Jón Jónsson fæddist á Skriðustekk í Breiðdalshreppi í S-Múl. 31.12. 1922. Hann lést á Landspítalanum 27.10. 2009. Foreldrar hans voru hjónin Jón Guðnason söðlasmiður, f. á Randversstöðum í Breiðdal 6.6. 1890, d. 6.6. 1939, og Maren Jónsdóttir, húsfreyja og verkakona, f. á Vogum í Vopnafirði 7.5. 1901, d. 11.12. 1996. Jón var næstelstur af níu systkinum, hin eru Hilmar Eyjólfur, f. 1920, d. 2006, Gunnar, f. 1924, d. 1978, Sjöfn, f. 1925, Inga Þórunn, f. 1928, d. 2008, Geir Marinó, f. 1930, d. 1990, Vöggur, f. 1932, Gestur, f. 1933, d. 1977, Óli Kristinn, f. 1935. Um tveggja ára aldur flutti Jón með foreldrum sínum til Eskifjarðar, ólst hann þar að mestu upp. Jón kvæntist 27.10. 1951 Björgu Bjarndísi Sigurðardóttur, f. í Rekavík bak Höfn 17.9. 1933, foreldrar hennar voru Sigurður Hjálmarsson bóndi, f. í Rekavík í Sléttuhr. 1894, d. 1969, og Ingibjörg Bárðlína Ásgeirsdóttir húsfreyja, f. í Bolungarvík 1898, d. 1935. Þegar Björg Bjarndís missti móður sína var hún sett í fóstur til frænda síns Guðmundar Jóns Guðmundssonar bónda, f. 1881, d. 1971, og Soffíu Vagnsdóttur húsfreyju, f. 1897, d. 1986, búsett á Heimabæ á Hesteyri við Ísafjarðardjúp, þar ólst hún upp. Árið 1952 fluttu þau hjónin í Kópavog og bjuggu þar til ársins 1996, síðustu árin hafa þau búið í Garðabæ. Jón og Björg Bjarndís áttu 58 ára brúðkaupsafmæli þegar hann lést, þau eignuðust sex börn, þau eru 1) Soffía Margrét, f. 1951, börn hennar, a) Rose Marie, f. 1970, maki Mitchell Plitnik, sonur þeirra Ian Huginn, og b) Holly Andrea, f. 1975. 2) Guðmundur Jón, f. 1952, maki Hjördís Alexandersdóttir, f. 1954, börn þeirra a) Alexander, f. 1974, börn hans Erla Ösp, Hjördís, Þórhildur, Sædís, og b) Björg, f. 1978. 3) Marín, f. 1954, börn hennar a) Bryndís Eva, f. 1973, maki Unnar Valby Gunnarsson, börn þeirra Jakob Valby, Ármann Kári Valby, Benedikt Karl Valby, Jónatan Valby, b) Ásdís Björg, f. 1980, og c) Þórdís Guðrún, f. 1982, sambýlismaður Davíð Freyr Guðmundsson, synir þeirra Ólafur Dagur, Ían Óliver. 4) Gunnar, f. 1956, maki Guðrún Ósk Ólafsdóttir, f. 1954, d. 1994. 5) Steinar Skarphéðinn, f. 1959, maki Sigrún Gissurardóttir, f. 1961, börn þeirra Skarphéðinn, f. 1984, Sandra, f. 1989, og Gissur Orri, f. 1993. 6) Rósa Ingibjörg, f. 1963, maki Oddgeir Björnsson, f. 1957, börn þeirra a) Jón Leopold, f. 1980, b) Sigurður Björn, f. 1981, c) Sigrún, f. 1985, sambýlismaður Andrés Smári Magnússon, og d) Oddgeir Hlífar, f. 1994. Jón stundaði sjómennsku frá unga aldri en fluttist til Reykjavíkur um 25 ára aldur og hóf nám í múriðn, hann lauk sveinsprófi við Iðnskólann í Reykjavík 1950, fékk meistararéttindi 1963, stundaði skrifstofutækninám í Tölvuskólanum 1986 og varð löggiltur vigtarmaður 1987. Jón starfaði sem múrari í 40 ár, síðar hjá Sambandinu þar til hann fór á eftirlaun. Jón verður jarðsunginn frá Garðakirkju á Garðaholti í dag, 5. nóvember 2009, og hefst athöfnin klukkan 13.
Ég þakka okkar löng og liðin kynni,
sem lifa, þó maðurinn sé dáinn.
Og ég mun alltaf bera mér í minni
Þá mynd sem nú er liðin út í bláinn.
Und lífsinns oki lengur engin stynur
sem leistur er frá sinnar ævi þrautum.
Svo bið ég guð að vera hjá þér vinur
og vernda þig á nýjum ævi brautum.
(Þ. Hjálmarsson)
Þetta fallega ljóð vil ég gera að kveðjuorðum mínum til Jóns tengdaföður míns.
Jón var traustur og góður vinur sem gott var heim að sækja, hann var vel lesinn og fróður maður. Hann var sérlega hjálpsamur, alltaf boðinn og búinn að hjálpa ef á þurfti að halda. Nú er hann horfinn á braut og vil ég þakka fyrir allar góðu stundirnar sem ég átti í návist hans.
Um þig minning á ég bjarta
sem yljar eins og geisli er skín.
Þú áttir gott og gjöfult hjarta
Og gleði veitti návist þín.
(Höf. ók.)
Eg bið góðan guð að veita Björgu tengdamóður minni og fjölskyldunni
allri styrk í þeirra mikla missi.
Hjördís Alexandersdóttir.
Hver minning um stundir með afa er dýrmæt perla í huga okkar Guðmundsbarna.
Þær minningar sem hug okkar skreyta eru til að mynda minningar um sjóferðir sem við höfðum öll svo gaman að, bókmennta og ættfræði spjall, létt grín og harðfiskjapl. Þær perlur sem mest ylja eru myndirnar af afa taka á móti okkur þegar við kíktum í heimsókn og brosið sem á vörum hans lék átti rætur sínar í hlýju hjarta hans sem fagnaði innilega okkur barnabörnunum og barnabarnabörnum, sú ánægja var gagnkvæm.
Fleyi afa hefur verið ýtt úr vör í hinsta sinn. Það er fögur sigling sem hann á fyrir höndum til himna þaðan mun hann gera út frá himnum sem engill í áhöfn Guðs.
Góða ferð elsku afi
Björg og Alexander Guðmundsbörn.
Elsku afi, manstu þegar þú lagðir þig í sjónvarpsherberginu í Hlégerði í gamla daga og við krakkarnir, ég og Þórdís systir, varalituðum þig með bleikum varalit? Þú rumskaðir lítilega og þegar þú vaknaðir af blundinum góða þá brostiru til okkar og fannst þetta allt í lagi.
Það var allaf gott að koma í heimsókn til þín og ömmu. Tekið var á móti manni með gleði í bragði og kærleiksknúsi. Þú varst svo duglegur að hita kaffi og komst hlaupandi með kleinurnar með kaffinu.
Það gladdi þig svo mikið að heyra að ég væri komin í nám við HÍ. Þú táraðist þegar þú sagðir mér hversu ánægður þú varst með það. Þegar maður fór úr heimsókn frá þér og ömmu vantaði aldrei þau orð frá þér sem hér segir: Guð veri með þér og Guð geymi þig. Það var allaf gott að heyra þig segja þessi orð. Þegar maður keyrði svo í burtu frá húsinu þínu þá stóðst þú alltaf úti á bílastæði og veifaðir í kveðjuskyni. Það var þannig sem ég sá þig seinast áður en þú fórst til himna. Ég veifaði alltaf í kveðjuskyni á móti. Ég mun aldrei gleyma þessu veifi okkar, afi. Nú veifar þú til mín frá himnaríki um leið og ég minnist þín.
Þín afastelpa,
Ásdís Björg.
Eitt af fyrstu minningum mínum um afa minn var þegar ég var 3ja ára og afi var að kenna mér á klukku. Vakti það mig til umhugsunar um stærri heim. Hann var mér sem vinur, stoð og stytta. Hann var eins og bjarg sem lét ekki undan þrátt fyrir þá erfiðleika sem ég hef þurft að fara í gegnum, hann dæmdi mig ekki fyrir það, hann þerraði tár mín þegar ég grét. Hann hló með mér því oft var gaman hjá okkur.
Vertu blessaður elskulegi afi minn, besti vinur og skjöldur, þú bjargaðir sálu minni.
Þinn elskulegur dóttursonur
Jón Leopold Ólafsson.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
/
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
(V. Briem.)
Mig langar að kveðja elsku pabba minn, sem alltaf var mér svo góður. Það var alltaf hægt að leita til þín, þú varst pabbi minn og vinur minn. Það er tómlegt að hafa þig ekki hér á meðal okkar, minningin um þig lifir í hjarta mínu að eilífu, elsku pabbi minn.
Rósa Ingibjörg Jónsdóttir.