Ingigerður Karlsdóttir (Irmgard Antonia Meyer) fæddist í Rechterfeld í Niedersachsen-héraði í Þýskalandi 14. mars 1926. Hún lést á Landspítala í Fossvogi 19. október 2009. Foreldrar hennar hétu Johann Carl og Bernardine Meyer. Ingigerður er þriðja í fæðingar- og dánarröð fjórtán systkina. Systkini hennar búa í Þýskalandi utan einnar systur, Hedwig Meyer, sem býr á Íslandi ásamt fjölskyldu sinni. Ingigerður ólst upp í Rechterfeld en þurfti ung að standa á eigin fótum, enda systkinahópurinn stór. Hún starfaði nokkur ár við þjónustu- og bókhaldsstörf á kaffihúsi. Samhliða sinnti hún herskyldu í lok seinni heimsstyrjaldar innan slökkviliðs hersins, við björgunar- og slökkvistörf. Annað lunga hennar var fjarlægt í kjölfar berklaveiki og hafði það mikil áhrif á líf hennar. Dvaldist hún langdvölum á sjúkrahúsi og endurhæfingarstöð áður en hún fluttist til Íslands árið 1963. Ingigerður giftist 11. apríl 1964 Einari Líkafrónssyni sjómanni, f. 22. des. 1914, d. 20. mars 2008. Sonur þeirra er Bjarni tæknifræðingur, f. 3. apríl 1964, maki Ingibjörg Sigurðardóttir leikskólakennari og börn þeirra eru Ester, f. 3. apríl 1991, Einar Siggi, f. 24. okt. 1994 og Birkir Ingi, f. 7. feb. 1997. Einar og Ingigerður hófu búskap á Kópavogsbraut 62 í Kópavogi. Þau fluttust til Hafnarfjarðar árið 1971 og bjuggu á Suðurvangi 6 þar til þau fluttu á Hrafnistu árið 2000. Ingigerður var húsmóðir og sinnti heimili sínu af mikilli alúð og ræktarsemi, auk þess sem hún vann ýmis tilfallandi störf. Hún var mikil áhugamanneskja um listsköpun af ýmsu tagi, þar mætti helst nefna listmálun, glerlist og hannyrðir. Á efri árum hélt Ingigerður sýningar á verkum sínum, bæði hér heima og í ráðhúsi heimabæjar síns í Þýskalandi. Ingigerður var mjög trúuð og kirkjurækin og átti sér marga vini í röðum kaþólska safnaðarins og St. Jósefssystra sem voru hér á landi á árum áður. Hún vann ötullega með söfnuðinum að styrkingu hans, meðal annars með byggingu St. Jósefskirkju í Hafnarfirði. Ingigerði var sungin sálumessa í St. Jósefskirkju í Hafnarfirði 27. október í kyrrþey.
Mig langar að minnast Irmgard móðursystur minnar. Irmgard hefur nú haldið í sína hinstu för, eftir erfið veikindi. Irmgard og Hedwig móðir mín eru þýskar að uppruna og koma úr stórum systkinahópi. Þar sem þær báðar voru búsettar á Íslandi þá hefur frá fyrstu tíð eðlilega ávallt verið mikill samgangur milli fjölskyldna þeirra systra og hef ég því orðið þeirrar gæfu og ánægju aðnjótandi að kynnast Irmgard mjög vel.
Irmgard var alla tíð mjög listræn og handlagin. Hún var mjög vandvirk og snjöll að leysa úr því sem hún tók sér fyrir hendur, hvort heldur sem um var að ræða flísalagnir, veggfóðrun eða annað handverk. Ég minnist þess að Irmgard tók að sér að rétta dæld sem var á bíl föður míns á árum áður. Á efri árum tók Irmgard upp á því að fara að mála myndir og eins og oft áður tókst henni það vel upp að hún fór að sýna myndir sínar bæði hér á landi og einnig hélt hún sýningar í Þýskalandi. Irmgard frænka átti lengi við vanheilsu að stríða en lét það ekki aftra sér frá því að gera það sem hugur hennar stóð til.
Irmgard var mjög trúuð og vann ötullt starf við uppbyggingu á kirkju Kaþólska safnaðarins á Jófríðarstöðum í Hafnarfirði. Þegar hún lést nú í október eftir erfið veikindi hafði hún svo sannanlega skilað af sér góðu dagsverki og var sátt við að hverfa á braut.
Ég þakka Irmgard fyrir samfylgdina og minnist hennar með hlýhug og votta Bjarna, Ingibjörgu og börnum þeirra mínar dýpstu samúð.
Guðjón Karl Guðmundsson.
Við andlát móður minnar, Ingigerðar Karlsdóttur, rifjast upp ljúfar æskuminningar með foreldrum mínum frá heimili okkar í Kópavogi og síðar Hafnarfirði, minningar um yndislega móður sem var mjög umhugað og annt um fjölskyldu sína og vini, minningar um eftirminnilegar ferðir til Þýskalands og heimsóknir fjölskyldu frá Þýskalandi, minningar um sunnudaga sem alltaf voru sannkallaðir hátíðisdagar í lífi okkar, minningar um móður sem síðan varð tengdamamma og amma þriggja barna, Esterar, Einars Sigga og Birkis Inga.
Ekki er hægt að lýsa með orðum öllu því góða sem hún hefur komið til leiðar, þar nægir að vitna til allra þeirra sem því hafa kynnst, enda gerði hún sér alltaf far um að vera samferðafólki sínu innan handar.
Móðir mín, sem gjarnan var kölluð Inga, var heimavinnandi húsmóðir sem hugsaði einstaklega vel um heimilið. Hún var mjög fjölhæf og vandvirk, það var eins og allt léki í höndunum á henni. Þar mætti t.d. nefna hefðbundin iðnaðarmannastörf á heimilinu eins og múrverk, flísalögn, veggfóðrun, málun og þess háttar, saumaskapur, vinna við handverk af ýmsu tagi, matargerð, uppeldi, barnapössun o.fl. Hún skilaði ávallt vel unnu verki og var boðin og búin til aðstoðar þegar á þurfi að halda.
Fyrsta bílinn keyptu foreldrar mínir þegar móðir mín hafði nýlokið ökunámi 51. árs að aldri. Það var tímasetning sem hentaði ungum dreng sem var nálægt því að komast á bílprófsaldurinn einstaklega vel. Þetta gaf henni ný áður óþekkt tækifæri til að ferðast með okkur feðga og þýska gesti sína um landið og heimsækja vini og sinna erindum.
Móðir mín var mjög trúuð og er ég sannfærður um að trú hennar átti sterkan þátt í að hún náði að sigrast á þeim þjáningum sem fylgdu reglubundnum veikindum hennar, en þau mátti rekja til þess að annað lunga hennar var fjarlægt í kjölfar berkla fyrir rúmu 60 árum. Hafði það mikil áhrif á líf hennar, en aldrei skorti lífsviljann, kraftinn og dugnaðinn. Hún náði sér alltaf á strik eftir veikindi sín, en heilsa hennar brast í lokin og kominn var tími til að kveðja.
Fjölskylduböndin voru sterk og þeim var vel við haldið hér heima og erlendis. Hún sýndi mikla ræktarsemi við þýsk systkini sín sem voru 13 talsins og fór með reglubundnum hætti til Þýskalands, síðast fyrir tveimur árum í 80 ára afmæli systur sinnar, sem er nokkuð vel þekkt nunna í Þýskalandi.
Móðir mín reyndist föður mínum alla tíð traust og góð eiginkona. Hún hafði tileinkað honum líf sitt og stóð eins og klettur við hlið hans. Þetta kom glögglega í ljós í veikindum hans síðustu ár hans, en hann lést í fyrra á 94. aldursári. Heilsu móður minnar fór hrakandi eftir andlát föður míns og kom þá í ljós hversu heppin hún var að eiga góða og trausta vini að.
Við fjölskyldan færum okkar bestu þakkir til starfsfólks Hrafnistu í Hafnarfirði og Lungadeildar A6 á Landspítala bestu þakkir fyrir mjög góða aðhlynningu.
Blessuð sé minning móður minnar. Hún hvíli í eilífri ró og friði.
Bjarni S. Einarsson