinn gekk hann í Lækjaskólann. Síðar útskrifaðist hann úr Flensborgarskólanum árið 1977 og sem líffræðingur úr Háskóla Íslands árið 1981. Á sínum yngri árum vann Þórður hjá Hval hf. í nokkur sumur. Árið 1982 hóf hann störf hjá Hafrannsóknarstofnun og vann hann þar fullt starf þar til hann veiktist í júlí árið 2005. Eftir að hann veiktist vann hann eftir getu á Hafró. Þórður hafði mikinn áhuga á skógrækt og allri útvist og hafði hann mikla ánægju af ferðalögum bæði innan lands sem utan. Útför Þórðar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 9. júní og hefst athöfnin kl. 15.

Fregn af andláti Þórðar var ekki óvænt. Baráttan var löng og erfið. Þegar ég heyrði að hann væri aftur komin inn á sjúkrahús eftir að hafa náð sér að nokkru leyti um sumarið, þá varð mér ljóst að bati yrði ekki í bráð. Maður vonaði þó alltaf að hann fengi meiri tíma.

Kynni okkar Þórðar hófust þegar við vorum nýfluttir til Hafnarfjarðar. Ég kom frá Siglufirði en hann úr Reykjavík. Haustið 1968 lentum við í sama bekk í Lækjarskóla sem Guðmundur G. Þórarinsson kenndi. Guðmundur lagði áherslu á ritgerðir og las upp þær sem honum þótti bera af. Þegar hann einn daginn las upp ritgerð eftir Þórð, komst ég að því að Þórður ætti páfagauk. Ég hafði aldrei séð páfagauk og spurði Þórð hvort ég mætti sjá fuglinn. Þetta var upphaf vináttu okkar sem staðið hefur í 40 ár.

Á þessum árum var Hafnarfjörður í örum vexti. Umhverfi bæjarins heillaði og fljótlega voru gerðir mikir leiðangrar út í hraunið þar sem hellar voru kannaðir inn í þrengstu afkima. Fyrst var farið á hjólum, en að loknu bílprófi var farið lengra og þekkingin aukin. Ég er viss um að á þessum árum styrktist áhugi Þórðar á náttúruvísindum sem hann ákvað að gera að ævistarfi.

Þórður var yfirlætislaus og hæglátur. Hann var ekki mikið fyrir að tjá sig í margmenni, en það stóð ekki á því í þrengri hóp og langvinnt spjall okkar í síma pirraði stundum foreldrana. Hann var mjög nákvæmur í því sem hann gerði og við félagarnir dáðumst að því þegar honum tókst að lagafæra villur í vélritunarverkefni með rakvélablaði, en við hinir urðum að endirrita allt til geta skilað villulaust.

Við fylgdumst að í okkar skólagöngu fram að stúdentsprófi. Úr Lækjarskóla fórum við í landsprófsbekk í Flensborgarskóla og lukum síðan stúdentprófi þaðan fjórum árum síðar. Þórður var afburða námsmaður og var meðal þeirra hæstu í árgangnum í einkunum. Bíóáhugi bættist við áhugamálin og enn minnist maður ferða til Reykjavíkur þar sem ekið var í loftköstum eftir gamla Hafnarfjarðaveginum, þegar ákveðið var á síðustu stundu að skreppa í bíó.

Minningar um menntaskólaárin vekja alltaf ánægju og á útskriftarafmælum hefur alltaf verið stuð og stemming. Við undirbúning á útskriftarferð árgangsins til Spánar, sem ætlunin var að fara sumarið 1976, fréttum við Þórður um ódýran ferðamögleika með lestum, sem byggðist á afsláttarkorti til fólks yngri en 23 ára. Þetta heillaði okkur gríðarlega þar sem mögulegt var að ferðast til marga landa í stað þess að dvelja á sama hóteli á sólarströnd allan tímann. Þess ber að geta að 1976 voru ferðir til útlanda ekki orðnar eins algengar og þær eru í dag. Þrátt fyrir 18 ára aldur hafði Þórður aðeins farið einu sinni erlendis með foreldrunum, en ég aldrei.

Við létum slag standa og lögðum upp í mánaðarferð í ágúst 1976. Sú ferð varð mikið ævintýri.Trúlega höfum við verið heimóttarlegir í lestunum, með harðfisk í nesti, en járnbrautarlestir höfðum við hvorugur séð áður, nema á mynd. Við lögðum hart að okkur í þýskunámi um veturinn sem skilaði sér þegar leiðin lá yfir Vestur- Þýskaland, Swiss og Austurríkis. Betri ferðafélaga en Þórð var ekki hægt að hugsa sér á þessu ferðalagi.

Við lentum í mörgum uppákomum, oftast spaugilegum, sem við höfum löngum skemmt okkur við að rifja upp. Í verslun í Koblenz komst Þórður að því að niðursoðnir ávextir í dósum voru á afar hagstæðu verði. Ég var lítt uppnæmur fyrir þessum kjarakaupum þar sem ég ætlaði mér ekki að dragnast með niðursuðudósir það sem eftir væri dagsins. En Þórður lét það sem vind um eyru þjóta. Þegar við vorum komnir út úr verslunni sá ég að Þórður hafði keypt nokkrar dósir og bar í plastpoka. Þegar líða tók á daginn fór hann að þreytast á burðinum og kom þeim þá fyrir undir runna í lystigarði. Seinna um kvöldið slóumst við í för með fólki frá farfuglaheimilinu niður í bæ þar sem mikil hátíðahöld fóru fram með tilheyrandi fjöri og flugeldasýningu. Eftir mikið djamm, þar sem talsvert magn hvítvíns hafði verið drukkið í skemmtilegum félagskap, hélt hópurinn aftur upp á farfuglaheimilið í niðarmyrkri. Einhvers staðar á miðri leið skaust Þórður út í myrkrið. Ég mun seint gleyma svip samferðafólksins þegar Þórður birtist á ný, hreykinn með fangið fullt af niðursuðudósum.

Fjórum árum síðar endurtókum við þetta. Við vorum báðir í námi við Háskóla Íslands og ég fór um sumarið sem skiptinemi á vegum Viðskiptadeildar til Noregs. Við hittumst í ágúst á Kastrupflugvelli með bakpokana og lögðum af stað á ný. Nú var áherslan önnur. Við stefndum á Tékkóslóvakíu með það fyrir augum að skoða Prag. Á þessum árum var langt í að múrinn félli, strangt eftirlit var með öllu og landamæragæsla mikil. Við höfðum vegabréfsáritun og fórum að landamærunum við Linz í Austurríki. Á móti okkur tók vel vopnaður herflokkur og fylgdi okkur tveimur yfir landamærin ásamt einum þjóðverja. Þórður var með vegabréf frá þeim tíma sem hann var með hár niður á herðar og létu hermennirnar sem hann hefði tekið vegabréf systur sinnar í misgripum og stríddu honum mikið.

Í Prag tókst okkur með lagni og mútum að fá gistingu og við tóku dagar þar sem nógu flottir og dýrir veitingarstaði voru leitaði uppi, skemmtilegar krár og dansstaðir. Gjaldmiðlinn var ódýr og við gátum lifað eins og kóngar. Dvölin í Prag var mikið fjör en brottförin frá Tékkóslóvakíu var ekki síður eftirminnileg en koman þangað. Lestin var stöðvuð á meðan vopnaðir hermenn leituðu að flóttamönnum með hundum og vasaljósum. Þórður stóð við lestargluggann og fylgdist náið með öllum atganginum. Það fór ekki framhjá honum að hvað var að gerast á bak við hálfluktar dyr á brautarstöðinn og benti hann mér glottandi á það sem fram fór. Þetta sá hermaður á brautarpallinum, sem kallaði á félaga sinn og þustu þeir báðir að hurðinni með rifla í hönd og rifu hana upp. Þar var yfirmaður þeirra í nánum atlotum við stúlku og lét ókvæðisorðin dynja á þeim sem trufluðu. Við Þórður fengum illilegar augnagotur frá hermönnunum.

Þessi ferð, eins og sú fyrri, var alltof fljótt á enda og þótt síðar hafi við báðir ferðast víða, eru þær ennþá hápunkturinn.

Þórður var fyrstur af okkar félögum til að festa ráð sitt og eignast börn. Við hinir vorum nokkuð lengur að komast í þessa stöðu og sumir all lengur. Vinna, aukið nám, dvöl í öðrum löndum urðu til þessa að kunningjahópurinn hittist sjaldnar en ella, en þegar við komum saman var eins og stutt stund hafi liðið frá því síðast. Að hitta Þórð, jafnvel eftir langan tíma var alltaf eins og maður hafði kvatt hann daginn áður. Ég er þakklátur fyrir að hafa þekkt hann og að hafa haft færi á að rifja upp okkar samveru með honum á þeim tíma sem hann barðist við sín veikindi.

Fjölskyldu Þórðar, eiginkonu hans Línu og börnum þeirra, Arnari, Elísu og Viðari votta ég mína dýpstu samúð. Mér er líka sérstaklega hugsað til foreldra Þórðar, Viðars og Erlu, sem nú þurfa að horfa á eftir syni sínum. Ég veit líka að þar tala ég fyrir hönd okkar félaga Þórðar, Ásbjörns, Bergs, Eiríks, Guðna og Þórðar Bjarna sem allir hafa haldið hópinn frá menntskólaárunum.

Hlynur J Arndal.

Þórður Viðarsson, líffræðingur og starfsmaður Hafrannsóknastofnunarinnar til margra ára lést þann 28. maí s.l., langt um aldur fram. Lát Þórðar var okkur samstarfsfólki hans mikil sorgarfregn, því þrátt fyrir löng og erfið veikindi héldum við í vonina að hann hefði betur í sjúkdómsbaráttu sinni. Þórður veiktist alvarlega fyrir fjórum árum síðan og var æðruleysi hans í glímunni við erfið veikindi aðdáunarverð, sem m.a. lýsti sér í því að í hvert skipti sem hann virtist vera á bataleið var hann mættur til starfa, þótt fráleitt væri hann hraustur.

Þórður hóf störf hjá Hafrannsóknastofnuninni árið 1982, þá nýútskrifaður líffræðingur. Lengst af vann hann sem rannsóknamaður á nytjastofnasviði við ýmis störf á sjó og í landi. Í rúma tvo áratugi vann hann við aldursgreiningar á nytjafiskum og var okkar reyndasti aldurslesari þorskfiska, en aldursákvörðun er ein af undirstöðum ákvörðunar stofnstærðar nytjastofna. Samfella í aldurslestri er grundvallaratriði og svo vel vildi til að Þórður náði að kynnast vinnubrögðum þeirra Ingimars Óskarssonar og Jóns Bogasonar, einkum þess síðarnefnda, en þeir aldurslásu þorskkvarnir um áratugaskeið síðari hluta síðustu aldar. Framlag Þórðar í þessum efnum var því ómetanlegt þó ekki hafi farið hátt og miðlaði hann m.a. reynslu sinni og tryggði samfelluna með þjálfun marga nýrra starfsmanna á undanförnum árum. Þórður stjórnaði einnig sýnatöku úr lönduðum afla á suðvesturhorninu og annaðist það af kunnri nákvæmni og samviskusemi.

Margir starfsmenn Hafrannsóknastofnunarinnar unnu með og kynntust Þórði Viðarssyni á löngum og farsælum starfsferli hans. Hans er nú sárt saknað á stórum vinnustað. Undirritaður talar án efa fyrir munn allra samstarfsmanna Þórðar, þegar hann með þessum línum sendir eiginkonu Þórðar, börnum, foreldrum, systkinum og öðrum ástvinum innilegustu samúðarkveðjur við fráfall hans. Við munum minnast Þórðar sem drengskaparmanns og trausts félaga og erum þakklát fyrir áralöng viðkynni og samveru.


Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar.

Við Þórður kynntumst haustið 1968 í Lækjarskóla, báðir nýfluttir til Hafnarfjarðar.

Umhverfi bæjarins heillaði og við fórum út í hraunið í hellakönnun. Ég er viss um að á þessum árum styrktist áhugi Þórðar á náttúruvísindum sem hann gerði að ævistarfi. Bíóáhugi var líka mikill og oft ekið í loftköstum eftir gamla Hafnarfjarðaveginum, þegar ákveðið var á síðustu stundu að skreppa í bíó.

Þórður var yfirlætislaus og hæglátur. Hann var mjög vandvirkur og við félagarnir dáðumst að því þegar honum tókst að lagafæra villur í vélritunarverkefnum með rakvélablaði, en við hinir urðum að endirrita allt. Við fylgdumst að í námi fram að stúdentsprófi.

Í ágúst 1976 lögðum við tveir upp í mánaðarferð um Evrópu með lestum. Sú ferð var ævintýri. Betri ferðafélaga en Þórð var ekki hægt að hugsa sér.

Við lentum í mörgu spaugilegu. Í verslun í Koblenz fann Þórður ódýra ávexti í dósum. Ég var lítt hrifinn og ætlaði mér ekki að dragnast með dósir það sem eftir væri dagsins. Þórður lét það sem vind um eyru þjóta. Þegar við vorum komnir út hafði Þórður keypt dósirnar og bar í plastpoka. Fljótt leiddist honum burðurinn og þá faldi hann þær undir runna. Um kvöldið fórum við með fólki frá farfuglaheimilinu niður í bæ til að skemmta okkur. Eftir talsverða hvítvínsdrykkju, hélt hópurinn aftur upp á farfuglaheimilið í myrkrinu. Á miðri leið skaust Þórður út í myrkrið. Ég mun seint gleyma furðusvip samferðafólksins þegar Þórður birtist á ný með fangið fullt af niðursuðudósum.

1980 fórum við aðra slíka ferð. Við hittumst á Kastrup og stefndum til Prag. Kalda stríðið stóð ennþá, strangt eftirlit var með öllu og landamæragæsla mikil. Á landsmærunum við Linz í Austurríki tók vopnaður herflokkur á móti okkur og fylgdi okkur yfir ásamt einum þjóðverja. Þórður var með sítt hár á vegabréfsmyndinni og létu hermennirnar sem hann hefði óvart tekið vegabréf systur sinnar og stríddu honum mikið.

Í Prag voru flottir veitingarstaði leitaðir uppi, skemmtilegar krár og dansstaðir. Gjaldmiðillinn var ódýr og við lifðum kóngalífi. Brottförin frá Tékkóslóvakíu var eftirminnileg. Lestin var stöðvuð á meðan vopnaðir hermenn leituðu að flóttamönnum með hundum og vasaljósum. Þetta var eins og að vera inni í miðri James Bond mynd.

Þórður var fyrstur af okkur til að festa ráð sitt og eignast börn. Vinna, aukið nám, dvöl í öðrum löndum urðu til þessa að kunningjahópurinn hittist sjaldnar, en þegar við komum saman var eins og stutt stund hafi liðið frá því síðast. Að hitta Þórð, var alltaf eins og maður hafði sést daginn áður. Ég er þakklátur fyrir að hafa haft færi á að rifja upp fyrri tíma með honum á meðan hann lá á spítala.

Fjölskyldu Þórðar, eiginkonu hans Línu og börnum þeirra, Arnari, Elísu og Viðari votta ég mína dýpstu samúð. Mér er einnig sérstaklega hugsað til foreldra Þórðar, Viðars og Erlu, sem nú þurfa að horfa á eftir syni sínum. Ég veit að þar tala ég fyrir hönd okkar félaga Þórðar, Ásbjörns, Bergs, Eiríks, Guðna og Þórðar Bjarna.

Hlynur J. Arndal.