Klara Sveinsdóttir fæddist í Gerði á Barðaströnd 21. júlí 1922. Hún lést á Sjúkrahúsi Patreksfjarðar 18. október sl. Foreldrar hennar voru Ingveldur Jóhannesdóttir, f. 30. maí 1893, d. 18. júlí 1966, og Sveinn Ólafsson, f. 15. október 1882, d. 2. júní 1950. Systkini Klöru, sem öll eru látin, voru Jóhannes Hjálmar (samfeðra), f. 9. maí 1902, Jón Ingivaldur, f. 16. júní 1915, Svava, f. 17. febrúar 1917, Ólafur, f. 28. júlí 1925, Ólafía Margrét, f. 6. september 1926, Hulda, f. 11. mars 1929, og Valgerður, f. 10. nóvember 1931. Ung fluttist Klara að Haukabergi og byrjaði búskap með Einari Björgvini Haraldssyni, f. 18. júlí 1918, d. 14. maí 1995. Foreldrar has voru Haraldur Marteinsson, f. 25. ágúst 1888, d. 13. október 1968, og Sigríður Einarsdóttir, f. 13. desember 1880, d. 31. janúar 1940, og bjuggu þau á Haukabergi. Klara og Einar giftu sig 30. desember 1963. Þau tóku við búinu á Haukabergi eftir andlát Sigríðar. Börn Klöru og Einars eru: 1) Erla, f. 3. febrúar 1943, maki Hreiðar Sigurðsson. 2) Birgir, f. 27. júlí 1945, maki Aðalheiður Soffía Magnúsdóttir. 3) Sveinn, f. 9. september 1951, maki Hafdís Jakobsdóttir. 4) Sigríður, f. 8. júlí 1956, maki Þór Árnason. 5) Haraldur, f. 22. júní 1958, maki Vilborg Gunnarsdóttir. 6) Stúlkubarn, fætt andvana 29. júlí 1959. 7) Rúnar, f. 16. febrúar 1962. Afkomendur Klöru og Einars eru 60. Starsferill Klöru var við búskapinn í sveitinni. Eftir andlát Einars flutti hún til Patreksfjarðar að Túngötu 16. Útför Klöru fer fram frá Patreksfjarðarkirkju í dag, 31. október, kl. 13. Jarðsett verður í Hagakirkjugarði.
Elsku Klara amma. Það er svo ótrúlegt að þú skulir vera farin, fyrir mér áttir þú alltaf að vera til. Það verður skrítið að koma heim á Patró og geta ekki hitt þig. Það var alltaf svo gott að hitta þig. Þú varst alvöru amma, svo góð í gegn og vildir öllum í kringum þig alltaf það besta. Ég er svo glöð að hafa verið svona mikið fyrir vestan eins og ég var í sumar. Ég hitti þig svo oft og börnin mín hittu þig líka. Enda voða spennandi að hitta ömmu sjóræningja.
Ég er svo glöð að þau fengu öll að kynnast þér nokkuð vel. Ég á svo margar góðar minningar um þig. Ég man svo vel eftir því þegar þú gistir hjá okkur þegar ég var lítil. Þá vorum við svo oft að spila. Einu sinni stökk ég undan rúminu á tærnar á þér en þér brá voða lítið við það. Þú sagðist vera vön eftir að eitt gæludýrið þitt gerði þetta alltaf við þig. Ég man vel eftir því að þegar við vorum í sveitinni þá fórum við svo oft í fjöruna. Þá var sko gott að eiga ömmu sem var hærri í loftinu en maður sjálfur svo kríurnar gætu goggað fyrst í þig. Ég gleymi því aldrei þegar þú sýndir mér eggin sem eina af gæsunum þínum lá á. Hún beit þig í handleggina og varði hreiðrið en þú kipptir þér ekkert upp við það.
Á þessum tíma varstu algjör súperamma í mínum augum. Seinna þegar þú varst svo flutt á Patró man ég öðruvísi hluti. Þú varst svo dugleg að sauma út. Enda eru myndir eftir þig um alla veggi í íbúðinni þinn. Þú meira að segja varðst að draga mig að landi með eina sem ég byrjaði á og ekki varstu lengi að því. Þegar ég fékk hana svo í hendurnar var hún svo falleg.
Svo var það maturinn. Vá, amma það var sko alltaf nóg að borða hjá þér. Þú varst alltaf með kökur á borðum. Svo mikil amma. Ég minnist þín líka sem konu sem alltaf var svo geðgóð. Þú varst svo róleg í fasi, glaðleg, falleg og brosandi. Svo fín í pilsum eða kjólum. Það var svo notalega að koma heim til þín, þú hafðir alltaf tíma fyrir mann. Verst fannst mér þó að þú vildir aldrei láta hafa neitt fyrir þér. Þú vildir heldur vera til hliðar og passaðir upp á að vera alveg örugglega ekki fyrir neinum. Það lýsir þér reyndar nokkuð vel. Þú varst nefnilega alltaf að hugsa um alla aðra í kringum þig.
Elsku elsku amma mín. Hafðu það gott hjá Guði, ég elska þig og sakna þín.
Hrefna Ósk.
Í dag kveðjum við Klöru ömmu.
Þegar ég var strákur fór ég oft til ömmu og afa í sveitina á Haukabergi á Barðaströnd. Þaðan á ég mínar bestu bernskuminningar. Amma var aldrei iðjulaus, hún var alltaf að, ef ekki við húsverk, þá við hannyrðir. Á síðustu árum hafa heimsóknir mínar til hennar fækkað þar sem ég bjó ekki lengur nálægt henni. En það var alltaf gott að koma til hennar eftir að hún flutti til Patreksfjarðar, setjast niður með henni og drekka með henni kaffisopa og spjalla um lífið og tilveruna.
Síðustu ár hafa verið ömmu erfið vegna veikinda og var hún á sjúkrahúsinu á Patreksfirði allt þetta ár. Nú er komið að kveðjustund. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt hana ömmu, notið kærleika hennar og umhyggju.
Elsku amma, ég kveð þig með sorg í huga en gleði í hjarta að þú skulir vera búin að fá frið.
Nú legg ég augun
aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Foersom / Sveinbjörn Egilsson.)
Hvíl í friði
Arnar, Hrefna,Gissur, Hreiðar, Sunna Rós og Jón Benjamín.
Í dag kveðjum við Klöru ömmu.
Þegar ég var strákur fór ég oft til ömmu og afa í sveitina að Haukabergi á Barðastörnd. Þaðan á ég mínar bestu bernskuminningar. Amma var aldrei iðjulaus, hún var alltaf að, ef ekki við húsverk, þá við hannyrðir. Á síðustu árum hafa heimsóknir mínar til hennar fækkað þar sem ég bjó ekki lengur nálægt henni. En það var alltaf gott að koma til hennar eftir að hún flutti til Patreksfjarðar, setjast niður með henni og drekka með henni kaffisopa og spjalla um lífið og tilveruna. Síðustu ár hafa verið ömmu erfið vegna veikinda og var hún á sjúkrahúsinu á Patreksfirði allt þetta ár. Nú er komið að kveðjustund. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt hana að ömmu, notið kærleika hennar og umhyggju. Elsku amma mín, ég kveð þig með sorg í huga en gleði í hjarta að þú skulir vera búin að fá frið.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
Foersom / Sveinbjörn.Egilsson
Hvíl í friði amma mín.
Arnar, Hrefna,Gissur, Hreiðar, Sunna Rós og Jón Benjamín
Arnar Hreiðarsson