Steingrímur Eyfjörð Guðmundsson fæddist í Reykjavík 8. janúar 1960. Hann lést á Landspítalanum í Reykjavík 2. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hans eru Guðmundur Pétursson læknir og fyrrverandi forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði að Keldum, f. í Nesi í Selvogi 8.2. 1933 og Ásdís Steingrímsdóttir meinatæknir, f. 28.7. 1929, d. 1.9. 2007. Bróðir Steingríms var Pétur Magnús, f. 21.10. 1956, d. 9.11. 2006, maki er Sveinn Haraldsson, f. 11. júlí 1962. Systir Steingríms er Bergljót B., f. 14.6. 1958. Börn hennar eru Halla Björg Sigurþórsdóttir, f. 12.4. 1993 og Guðmundur Páll Sigurþórsson, f. 14.5. 1998. Sonur Steingríms og Sigrúnar Ólafsdóttur, f. 15.6. 1963, er Sigurður Árni, f. 15.12. 1987. Steingrímur kvæntist 10.9. 1994 Maríu Gústafsdóttur, f. 22.5. 1972. Þau skildu. Sonur þeirra er Sindri Már, f. 12. 4. 1995. Steingrímur ólst upp erlendis með fjölskyldu sinni til ársins 1967 er þau fluttu heim til Íslands. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum við Sund 1981 og var ármaður nemendafélagsins síðasta veturinn í skólanum. Hann stundaði nám í hljóðvísindum við háskólann í Utrecht í Hollandi og lauk því 1984. Eftir heimkomuna vann hann sem hljóðmaður hjá Sjónvarpinu en síðar við hljóðvinnslu kvikmynda og auglýsinga hjá Bíóhljóði, þar sem hann vann til dauðadags. Hann var tónlistarmaður og spilaði með fjölda tónlistarmanna við ýmis tækifæri. Hann var meðlimur í ýmsum hljómsveitum, meðal annars Júpíters, Langa Sela og skuggunum, Oxsmá og Dívani grimma. Útför Steingríms fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 13. nóvember, kl. 15. Jarðsett verður í kirkjugarðinum að Strönd í Selvogi á laugardag.

Okkar hjartans vinur Steingrímur er dáinn. En hans hlýja minning lifir áfram í huga okkar og hjarta því Steingrímur var einn af þessum mönnum sem alltaf lyfti þeim samkomum sem hann kom við á upp á hærra og skemmtilegra plan. Það veit allur sá fjöldi sem vann með Steingrími í bæði tónlistar- og kvikmyndabransanum og hann stytti stundir með ótölulegum fjölda sagna úr eigin lífi. Og auðvitað líka þeir sem kynntust honum í persónulega lífinu og töldust til vinahóps hans. Steingrímur var nefnilega einn af þeim mönnum sem allir voru sammála um að væri sagnameistari. Hvernig er annað hægt að skilgreina manninn sem sagnameistara þegar allir hafa heyrt söguna oft og mörgum sinnum en sameinast í því að nauða í Steingrími þar til hann segir söguna einu sinni enn. Síðan liggja þeir hinir sömu í gólfinu af hlátri í hvert einasta skipti. Þar fer sannur meistari sagnanna sem ræður við að halda sögum sínum lifandi aftur og aftur og stöðugt bæta við sagnaflóruna. Aldrei þreyttist maður á að heyra hann segja frá brúðkaupi sínu í Hallgrímskirkju og viðskiptum sínum við veisluhaldara því tengdu. Og aldrei heyrði maður söguna af sveitadvöl Steingríms á Norðurlandi og afleiðingum hennar fyrir eldhús og útikamar bæjarins nógu oft.

Steingrímur var þannig maður að hann gladdi þá sem í kringum hann voru. Við kynntumst Steingrími þegar við vorum að vinna saman við kvikmyndir og upp úr því þróaðist fljótlega góður vinskapur með okkur. Þegar fram liðu stundir og við félagarnir fórum að gera okkar eigin myndir fór Steingrímur að semja tónlist við þær og vinna að hljóðmyndinni. Skemmst er frá því að segja að tónsmíðar Steingríms lyftu alltaf okkar verkum upp um eina hæð. Síðasta árið sem Steingrímur lifði var hann að semja tónlist í ófrumsýnda mynd okkar - og það lá í loftinu að þetta yrði það síðasta sem hann semdi, nema kraftaverk kæmi til. Það sama er með þessa nýju tónlist Steingríms eins og áður. Hún lyftir okkar verkum upp á næstu hæð. Tónlistin þín lifir Steingrímur og þótt að þú sért farinn á annan stað er okkar samstarfi ekki lokið. Það er í versta falli í smá pásu. Þangað til við hittumst aftur vitum við að hinum megin verður kátt á hjalla og hlegið hátt í veislunni sem þú ert núna í. Taktu frá sæti fyrir okkur félagana svo við getum hlustað enn einu sinni á sögurnar og heyrt þig syngja og spila.

Þínir vinir og félagar,

Örn Marinó Arnarson og Þorkell Sigurður Harðarson.

Ástkær vinur minn, Steingrímur Eyfjörð Guðmundsson, er látinn. Hans verður sárt saknað.

Við kynntumst í barnaskóla og eyddum flestum stundum saman eftir það, fram að tvítugsaldrinum. Þá var helst dvalið í hljóðfæraherbergi í læknisbústaðnum á Keldum, þar sem foreldrar Steingríms bjuggu. Þar lékum við okkur öllum stundum, ég, Siggi Þóris og nokkrir aðrir drengir, með gítara, bassa, bongótrommur og hljómborð.  Þar voru margar hljómsveitir stofnaðar og mörg hljómsveitarnöfnin búin til. Vinátta, sem verður til á þennan hátt er meitluð í stein. Við tvítugsaldurinn skildu leiðir, ég fór í eitt útlandið, Steingrímur og Siggi í annað. Eftir áratuga vist erlendis flutti ég heim og þá var þráðurinn tekinn upp aftur eins og ekkert hefði í skorist.

Steingrímur var vinsæll og vinamargur maður en var þó alltaf mjög sjálfstæður og frumlegur í hugsun og fór gjarna ótroðnar slóðir í lífi sínu og list.

Í tónlistarsköpun kom hin sérstaka hugkvæmni og næmi hans einkar vel fram; þegar hlustað er á sóló, hljómagang eða útsetningar í lögum einhverra þeirra mörgu hljómsveita sem hann var meðlimur í, þá er á augabragði hægt að greina hið einstaka framlag Steingríms. Menn þurfa að vera svolítið miklir snillingar til að geta farið langt út fyrir venjuna og samt hitt nákvæmlega í mark.

Í dag hyggst ég ekki kveðja Steingrím hinstu kveðju enda ætla ég að hitta hann aftur hinumegin við móðuna miklu þegar að því kemur. Þar bíða nú þegar ástvinir sem taka honum fagnandi.

Heill sé þér, Steingrímur Eyfjörð Guðmundsson, snillingur og öðlingur, nú þegar þú kveður þessa jörð. Þín verður sárt saknað. Ég hitti þig fagnandi, vinur, þegar minn tími kemur.

Sindra, Sigurði og Systu sendi ég ást mína og votta fjölskyldu Steingríms dýpstu samúð.

Björn Karlsson.

Mig langar til að minnast Steingríms vinar míns með nokkrum orðum.

Ég kynntist Steingrími síðsumars 1999, þegar við unnum saman að kvikmyndinni Englum alheimsins. Ég var rúmlega tvítug, tæpum tuttugu árum yngri en Steingrímur, slík smáatriði vöfðust ekki fyrir Steingrími sem varð vinur allra sem hann vildu þekkja.
Steingrímur var hæfileikararíkur og mörgum kostum prýddur. Einn af hans mörgu kostum var húmorinn en hann gat séð spaugilegu hliðina á hversdagsleikanum þegar á þurfti að halda og þannig bjargað geðheilsunni hjá samverkafólki sínu í kvikmyndabransanum þegar vinnudagarnir virtust engan endi ætla að taka. Stundum var nóg að horfa bara framan í Steingrím og blikið í augunum; góðlátlegt glottið sagði allt sem segja þurfti.
Góðar minningar um góðan mann streyma fram þegar þetta er skrifað. Þegar við fórum með Marínó & Kela á Pixies tónleika í Kaplakrika og ég sá ekkert sökum smæðar. Steingrímur var ekki lengi að bjóða fram aðstoð sína og taka mig á háhest, þó hann væri alveg að kikna í hnjáliðunum allan tímann. Öll skemmtilegu matarboðin, morgunkaffi á Prikinu, kvöldmatur á Vegamótum og allt blaðrið á Stofunni. Steingrímur í kraftgallanum á Seyðisfirði, pollrólegur að spila snake í símanum á meðan bylurinn dundi á gluggunum á Skaftfelli og allir biðu eftir að veðrinu slotaði svo hægt væri að halda tökunum áfram.
Snemmvors 2004 á Gufuskálum ákváðum við nokkur að fara fínt út að borða á Ólafsvík og skella okkur svo í karaókí á Hellissandi en hljóðsnúran í græjunum var biluð. Okkur langaði svo að syngja og Steingrímur eyddi löngum tíma í að reyna að laga snúruna. Það var eitthvert sambandsleysi en Steingrímur gafst ekki upp. Að lokum stóð hann bakvið barborðið, hélt við snúruna, rétt á meðan við sungum og kallaði fram þegar við átti: Syngdu núna!. Við áttum margar góðar stundir þennan tíma á Snæfellsnesi.

Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu."
(HKL - Fegurð himinsins. 1. kafli.)

Elsku vinur, ég kveð þig með þessum orðum.

Sigurði, Sindra, Guðmundi & Bergljótu og öllum ástvinum Steingríms votta ég mína dýpstu samúð.

Rannveig (Gagga).

Steingrímur var skemmtilegur og afburðagreindur maður. Það vitum við öll sem þekktum hann. Hann tók breytingum og áföllum alltaf af æðruleysi og sýndi það best í baráttu sinni við þennan andstyggilega sjúkdóm.
Hann var raunsær þegar við hittumst síðast, ég talaði um kraftaverk og aðrar leiðir, hann huggaði mig og sagði Svona er þetta bara, kæra, ég er með ólæknandi sjúkdóm.
Mér fannst ólíklegt að hann myndi deyja, því að ef einhver átti inni kraftaverk þá var það Steingrímur, allavega eitt kraftaverk og jafnvel tvö.
Við kynntumst í vinnu fyrir löngu og ég held það megi fullyrða að Steingrímur hafi verið einn af okkar bestu hljóðmönnnum, bæði í upptökum og eftirvinnslu á kvikmyndum.
Fyrir átta árum leiddi Steingrímur mig í gegn um áföll og yfir grýtt fjöll. Hann var með mér á sinn þægilega hátt og borðaði um tíma eins og heimilisfaðir með mér og eldri dætrum mínum. Saman gerðum við margt, fórum í göngutúra, lásum uppáhaldstexta upphátt fyrir hvort annað, hlustuðum á misgóða tónlist, sofnuðum stundum í faðmlögum eins og systkini, björguðum fullum manni sem var verið að berja og öðrum með lungnabólgu, hentum skóm í hvort annað, reyttum líka rjúpur og borðuðum þær.
Steingrímur bjargaði líka fjölda fólks frá leiðindum með sínum dásamlegu og góðu sögum. Við vinir hans reynum stundum að endursegja sögurnar hans Steingríms, en í okkar meðförum eru þær svip- og litlausar. Frásagnarlist Steingríms var einstök og samvistir við hann voru alltaf notalegar.

Steingrímur átti svo ótal marga vini sem hann gaf svo margt, ég þekki bara brot af þessum stóra vinahóp en allir vinir hans geta verið sammála mér um að hann var einstakur maður.
Ég veit að synir Steingríms, Siggi og Sindri, hafa báðir gæsku og greind frá pabba sínum og vonandi sagnagáfuna líka.

Guðmundur pabbi Steingríms, Bergljót (Systa) systir hans og Kristín Reynisdóttir vinkona hans, stóðu hugrökk og hvetjandi við hlið Steingríms allt frá upphafi veikindanna og sýndu öll mikinn styrk og æðruleysi.

Ég kveð kæran vin minn með söknuði og vissu um að ég muni finna fyrir góðri nærveru hans og heyra sögurnar hans innra með mér alla tíð.

Mínar innilegu samúðarkveðjur til Sindra, Sigga, Systu, Guðmundar og allra þeirra sem þekktu og sakna Steingríms.

Ég læt fylgja stutt persneskt ljóð eftir Hafiz sem var uppi á 14.öld, (þýð. Helgi Hálfdánarson)

Ég held að Steingrími hefði líkað þetta ljóð.


Hinn upprisni

Komið að minni gröf í sumarsæld
með svalan bikar víns og gömul ljóð
um heimsins dýrð, og drekkið mína skál.

Sem gróðurilmur upp af dökkri mold
þá ykkar gamli drykkjubróðir rís
og klökkum huga kneyfar vinafull.

Hann tekur undir svimaléttan söng
um sumarangan, rós og bjarta veig,
og dansar vímusæll á sinni gröf.


Hrönn Kristinsdóttir.

Steingrímur var skemmtilegur og afburðagreindur maður. Það vitum við öll sem þekktum hann. Hann tók breytingum og áföllum alltaf af æðruleysi og sýndi það best í baráttu sinni við þennan andstyggilega sjúkdóm.
Hann var raunsær þegar við hittumst síðast, ég talaði um kraftaverk og aðrar leiðir, hann huggaði mig og sagði Svona er þetta bara, kæra, ég er með ólæknandi sjúkdóm.
Mér fannst ólíklegt að hann myndi deyja, því að ef einhver átti inni kraftaverk þá var það Steingrímur, allavega eitt kraftaverk og jafnvel tvö.
Við kynntumst í vinnu fyrir löngu og ég held það megi fullyrða að Steingrímur hafi verið einn af okkar bestu hljóðmönnnum bæði í upptökum og eftirvinnslu á kvikmyndum.
Fyrir átta árum leiddi Steingrímur mig í gegn um áföll og yfir grýtt fjöll. Hann var með mér á sinn þægilega hátt og borðaði um tíma eins og heimilisfaðir með mér og eldri dætrum mínum. Saman gerðum við margt, fórum í göngutúra, lásum uppáhaldstexta upphátt fyrir hvort annað, hlustuðum á misgóða tónlist, sofnuðum stundum í faðmlögum eins og systkini, björguðum fullum manni sem var verið að berja og öðrum með lugnabólgu, hentum skóm í hvort annað, reyttum líka rjúpur og borðuðum þær.
Steingrímur bjargaði líka fjölda fólks frá leiðindum með sínum dásamlegu og góðu sögum. Við vinir hans reynum stundum að endursegja sögurnar hans Steingríms, en í okkar meðförum eru þær svip-og litlausar. Frásagnarlist Steingríms var einstök og samvistir við hann voru alltaf notalegar.

Steingrímur átti svo ótal marga vini sem hann gaf svo margt , ég þekki bara brot af þessum stóra vinahóp en allir vinir hans geta verið sammála mér um að hann var einstakur maður.
Ég veit að synir Steingríms, Siggi og Sindri, hafa báðir gæsku og greind frá pabba sínum og vonandi sagnagáfuna líka.

Guðmundur pabbi Steingríms, Bergljót (Systa) systir hans og Kristín Reynisdóttir vinkona hans, stóðu hugrökk og hvetjandi við hlið Steingríms allt frá upphafi veikindanna og sýndu öll mikinn styrk og æðruleysi.

Ég kveð kæran vin minn með söknuði og vissu um að ég muni finna fyrir góðri nærveru hans og heyra sögurnar hans innra með mér alla tíð.

Mínar innilegu samúðarkveðjur til Sindra, Sigga, Systu, Guðmundar og allra þeirra sem þekktu og sakna Steingríms.

Ég læt fylgja stutt persneskt ljóð eftir Hafiz sem var uppi á 14. öld.


Ég held að Steingrími hefði líkað þetta ljóð.

Hinn upprisni
/
Komið að minni gröf í sumarsæld
með svalan bikar víns og gömul ljóð
um heimsins dýrð, og drekkið mína skál.
/
Sem gróðurilmur upp af dökkri mold
þá ykkar gamli drykkjubróðir rís
og klökkum huga kneyfar vinafull.
/
Hann tekur undir svimaléttan söng
um sumarangan, rós og bjarta veig,
og dansar vímusæll á sinni gröf.

(þýð. Helgi Hálfdánarson)



Hrönn Kristinsdóttir.

Elsku Steingrímur.

Mig langaði bara að þakka þér alla þá gleði sem þú veittir mér í þessu lífi.  Ég kynntist þér fyrst þegar við vorum báðir að vinna í Sjónvarpinu, ég sem skrifta og þú sem hljóðmaður.  Þú varst persóna sem maður dróst að, með þessar brilljant sögur og brandara.  Ekki spillti það fyrir að þú varst frábær tónlistarmaður og í fyrsta og eina skipti sem ég hef sungið blús, var með þér (og þú spilaðir á gítar) í partýi á Laugaveginum, einhvern tímann snemma á tíunda áratugnum. Það var oft gaman hjá okkur.

Það var ógleymanlegt þegar við vorum báðir að vinna við "Palli var einn í heiminum", þá var ég aðstoðarleikstjóri og þú auðvitað hljóðmaður.  Þetta voru langar og erfiðar tökunætur og þú umbreyttist í ákveðna týpu, "Oudwalla - King of the Desert" og sagðir mér sögur af ættbálki þínum í eyðimörkinni.  Og þú leist soldið út eins og eyðimerkurkóngur þar sem þú stóðst með hljóðbómuna eins og spjót.

Þegar ég gerði 1.0, þá áttir þú að koma til Búkarest og taka upp hljóðið þar, þú varst eini hljóðmaðurinn sem ég vildi vinna með, en fjárans "Keisarinn" kom í veg fyrir það.  En svona er þetta nú.

Við ræddum oft um tónlist og þú varst alfræðiorðabók þegar kom að því máli.  Það var gaman að fá sér bjór með þér á Ölstofunni og hlusta á sögurnar þínar.  Einnig náðir þú frábærum árangri með kórinn í Skálkaskjóli.  Þar langaði mig að syngja undir þinni stjórn.  Við gerum það bara í næsa lífi.  Ekkert mál. Við kynntumst súru og sætu í lífi hvors annars en þú varst nú ekki vanur að dvelja við neikvæðu hlutina.  Það var sko horft fram á veginn.

Elsku Steingrímur, þú gafst mér svo mikið.  Guð blessi fjölskylduna þína og alla vini.  Við sjáumst síðar.  Ég er viss um það.

Þinn vinur.

Yfir tindum öllu

er ró,

friður á fjöllum,

fugl í tó

hljóðnaður hver;

það bærist ei blær eða kliður.

Einnig þinn friður

framundan er.

(Goethe.  Þýð. Yngvi Jóhannesson.)

Matti.

Steingrímur Eyfjörð Guðmundsson var góður, hæfileikaríkur og skemmtilegur maður sem bjó yfir mikilli hjartahlýju; ljúflingur og mikilhæfur tónlistarmaður, - sannur vinur. Náin vinátta var milli hans og Þorgeirs Rúnars Kjartanssonar, unnusta míns sem dó fyrir 11 árum, líka í byrjun nóvember. Síðan varð Steingrímur góður vinur minn. Kannski ákvað hann að vera vinur minn vegna þess hver ég var, en þó einkum vegna þess hve hann var umhyggjusamur. Steingrímur lét sér annt um annað fólk. Alltaf var hægt að leita til hans þegar á þurfti að halda og í gegnum öll þessi ár var hann til staðar fyrir mig. Slíkt er ekki sjálfgefið og vinátta Steingríms var mér afar dýrmæt. Við áttum líka ýmislegt sameiginlegt og unnum stundum saman að listrænum verkefnum með ljóða- og tónlistarflutningi.

Minnisstæðast er nýliðið verkefni sem stóð yfir allt árið 2008. Þá vorum við í miklu sambandi, Steingrímur, Hörður Bragason og ég. Til stóð að gefa út bókina Óður eilífðar með verkum Þorgeirs, og einnig að halda stóra tónleika. Við vorum uppfull af hugmyndum um það sem okkur langaði til að gera þegar við héldum fyrsta fundinn okkar í ársbyrjun og horfðum björtum augum til framtíðar. Ekki hvarflaði að okkur sú kaldhæðni örlaganna að eitt okkar ætti eftir að veikjast af sama miskunnarlausa sjúkdómi sem á sínum tíma hafði dregið Þorgeir til dauða.

Steingrímur og Hörður stýrðu tónlistarhluta verkefnisins og stóðu við hliðina á mér eins og klettar meðan á allri framkvæmd þess stóð. Og þannig minnist ég Steingríms. Hann var sterkur og traustur. Hvað sem á dundi hélt hann ró sinni, jarðbundinn en líka tilfinninganæmur, fagmaður fram í fingurgóma. Það var alltaf gott að vinna með honum og ef mér fannst ég vera að bogna undan of miklu álagi, - eins og getur gerst þegar unnið er að umfangsmiklum verkefnum, - þá hafði Steingrímur, með skilningi sínum, þolinmæði og rósamri nærveru, einstakt lag á að róa mig.

Í mínum huga fylgdust þeir félagarnir alltaf að, Steingrímur og Hörður. Ég nefndi sjaldnast annan án þess að minnast líka á hinn. Ólíkir, en afar góðir vinir, og samstarf þeirra var frábært. Einhvern veginn virtist það alltaf ganga svo leikandi létt og snurðulaust fyrir sig, þrátt fyrir hve þeir voru ólíkir, eða kannski einmitt þess vegna. Þeir bættu hvern annan upp á undursamlegan hátt. Í gegnum síðastliðin 11 ár hefur mér oft verið hugsað til þess hve lánsöm ég var að hafa eignast þessa tvo vini.

Hrunið dundi yfir, og kreppan, en við létum það ekki slá okkur út af laginu heldur framkvæmdum verkefnið með glæsibrag. Hámarki náði það með tónleikunum í Iðnó 6. nóvember, sem tileinkaðir voru útkomu bókarinnar Óður eilífðar. Stofnuð var stórsveitin Hópreið lemúranna sem flutti Veðraspána, tryllingslega heimsádeilu sem Þorgeir virtist hafa ort um það sem var og er að gerast í samfélaginu núna. Í flutningi Lemúranna, Kórs byltingarinnar og Rúnars Guðbrandssonar varð þetta allt í senn: orðagjörningur, tónverk og leikverk.

Steingrímur var með okkur um kvöldið, einn þeirra tónlistarmanna sem sömdu og fluttu þetta magnaða tónverk, - og fleiri verk. Hann tók þátt í hinni "byltingarkenndu hátíðardagskrá" af krafti, glæsilegur að vanda, - en dálítið fölur og þreytulegur. Vikuna fyrir þennan viðburð var hann farinn að kenna þess meins sem nú, ári síðar, hefur lagt hann að velli. Hann hélt að hann væri með flensu og hélt sér gangandi meira af vilja en mætti. En eftir tónleikana hélt Steingrímur áfram að vera lasinn. Mánuði síðar fór hann loks til læknis og áfallið kom eins og þruma úr heiðskíru lofti: Vinur okkar var lagður inn á spítala með bráðahvítblæði. En það var von í veikindunum og líka sköpun. Steingrímur átti að fara í mergskiptaaðgerð til Stokkhólms, Bergljót systir hans gat gefið merg, og vinirnir, undir forystu Harðar, efndu til fjársöfnunar og styrktartónleika til að hjálpa þeim. Júpiters komu saman aftur og fleiri hljómsveitir léku til styrktar Steingrími. Öll vildum við leggja eitthvað af mörkum og koma vini okkar sem við elskuðum til hjálpar. Við vildum fá að hafa þennan ljúfling hjá okkur. Við þurfum svo á mönnum eins og Steingrími að halda.

En það fór öðruvísi en við vonuðum. Þetta mikla skarð verður aldrei fyllt.

Elsku Steingrímur, ég er innilega þakklát fyrir vináttu þína og stolt af að hafa þekkt þig. Ég sendi þér mínar fegurstu hugsanir og þær verða að blíðlegu ljósi sem umvefur þig.

Vinum og aðstandendum, einkum Guðmundi föður Steingríms, Bergljótu systur hans, Sveini mági hans, og Sigurði og Sindra Steingrímssonum, votta ég mína dýpstu samúð.

Rúna K. Tetzschner.