Ingunn Tryggvadóttir fæddist á Laugabóli í Reykjadal 9. desember 1933. Hún lést á Landsspítalanum í Fossvogi 4. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Unnur Sigurjónsdóttir frá Sandi í Aðaldal, f. 1896, d. 1993, og Tryggvi Sigtryggsson frá Hallbjarnarstöðum í Reykjadal, f. 1894, d. 1986. Systkini Ingunnar eru Ingi, f. 1921, Haukur, f. 1922, d. 1940, Eysteinn, f. 1924, Ásgrímur, f. 1926, Kristín, f. 1928, Helga, f. 1930, Hjörtur, f. 1932, Dagur f. 1937, d. 2009, Sveinn f. 1939, d. 2003 og Haukur, f. 1941. Eiginmaður Ingunnar er Hörður Lárusson frá Blönduósi, f. 1935, fv. menntaskólakennari og síðar deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu. Foreldrar hans voru Anna Guðrún Björnsdóttir, f. 1901, d. 1970, og Lárus Þórarinn Jóhannsson, f. 1885, d. 1973. Ingunn og Hörður giftust árið 1956 og eignuðust fimm börn, þau eru: 1) Unnur, f. 1956. Hún á fjögur börn: a) Ingunni, f. 1977, gift Kristmundi Skarphéðinssyni, f. 1973, og saman eiga þau Ásrúnu Örnu, f. 2002, og Atla Örn, f. 2006, b) Harald, f. 1980, sambýliskona J. Fanney Sigurðardóttir, f. 1983, c) Valborgu, f. 1985, sambýlismaður Teitur Örn Viðarson, f. 1983, og saman eiga þau dótturina Anítu Líf, f. 2006, og d) Hörð, f. 1991. Eiginmaður Unnar er Jón Eiríksson, f. 1949. 2) Lárus Þórarinn, f. 1958. Hann á fjögur börn: a) Hörð, f. 1979, kvæntur Önnu Sigríði Guðnadóttur, f. 1980, og saman eiga þau dótturina Stefaníu, f. 2009, b) Hönnu, f. 1988, c) Tryggva Karl, f. 1989, og c) Jóhann Daníel, f. 1993. Eiginkona Lárusar er Tina Hardarson, f. 1953. 3) Tryggvi, f. 1959. Hann á þrjú börn: a) Ingunni, f. 1989, b) Steinunni, f. 1991, og c) Ísak Helga, f. 2003. Sambýliskona Tryggva er Harpa Jónsdóttir, f. 1963. 4) Anna Guðrún, f. 1964. Hún á tvær dætur: a) Þórunni, f. 1989, og b) Hrafnhildi, f. 1991. Sambýlismaður Önnu Guðrúnar er Hallgrímur Guðmundsson, f. 1953. 5) Hafdís, f. 1967. Hún á tvo syni: a) John Frey, f. 1988, og b) Andra Má, f. 2006. Eiginmaður Hafdísar er Jóhann Jónsson, f. 1972. Að loknu námi við Héraðsskólann á Laugum stundaði Ingunn almenn skrifstofustörf á Akureyri og síðar á ævinni starfaði hún sem stjórnarráðsfulltrúi hjá menntamálaráðuneytinu og sá m.a. um úrvinnslu og skráningu á niðurstöðum samræmdra prófa. Útför Ingunnar verður gerð frá Áskirkju í dag, 13. nóvember, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku amma.
Þegar við hugsum um þig þá kemur fyrst upp í hugann mynd af þér í eldhúsinu niðrí Efstó með rúllur í hárinu að spá í bolla sem höfðu legið á ofninum svona til að þurrka þá. Munum hvað við óskuðum þess að drekka kaffi bara svo þú gætir spáð fyrir okkur. Það vakti svo líka mikla gleði þegar þú settir rúllur í hárið á okkur, þó það væri ekki nema ein.
Það var alltaf mikill gestagangur í Efstó og nóg af fólki og alltaf var til kaffi og með því fyrir fullorðna fólkið og súkkulaði fyrir þau litlu, okkur fannst það nú alls ekki slæmt.
Fyrir jólin vorum við vön að hittast öll saman og skera út og steikja laufabrauð og steikingarlyktin af brauðinu situr enn föst í minninu.
Jólunum hjá þér og afa í Efstó verður aldrei gleymt. Þið umvafin allri fjölskyldunni eins og hún lagði sig, börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum sem eru nú ekki fá.
Elsku amma, heimurinn er ekki samur án þín en við huggum okkur við að nú líður þér betur og þú ert á góðum stað. Við hugsum um þig og vitum að þú fylgist með okkur öllum.

Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
/
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Höf. Þórunn Sigurðardóttir)

Þínar ömmustelpur,

Ingunn og Steinunn Tryggvadætur