Kristinn Bjarni Gestsson fæddist í Stykkishólmi 23. nóvember 1932. Hann lést á St. Franciskusspítalanum í Stykkishólmi þann 8. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Hólmfríður Hildimundardóttir, f. 15.11. 1911, d. 8.1.2003 og Gestur Guðmundur Bjarnason bifvélavirki, f. 22.5. 1904, d. 15.2. 1970. Kristinn ólst upp í Stykkishólmi, elstur 10 systkina. Systkin hans eru: 1) Ingibjörg, f. 9.2. 1935, gift Gísla Birgi Jónssyni, 2) Hildimundur, f. 9.8. 1936, d. 2.1. 1988, kvæntur Þórhildi Halldórsdóttur, 3) Jónas, f. 10.6. 1940, kvæntur Elínu S. Ólafsdóttur, 4) Ólafía, f. 29.7. 1941, gift Þórði Á. Þórðarsyni, 5) Hulda, f. 26.9. 1943, gift Kjartani Þorgrímssyni, d. 20.11. 1992, 6) Brynja, f. 25.8. 1945, gift Einari Halldórssyni, d. 11.1. 1999, 7) Ævar, f. 14.9. 1947, kvæntur Ölmu Diego, 8) Júlíana, f. 19.6. 1949, gift Hermanni Bragasyni, 9) Hrafnhildur, f. 7.2. 1952. Eiginkona Kristins er Ingveldur Sigurðardóttir, f. 6. janúar 1928, dóttir hjónanna Sigurðar Jónassonar kaupmanns, f. 8. júlí 1900, d. 25. maí 1990 og Svövu Oddsdóttur, f. 6. desember 1900, d. 26. júní 2001. Þau eignuðust þrjá syni, Baldvin, f. 8. ágúst 1954, maki Elín Ólafsdóttir, þau eiga einn son, Gestur Hólm, f. 5. ágúst 1956, sambýliskona Kristín Benediktsdóttir, hann á tvær dætur og eina fósturdóttur, Heimir Svavar, f. 7. apríl 1960, maki Margrét Thorlacius, þau eiga tvö börn. Langafabörnin eru 3. Kristinn byrjaði ungur til sjós en lærði síðan bifvélavirkjun í Iðnskólanum í Stykkishólmi. Hann rak bifreiðaverkstæðið Bílaver sem hann seldi síðar og gerðist trillusjómaður. 1980 tekur hann við bókaverslun, Stellubúð, af tengdaforeldrum sínum og rak í nokkur ár. Hann tók þátt í ýmsu félagsstarfi og var m.a. einn af stofnfélögum í Lionsklúbbi Stykkishólms. Hann starfaði einnig í Félagi smábátaeigenda í Stykkishólmi. Útför Kristins fer fram frá Stykkishólmskirkju í dag, 14. nóvember, kl. 14.

Kveðja til afa.

Elsku afi nú ert þú búinn að kveðja. Við eigum margar fallegar og góðar minningar um þig frá því við bjuggum í Hólminum og vorum heimalingar hjá ykkur ömmu sérstaklega þegar við vorum yngri. Þú fórst oft með okkur á rúntinn á rauða pikkanum, sérstaklega niður á bryggju þegar pabbi var að landa. Þú leyfðir okkur að sniglast í kring en passaðir vel upp á að við færum okkur ekki að voða. Oft komum við í mat til ykkar ömmu og meðan við biðum eftir matnum þá sagðir þú oft skemmtilegar sögur svo við skellihlógum og skemmtum okkur vel. Þá voru ófáar ferðirnar í sumarbústaðinn með þér og ömmu þar sem við fiskuðum í vatninu og fengum okkur svo heitt kakó á eftir. Þið amma voruð alltaf tilbúin að passa okkur þegar þurfti og þá gistum við stundum hjá ykkur og þá var margt brallað saman. Eftir að við vorum orðin fullorðin og flutt suður hittumst við ekki eins oft en við höfum komið af og til í heimsókn. Það fannst þér gaman og sérstaklega fannst þér gaman eftir að Heiða og Andri eignuðust Heimi Örn í vor og komu með hann í heimsókn. Enda varstu algjör barnakarl og góður við lítil börn. Það verður skrítið að koma í heimsókn til ömmu eftir að þú ert farinn. Við kveðjum þig með söknuði og þakklæti fyrir að hafa átt þig.

Heiða Lind og Kristinn Bjarni.