Kolbrún Ólafsdóttir fæddist 9. október 1971 í Reykjavík. Hún lést á sjúkrahúsi í London sunnudaginn 19. júlí síðastliðinn. Foreldrar hennar eru Ólafur Rúnar Árnason f. 9. mars 1948 og Guðrún Ása Ásgrímsdóttir f. 13 október 1948. Systkini Kolbrúnar eru a) Þröstur f. 26.júní 1965 kvæntur Ingu Björk Gunnarsdóttur, þau eiga fjögur börn Ólöfu Karitas, Rakel Ósk, Aron Örn og Mikael Andra. b) Íris f. 5. desember 1973 gift Halldóri Gunnari Vilhelmssyni, börn þeirra eru Guðný Ása og Ingi Rúnar. Fjölskyldan bjó í Fossvoginum öll uppvaxtarár Kolbrúnar en að þeim tíma liðnum bjó hún á Skólavörðuholtinu. Eftir grunnskóla lá leiðin í Menntaskólann við Hamrahlíð og varð hún stúdent árið 1991. Kolbrún útskrifaðist sem lögfræðingur frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1999. Hún stundaði nám við háskólann í Vín árið 1997-1998. Kolbrún öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 2004. Á námsárum sínum starfaði hún meðal annars hjá Utanríkisráðuneytinu og í Viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu. Haustið 2007 flutti Kolbrún til Kína og hóf þar tveggja ára meistararnám í alþjóðasamskiptum („International Affairs“) Námið var tvískipt og var fyrra árið kennt við Háskólann í Peking en seinna árið kennt við London School of Economics í Lundúnum og þar bjó Kolbrún þegar hún lést. Kolbrún starfaði sem fulltrúi sýslumannsins á Eskifirði frá 1999 og var staðgengill sýslumannsins á Neskaupsstað á árunum 2000-2001, eftir að sýslumannsembættin voru sameinuð. Hún starfaði sem fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík á árunum 2002-2006. Kolbrún var aðstoðarmaður Sivjar Friðleifsdóttur, þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 2006-2007. Kolbrún hafði mikinn áhuga á félagsmálum og vann ötullega að þeim á ýmsum sviðum. Hún var varaformaður Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík suður frá árinu 2003, ritari Sambands ungra framsóknarmanna 2003-2005, formaður Varðbergs, Félags ungra áhugamanna um vestræna samvinnu 2004-2005 og sat í framkvæmdastjórn Landsambands framsóknarkvenna frá 2003 og var varaformaður frá 2005. Kolbrún var formaður Barnarverndarnefndar Reykjavíkur 2006-2007. Útför Kolbrúnar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, fimmtudaginn 30. júlí, kl. 15.

Þær fréttir sem bárust til Íslands 19. júlí voru mikið áfall fyrir alla þá sem starfað hafa með Kolbrúnu Ólafsdóttur í stjórn og nefndum á vegum Sambands ungra framsóknarmanna síðustu ár. Það var ekki að ástæðulausu sem henni voru falin fjölmörg trúnaðarstörf af félögum sínum. Þau sem störfuðu með henni nutu þess að hafa sér við hlið jafn mikinn vinnuþjark og hún var, sívinnandi, fórnfús og traustur vinur. Ljóst er að skarð Kolbrúnar verður erfitt að fylla. Minningarnar um góðar samverustundir munu samt aldrei gleymast.

Fyrir hönd stjórnar Sambands ungra framsóknarmanna sendi ég fjölskyldu Kolbrúnar og vinum dýpstu samúðarkveðjur.


Bryndís Gunnlaugsdóttir, formaður Sambands ungra framsóknarmanna.

Elsku Kolla okkar.

Við vorum harmi slegin þegar við fréttum af skyndilegu fráfalli þínu. Leiðir okkar allra lágu saman í Peking í Kína og nutum við félagsskapar þíns á árunum 2007-2008. Okkur er ofarlega í huga þær stundir sem við áttum með þér á framandi veitingahúsum, í óteljandi leiðöngrum um borgina í leit að spennandi varningi og nýrri lífsreynslu. Sömuleiðis líður okkur seint úr minni gleði okkar allra á handboltaleikjum á Ólympíuleikunum og huggulegum samræðum á Lugas á hlýjum sumarkvöldum.

Þú kunnir að njóta lífsins og varst alltaf opin fyrir nýjum uppátækjum. Við minnumst gleði þinnar yfir framandleika og fjölbreytileika kínverskrar menningar. Þú varst kjarkmikil og fylgdir hjarta þínu. Þú auðgaðir líf okkar og við söknum lífsgleði þinnar. Við erum þakklát fyrir þær stundir sem við áttum saman.

Þú á alltaf samastað í hjarta okkar.

Egill Bjarki, Erla Karen, Harpa Hlín, Helga Björk, Sveinn og Þór.

Kæra vinkona. Það er erfitt að trúa því að þú sért farin. Minningar um góðar stundir fylla hugann.  Leiðir okkar lágu saman hjá löggunni í Reykjavík, en uppfrá því hófst dýrmæt vinátta sem ég mun alltaf varðveita í hjarta mínu.  Ég leitaði reglulega til þín til að fá góð ráð. Þeim ráðum sem þú gafst mér í lífi og starfi gleymi ég aldrei.

Það sem stendur uppúr er skemmtileg Kaupmannahafnarferð sem farin var á vegum lögfræðideildarinnar og við, ofurákærendurnir, vorum rændar á kaffihúsi í miðborginni.  Ég gleymi aldrei þegar við fórum á lögreglustöðina þar til að tilkynna ódæðið og löggurnar könnuðust auðvitað við okkur því við höfðum verið þar í heimsókn aðeins deginum áður sem fulltrúar lögreglunnar í Reykjavík. Frekar pínlegt en við hlógum vel og lengi þegar við komum uppá hótel aftur.

Það er líka eitt sem ég gleymi aldrei, hlátursköstin okkar yfir hinu og þessu, hvernig þú hristir axlirnar og táraðist þegar þú hlóst. En það voru aldrei læti í þér Kolla mín, svo fáguð og yfirveguð og skynsöm.  Stundirnar okkur hérna heima eftir að þú fluttir út, sitjandi við eldhúsborðið í Garðabænum að ræða öll hjartans mál, eru mér ómetanlegar og þær mun ég alltaf varðveita.

Hugur minn er hjá fjölskyldu þinni og votta ég ykkur mína dýpstu samúð.

Með sorg og söknuð í hjarta kveð ég kæra vinkonu, Kolbrúnu Ólafsdóttur, sem hvarf frá okkur alltof fljótt.

Hulda María Stefánsdóttir.

Ung, falleg og lífsglöð kona er fallin frá í blóma lífsins. Eftir standa ættingjar, vinir og félagar og eiga skyndilega eftir minninguna eina.
Kraftur og ósérhlífni einkenndi öll störf Kolbrúnar og fékk Framsóknarflokkurinn að njóta þeirra um árabil. Ég kynntist Kolbrúnu fyrst þegar hún var stjórnarmaður í Sambandi ungra framsóknarmanna. Síðar varð hún varaformaður Landssambands framsóknarkvenna og lét jafnréttismál sig miklu varða. Þannig átti hún þátt í að reglur um jafnan hlut kynja í ábyrgðarstöðum innan flokksins voru sett í lög hans. Þá starfaði hún sem aðstoðarmaður Sivjar Friðleifsdóttur í heilbrigðisráðuneytinu.
Eftir kosningarnar 2007, sem voru einar þær erfiðustu sem flokkurinn gekk í gegnum, ákvað Kolbrún að víkja um stund úr framlínu stjórnmálanna og halda til frekara náms. Þegar ég spurði hana hvers vegna, sagði hún að hún vildi nota tækifærið og skoða heiminn á meðan hún væri enn laus og liðug, mennta sig meira og reyna eitthvað nýtt. Svo brosti hún sínu blíðasta. Og svo hélt hún til náms í Bretlandi og Kína.
Kolbrún var þó síður en svo hætt afskiptum af pólitík. Þó hún væri hinum megin á hnettinum fylgdist hún vel með öllu. Ég skemmti mér oft við að lesa bloggpistlana hennar og við skiptumst af og til á kveðjum í athugasemdum við bloggin okkar. Það var augljóst að Kolbrún hafði miklar áhyggjur af stöðu flokksins og hún hugðist ekki láta sitt eftir liggja á því sem margir töldu ögurstund fyrir Framsóknarflokkinn.
Eftir flokksþingið í janúar, þar sem draumur Kolbrúnar um nýja Framsókn varð að veruleika, velti hún því alvarlega fyrir sér að hella sér af krafti í landsmálin. Ég er sannfærð um að hún hefði orðið verðugur fulltrúi flokksins á Alþingi og að spurningin væri ekki hvort, heldur hvenær hún færi að tala máli okkar við Austurvöll. Því miður reyndist tíminn ekki nægur.
Ég votta fjölskyldu og vinum Kolbrúnar mína dýpstu samúð í sorg þeirra og þakka um leið fyrir allar þær stundir sem Kolbrún gaf mér í leik og starfi gegn um árin.
Megi Guð geyma hana.

Eygló Harðardóttir.

Það var okkur bræðrunum reiðarslag þegar við fréttum af alvarlegum veikindum Kollu og síðar andláti. Það var svo margt sem hún ætlaði sér að gera. Hún var búin að vera í námi í Kína og komin til London til að nema enn frekar. Hún sat aldrei auðum höndum, heldur hafði alltaf eitthvað fyrir stafni.
Dugnaður, mikil vinnusemi og glaðværð var það sem einkenndi Kollu alveg frá því að við bræðurnir kynntumst henni í sveitinni hjá Ebbu og Dodda á Varmalandi í Skagafirði, í nokkur sumur í kringum 12 ára aldurinn. Það var oft glatt á hjalla hjá okkur, við leik og störf í sveitinni og stutt í hláturinn hjá Kollu. Það voru ófáar veiðiferðirnar á Skagann þar sem keppst var við að veiða þangað til sólin var gengin til viðar. Í minningunni frá árunum í sveitinni var Kolla mjög bókhneigð og mikill fróðleiksbrunnur, oft var gaman að hlýða á sögur hennar úr heimi bókanna.
Þrátt fyrir mikinn hlýleika og glaðværð, gat Kolla staðið fast á sínu. Það kom fljótlega í ljós við fyrstu kynni að Kolla ætlaði ekki að gefa þumlung eftir gagnvart okkur strákunum við útivinnuna, því Kolla var ekki komin í sveit eingöngu til að sinna inniverkum. Í byrjun var oft tekist á um hver ætti að stjórna við hin ýmsu störf. Þessari valdabaráttu lauk einn daginn þegar við þrjú vorum send til að taka upp girðingu. Til að gera langa sögu stutta varð þetta vendipunktur í samskiptum okkar og upp frá þessu litum við á okkur sem jafningja sem treysti enn betur vináttuna. Eftir að samverunni lauk í sveitinni og við hittumst í gegnum árin, gátum við oft hlegið að þessari samkeppni okkar og þá sérstaklega að deginum góða í girðingarvinnunni sem við rifjuðum upp núna síðast í fyrra.
Á sorgarstundu sem þessari er erfitt að koma orðum að öllu því sem flýgur í gegnum huga okkar, en upp úr stendur þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast Kollu. Við viljum votta foreldrum, systkinum og aðstandendum Kolbrúnar innilega samúð okkar á þessum erfiðu tímum.




Sigurður og Bjarki Sveinssynir.

Ég man það eins og gerst hefði í gær þegar ég hitti Kollu á Ömmukaffi við Lækjartorg í september árið 2002. Hún hafði áhuga á því að taka þátt í starfi Framsóknar fyrir alvöru og vildi leita ráða hjá mér. Hún var brosmild, útitekin eftir sumarið og spennt að taka þátt á nýjum vettvangi og hasla sér völl.

Við ræddum málin góða stund og ég sagðist mundu mæla með henni í stjórn FUF Reykjavík suður á aðalfundi sem stóð til að halda skömmu síðar. Kolla fór síðan beint í stjórn félagsins á aðalfundinum og það var bara rétt byrjunin á öflugu starfi hennar innan Framsóknar, þar sem hún kom víða við og setti sitt mark með afgerandi hætti. Sjálfur fór ég í nám erlendis og fjarlægðist flokksstarfið og fylgdist því með henni í fjarlægð í störfum sínum, en Framsóknarflokkurinn naut sannarlega mikils af störfum hennar og hennar er sárt saknað af fjölda samherja. Fréttir af veikindum hennar komu eins og þruma úr heiðskíru lofti og það er erfitt að sætta sig við að svo ung kona í blóma lífsins sé skyndilega horfin á braut. Eftir stendur þó ljúf minningin um góða konu og samherja, öll hennar góðu verk og auðvitað standa uppúr þau fjölmörgu bros sem Kolla var óspar á og sendi í allar áttir. Það er dýrmætt að eiga slíkar minningar. Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu Kollu.

Einar Skúlason

Eitt það fyrsta sem ég fæ að heyra þegar ég kem úr sumarfríinu er að góð vinkona mín, Kolbrún Ólafsdóttir, sé dáin. Við sem vorum búnar að ná sambandi eftir að hafa misst sjónar  hvor af annarri í langan tíma. Kannski var það fjarlægðin, hún í Kína og ég á Ítalíu. Við náðum saman aftur fyrr í sumar og það var eins og við hefðum talað saman daginn áður. Við vorum í símanum í rúma tvo tíma og töluðum um allt milli himins og jarðar, ekkert var fylgst með tímanum og komið langt fram yfir miðnætti, ekkert hugsað um litlu börnin mín sem mundu vakna innan fárra klukkutíma.

Það var bara gaman að tala saman um allt sem við höfðum misst af í lífi hvor annarar, margt að tala um og líka mikið hlegið. Alveg eins og þegar ég kom að heimsækja þig í Beykihlíðina í gamla daga, þangað var alltaf gott að koma.  Kolla var alltaf svo jákvæð, dugleg og réttlát, hafði alltaf góða yfirsýn og gaf góð ráð. Það er svo margt sem kemur upp í hugann. Þegar hún kom að heimsækja mig til Ítalíu, til Grikklands, gömlu menntaskólaárin, Bankastrætið, háskólinn! Já, við áttum samleið stóran hluta lífsins og ég er þakklát fyrir það. Betri vinkonu var ekki hægt að óska sér.


Ragna Vala Kjartansdóttir.

Fyrir rétt rúmum þremur vikum hittum við systkinin Kolbrúnu vinkonu okkar á kaffihúsi hér í Reykjavík. Kolla var þá á leiðinni til London strax daginn eftir en Finnur rétt nýkominn frá Bandaríkjunum og því var tækifærið gripið til þess að hittast yfir kaffibolla. Kolla var sjálfri sér lík, sami glettnissvipurinn í augunum og brosið bar sömu hlýjuna og alltaf. Við þrjú skröfuðum aðeins saman um lífið og tilveruna, rifumst aðeins um pólitík og rifjuðum upp gamlar minningar. Við ræddum líka um framtíðina, því þó hún væri óráðin þóttumst við vita af ótal spennandi möguleikum sem biðu handan hornsins. Þegar við kvöddumst nefndum við að hugsanlega kynni að verða einhver bið á því að við þrjú gætum hist öll saman.
Ekki óraði okkur fyrir því að þetta yrði það síðasta sem við sæjum af Kollu. Aðeins réttri viku eftir þennan fund bárust fregnir um skyndileg veikindi hennar og aðeins örfáum dögum síðar fengum við þá frétt sem erfitt var að trúa og enn erfiðara að sætta sig við.
En eftir sitja minningarnar um góða og trausta vinkonu. Kolla hafði sterka sannfæringu og réttlætiskennd, en jafnframt ríka kímnigáfu. Hún var ódeig við að berjast fyrir því sem hún trúði á en kunni einnig að njóta lífsins. Þessir eiginleika hennar urðu til þess að gæða þær stundir sem við áttum með Kollu bæði tilgangi og fjöri. En jafnframt verður söknuðurinn og treginn yfir því sem hefði getað orðið sárari en ella.
Foreldrum hennar og systkinum vottum við dýpstu samúð okkar.


Finnur Þór og Þórunn Benný Birgisbörn.

Elsku Kolla. Þegar við hittumst föstudaginn 3. júlí í hádeginu og ræddum pólitík og lífið eins og svo oft áður grunaði okkur ekki að það ætti eftir að vera þinn síðasti fundur með okkur og erfitt að hugsa til þess að við gátum ekki kvatt þig betur.

Kollu kynntumst við fyrst haustið 2002 þegar hún gekk til liðs við Félag ungra framsóknarmanna í Reykjavík. Fundurinn sem hún mætti fyrst á varð okkur öllum eftirminnilegur enda lenti hann á síðum helstu fréttamiðla sem dæmi um valdatafl innan flokksins gagnvart bláeygum ungliðunum. Á ákveðinn hátt töpuðum við sakleysinu gagnvart gangverki pólitíkurinnar þetta kvöld og ekkert varð eins á eftir. Það sem við höfðum áður talið göfugan mekaninsma lýðræðisins og farveg framfara í þjóðfélaginu hafði skyndilega fengið á sig annan og óskemmtilegri blæ. Fáir upplifðu þetta jafn sterkt og Kolla sem af einlægum áhuga hafði komið sér á framfæri við okkur þau sem þegar vorum starfandi. Nokkrum kvöldum síðar komum við saman aftur og sammæltumst um að taka slaginn gegn þeim órétti sem við töldum okkur hafa verið beitt eða ellegar hætta störfum fyrir Framsóknarflokkinn. Hart var lagt að okkur að gefa eftir en að lokum höfðum við sigur í þessari deilu. Það var ekki hvað síst fyrir tilstuðlan Kollu sem í gegnum lagaklæki tókst að leggja þá sem sóttu að okkur. Þetta var fyrsti slagurinn af mörgum sem áttu eftir að fylgja í kjölfarið. Margir unnust en enginn var jafn sætur og sá fyrsti.

Með sanni má segja að ferill Kollu innan Framsóknarflokksins hafi verið svotil samfelld barátta fyrir betra Íslandi og siðvæðingu í stjórnmálum landsins. Þetta tók allt sinn toll og vígamæðan var oft við það að buga hópinn en Kolla lét aldrei hug falla. Hugrekki og þrautsegja voru hennar aðalsmerki. Kolla gleymdi aldrei afhverju hún hóf afskipti af stjórnmálum. Lét aldrei bugast af litlum hljómgrunni með réttlátum málstað eða freistast af falboðum. Það er algengt að fólk hafi stórar hugsjónir en lítið hjarta til að fylgja þeim eftir. Hugrekki til að standa við sannleikann og réttlætið andspænis ofurafli er fæstum gefið. Kolla hafði bæði stórar hugmyndir um betra samfélag og siðferðislegt hugrekki til að fylgja þeim eftir. Því miður gafst henni ekki tími til að koma þeim öllum í framkvæmd, en við sem eftir stöndum munum halda áfram að hafa minninguna um siðferðisþrek hennar sem leiðarljós í því sem við tökumst á hendur í lífinu. Það er kannski ekki skjótur gróði í góðri samvisku, en þegar allt kemur til alls er fátt sem skiptir meira máli. Hún var einstakur vinur og við munum sakna hennar mikið en eftir sitjum við með ljúfar minningar um dýrmæta vinkonu.

Öllum í fjölskyldunni sendum við innilegar samúðarkveðjur.


Haukur, Stefán, Svafa, Jóhanna, Matthías, Gummi, Jakob, Einar, Ingvar og Sigga.

Ég og Kolla kynntumst í gegnum sameiginlega vini og samherja í starfi ungra framsóknarmanna og urðum fljótt góðir vinir. Við deildum pólitískum skoðunum, en það sem meira var, þá deildum við sameiginlegri sýn á það hver tilgangurinn sé með pólitísku starfi. Kolla hóf að starfa innan SUF eldri en margir aðrir en hafði sannfæringu fyrir því að samtökin væru vettvangur sem nýta mætti til að koma til leiðar raunverulegum samfélagsbótum. Við deildum þeirri skoðun að sá sem vildi sjá breytingar ætti að ganga til verksins sjálfur og það var nákvæmlega það sem Kolla gerði. Þó svo að undir það síðasta ættum við ekki samleið í flokkapólitík þá áttum við þó þetta alltaf sameiginlegt.

Við háðum marga hildi saman í þessu pólitíska starfi og stóðum yfirleitt þétt saman í átökum sem í dag sýnast skipta harla litlu máli. En þó má segja að þau hafi þjónað þeim tilgangi að styrkja vináttu okkar. Það var alltaf skemmtilegt að hitta Kollu og ekki alltaf pólitík sem réði ferðinni. Í minningunni standa upp úr skemmtileg matarboð á Njálsgötunni, skemmtilegar samræður um lífið og tilveruna á kaffihúsum borgarinnar og ógleymanleg ökuferð á Blönduóss og til baka til Reykjavíkur.

Það virðist óhugsandi að við séum nú að kveðja vinkonu okkar í hinsta sinn. Unga konu sem átti svo bjarta framtíð og mikla möguleika. Það er okkur öllum áminning um að njóta hvers dags í samvistum við okkar nánustu því enginn veit hvenær kallið kemur.

Ég bið Guð að styðja og styrkja fjölskyldu Kollu og aðstandendur og votta þeim innilega samúð mína.

Stefán Bogi Sveinsson

Kolla lét drauma sína rætast og lifði lífinu til fulls. Hún hafði einstaka réttlætisvitund og ríka sannleiksþörf. Hún var gömul sál og það eru ekkert mörg ár síðan að við urðum loks jafnöldrur, hún mátti ekkert aumt sjá og þoldi illa misskiptingu auðs og ójafnrétti. Hún þreyttist seint á að reyna að fá mig til að samþykkja að kynjakvótar myndu leiða til jafnréttis og að kjósa Framsókn væri lausn á heimsvandanum. Kolla var fylgin sér og með eindæmum þrjósk og að lokum var ég orðin nokkuð leið á þessu endalausa Framsóknartali hennar og samþykkti að kjósa í prófkjöri. Ég var þó fljót að átta mig á að Framsókn var ekki málið fyrir mig og skráði mig úr flokknum. Það reyndist ekki svo einfalt og í mörg ár fékk ég jólakort og nýárskveðjur frá hinum ýmsu fyrirmönnum úr flokknum, þetta fannst okkur Kollu óendanlega fyndið. Kolla sagði þó skilið við flokkinn fyrir síðustu alþingiskosningar eftir áralanga hollustu en forystu flokksins þótti ekki ástæða til nýta krafta hennar frekar. Hún hafði fórnað námi sínu í London og var tilbúin til að vinna að endurreisn efnahags landsins með setu á Alþingi. Vonbrigðin voru mikil en hún var fljót að jafna sig og fann kröftum sínum farveg á öðrum vettvangi.

Kolla var trú og trygg, einstakur hlustandi og laðaði að sér fólk hvar sem hún kom. Hún var einlæg í trú sinni á einstaklinginn og var sannfærð um að allir hefðu eitthvað gott í sér. Hún var viðkvæm og með stórt hjarta. Hún hafði sérstakt lag á að tala fólk til og mikil samningamanneskja. Kolla hafði góð áhrif á alla í umhverfi sínu og var einstakur vinur. Hún hefur fylgt mér í gegnum lífið, hlegið með mér og grátið. Hún var degi yngri en ég, fædd á fæðingardegi John Lennons 9. október. Fyrsta minning mín um Kollu er frá því í 6 ára bekk, ég kom grátandi heim úr skólanum Kolla hafði tilkynnt mér að hún ætlaði að halda veisluna sína á afmælideginum mínum sem var á laugardegi. Ég var sár og reið og sannfærð um að enginn myndi koma í mína veislu, enda Kolla vinsæl í bekknum. Mér þykir líklegt að ég hafi aldrei ætlað að tala við hana aftur enda nær framtíðin hjá 6 ára barni ekki lengra en yfir í næstu frímínútur.

Við skildum hvor aðra betur en margur, áttum við sömu drauga að etja, frestunaráráttu og stöðugar efasemdir um ágæti okkar. Við hjálpuðum hvor annarri þegar illa gekk og hvöttum hvor aðra til dáða. Við lásum sjálfshjálparbækur og töldum hvor annarri trú um að nú værum við læknaðar af frestunaráráttunni, að minnsta kosti þar til að næsti skiladagur nálgaðist og sagan endurtók sig. Kolla var þó alltaf að læra eitthvað nýtt og eru líklega fáir sem voru jafn fljótir og Kolla að tileinka sér sms tæknina. Flestir senda kannski viltu koma í bíó eða kauptu mjólk en Kolla sendi ritgerðir, og þá sérstaklega ef henni var misboðið, sem gerðist nokkuð oft og þá í skjóli nætur. Á tímabili var svo komið að ég lét hana lofa mér að senda ekkert nema bera það undir mig fyrst. Það leið ekki á löngu þar til að við kölluðum þetta okkar í milli að taka Kolluna. Ég var góður nemandi og lærði fljótt að taka Kolluna. Oftar en ekki sendum við sms, jafnvel heimsálfa á milli & koddu á skype, ég tók Kolluna ... HJÁLP! Og þá skipti engu hvað klukkan var, við svöruðum alltaf kalli hvor annarrar, nótt sem dag. Og þannig var það alltaf, hún var mín anam cara eða sálufélagi.

Kolla var dugleg að dekra við sig og naut lífsins. Hún elskaði bjútíkvöld og fótabað, og þegar ég hringdi í hana þá svaraði hún ósjaldan svefndrukkinni röddu .. ég var að leggja mig! Þrátt fyrir að búa aðeins í 10 mínútna göngufjarlægð frá hvor annarri í miðbænum þá gisti ég stundum hjá henni eftir næturbrölt, og ég veit að það átti líka við um fleiri vini hennar. Hún hafði bara svo góða nærveru og það var gott að vera nálægt henni.

Ég saknaði Kollu minnar mikið þegar hún flutti til Peking haustið 2007, ég hafði fylgt henni í gegnum umsóknarferlið og daginn sem umsóknin fór í póst þá ákváðum við að ég kæmi til hennar yfir páskana. Það varð úr og við áttum saman frábærar tvær vikur. Flestir hefðu sjálfsagt tekið túristann og heimsótt allt það merkilega sem hægt er að skoða í Peking en við Kolla vorum meira að spá í að borða góðan mat og gera ekkert sem okkur fórst einstaklega vel úr hendi. Dagskráin þessar tvær vikur samanstóðu aðallega af nuddi, fótsnyrtingum, heimsóknum á saumastofuna og hvítvínsdrykkju. Og þannig sáum við fyrir okkur að eyða ellidögunum saman, við ætluðum að búa í flottri þjónustublokk og láta dagana líða með dekri, nuddi og fótsnyrtingu. Mestu pæjurnar í matsalnum, í bleikum velúrgalla með gráan augnskugga og glimmergloss og njóta lífsins til hinstu stundar.

Elskuleg Kolla, megi ljós þitt skína sem allra lengst og birta upp dapra tilveru þeirra sem minna mega sín, megi ljós þitt draga fram sannleikann í þágu þeirra sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér, megi ljós þitt ylja köldum og sárum í neyð og lýsa áfram veg okkar í baráttunni fyrir réttlæti, fegurð og ást í alltof grimmum heimi ( Benedikt Lafleur).

Sorgin er djúp og söknuðurinn sár, en ég kveð þig, elsku Kolla, sátt og með sól í hjarta, þakklát fyrir að hafa átt þig að í öll þessi ár.

Sæl að sinni ljúfan mín.

Hrafnhildur S. Mooney

Kollu kynntist ég í gegnum ungliðastarf Framsóknarflokksins skömmu eftir síðustu aldamót. Við urðum strax góðar vinkonur enda var ekki annað hægt en að heillast af Kollu og vilja vera í hennar félagsskap. Hún var fyndin, gáfuð, skemmtileg og umfram allt heil og sönn í því sem hún tók sér fyrir hendur. Hún hafði líka skemmtilega smitandi hlátur og var ekki nísk á hann. Félagsstarf með Kollu var aldrei leiðinlegt eða marklaust. Mér var farið að hlakka til þeirrar stundar að fá Kollu heim og geta reglulega hitt hana í kaffispjalli en undanfarin ár höfum við skipst á að búa erlendis og því ekki getað hist reglulega. Þeim mun dýrmætari eru nú þær stundir sem við hittumst síðast og þær mun ég geyma sem perlur í hjarta mínu. Þrátt fyrir að óbærilegt sé til þess að hugsa að þær stundir verði nú ekki fleiri, gleðst ég í hjarta mínu yfir þeim ævintýrum sem Kolla upplifði síðustu misserin. Í Kína og núna síðast í London. Ég gleðst einnig yfir að hafa kynnst henni og fengið að vera samferða henni þessa stuttu stund, þessi fáu spor. Elsku Kolla ég kveð þig með þessari fátæklegu kveðju. Þú verður alltaf í hjarta mínu.

Hver getur siglt, þó að blási ei byr,
bát sínum róið án ára?
Hver getur kvatt sinn kærasta vin,
kvatt hann án sárustu tára?

(Þýð. Hulda Runólfsdóttir frá Hlíð.)

Fjölskyldu Kollu sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi Guð vera með ykkur á sorgarstund.


Auðbjörg Ólafsdóttir.

Mikið getur lífið verið hverfult og óréttlátt. Óréttlátt að taka burt unga fallega konu í blóma lífsins sem átti bjarta og metnaðarfulla framtíð fyrir sér. Ekki óraði mig fyrir því reiðarslagi að heyra um skyndileg veikindi og andlát Kollu. Okkur fannst við hafa allan tímann í veröldinni en nú er sá tími á enda runninn og því er sorgin mikil. Ég þakka fyrir að hafa orðið svo lánsöm að hafa eignast Kollu sem vinkonu og get yljað mér við margar góðar minningar.

Við Kolla kynntumst fyrir 10 árum síðan í Neskaupstað, þegar ég flutti aftur tímabundið á heimaslóðir og hún tók við sýslumannsembættinu þar. Með okkur tókst strax góð vinátta og vorum við þakklátar fyrir að eiga hvor aðra þar að. Við hlógum mikið að því hversu líkar við værum enda báðar vogir, aðeins tveir dagar á milli okkar. Kolla reyndist mér góð og traust vinkona og fjölskylduvinur sem allri fjölskyldunni þótti vænt um enda Kolla einstaklega skemmtileg, ljúf og þægileg manneskja. Vinskapur okkar hélt áfram eftir að suður var komið og ekki skipti máli hversu oft við hittumst eða heyrðumst, svo traust var vináttan og slík vinátta er ómetanleg. Kolla skilur eftir sig stórt skarð og ég mun ávallt minnast hennar með þökk og stolti í hjarta. Því miður þarf ég nú að kveðja hana í hinsta sinn. Hvíl í friði elsku Kolla mín.

Ég votta foreldrum, systkinum og öðrum ástvinum mína dýpstu samúð. Guð varðveiti ykkur og styrki í þessari miklu sorg.

Elísabet Stephensen.

"Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú

grætur vegna þess sem var gleði þín."

(Kahlil Gibran)

Elsku Kolla, ég var að hugsa um þær góðu stundir sem ég hef átt í kringum þig,

þær eru allnokkrar og er ég búin að skella upp úr nokkrum sinnum.

Þegar Íris, þú og ég horfðum á þættina um Angelic, þetta er ástarsaga sem var á

6 spólum og það á frönsku, við skyldum ekki baun í málinu enn það skipti ekki öllu, þú

varðst heilluð af sögunni sjálfri.

Matur og matargerð var líka í miklu dálæti, oft þegar ég var að tala við Írisi

í síma, sagði hún að þú værir að sjá um kvöldmatinn,

þá var verið að matreiða nýjungar og fjölskyldan var tilraunasmakkarar. Ég verð

nú að viðurkenna að ég öfundaði þau ekki alltaf þegar Íris var að segja mer innihaldið, en

sem betur fer segir innihaldið ekki allt og þú varst þessi snilldarkokkur.

Þú ert 2 árum eldri en við Íris og öfunduðu við þig oft, t.d þegar þú fórst á

fyrstu útihátíðina til Eyja, ó, hvað viðöfunduðum þig, settum þér ýmsar reglur

og loforð um að þú segðir okkur í smáatriðum frá þessari merkilegu ferð á þjóðhátíð.

Þú varst alltaf brosandi, og með húmorinn á réttum stað, útlitið skipti þig

miklu, og góðmennskan í fyrirrúmi.

Mig langar að kveðja þig með kvæði úr spámanninum, sem þú varst heilluð af,

last það eitt sinn fyrir mig, mig minnir að þú hafir verið í MH þá, þú sagðir að þetta

segði meira en mörg orð.

Nú ertu farin á vit nýrra ævintýra, og þar áttu eftir að heilla alla meðfallega brosi þínu og fasi.

Elsku Rúnar, Ása og þröstur, missir ykkar er mikill, Íris mín ég á ekki næg orð

til að lýsa hvað ég samhryggist ykkur mikið

þú ert ekki bara að kveðja systur heldur besta vin þinn líka.

Þótt ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum, hugsið ekki um dauðann með harmi eða ótta.
Ég er svo nærri, að hvert eitt tár ykkar snertir mig og kvelur, þótt látinn mig haldið.
En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, lyftist sál mín upp í mót til ljóssins.
Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég, þótt látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.
(Kahlil Gibran)

Elsku Kolla mín, góða ferð.

Anna M. Egilsdóttir.

Já blessuð vertu, vina mín,

og vertu sæl um skeið.

Svo vitja ég þín um þungan veg,

um þúsund mílna leið.

Þessar ljóðlínur eftir Robert Burns í þýðingu Þorsteins Gylfasonar komu mér í hug, þegar vinkona mín og kær vinur Kolbrún Ólafsdóttir, lést skyndilega og langt um aldur fram.   Yndislegri og betri manneskju er ekki hægt að hugsa sér.

Það er ekki sjálfgefið að eignast góða vini á lífsleiðinni.  Vinátta er ekki búin til, hún skapast.  Góður vinur er hreinasta guðs gjöf, því hún er kærleikur sem krefst ekki greiðslu.   Vinur er manneskja, sem hægt er að vera einlægur við.  Með honum er hægt að hugsa upphátt.

Þannig var vinátta okkar Kolbrúnar frá því við hittumst fyrst.

Kolbrún var ein af þessum manneskjum, sem gerir lífið dýrmætara.  Hún sá alltaf björtu hliðarnar á tilverunni og  var vinur í raun.  Það er því enn sárara, að henni skyldi ekki auðnast lengra líf.  Það er þyngra en tárum taki.

Það er erfitt að lýsa sorginni við fráfall Kolbrúnar.  Stelpan, sem ég hringdi í oft á dag til að leita ráða hjá, og hún í mig, alltaf tilbúin, ráðagóð, traust, trú sjálfri sér, ákveðin, hljóp aldrei frá ókláruðu verki, með sterka réttlætiskennd, en líka fylgin sér og stóð með vinum sínum eins og klettur.  Það var sama, hvort maður leitaði til hennar í stóru eða smáu.  Maður gat treyst Kolbrúnu og stuðningi hennar.  Betri vin er ekki hægt að eiga.  Öll vandamál urðu einhvern veginn auðveldari, þegar búið var að ræða þau við Kolbrúnu.   Ég sakna samtalanna.

Það eru þung spor að fylgja vini sínum í blóma lífsins til grafar.  Kolbrún átti svo margt ógert.  Hún var að ljúka mastersnámi í Bretlandi.  Hún ætlaði sér stóra hluti þessa lífsglaða stelpa, sem alltaf var með bros á vör og elskaði lífið.

Ég kveð góðan vin, besta vin sem var ávallt til staðar.  Ég þakka fyrir að hafa fengið að kynnast Kolbrúnu og fyrir að hafa átt hana að vini. Ég mun ylja mér við minningarnar um ókomna tíð, þær munu lifa, minning Kolbrúnar verður ávallt varðveitt.

Ég bið góðan guð að varðveita Kolbrúnu og sendi fjölskyldu hennar og ættingjum mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Matthías.

You ask me why I dwell in the green mountain;

I smile and make no reply for my heart is free of care.

As the peach-blossom flows down stream and is gone into the unknown,(

I have a world apart that is not among men.

Li Bai (701-762)

Með þessu ljóði, Li Bai, sem skipar sama sess í kínverskum skáldskap og Mozart í vestrænni tónlist, kveð ég kæra vinkonu mína, Kolbrúnu Ólafsdóttur. Kolla, eins og hún var alltaf kölluð, var einmitt við framhaldsnám í lögfræði í Vín og Peking og nú síðast London, þar sem hún lést skyndilega og ótímabært, langt um aldur fram. Aldrei hefur mér brugðið jafnmikið við nokkra andlátsfregn.

Sagt er að þeir deyji ungir sem guðirnir elska, Ég vildi að dálætið á Kollu hefði ekki verið svona mikið, því ég sakna hennar óendanlega mikið og vildi hafa hana lengur hér og veit að svo er um alla sem urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast henni. En hvernig gat Guð annað en elskað Kollu?

Kolla var heilsteypt, vönduð og góð. Hún var vinmörg og vinföst. Hún snerti líf svo margra með mildi, mýkt og þægilegri nærveru. Hún var hægtlát, hógvær, kurteis og yfirveguð, en fór sínu fram og var föst fyrir ef svo bar undir. Kolla var menningarlega sinnuð og vissi fátt skemmtilegra en að víkka sjóndeildarhringinn með aukinni menntun, ferðalögum og því að kynnast ólíkum menningarheimum. Best þótti henni ef hægt var að sameina þetta allt og það tókst henni, því hún hvikaði sjaldan frá því að ná settum mark- miðum sínum.

Ég kynntist Kollu á námsárum okkar í lagadeild háskóla Íslands fyrir 15 árum og eignaðist í henni trausta vinkonu og vinnufélaga, en sem ungir laganemar unnum við báðar hjá Sjónvarpsmarkaðnum og er óhætt að segja að betri vinnufélaga hef ég ekki átt. Það var tilhlökkunarefni að mæta í vinnuna á hverjum degi, ekki síst vegna húmors Kollu og hláturmildi.

Minningarnar streyma fram... af Kollu á háskólaböllunum, í hanastélum, matarboðum, listsýningum, tónleikum, allar bíó- og kaffihúsaferðirnar okkar, sameiginlegur áhugi okkar á Gustav Klimt eftir að hún kom aftur frá Vín; Kolla stolt í cand. jur. útskriftarveislunni sinni í Beykihlíðinni 1999, góða handgerða konfektið hennar sem hún bar fram í veislunni, sem leiðir hugann að því hversu myndarleg Kolla var, alltaf til í að skapa og hanna eitthvað nýtt eða fegra og bæta umhverfi sitt.

Ég man skiptið sem Kolla hringdi í mig meðan ég vann hjá skattstjóranum í Reykjavík og kvartaði hástöfum, fremur nefmælt og með skjálfandi, tinandi röddu gamalmennis yfir meintri skattpíningu. Kolla rifjaði atvikið oft upp og skemmti sér konunglega yfir hversu miður mín ég varð yfir að hafa lagt meint ólögmætt álag á gamla konu og eins fyrir að hafa ekki þekkt hana strax! Enn fyndnara fannst henni að ég efaðist lengi um alla, sem hringdu og kvörtuðu og þóttist a.m.k. alveg viss í eitt skipti að Kolla væri að láta til skarar skríða aftur!

Ég man þegar Kolla sýndi mér mynd af sér í búningi sýslumannsfulltrúa á Eskifirði og Neskaupstað, sem hún tók sig vel út í - en vandi fylgir vegsemd hverri, starfið fól í sér fjarvistir frá fjölskyldu og vinum; mér varð oft hugsað til þess síðar þegar ég varð sýslumannsfulltrúi á Húsavík hversu vel félagsveran Kolla tókst á við einveruna austur á landi. Í þeim efnum naut ég reynslu hennar og það var gott að leita ráða hjá henni. Einhverra hluta vegna er mér síðan minnisstætt þegar ég hitti Kollu, sem þá var orðin ákærandi hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, stressaða og fasta í strætó að leið niður Laugaveg í héraðsdóm. Lögreglustjórinn í Reykjavík sá fulltrúum sínum nefnilega fyrir strætómiðum til að geta mætt fyrir dóm. Kolla hafði áhyggjur af að allir í réttarsalnum væru farnir að bíða eftir sér og við vorum sammála um að öllu virðulegra væri að vera ákærandi úti á landi, þar sem fulltrúarnir fengu lögreglufylgd á dómstað. En jafnvel á grámyglulegustu, stressuðustu stundum hversdagsins, sem þessum, gátum við hlegið.

Á aðfangadag var fastur liður að Kolla kæmi heim til mín eða ég til hennar með gjafir, en gjafmildari og greiðviknari vinkonu er vart hægt að hugsa sér. Kolla sagði oft að við værum nú meiru jólasveinarnir, en hlutverk beggja á heimilum okkar var að keyra út gjöfum. Ég veit að næstu jól verða erfið, því þótt við sæjumst oft ekki svo mánuðum skipti, þá var fastur punktur í tilverunni að hittast um jólin. Kannski verður farið að sigtast inn þá að Kolla er ekki lengur hérna megin og að óvisst langur tími líður uns við sjáumst aftur.

Hvar sem Kolla var í heiminum var hún til staðar fyrir vini sína og hélt miklu sambandi við þá, hvort sem það var gegnum síma, með bréfaskriftum, tölvupóst eða sms. Við Kolla gátum talað tímunum saman í símann um hvað sem er, á hvaða tíma sólarhrings sem er. Mér er sérstaklega minnisstæður tíminn sem hún dvaldi við nám í Vín, en þá fékk ég á hverjum degi margra síðna tölvupóst frá henni um hvað væri að gerast í lífi hennar, það var næstum því eins og að vera á staðnum. Þannig eignaðist ég hlutdeild í því sem hún gerði, hvernig henni leið og hvaða fólki hún kynntist. Að sama skapi svalg hún í sig fréttirnar að heiman, sem ég reyndi að senda henni í svarpóstum, en oftast var hún mun betur inni í öllu en ég, þannig að fréttirnar sem ég færði voru oft lummulega úreltar að hennar mati. Fyrir rest fór svo að ég skáldaði hinar og þessar sögur af merkilegum atburðum á Íslandi, sem áttu takmarkaða stoð í raunveruleikanum og Kollu fannst gaman að ráða í hvort hinn eða þessi atburðurinn hefði átt sér stað eða ekki. Frásagnargáfu Kollu fengu fleiri notið síðar þegar hún var við nám í Peking, en þaðan sendi hún reglulega pistla, sem birtust í Fréttablaðinu og á bloggsíðu hennar, Lafðinni, en þar sagði hún m.a. skemmtilega frá þeim stöðum sem hún ferðaðist til þ.á.m. Kambódíu, Laos og Víetnam.

Fyrir um 7 árum hóf Kolla afskipti af pólítík og var Framsóknarflokkurinn, sá flokkur sem féll best að lífsýn hennar. Kolla vann af heilindum og ósérhlífni fyrir flokkinn en mér líkaði oft ekki hvernig komið var fram við hana þar. Þó gerðist margt gott líka, sérstaklega þegar hún starfaði sem aðstoðarkona Sivjar Friðleifsdóttur, í heilbrigðisráðuneytinu, en að þeim frama var hún vel komin. Ég hefði þó viljað sjá hana á Alþingi, þar sem hún hefði sómt sér vel, eins góð í samskiptum og hún var, með skynsemina í fyrirrúmi og sáttasemjari af Guðs náð.

Kolla reyndi á tímabili að kristna okkur heiðingjana vinkonur hennar, þ.á.m. gallharðar íhaldskonur eða eðalkrata langt aftur í ættir. Mér er minnisstætt þegar hún reyndi að sannfæra mig um að ég væri framsóknarkona, sem hefði verið móðgandi, ef önnur hefði átt í hlut en Kolla. Ég vissi að hún meinti vel og var að reyna að tileinka mér gildi, sem hún mat mest. Hún var réttsýn og mikil kvennréttindakona og það er akkur í slíku fólki hvar í flokki sem það er. Þegar við ræddum um pólítik lögðum við áherslu á það sem sameinaði en ekki það sem skildi að, þótt gaman væri að fara á flug þar líka. Oftast lögðum við þó flokksskóna á hilluna og reyndum að einblína á húmorinn í ólíkri afstöðu okkar, hún Framsóknarkonan en ég í Samfylkingunni. Hún gat þó ekki setið á sér og var ósínk á að benda mér á að allt væri vænt sem vel væri grænt", sem varð til þess að hin síðustu ár vafði ég ófrávíkjanlega gjafir til hennar í grænan pappír og hún svaraði með rauðum.

Síðasta minningin um Kollu er frá því snemma á þessu ári, það er minningin sem mun fylgja mér um ókomna tíð; Kolla með tár í augum vegna hláturkrampa sem hún fékk í þessari síðustu kaffihúsaferð okkar, þar sem hlegið var út í eitt vegna frásagna af skemmti-legum atburðum, sem á daga okkar hafði drifið. Það var svo gott að hlægja með Kollu.

Það er mikill missir af Kollu. Þakklætið fyrir ljúfa samfylgd er þó ofarlega í huga og minningarnar margar. "Elsku Kolla...


Margt er í minninganna heimi,
mun þar ljósið þitt skína.
Englar hjá Guði þig geymi,
ég geymi svo minningu þína.
(Höf. ók.) ,#

Ég bið góðan Guð að styrkja foreldra Kollu, Ásu og Rúnar, systkini, fjölskyldu og vini hennar í sorg þeirra.

Guð blessi minningu Kolbrúnar Ólafsdóttur, vinkonu minnar, sem mér þótti svo vænt um.

Ragnheiður Jónsdóttir