Svanur Þór Vilhjálmsson fæddist í Reykjavík 12. júlí 1939. Hann lést á sjúkrahúsi í Portúgal 20. júní 2009. Foreldrar hans voru Jórunn Helga Finnbogadóttir, húsfreyja í Reykjavík, f. í Innri-Njarðvík 30. júní 1916, d. 3. júlí 1999 og Vilhjálmur Kristinn Þórðarson, bifreiðarstjóri í Reykjavík, f. á Vestdalseyri við Seyðisfjörð 5. 10. 1913, d. 1. 12. 1988. Systkini Svans eru Hlöðver Örn, f. 1941, Erla, f. 1943, Vilhjálmur Þ., f. 1946, Viðar, f. 1947, d. 1997, og Einar Þór, f. 1952, d. 1993. Fyrri kona Svans er Ingunn Jensdóttir, leikari og leikstjóri, f. 2. ágúst 1941. Börn þeirra eru: 1) Guðrún Helga, nálastungusérfræðingur og nuddari, f. 30. ágúst 1962. Dóttir hennar er Gígja Ísis, f. 1989, barnsfaðir Guðjón Bjarnason, f. 7. feb. 1959. Eiginmaður Guðrúnar Helgu var Dante Halleck, f. 4. nóv. 1976, þau slitu samvistir, sonur þeirra er Neo Thor Halleck, f. 2000. 2) Jens Þór viðskiptafræðingur, f. 12. des. 1963. Kona hans er Hanna Þorgerður Vilhjálmsdóttir, f. 18. maí 1965. Börn þeirra eru Ingunn, f. 1988, Þórhildur, f. 1993 og Vilhjálmur Kári, f. 1996. 3) Auður Perla matvælafræðingur, f. 6. apríl 1969, gift Kjartani Má Ásmundssyni, f. 4. maí 1969. Börn þeirra eru: Kolfinna, f. 1993, Karitas, f. 1995 og Eiríkur Friðjón, f. 2001. Seinni kona Svans er Rósína Myrtle Vilhjálmsdóttir, starfsmaður Skóla Ísaks Jónssonar, f. í Gvæjana í Suður-Ameríku 4. júlí 1962. Foreldrar hennar eru Justine Williams, f. 21. des. 1935 og Lucille Adal, f. 10. nóv. 1929. Börn þeirra eru: 1) Sara Elísabet, meistaranemi í verkfræði, f. 31. mars. 1982. 2) Vilhjálmur Þór laganemi, f. 20. ágúst 1986. 3) Svanur Þór menntaskólanemi, f. 22. mars 1991. 4) Erla Þorbjörg nemi, f. 5. okt. 1993. Svanur var frumburður foreldra sinna og ólst hann upp í stórum systkinahópi í Einholtinu og síðar í Mávahlíðinni í Reykjavík. Svanur gekk í Skóla Ísaks Jónssonar og síðar Austurbæjarskóla. Eftir það lá leiðin í Verzlunarskóla Íslands þaðan sem hann varð stúdent árið 1960. Eftir smá hlé frá námi innritaðist hann í lagadeild Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan sem cand. jur. árið 1968. Svanur öðlaðist hdl.-réttindi árið 1969. Á sumrum var Svanur í sveit í Mýrdalnum og hafði mikið yndi af bústörfum. Þá var hann mikið í hestamennsku og var félagsmaður í hestamannafélaginu Fáki í fjöldamörg ár. Svanur var mjög virkur í félagsstarfi á námsárum sínum. M.a var hann forseti nemendafélagsins í Verzlunarskóla Íslands og formaður málfundafélagsins í sama skóla. Einnig var Svanur í stjórn Orator, félags laganema við Háskóla Íslands. Samhliða námi stundaði Svanur ýmis viðskipti, rak m.a. verktakafyrirtæki og bílasölu. Að loknu lagaprófi rak Svanur eigin málflutningsskrifstofu í Reykjavík frá 1969 og síðar með Þorvaldi Lúðvíkssyni hrl. Svanur starfaði sem sjálfstæður lögmaður alla tíð samhliða öðrum verkefnum. Hann var mikill athafnamaður og sinnti fjölmörgum viðfangsefnum sem tengdust einkum skipaútgerð og sjávarútvegi. Var hann stofnandi og framkvæmdastjóri Kvikk sf. frá 1980. Svanur var félagi í Lionsklúbbnum Fjölni til fjöldamargra ára. Hann var einnig virkur í skátastarfi á sínum yngri árum og hélt alla tíð vinskap við Gráhausana, félaga sína úr skátunum. Svanur lést eftir stutta dvöl á spítala í Portúgal að morgni 20. júní þar sem hann dvaldist með börnum sínum hjá vinum sínum Eyjólfi Halldórssyni og Eddu. Útför Svans fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 2. júlí, og hefst athöfnin kl. 13.

Enn er höggið skarð í hóp skólafélaganna í sjötta bekk Verslunarskólans sem saman gengu með stúdentshúfur vonglaðir og syngjandi út í vorið 1960. Nú er það Svanur sem farinn er yfir móðuna miklu, sá okkar sem mestur kraftur var í á þeim dögum og mestar vonir bundnar við.
Við Svanur vorum nánir félagar á skólaárunum og ræddum allt sem okkur þótti skipta máli. Við bjuggum báðir í Hlíðunum og hjálpuðumst að við nám ekki síst stúdentsprófin. Þá lásum við saman og hlýddum hvor öðrum yfir og þótti spennandi hvor yrði hærri í einkunnum. Svo fylgdumst við að niður í skóla í munnlegu prófin því lögmál stafrófsins kvað svo á um að ég kæmi næst á eftir honum og aðeins einn var á eftir okkur í 25 manna bekk. Oft var langt áliðið kvölds þegar munnlegum prófunum var lokið. Þannig var að við áttum kærustur sem bjuggu hlið við hlið vestur á Grenimel. Ingunn Jensdóttir sem síðar varð kona hans og Áslaug kona mín voru og eru æskuvinkonur. Þá hvíldu fjólubláir draumar yfir Esjunni þegar gengið var yfir Tjarnarbrúna á vorkvöldum og þrestirnir sungu í grenitrjánum við Suðurgötu.
Svanur Þór var fæddur athafnamaður og lét snemma til sín taka í viðskiptum. Hann ætlaði sér stóran hlut í þeim efnum og eignaðist bíla og íbúðir strax á skólaárunum langt á undan okkur hinum. Hann gaf sér samt tíma til að stunda háskólanám og lauk lögfræðiprófi á eðlilegum tíma, sem ekki þótt sjálfsagt á þeim árum. Hann virtist aldrei skorta fé né úrræði. Svanur var frumkvöðull og framkvæmdamaður fram í fingurgóma og áræðnari en flestir samferðamenn hans. Stundum tókst vel til og honum safnaðist fé. En framkvæmdagleðin og áræðnin lét hann ekki í friði og hann réri sífellt á ný mið. Ekki tókst allt jafn vel og peningar vildu ekki dvelja lengi í hans vasa á seinni árum.
Svanur hafði einstaka skapgerð og missti aldrei móðinn eða trúna á það sem hann var að fást við þá stundina þótt á móti blési. Fáir menn voru glaðbeittari í samskipum. Svanur hafði raunar sérstaka hæfileika í mannlegum samskiptum og gat fengið hvern mann á sitt band. Það gat verið vandmeðfarið og þegar lukkuhjólið breytti um snúningsátt reiddi hann sig einatt á þennan hæfileika kannski um of. Það varð nokkurt vik milli vina þegar hagir breyttust og þau Ingunn skildu eftir alllangt hjónaband. Þau héldu vinskap og samvinnu um börnin og barnabörnin. Svanur átti þrjú börn með seinni konu sinni Rósínu. Í skara mannvænlegra barna og barnabarna hefur hann á seinni árum fundið þann auð sem mikilvægastur er.
Þökkuð er samfylgdin góða á æskuárunum og ástvinum eru sendar samúðarkveðjur okkar Áslaugar.

Vilhjálmur Lúðvíksson