Æviágrip Sigurðar Þorleifssonar frá Karlsstöðum. Sigurður Þorleifsson fæddist 18. nóvember 1930 að Fossgerði í Beruneshreppi og lést þann 5. apríl 2009 að heimili sínu Boðahlein 22 í Garðabæ. Sigurður var sonur hjónanna Þorleifs Hildibjarts Sigurðssonar frá Fossgerði og Stefaníu Þorvaldsdóttur frá Karlsstöðum í sama hreppi og í miðið af þremur systkinum. Systur hans tvær eru, Þorgerður 2 árum eldri og Ragnhildur 13 árum yngri. Sigurður sem ólst upp í foreldrahúsum sínum fór um leið og hann hafði aldur til að taka þátt í þeirri vinnu, sem til féll á hefðbundnu sveitaheimili þess tíma. Hann hleypti síðan heimdraganum um 17 ára aldur, réði sig á síldarbát um tíma en fór svo á námskeið í vélstjórnarfræði. Eftir það var til sjós um tíma, í Vestmannaeyjum og víðar, en endaði sína sjómennsku á bátnum Goðaborg frá Breiðdalsvík. Meðan hann var á Breiðdalsvík kynntist hann konuefninu sínu Kristbjörgu Sigurðardóttur frá Arnarhvoli á Breiðdalsvík og saman fluttu þau á Berufjarðarströnd haustið 1950. Þau giftu sig í júní 1951 og bjuggu á Karlsstöðum í samtals 55 ár. Dætur þeirra eru sex. Stefanía Mekkín, gift Sveini Elíssyni. Þau eiga 2 börn Sigurð Snorra og Elínu Gerði Sigríður Arnleif, gift Kára Húnfjörð Bessasyni. Þau eiga 2 dætur, Sólrúnu Húnfjörð og Eyrúnu Húnfjörð. Sólveig Þórhildur, fráskilin. Hún á 2 börn, Kristbjörgu Hólmfríði og Kristin Snorra. Sigrún Guðleif, gift Ólafi Ásgeirssyni. Þau eiga 3 börn, Guðrúnu Lovísu, Ásgeir og Sigurð. Siggerður Ólöf, fráskilin. Hún á 2 börn Guðmund Sigurð og Rósu Jóna Kristín, gift Þór Jónssyni. Þau eiga 2 syni, Sigurjón og Kristján Snæ. Fyrir átti Kristbjörg soninn Sigurð Arnþór (látinn) hann var giftur Sigríði Jónu Garðarsdóttur. Þeirra synir eru Garðar Guðmundur og Arnar. Fjölskyldan hefur síðan stækkað nokkuð, en á sl. 11 árum hafa bæst við 11 barnabörn. Samhliða hefðbundum búskap með sauðfé og kýr annaðist Sigurður ýmis trúnaðarstörf fyrir sveitarfélagið, m.a. var hann oddviti Beruneshrepps í nokkur ár og vitavörður í rúmlega 50 ár. Þá reri hann til fiskjar í nokkur vor í samvinnu við bændurna á Krossi og var um tíma í brúarvinnu á sumrin bæði hjá mági sínum Eiríki Jónasi Gíslasyni og Hauki Karlssyni Þau hjónin brugðu búi haustið 2005 vegna vaxandi heilsuleysis og fluttu á Stór-Reykjavíkursvæðið, þar sem þau bjuggu fyrstu mánuðina í skjóli dóttur sinnar Sólveigar Þórhildar. Síðustu árin bjuggu þau saman að Boðahlein 22 í Garðabæ.

Hin langa þraut er liðin,

nú loksins hlaustu friðinn,

og allt er orðið rótt,

nú sæll er sigur unninn,

og sólin björt upp runnin

á bak við dimma dauðans nótt.

Elsku hjartans pabbi minn, nú er þinni miklu þraut lokið og þú kominn til mömmu á ný eins og þú þráðir. Mér brá mikið þegar að Solla systir hrindi og tilkynnti mér að þú værir látinn. Mamma nýfarin og nú þú líka. Ég er samt svo þakklát fyrir að þú fékkst hvíld frá þessu lífi, eins og þú þráðir, því þegar mamma dó þá dó þín lífsgleði líka. Þið mamma voruð búin að vera saman í 59 ár, sem er langur tími. Ég sakna ykkar beggja mjög mikið, og nú er búið að höggva stórt skarð í mína fjölskyldu, því við vorum öll ætíð svo náin.

Þó eru minningarnar svo margar og góðar því saman upplifðum við bæði mikla gleði en líka sorg. Sú vika sem við áttum saman nú síðast í kringum útför mömmu var yndisleg. Þú varst svo góður og hlýr við mig og skildir svo vel hvað ég sakna mömmu mikið, faðmlag þitt þegar þú kvaddir mig þegar við vorum að fara aftur austur fylgir mér alla tíð. Það var svo mikil ást og hlýja í því. Ég veit elsku pabbi minn að þér þótti vænt um okkur Þór og drengina okkar, sem og Kareni.

Þó við værum ekki alltaf sammála í lífinu þá vorum við búin að fyrirgefa hvoru öðru fyrir löngu síðan, því þegar maður elskar einhvern þá er svo auðvelt að fyrirgefa þó okkur verði á. Að alast upp hjá ykkur mömmu var góður tími, og þó ég flytti snemma að heiman, þá héldum við ávallt mjög nánu sambandi. Því miður fækkaði stundunum okkar saman eftir að þið mamma fluttuð í Garðabæinn, en við notuðum símann mikið og töluðumst við á hverjum degi ef við gátum. Þau eru ekki mörg aðfangadagskvöldin sem við eyddum ekki saman, þar af vorum við 2 jól hjá ykkur fyrir sunnan. Það var ósk ykkar beggja að ég yrði heima hjá mér á síðustu jólum, og gerði ég það, en jafnframt græt ég það nú að hafa ekki átt tíma með ykkur. Nú kemur aldrei meir fram á númerabirtinum nafnið mamma þegar síminn hringir, en það kom alltaf upp þegar þið hringduð.

En góðu minningarnar lifa, eins og öll ferðalögin okkar saman, sumarbústaðaferðirnar, fermingar, brúðkaupsdagurinn minn, afmæli, öll jólin og áramótin, sem og fjöldi annarra góðra stunda.

Þú elskaðir Þór manninn minn og drengina okkar óendanlega mikið, og mikið voruð þið Þór búnir að vinna saman á Karlsstöðum, eins hjálpaðir þú okkur Þór að byggja húsið okkar.

Það besta sem ég gat gefið þér í jólagjöf síðustu árin voru grínbækur eins og 101 vestfirsk þjóðsaga og aðrar álíka bækur, og varstu þá fljótur að leyfa mér að heyra þegar að þú last góðan brandara eða góða sögu.

Elsku pabbi minn, Guð geymi þig og varðveiti, og mikið verður yndislegt að hitta ykkur mömmu og Adda bróður á nýjum stað seinna. Hjartans þakkir fyrir að vera pabbi minn, ég bið að heilsa mömmu og Adda. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Hvíldu í friði og Guð veiti þér sálarró og frið.

Þín dóttir,

Jóna Kristín Sigurðardóttir.

Það var gott að eiga þig að, Sigurður, hvort sem tengdaföður eða sem vin, alltaf tilbúinn að hjálpa og kenna og taka þátt í öllu sem maður var að brasa við. Allt frá okkar fyrstu kynnum höfum við átt með öllu átakalaus samskipti og borið gagnkvæma virðingu fyrir hvorum öðrum.

Þegar ég sem ungur maður fór að eltast við litlu stelpuna þína, hana Jónu, þá var minn maður svolítið kvíðinn viðbrögðum þínum, en að ástæðulausu, því alla tíð hef ég verið meira en velkominn á heimili ykkar hjóna og verið sem sonur og notið þess að vera undir verndarvæng ykkar og nánast ofdekraður af umhyggju og ást. Þá var gott að geta skilið stressið eftir og skutlast fyrir fjörðinn til að slappa af í sveitinni við leik eða störf sem fyrir lágu, og mikið varst þú alltaf þakklátur ef ég gat aðstoðað þig við eitthvað sem ég hafði lag á.

Þegar heilsan þín fór að gefa sig þá var notalegt að finna að það væri treyst á að ég gæti reddað því sem þú réðst ekki við, en ekki var það tekið sem sjálfsagt, heldur var það ávallt launað á einn eða annan hátt, og ekki við öðru komið. Þær eru margar bækurnar sem þú varst búinn að lauma með öðru í bílinn þegar farið var heim eftir veru í sveitinni.

Eftir að þið fluttuð suður, þá breyttist margt, ekki bara hjá ykkur heldur líka hjá okkur heima á Djúpavogi, við höfðum ekki lengur það athvarf sem Karlsstaðir voru okkur Jónu og drengjunum, sem nutu þess allt frá fæðingu að vera hjá ykkur í sveitinni og þurfti stundum að hafa fyrir að fá þá heim aftur. Eins var það oft með mann sjálfan, því mikið leið mér vel hjá ykkur í sveitinni, alltaf nóg af öllu, og með mínum áhuga á náttúrunni, þá var allt þar til staðar sem hún bauð.

En nú kveð ég þig, sem átti stóran part í mér og minni litlu fjölskyldu, alveg eins og við áttum örugglega í þér, því ekki varstu að leyna þeim hug sem þú barst till mín sem og okkar allra, og verð ég ætíð þakklátur fyrir það. Fáir þú að hvílast í náð og friði, elsku vinurinn minn.

Þór Jónsson.

Elsku besti afi. Við kveðjum þig nú með miklum söknuði, en þrátt fyrir allt með miklu þakklæti fyrir að hafa haft þig að. Þú varst ávallt svo góður við okkur barnabörnin og okkur leiddist það sannarlega ekki að vera gimsteinarnir í þínum augum. Þú áttir mjög auðvelt með að stytta okkur bræðrum stundir, hvort sem það var við að aðstoða þig á Karlsstöðum eða skreppa með þér í ferðir í næstu byggðir. Alltaf gerðuð þið amma ykkar besta við að stjana við okkur bræður, og munum við aldrei gleyma Macintosh dósunum góðu sem þú varst óþrjótandi að deila með okkur af alla tíð.

Alla tíð hefurðu haft gaman að bókum, sögum og vísum, og sérstakt dálæti hafðirðu af gamanvísum og sögum, og hélstu þar mest upp á 101 vestfirska þjóðsögu með þær komu út. Þú varst ávallt svo fróður og fróðleiksfús, og var bókasafnið þitt ekki langt frá því að nálgast 10 þús. bækur. Einnig hafðirðu gaman að því að rökræða um stjórnmál og tókstu á tímabili þátt í störfum á þeim vettvangi og átt marga kunningja í gegnum það.

Þú hafðir nóga starfa í gegnum tíðina, fyrir utan bústörfin tókstu að þér m.a. störf í sjómennsku, brúarsmíði, vegagerð, síldarvinnslu, skólaakstri, vitavörslu, og síðast en ekki síst í hreppsnefnd gamla Beruneshrepps sem oddviti og í fyrstu sveitarstjórn nýja Djúpavogshrepps. Þá tókstu líka að þér að aðstoða langömmu við búskapinn í Fossgerði í tæp 20 ár eftir að Þorleifur langafi dó. Í þau 55 ár sem þið amma bjugguð á Karlsstöðum byggðuð þið býlið upp: ræktuðuð um 20 ha lands, keyptu góð tæki til bústarfanna, byggðuð við gamla íbúðarhúsið og reistuð mun síðar það nýja, byggðuð tvenn fjárhús og hlöður, og síðast reistuð þið nýrra fjósið. Þegar best lét fyrir rúmum 2 áratugum bjugguð þið með stóran og mikinn fjárbúskap, um 10 kýr og nokkuð af hænum. Vel af sér vikið hjá ykkur!

En þegar líða fór að aldamótunum fóru hlutirnir að síga á verri hliðina fyrir ykkur. Þú fékkst heilablóðfall sem þú náðir þér aldrei alveg af og amma veikist alvarlega upp úr aldamótunum. Eftir því sem að veikindi ömmu ágerðust kom að því að þið þurftuð að taka mjög sársaukafulla ákvörðun, sem var að bregða búi eftir 55 ára búskap á Karlsstöðum og flytja suður á höfuðborgarsvæðið, til að amma gæti leitað sér aðstoðar. Greinilegt var þó að þið söknuðuð ávallt sveitarinnar og bústarfanna meðan þið voruð fyrir sunnan. En svo komu þeir dagar sem óumflýjanlegir voru; eftir langvinn veikindi deyr amma núna í janúar. Þú gekkst í gegnum mikla sálarkvöl að missa ömmu eftir rúmlega 57 ára hjónaband, og veröldin hrundi fyrir augunum á þér, og aðeins tæplega 3 mánuðum eftir andlát ömmu hefur þú nú kvatt okkur hinsta sinni og ert lagður af stað í ferðalag til endurfunda við ömmu.

Elsku afi okkar. Við vonum innilega að leiðir þín og ömmu muni liggja saman að nýju í eilífðinni og að þið munið lifa hamingjusöm saman inn í eilífðina. Við erum mjög þakklátir fyrir þá tvo áratugi sem við fengum með ykkur hérna megin við móðuna, og við munum ávallt minnast ykkar með hlýhug og þökkum fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Ekki aðeins að þið voruð okkur bræðrum góð, heldur einnig mömmu og pabba, sem og Karen þegar hún kom inn í fjölskylduna fyrir tæpum 3 árum. Karen biður að heilsa eins og ávallt.

Vonandi hittumst við aftur hinum megin þegar kvölda tekur í lífi okkar.

Sigurjón og Kristján Snær Þórssynir.

Mig langar til að minnast kærra vina, hjónanna Kristbjargar Sigurðardóttur og Sigurðar Þorleifssonar frá Karlsstöðum á Berufjarðarströnd með nokkrum orðum. Það varð stutt á milli þeirra, Kristbjörg lést 16. janúar sl. en Sigurður 5. apríl.

Kristbjörg var einstök kona, hjartahlý og vildi allt fyrir alla gera. Og hún kvartaði aldrei, þótt erfiðleikar steðjuðu að, en sárt var að fylgjast með erfiðum veikindum hennar síðustu árin. Sigurður var vinur vina sinna, en ekki allra, með ríka réttlætiskennd og gerði kröfur til annarra, en fyrst og fremst til sjálfs sín. Þau hjón voru bændur af gamla skólanum, í þeirra orða bestu merkingu, búskapurinn átti hug þeirra allan og þau báru mikla umhyggju fyrir dýrunum sínum. Á Karlsstöðum var öll umgengni til fyrirmyndar, snyrtimennska sem eftir var tekið, alltaf allt í röð og reglu og öllu vel við haldið. Hvort sem það voru gripahúsin eða gamli bærinn, og við nýja bæinn var fallegur garður sem Kristbjörg sinnti af einstakri natni.

Ég kom oft til þeirra í Karlsstaði í nærri 30 ár, allt þar til þau brugðu búi og fluttu á Reykjavíkursvæðið, aðallega vegna veikinda Kristbjargar.

Á árum áður, var mikið leitað til Kristbjargar til að hjálpa kúm og kindum sem áttu í burðarerfiðleikum. Alltaf brást hún vel við, hvernig sem á stóð og víst er að hún bjargaði mörgum dýrum um dagana. Sigurður var lengi oddviti Beruneshrepps, allt til ársins 1992 þegar þrír hreppar sameinuðust í Djúpavogshreppi. Víst er að í því starfi nutu nákvæmni og heiðarleiki Sigurðar sín vel, hann var varla í rónni fyrr en allir reikningar höfðu verið greiddir, eins fljótt og nokkur kostur var.

Eftir að kúm eða kindum sem eitthvað amaði að hafði verið sinnt, var það fastur liður að tylla sér í eldhúsið, þiggja veitingar og spjalla við þau hjón um heima og geima. Þessar heimsóknir voru mér mikils virði og vinátta þeirra og velvilji í minn garð verða ekki fullþökkuð.

Það hefur eflaust verið sársaukafull ákvörðun fyrir þau Karlsstaðahjón að bregða búi upp úr aldamótunum síðustu, en veikindi Kristbjargar ágerðust og blóðtappi í heila sem Sigurður varð fyrir gerðu þá ákvörðun óumflýjanlega. Það var erfið stund þegar þau fluttu frá Karlsstöðum, en mikið þótti mér vænt um að þau skyldu gera sér ferð til mín til að kveðja. Sú kveðjustund verður mér ávallt í minni, því þá sá ég þessa góðu vini í síðasta skipti. Blessuð sé minning þeirra. Ég sendi afkomendum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Hákon Hansson.