Dagbjört Þ. Hjörleifsdóttir fæddist á Djúpavogi 24. maí 1955. Hún lést á líknardeild Landspítalans við Hringbraut 3. október síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Hjörleifur Gústafsson, f. 2.6. 1918, d. 9.2. 1992, og Guðleif Magnúsdóttir, f. 12.11. 1918, d. 6.3. 2006. Systur Dagbjartar eru; 1) Eygló Bogadóttir (sammæðra), f. 11.12. 1945, 2) Jónína Rebekka Hjörleifsdóttir, f. 13.4. 1951, 3) Gústa Hjörleifsdóttir, f. 29.4. 1958, 4) Magnhildur Hjörleifsdóttir, f. 6.10. 1959. Eiginmaður Dagbjartar er Sævar Hjartarson, f. 3.11. 1950, dætur þeirra eru: 1) Guðleif María, f. 29.6. 1973, börn hennar eru Agnes Ýr, f. 8.5. 1991, og Sævar Dagur, f. 30.7. 2004, 2) Kristjana Hjördís, f. 25.12. 1981, unnusti Huginn Arnarson, f. 22.3. 1982, dóttir Kristjönu frá fyrra sambandi er Helena Birta, f. 24.6. 2003. Útför Dagbjartar fór fram frá kirkju Óháða safnaðins 12. október í kyrrþey.
Mikið er lífið litlaust án þín elsku perlan okkar. Þú ert og varst yndisleg, það eru ekki allir jafn heppnir og við að hafa fengið að njóta þess að eiga þig að. Fólkið sem þú laðaðir að þér, og vildir sjálf hafa í kringum þig, kallaðir þú perlur en líkur sækir líkan heim. Það eru fáir sem stóðu þér á sporði þegar kom að listsköpun, þú gast tekið hvaða efnivið sem var og föndrað eitthvað dásamlegt úr honum. Mikið varstu hamingjusöm að fá tækifæri til þess að læra One-stroke málningaraðferðina, þegar þú fórst út til Orlando að læra þá list og ég (Gústa) fylgdi þér í þá ferð það var alveg dásamlegt. Hvert sem við lítum blasa listaverkin þín við inni á okkar heimilum mikið var undursamlegt að fá pakka frá þér, því þar leyndust alltaf gullmolar úr þinni smiðju. Dugleg varstu að sanka að þér englum, lömpum og öllu þar á milli, enda bar heimili þitt þess glöggt merki. Alveg sama hvað bjátaði á hjá þér skipuðu aðrir forgang , þú hafðir mun meiri áhyggjur af því hvernig öðrum reiddi af, en þannig varst þú - yndisleg og hlý.
Elsku Dabbý okkar við erum svo innilega þakklátar að hafa fengið að njóta samvista við þig þennan tíma, þó svo að okkur finnist sá tími sem þér var gefinn allt of stuttur. Enginn kemur til með að fylla skarð þitt en minningin um þig, engilinn okkar, lifir í hjörtum okkar um ókomna tíð.
Gættu þess vin, yfir moldunum mínum,
að maðurinn ræður ei næturstað sínum.
Og þegar þú hryggur úr garðinum gengur
ég geng þér við hlið þó ég sjáist ei lengur.
En þegar þú strýkur burt tregafull tárin
þá teldu í huganum yndisleg árin
sem kallinu gegndi ég kátur og glaður,
það kæti þig líka, minn samferðamaður.
(James McNulty.)
Með svo fátæklegum orðum kveðjum við þig, við elskum þig alltaf.
Hvíldu í friði fallegi engill.
Þín systir og systurdætur,
Gústa Hjörleifsdóttir, Elín Rut Einarsdóttir og Eva Guðný Einarsdóttir.
Gústa Hjörleifsdóttir, Elín Rut Einarsdóttir, Eva Guðný Einarsdóttir