Jóhannes Blómkvist Jóhannesson fæddist í Kálfsárkoti í Ólafsfirði 24. október 1924. Hann lést á heimili dóttur sinnar í Garðabæ 28. október 2009. Foreldrar hans voru Jóhannes Bjarni Jóhannesson, f. á Halldórsstöðum í Glaumbæjarsókn í Skagafirði 6. október 1874, d. 15. apríl 1924, og Sigríður Júlíusdóttir, f. í Halldórsgerði í Svarfaðardal 6. nóvember 1886, d. 3. febrúar 1967. Systkini Jóhannesar, sem komust á legg, voru Júlíus, f. 1909, d. 1982, Jónína, f. 1912, d. 2004, Sigurjón, f. 1916, d. 2002, Septína, f. 1919, d. 1987 og Helgi, f. 1922. Jóhannes kvæntist 14. mars 1959 Fjólu Björgvinsdóttur, f. á Djúpavogi 15. febrúar 1937. Foreldrar hennar voru Björgvin Ívarsson og Þorgerður Pétursdóttir. Börn Jóhannesar og Fjólu eru: 1) Jóhannes, búsettur í Stafangri í Noregi, f. 13. janúar 1955. Hann kvæntist Sigríði Óladóttur árið 1983. Dætur þeirra eru Þórhildur, f. 1985 og Ragnhildur, f. 1990. Jóhannes og Sigríður skildu. 2) Anna Rós, búsett í Garðabæ, f. 23. júní 1957, gift Skúla Gunnarssyni. Dóttir hennar er Helga Þórey, f. 1975. Faðir hennar er Jón Sævar Grétarsson. Anna Rós og Jón Sævar skildu. Sambýlismaður Helgu Þóreyjar er Einar Valur Aðalsteinsson. Sonur þeirra er Tindur, f. 2009. Börn Önnu Rósar og Skúla eru: a) Fjóla Dísa, f. 1980, gift Jóni Thoroddsen, synir þeirra eru Emil, f. 2000 og Kári, f. 2002. b) Jóhannes Gunnar, f. 1990. 3) Hugrún, búsett í Garðabæ, f. 21. nóvember 1959, gift Hilmari Bjarna Ingólfssyni. Synir þeirra eru Hilmar Bjarni, f. 1989 og Hjalti, f. 1992. Fyrstu hjúskaparár Fjólu og Jóhannesar bjuggu þau í Kópavogi. Árið 1963 hófu þau búskap á æskuheimili hans Kálfsárkoti í Ólafsfirði. Jóhannes var mikill áhugamaður um skógrækt og ræktuðu þau hjónin skóg af miklum áhuga eftir að þau hættu hefðbundnum búskap. Jóhannes var góður hagyrðingur og samdi mikið af vísum og kvæðum sem hann flutti við hin ýmsu tækifæri. Hann var mikill félagsmálamaður og var til dauðadags virkur félagi í Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar og Félagi eldri borgara. Jóhannes verður jarðsunginn í Ólafsfjarðarkirkju í dag, 7. nóvember, og hefst athöfnin kl. 14.

Á fyrri hluta sjöunda áratugar tuttugustu aldar urðu kynslóðaskipti á mörgum bæjum í Ólafsfirði.  Bændur fæddir á fyrir aldamótin nítjánhundruð voru að hætta búskap og ný kynslóð að taka við.  Í mörgum tilfellum voru það synir að taka við af foreldrum sínum.  Mín fjölskylda flutti í Þverá og í Kálfsárkot fluttu Jóhannes og Fjóla með þrjú börn fjögurra , sex og átta ára.  Framundan var mikill uppgangs og menningartími í sveitinni.  Ungir og hraustir bændur og fjöldinn allur af börnum á svipuðum aldri.  Við börnin skemmtum okkur vel og kynntumst náið.  Náttúran var hins vegar heldur óblíð.  Seinni hluti sjöunda áratugarins var mjög snjóþungur í Ólafsfirði og hafís lá inni á firðinum langt fram á vor.  Vegna snjóþyngsla var ófært um sveitina svo vikum skipti.  Þetta gerði bændum erfitt fyrir því bæði þurfti að sækja vistir í Ólafsfjarðarbæ og koma mjólkinni í mjólkursamlagið.  Einnig þurftu börnin að komast í skólann.

Oft fóru heilu dagarnir í þessar kaupsataðaferðir því það gat tekið marga klukkutíma að berjast þessa leið sem var 14 kílómetrar fyrir þá sem lengst þurftu að fara.

Ég kynntist Jóa og Fjólu ágætlega því við systkinin vorum á sama aldri og systkinin í Kálfsárkoti.  Aðstæður okkar voru líkar, feður okkar ólust upp á sama tíma í sveitinni á Ólafsfirði og mæður okkar komu úr öðrum landshlutum.  Ég kom oft í Kálfsárkot á þessum  árum.  Jói sístarfandi en hafði alltaf tíma til að spjalla við okkur börnin.  Fjóla gaf sé tíma frá önnum og las fyrir okkur og kenndi okkur og leiki.

Jói var um margt einstakur.  Hann var fullur af nýjum hugmyndum allt fram í andlátið.  Hann sá tækifæri allt í kringum sig., t.d. framleiddi hann gróðurmold og blómaáburð eftir formúlu sem hann fann upp, hvortveggja framúrskarandi vara.  Hann hafði mikinn áhuga á heilsu og hugrækt og hafði kynnt sér margt á því sviði.  Hann gat rætt um hvað sem er við hvern sem er af þekkingu en jafnframt var hann tilbúinn að hlusta.  Þannig var hann sífellt að safna að sé hugmyndum og þekkingu.  Hann hafði mikla sköpunargáfu sem varð til þess að hann gat séð hlutina frá nýju sjónarhorni.  Umfram allt var hann framkvæmdamaður þannig að margar af hans góðu hugmyndum urðu að veruleika.  En þó Jói væri einn duglegasti og vinnusamasti maður sem ég hef kynnst entist honum ekki aldur til að framkvæma allt sem hann var með á prjónum.  Hann var ungur í anda alla sína æfi og líkamlega hraustur og kvikur á fæti sem unglingur.  Hann sagði mér skömmu áður en hann dó að hann hefði orðið hundrað ára ef þetta (krabbameinið) hefði ekki komið uppá.  Það héldum við líka, svo  ungur sem hann var.

Kálfsárkot var menningarheimili.  Eftir heimsóknir þangað kom maður alltaf fullur af fróðleik.  Þangað var þroskandi að koma.  Þar var fólk metið af eigin verðleikum en ekki eftir fyrirfram ákveðnum hugmyndum.

Jói var stoltur af eiginkonu sinni og afkomendum sínum, enda mannkostafólk.

Ég votta Fjólu, krökkunum frá Kálfsárkoti og fjölskyldum innilega samúð.

Halla á Þverá.