Hjálmar Jóhann Níelsson fæddist á Seyðisfirði 15. nóvember 1930. Hann andaðist þriðjudaginn 20. október sl. Foreldrar hans voru Níels Sigurbjörn Jónsson, f. 19.3. 1901, d. 24.1. 1975, og Ingiríður Ósk Hjálmarsdóttir, f. 8.7. 1898, d. 30.3. 1961. Systkini Hjálmars eru Bragi, f. 16.2. 1926, Sigrún, f. 19.12. 1927, og Rós, f. 11.3. 1929, d. 26.11. 1998. Hinn 17. júní 1958 kvæntist Hjálmar Önnu Þorvarðardóttur frá Eskifirði, f. 28.10. 1935. Foreldrar hennar voru Þorvarður Guðni Guðmundsson, f. 27.8. 1910, d. 2.6. 1975, og Lilja Sverrisdóttir, f. 25.12. 1915, d. 5.5. 1997. Synir Hjálmars og Önnu eru: 1) Níels Atli, f. 18.3. 1958, kvæntur Kristrúnu Gróu Óskarsdóttur, f. 21.8. 1969. Sonur þeirra er Hjálmar Aron, f. 26.10. 1998. Fyrir átti Gróa soninn Óskar Halldór Guðmundsson, f. 27.4. 1988. 2) Þorvarður Ægir, f. 9.10. 1962, fyrrv. eiginkona er Sólveig Einarsdóttir, f. 15.2. 1965. Börn þeirra eru Einar Óli, f. 9.2. 1985, Anna Silvía, f. 2.8. 1988, og Rúnar Leó, f. 30.6. 1995. 3) Agnar Ingi, f. 7.7. 1966, kvæntur Ingu Hönnu Andersen, f. 23.7. 1965. Börn þeirra eru Hjálmar Ragnar, f. 15.6. 1988, og Hanna Sigríður, f. 6.8. 1994. Áður átti Agnar Ingi dótturina Auði Maríu, f. 20.1. 1985, móðir Saga Valsdóttir, f. 7.4. 1966. Hjálmar bjó alla sína ævi á Seyðisfirði, og lauk þar skyldunámi. Gagnfræðingur frá Eiðaskóla 1948. Stundaði í fyrstu almenn verkamannastörf, síðan verkstjórn, síldarmatsstörf á Seyðisfirði, Siglufirði og í Keflavík. Í vélsmiðjunni Stál á Seyðisfirði starfaði Hjálmar í 15 ár. Lauk þar sveinsprófi í vélvirkjun 1961, og öðlaðist meistararéttindi í faginu 1965. Vélgæslumaður hjá RARIK 1973-1977. Forstöðumaður skipaafgreiðslu Seyðisfjarðarhafnar 1977-1982. Yfirmatsmaður hjá framleiðslueftirliti sjávarafurða 1982-1984. Tryggingafulltrúi við embætti sýslumanns Norður-Múlasýslu og bæjarfógeta á Seyðisfirði 1985-2000. Sat í bæjarstjórn Seyðisfjarðar 1974-1978, en áður varamaður 1966-1974. Starfaði í fjölmörgum nefndum á vegum bæjarstjórnar Seyðisfjarðar. Gegndi einnig trúnaðarstörfum á vegum Lionshreyfingarinnar og í félagi eldri borgara á Seyðisfirði, og var einn af stofnendum Viljans, félags fatlaðra á Seyðisfirði. Síðast starfaði Hjálmar við farþegaafgreiðslu Austfars hf., í tengslum við farþega- og bílaferjuna Norrönu. Útför Hjálmars verður gerð frá Seyðisfjarðarkirkju í dag, 30. október, og hefst athöfnin kl. 14.

Það er ljóst að engir tveir dagar eru eins þó lítil atriði greini á milli þeirra oft á tíðum.

Þriðjudaginn 20 október var ég staddur í Reykjavík þegar ég fékk upphringingu frá móður minni með þeim harmafréttum að Hjálmar frændi okkar hefði dáið um nóttina. Þessu símtali og þessum degi mun ég aldrei gleima þar sem þessi harmfrétt aðgreinir þennan dag svo sannarlega frá öðrum dögum. Hjálmar hafði ég þekkt frá því ég að man eftir mér og var hann ávalt hress og skemmtilegur í viðmóti. Síðar unnum við hjá sama embætti, Sýslumanninum á Seyðisfirði í um það bil einn og hálfan áratug. Eftir að Hjálmar hætti störfum þar vegna aldurs árið 2000 fór hann að vinna sem lausamaður hjá Austfar í tengslum við bílferjuna Norrænu þegar hún kom til hafnar á Seyðisfirði. Nærvera Hjálmars á vinnustöðum þessum gerði ávalt hlutina skemmtilega sökum hressleika hans og gamansemi sem einkenndu hann ávallt. Gamansemi hans gerði það að verkum að létt andrúmsloft var ávalt þar sem hann var staddur. Annað sem einkenndi Hjálmar var hin mikla greiðvikni sem í honum bjó. Bæði í starfi og utan starfs lagði hann gjarnan á sig langar leiðir til þess að greiða úr málum fólks ef hann var þess áskynja að eitthvað vanhagaði hjá því og lagði oft í það mikla og erfiða vinnu. Þrátt fyrir andlát Hjálmars er það engu að síður minningin um skemmtilegan og góðan mann sem ávalt mun lifa.

Að lokum vil ég votta eiginkonu og afkomendum Hjálmars samúð mína og megi framtíð þeirra verða sem farsælust.

Sigurjón Andri Guðmundsson