Þórmundur Þórmundsson fæddist í Reykjavík 05.12.1932. Hann lést á Sjúkrahúsi Suðurlands 4. 11.2009. Foreldrar hans voru Þórmundur Guðmundsson f. 27.10.1905, d. 25.02.1991 og Vilborg Þórunn Jónsdóttir f. 24.11.1911, d. 28.02.1983. Þórmundur var yngstur fjögra systkina og eru látin Þórunn Þórmundsdóttir f. 30.04.1928,  d. 21.01.1949 og Gunnar Þórmundsson f. 30.07.1929, d. 26.01.1930. Eftirlifand systir hans er Gunnhildur Erla Þórmundsdóttir f. 03.06.1930. Gunnhildur giftist Skúla Jakobssyni f. 07.07.1918, d. 17.11.1963. Seinni maður Gunnhildar var Bjarni Eyvindsson f. 03.05.1920, látinn. Þórmundur kvæntist 25.12.1954 Unni Jónsdóttur f.23.12.1933 frá Litla Saurbæ í Ölfusi. Foreldrar hennar voru Jón Helgason f.08.01.1895, d. 20.02.1992 og Margrét Kristjánsdóttir f. 11.07.1897, d. 20.04.1964. Börn Þórmundar og Unnar eru Vilborg f. 05.11.1952 maki Benedikt Benediktsson f. 01.07.1951, Margrét f. 18.01.1956 maki Sveinn Guðmundsson f. 04.02.1954,  Þórunn f. 14.11.1957 maki Gísli Steindórsson f. 17.05.1947 og Jóhann f. 27.01.1960 maki Sigríður Möller f. 27.07.1960. Barnabörnin eru níu og barnabarnabörnin 14. Þórmundur fæddist í Reykjavík og ólst þar upp fram til ársins 1940 er foreldrar hans fluttust á Selfoss. Að lokinni hefðbundinni skólagöngu réðist Þórmundur til starfa hjá Rafveitu Selfoss árið 1947 og lærði rafvirkjun sem lauk með sveinsprófi frá Iðnskólanum á Selfoss. Fyrstu 17 árin eftir það starfaði hann hjá rafveitunni en árið 1964 breytti Þórmundur til og hóf störf hjá Rafmagnsveitum Ríkisins og vann hann þar til ársins 2002 er hann ákvað að láta gott heita á þeim vettvangi og snúa sér að öðrum hugðarefnum. Mikil fjölbreytni, ferðalög og viðvera einkenndu störfin hjá Rarik fyrstu árin, en á þessum tíma voru dreifikerfi veitnanna með öðrum hætti en í dag, og menn því oft að heiman í lengri tíma. Með fjölgun starfsmanna og breyttum áherslum dró úr álagi og fengu menn þá meiri tíma til að sinna sínum áhugamálum. Eftir að hann hætti störfum lagði hann mikla áherslu á að rækta fjölskylduna ásamt ferðalögum og bókalestri sem voru hans helstu uppspretta umræðna og athafna síðustu árin.Útför Þórmundar fer fram frá Selfosskirkju laugardaginn 14. nóvember og hefst athöfnin kl. 13.30.

Það er með þakklæti sem ég minnist þín, móðurbróðir og vinur minn, Þórmundur Þórmundsson. Við erum búnir að þekkjast í meir en 60 ár frændiog báðir nokkuð sáttir með þann tíma. Eðlilega á svona stundum rifjast um gamlar stundir og þær eiga það allar sameiginlegt að þær voru góðar. Sem gutti á Skarði í heimsókn hjá afa og ömmu og þú ungur maður var maður oft tekinn í gegn eins og algengt er milli stráka en það voru ekki nema 15 ár á milli okkar og ekki lítið sem ég leit upp til þín, Bóbó minn, og allt var reynt að apa eftir stóra frænda. Alltaf fékk ég að þvælast með þér ef farið var á rúntinn á gömlu druslunum hans afa og þá var nú pinninn settur í botn.

Þú fæddist í Reykjavík 1932 en 1938 flytur fjölskyldan á Selfoss, Vilborg amma, Þórunn, mamma, og þú, en afi hafði farið tveimur árum á undan vegna vinnunnar. Selfyssingur frá 6 ára aldri til 77 ára segir manni að þú varst einn af orginal heimamönnum sem sáu bæinn sinn vaxa og dafna. Á þessum árum var lífið ekki dans á rósum og allir þurftu að leggja sitt af mörkum. Fjölskyldan var ein af frumbyggjum Selfoss. Fyrst var búið á Jaðri meða glæsilegt íbúðarhús sem var byggt á Miðtúni 17 og kallað var Skarð og var fjölskyldan alla tíð kennd við Skarð.

Á þessum árum var Ísland að rafvæðast og má segja með sanni að þinn þáttur í því var meiri en margur gerði sér grein fyrir. Rafveita Selfoss var stofnuð 1946 og strax árið eftir hófst þú starf hjá veitunni 15 ára gamall. Hjá Rafveitu Selfoss lærðir þú rafvirkjun með námi í Iðnskóla Selfoss. Hjalti Þorvarðarson stýrði Rafveitu Selfoss á þessum tíma en þú og Jóakim sáuð um verklegar framkvæmdir, Júlli í mælunum og eftirlitinu og Sveinn Sveinsson í álestri. Þeir voru margir sumarguttarnir sem unnu undir þinni stjórn og fengu sína eldskírn bæði vinnulega og ekki síst í mannlegri tilsögn enda oft hlegið þegar þeir tímar voru endurlífgaðir. Í dag eru þessir guttar rafvirki, gullsmiður, viðskiptafræðingur, rakari og prestur svo eitthvað sé nefnt.

Okkar leiðir lágu saman 1962 þega ég flutti að Skarði og hóf nám í Iðnskóla Selfoss. Þá varst þú heldur betur búinn að afreka, giftur Unni og börnin orðin fjögur. Fjölskylda mín varð fyrir miklu áfalli 1963 þegar faðir minn lést óvænt langt fyrir aldur fram, en við bjuggum á Blönduósi. Þá kom í ljós þinn mikli styrkur. Til að mín fjölskylda gæti flutt til Selfoss og jafnframt fengið þá berstu úrlausn sinna mála, byggðuð þið Unnur nýtt hús á Mánagötunni og létuð okkur eftir ykkar hluta á Skarði svo stóra systir gæti búið sem næst sínum foreldrum með synina. Það var ákvörðun og framkvæmd sem mín fjölskylda getur seint þakkað.

Árið 1964 hættir þú störfum hjá Rafveitu Selfoss eftir 17 ár og hófst vinnu hjá Rarik. Hjá Rarik hélt áfram þín uppbygging á raforkukerfum landsins sem verkstjóri vinnuflokka og þá í dreifbýli á Suðurlandi. Hjá Rarik varstu til ársins 2002 utan einnar viku1973, samtals 39 ár. Þeir eru ekki margir mennirnir sem starfað hafa samfellt við rafvæðingu á Íslandi í 56 ár.

Undir þinni verkstjórn og leiðsögn störfuðum við saman hjá Rarik á Suðulandi í rúm fjögur ár og byrjuðum á því daginn eftir sögufrægar sveitastjórnarkosningar og mikil veisluhöld. Ekki voru menn þá í hvítbotnuðum gúmmískó með rauð axlabönd, það kom síðar. Kross nítján þrjátíu og tveir Gufunes radíó kallar" var kunnulegt á talstöðvarbylgjunni en númerið var þér kært, fæðingarárið og flottur bíll.

Ástand raforkukerfisins var ekki alltaf upp á sitt bersta á þeim árum og þurftu menn þá að starfa við hinar ýmsu aðstæður. Það var með ólíkindum hvað þú varst duglegur að aðlagast aðstæðum hverju sinni. Aldrei að væla neitt þótt staurar væru brotnir, vírinn slitinn og veðrið brjálað.  Æ, æ, ansans vandræði heyrðist stundum, annað ekki.

Það er alltaf gaman og gagnlegt að rifja upp gömul atvik sem tengjast samstarfi manna og í þínu tilfelli er auðvelt að minnast þeirra, því á þínum langa starsferli og vinsældum í starfi og leik væri gott efni í heila bók, enda landsþekktur Rarikmaður.

Þegar ég hóf byggingu á íbúðarhúsi mínu í Stekkholtinu á Selfossi fyrir mína fjölskyldu varst þú fyrsti maður sem mættir með hamarinn til að hjálpa frænda. Fyrsta sumarfríið þitt í langan tíma var allt notað til smíða og ráðlegginga og var hvergi slegið af. Það var ómetanleg aðstoð af þinni hálfu. Það var ekki bara ég sem þú studdir Bóbó minn, börnin og barnabörnin fengu heldur betur stuðninginn.
Ég vil fyrir mína hönd, mömmu, bræðra minna og okkar fjölskyldu þakka þér, Bóbó minn, samveruna.
Unni, Vilborgu, Margréti, Þórunni, Jóhanni og fjölskyldum votta ég mína dýpstu samúð.

Jakob Skúlason.

Jæja Bóbó afi , þá var þinn tími kominn.

Sárt er það, en eftir sitja margar góðar minningar  með þér.  Ófáir bíltúrar á hvíta Saabnum hans Afa gamla þar sem þú varst duglegur að fræða okkur um umhverfið, meðal annars fórum við í veiðiferð sem ég gleymi aldrei. Þegar ég veiddi minn fyrsta og sennilega eina fisk um ævina. Eða sumarbústaðaferðin eftirminnilega í Húsafell. Allar þessar skemmtilegu minningar og sögur sem ég nýt að deila með börnunum mínum.

Við frændur og bræður spiluðum oftar en ekki Kasínu við þig á Mánaveginum og voru oft mikil læti og fjör. Þú varst vanur að skella tígul tíunni á borðið með látum um leið og það hlakkaði í þér yfir sigrinum. Þó svo að spilunum okkar hafi fækkað í seinni tíð, þá voru samverustundirnar alltaf jafn ánægjulegar.

Eftir að ég eignaðist mína eigin fjölskyldu tókuð þið amma alltaf svo vel á móti okkur á Mánaveginum og svo seinna svo upp í hæstu hæðum á Fossveginn, þar sem að þið amma státuðu að eigin sögn af besta útsýni í heimi. Börnunum mínum varstu yndislegur og er ég þakklátur fyrir að þau hafi fengið að kynnast þér og hafa átt þig þetta lengi.

Þegar ég flutti á Hvolsvöll var ég dálítið hreykinn þegar í ljós kom hve margir héðan þekktu þig og kunnu þér góða söguna. Þú varst magnaður karl afi minn og ég er stoltur af þér. Meðan við sitjum hér saman fjölskyldan og ritum þessi orð kemur einnig upp í hugann heimsóknir ykkar ömmu austur á Hvolsvöll, til dæmis í  ófáar afmælisveislur barnanna þar sem þú settir skilyrði um að brauðtertur yrðu á boðstólnum.

Við Erla erum búin að einsetja okkur að verða eins og þið amma í ellinni, bestu vinir og skemmta okkur vel saman, en umfram allt taka lífinu mátulega alvarlega.

Hvíl í friði afi, ég og mínir munum ávalt muna þig og vera þakklát fyrir þig.

Benedikt, Erla , Unnur, Daníel og Benedikt Óskar.