Bergur Guðnason fæddist í Reykjavík 29. september 1941. Hann lést á líknardeild Landspítalans 5. nóvember sl. Foreldrar hans voru Guðni Jónsson prófessor, frá Gamla-Hrauni í Stokkseyrarhreppi, f. 22. júlí 1901, d. 4. mars 1974, og kona hans Sigríður Hjördís Einarsdóttir húsmóðir, frá Miðdal í Mosfellssveit, f. 28. ágúst 1910, d. 18. júlí 1979. Systkin Bergs eru Einar, f. 13. apríl 1939, d. 20. desember 2005, kvæntur Súsönnu Möller, f. 7. sept. 1943, þau skildu; Jónína Margrét, f. 17. mars 1946, gift Sveini Snæland, f. 2. mars 1944, og Elín, f. 14. október 1950, d. 8. apríl 2009. Systkin Bergs samfeðra og börn fyrri konu Guðna, Jónínu Margrétar Pálsdóttur, f. 4. apríl 1906, d. 2. okt. 1936, eru Gerður, f. 4. mars 1926, gift Halldóri Arinbjarnar, f. 4. sept. 1926, d. 4. júní 1982; Jón, f. 31. maí 1927, d. 25. janúar 2002, kvæntur Sigrúnu Guðmundsdóttur, f. 7. des. 1930; d. 25. sept. 2008, Bjarni, f. 3. sept. 1928, kvæntur Önnu Guðrúnu Tryggvadóttur, f. 14. júní 1927; Þóra, f. 17. feb. 1931, gift Baldri H. Aspar, f. 8. des. 1927; Margrét, f. 30. nóv. 1932, d. 13. maí 1952. Bergur kvæntist 28. mars 1964 Hjördísi Böðvarsdóttur, f. 22. júní 1944. Foreldrar hennar voru Böðvar Egilssson skipstjóri, frá Ísafirði, f. 16. júní 1920, d. 18. sept. 1967, og Ingibjörg Sigþóra Guðnadóttir, húsmóðir og verslunarmaður, frá Siglufirði, f. 13. des. 1920, d. 6. júní 2006. Börn Bergs og Hjördísar eru: 1) Guðni, f. 21. júlí 1965, maki Elín Konráðsdóttir, f. 30. mars 1963. Börn þeirra eru Bergur, f. 6. jan. 1992, og Páldís Björk, f. 10. feb. 1998. 2) Sigríður, f. 23. nóv. 1966, maki Skúli Rúnar Skúlason, f. 23. ágúst 1963. Börn þeirra eru Hjördís, f. 21. sept. 1992, Unndís, f. 24. júlí 1994, og Guðjón Fannar, f. 14. mars 2005. 3) Böðvar Bergsson, f. 19. sept. 1970. 4) Bergur Þór, f. 26. júlí 1977. Bergur eignaðist einnig soninn Þorstein, f. 27. júní 1964, maki Soffía Ingvarsdóttir. Börn þeirra eru Ingvar, f. 8. des. 1996 og Ása, f. 19. mars 1999. Bergur ólst upp í Hlíðunum í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá MR árið 1960 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1968. Á námsárunum stjórnaði hann um nokkurra ára skeið þættinum Lög unga fólksins í ríkisútvarpinu, sem þá var eina útvarpsstöð landsins, og þegar sjónvarpið kom til sögu 1966 þýddi hann vinsælan framhaldsþátt sem nefndist Dýrlingurinn. Að loknu lagaprófi starfaði Bergur sem lögfræðingur hjá skattstjóranum í Reykjavík til ársins 1977, en rak upp frá því eigin lögmannsstofu í Reykjavík. Skattamál voru sérsvið Bergs innan lögfræðinnar og var hann m.a. stundakennari í skattarétti við Háskóla Íslands árin 1974-1979. Þá sinnti hann einnig málflutningsstörfum og sölu fasteigna. Bergur var mikill áhugamaður um íþróttir frá unga aldri. Hann keppti fyrir Val um langa hríð, bæði í knattspyrnu og handknattleik, og lék með landsliði Íslands í handknattleik. Þegar þeim íþróttagreinum sleppti sneri hann sér að golfi, gekk í Golfklúbb Reykjavíkur og stundaði golfíþróttina af miklum áhuga í marga áratugi og keppti í mótum. Bergur gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir íþróttahreyfinguna. Hann var formaður Vals 1977-1981, sat í stjórn Handknattleikssambands Íslands og átti sæti í íþróttadómstól ÍSÍ um langa hríð. Hann hlaut heiðursmerki fyrir störf sín, bæði fyrir Val og íþróttahreyfinguna. Útför Bergs fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 13. nóvember, og hefst athöfnin kl. 13.

Horfinn er úr heimi, hraustur maður, góður. Vinur vina sinna. Virtur, hlýr, traustur, fjölskyldunnar maður.
Bergur Guðnason látinn! Beggi Guðna kallaður á brott héðan!
Ég trúði varla mínum eigin augum við lestur blaðsins. Fyrir u.þ.b. tveimur árum sá ég hann síðast, fullan af þeirri frumorku, sem í honum bjó. Minningarnar ruddust fram eins og hraðlest inn á brautarpall.
Fyrst og fremst þekkti ég Begga af leikvelli utan sem innan. Fyrst í MR síðar í Hálogalandi og Laugardalshöll. Oftast sem mótherja en einnig sem samherja. Í leik sýna menn meira af sínum innra manni en flestir gera sér grein fyrir. Beggi var alltaf traustur, svaf aldrei á verðinum. Vökul augu hans fylgdust alltaf með andstæðingum sem og meðspilurum. Erfiður andstæðingur, en ekki síðri sem meðleikari. Aldrei neitt fum eða sjálfselska, harður en aldrei grófur. Sjálfur hefi ég leikið með og móti hundruðum handknattleiksmanna, beztu leikmanna Evrópu á þeim tíma. Í minningunni stendur Beggi þar í fremstu víglínu þrátt fyrir vanmat landsliðsyfirvalda á þessum skotharða handknattleiksmanni. Árið, sem ég lék með Val, kom ég á heimili þeirra hjóna Hjördísar og Begga. Góð upplifun, góðar minningar fylgja.
Vildi með þessum fáu orðum votta Hjördísi og fjölskyldu vegna mikils missis góðs drengs.
Blessuð sé minning hans.

Páll Eiríksson.