Ingibjörg Sigurðardóttir fæddist að Króki í Skagahreppi, Austur-Húnavatnssýslu hinn 17. ágúst 1925. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Garðvangi í Garði hinn 17. júlí s.l. Foreldrar hennar voru Guðrún Oddsdóttir, f. 18.10.1903, d. 2.05.1976 og Sigurður Óli Sigurðsson, f. 2.01.1877, d. 8.05.1946. Ingibjörg átti 13 systkini, eina alsystur, Árnínu Jenný f. 1927. Sammæðra voru Sigrún Pálína Húnfjörð f. 1924 d. 1953, Ólafur Ingimar Ögmundsson f. 1931, Jóhanna Sveinlaug Ögmundsdóttir f. 1932, María Guðrún Ögmundsdóttir f. 1935, Lundfríður Sigríður Ögmundsdóttir f. 1937, Oddbjörg Ögmundsdóttir f. 1939, Ragnheiður Ögmundsdóttir f. 1944. Samfeðra voru Valdimar Sigurðsson f. 1898 d. 1970, Magnína Sigríður Sigurðarsdóttir f. 1901 d. 1901, Karítas Sigurðardóttir f. 1905 d. 1924, Jóhannes Sigurðsson f. 1908 d. 1984, Kristín Sigurðardóttir f.1912 d. 2009. Ingibjörg giftist hinn 30.11.1946 Óskari Júlíussyni, bifreiðastjóra f. 19.04.1909 d. 5.12.1990. Ingbjörg og Óskar eignuðust tvö börn. 1) Magnea Ósk f. 7.05.1949 maki hennar er Friðþjófur Valgeir Óskarsson f. 19.04.1944 og 2) Jóhann Grétar f. 19.10.1947 maki hans er Katrín Óskarsson f. 29.04.1965. Samtals áttu Ingibjörg og Óskar 13 barnabörn og 16 barnabarnabörn. Ingibjörg og Óskar tóku í fóstur bræðurna Óskar Guðjón f. 3.06.1966 og Gissur Hans f. 3.12.1971 og reyndust þau þeim bræðum vel í hvívetna. Foreldrar Ingibjargar skildu þegar hún var fjögurra ára að aldri og ólst hún upp hjá Jóhanni Helgasyni og Margréti Ferdinandsdóttur. Ingibjörg missti fóstra sinn sex ára gömul og voru fóstra hennar og hún einar í heimili. Barnaskóla sótti Ingibjörg á Kálfshamarsvík og tók þaðan fullnaðarpróf. Hún vann við kaupavinnu á sumrin, fyrst í Víkum, þá fjórtán ára gömul og síðan þrjú sumur á Syðra-Mallandi. Þrjú sumur vann hún við að hreinsa dún. Tvö sumur var hún á Ásbúðum hjá Ásmundi Árnasyni og konu hans Steinunni Sveinsdóttur. Ingibjörg flutti í Sandgerðis rúmlega tvítug að aldri og gerðist ráðskona ekkjumanns og fékk samastað bæði fyrir sig og fóstru sína. Þessi ekkjumaður hét Óskar Júlíusson sem varð síðar eiginmaður Ingibjargar. Fóstra hennar bjó hjá þeim hjónum allt þar til hún lést 95 ára að aldri. Ingibjörg var mjög afkastamikil skáldkona sem hóf skrif sín rétt um tvítugsaldurinn og skilur hún eftir sig mikla arfleið í íslenskri bókmenntasögu, yfir þrjátíu útgefnar bækur, hljóðbækur og ljóðabók ásamt ótöldu óútgefnu efni. Fyrsta sagan hennar Bylgjur birtist í Hinu Nýja Kvennablaði árið 1956. Eins skrifaði Ingibjörg mjög vinsælar framhaldssögur í hinu þjóðlega heimilisriti Heima er bezt. Ingibjörg var síðast til heimilis í Miðhúsum, Suðurgötu 17 áður en hún fluttist á hjúkrunarheimilið Garðvang, Garði árið 2006. Vilja aðstandendur sérstaklega þakka starfsfólki Garðvangs og Miðhúsa fyrir góða umönnun, hlýju og umhyggju í hennar garð. Útför Ingibjargar fer fram í Safnaðarheimilinu í Sandgerði í dag, kl. 14:00. Ingibjörg verður jarðsett samdægurs á hennar æskuslóðum á Skagaströnd, í Hofskirkjugarði.

Kveðja til ömmu.

Ég kveð þig mín kæra amma
kvöl nístir hjarta mitt nú
Í raun varst þú líka mín mamma
minn vinur og skjól varst þú

Þitt líf ávallt helgað var hinum
sem aðhlynning þurftu að fá
þú varst alltaf umvafin vinum
sem vildu þig hitta og sjá

Er sat ég í fangi þér forðum
svo frábær var sögustund
samt þurfti ekki að eyða orðum
þín elska gaf gull í mund

Nú ert þú horfin mér amma
horfin til himna á braut
Oss tengir þó taugin hin ramma
þá tengingu frá þér ég hlaut

Minningin um þig er mögnuð
svo mikil þín mildi og trú
Í himnadýrð finna þeir fögnuð
því englunum tilheyrir þú

(Valur Ármann Gunnarsson.)

Þinn sonur,


Óskar Guðjón Einarsson

Alltaf varst þú góð,

samdir margar bækur

líka nokkur ljóð

sem þú eftir þig lætur.

Brynjar Þór.

Nú er hún elsku mamma fallin frá og komin í Guðsríki. Ég hugsa til æskuáranna þegar við fórum ýmislegt saman og hafði hún mikla ánægju af því að heimsækja æskuslóðir sínar við Kálfshamarsvík á Skaga. Þar heimsóttum við marga því þarna þekkti mamma alla. Ég minnist góðra vina hennar, á bænum Sviðningi, en þar var ég í sveit í 4 sumur og sótti mamma mig ávallt þegar sumardvölinni lauk. Ég minnist þess þegar mamma var að skrifa skáldsögur og ljóð heima í stofu. Hún skrifaði oft á kvöldin og stundum á morgnana, en aldrei lét hún mikið á því bera. Mamma var mjög nægjusöm kona en að sama skapi var hún mjög hjálpsöm fólki sem til hennar leitaði. Hún var mjög trúuð og Guðrækin og alveg einstaklega góð manneskja og velviljuð öllum. Börnin sóttu mikið til hennar enda var hún einstaklega barngóð.

Eftirfarandi ljóð sem hún orti fyrir nær 50 árum, finnst mér lýsa henni vel og viðhorfi hennar til lífsins.



Menn ræða svo títt um, hve veröld sé villt
og vond, svikul og hál,
hve örbirgð sé mikil og auðæfum spillt,
já, óskir og vonirnar tál.
En hvar fellst hið illa, sem fárinu spýr
og feigðar-kufl veröldu spann?
Í manninum sjálfum sá mein-hugur býr,
og mennirnir stafrækja hann!
/
Hve fögur er jörðin, sem Guð okkur gaf
með gnægtir af dýrasta auð,
og umhverfis löndin hið auðuga haf,
því alls nægtir skaparinn bauð.
En mennirnir lifa við hungur og harm,
og harðstjóra-ógnir og tál,
með trega og vonbrigða-tárin um hvarm
og trúlausa, vanþroska sál.
/
En lögmálið æðsta, sem lífinu er veitt,
var letrað af skaparans hönd:
að bræður og systkin vér öll séum eitt
og eigum að nema hér lönd.
En þetta er brotið,og því er vor jörð
í þrengingu fjötrunum háð,
blómlegu löndin að blóðvelli gjörð,
og bræðralags-hugsjónin smáð.
/
En mannlífsins dimmu og dapurleik skín
hin dýrðlega kærleikans sól,
hið lamaða og þjáða hún laðar til sín
og lífgar það veika sem kól.
Ó, mætti hún skína í hjartnanna heim
með hreinleikans göfgandi mátt
til vaxtar og eflingar verðmætum þeim,
er vinna að bræðralags sátt.
/
Hve sælt yrði lífið, ef vér öll sem eitt
hér ynnum í kristinni trú.
Það hörmungum fengi í hamimngju breytt ,
sem heiminum ofþjaka nú.
Ef sannleikur stjórnaði orðunum einn
og athöfnum kærleikans dyggð,
þá ágirnd og illmælgi iðkaði ei neinn,
en einlægni ríkti og tryggð.
/
Ef mennirnir samhuga sýndu þér þor
í sókninni á kærleikans braut,
þá yrði til heilla hvert einasta spor,
og auðna þeim félli í skaut.
Því bræðralags-elskunnar bjartsýnis-trú,
sem blessaður Frelsarinn gaf,
er einasta leiðsögn, sem eiga menn nú
um ólgandi villunnar haf.
/
Tengist því bræður og treystið það heit,
að takmarkið guðstrúin sé.
Og gangið með Kristi í gæfunnar leit,
og græðið svo lendur og fé.
Sé bræðralags-hugsjónin háleit og hrein
að hjartnanna lífsanda gjörð,
mun þroskast hið góða,en þverra öll mein,
og þá verður Guðsríki á jörð!

Guð blessi minnigu elsku mömmu minnar.

Jóhann Óskarsson og fjölskylda.