Hugrún Bylgja Þórarinsdóttir fæddist á Akranesi 13. nóvember 1945. Hún lést á Sjúkrahúsi Akraness að morgni 4. október 2009. Foreldrar hennar voru hjónin Þórarinn Guðjónsson frá Bolungarvík og Elísabet Hallgrímsdóttir frá Akranesi. Hugrún var yngst 5 systkina og er fyrst til að falla úr hópnum. Hálfsystir hennar, Jensína þær eru samfeðra, er elst – en síðan koma alsystkinin, Guðrún, Jón og Hansína. Hugrún giftist Jónatan Eiríkssyni – en leiðir þeirra skildi. Þau eignuðust saman dótturina, Elísabetu, f. 1965. Seinni maður Hugrúnar er Birgir Snæfells Elinbergsson. Þau fóru að vera saman 1981 og áttu eftir það sameiginlegt heimili á Skarðsbraut 4, þar sem hún bjó fyrir. Síðustu 5 árin áttu þau sitt annað heimili á Maríubaugi 133 í Grafarholti í Reykjavík. Hugrún lauk gagnfræðaprófi. Hún starfaði á sínum yngri árum um tíma í Einarsbúð. Eftir það réði hún sig til Pósts og síma, sem síðar fékk heitið Íslandspóstur – og var þá ævistarfið ráðið. Þar vann hún í tæp 43 ár. Hún var lengi talsímavörður en síðan gjaldkeri. Á upphafsárum sínum hjá Pósti og síma fór Hugrún í sjúkraliðanám og lauk því, en starfaði aldrei við það, ef starfsnám hennar er undanskilið. Hugrún greindist með sjúkdóm þann sem varð henni að aldurtila í ársbyrjun 2008. Hugrún var jarðsungin í Akraneskirkju 26. október, í kyrrþey.

Við viljum minnast Hugrúnar frænku. Við kynntumst henni þegar við vorum 7, 9 og 11 ára. Í byrjun vorum við ekki alveg sátt við breyttar aðstæður hjá Bigga frænda. En svo kynntumst við henni og uppgötvuðum gæði hennar og góðvilja í okkar garð.

Hugrún bjó fallegt heimili og var annt um það. Mjög gott var að heimsækja Bigga og Hugrúnu á Skarðsbrautina. Alltaf voru nýbakaðar kökur og kræsingar bornar á borð fyrir okkur. Hún var mikið jólabarn skreytti húsið fallega og eigum við margar góðar minningar úr jólaboðum fjölskyldunnar.

Hugrún var falleg kona, fagurkeri mikill og hún var alltaf vel til höfð.

Ekki breyttist það þrátt fyrir erfiða sjúkdómsbaráttu hennar.

Hún barðist af reisn við sjúkdóm sinn og við áttuðum okkur ekki alltaf á hversu mikið veik hún var orðin. Hún var mjög sterk og lífsglöð.

Jákvæðni og gleði eru þær minningar sem við munum ylja okkur við þegar við minnumst hennar.

Í seinni tíð var samgangur mun meiri og við hittumst við ýmis tækifæri og alltaf var gleðin við hönd. Hún var mjög barngóð og lét ekki á sig fá þótt fjörið væri oft mikið. Hennar verður sárt saknað af okkur og fjölskyldum okkar.

Viljum við þakka fyrir allar góðu samverustundirnar og vottum Bigga, Ellý og  ástvinum okkar dýpstu samúð á þessari erfiðu stundu.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.


Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mun hverfa úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund.

Það geislar af minningu þinni.
(Friðrik Guðni Þorleifsson.)


Aðeins
eitt kerti á gluggasyllu
einn dropi af hjartahlýju
yfirbugar kolsvarta sorgarveröld
(Toshiki Toma)

Guð blessi minningu hennar.

Bjarndís Fjóla, Björn Þór, Helga Þórdís og Unnur Elín.