Rannveig Pálsdóttir fæddist í Reykjavík 7. janúar 1959 . Hún andaðist á heimili sínu, að Túngötu 12 í Keflavík, 31. október 2009. Foreldrar hennar voru Páll Gíslason sjómaður, f. 15.4. 1931, d. 22.4. 1993 og Valgerður Ingibjörg Ásgeirsdóttir húsmóðir, f. 29.7. 1932, d. 19.1. 1975. Systkini Rannveigar eru Ingibjörg Katrín Georgsdóttir, f. 1.1. 1951, Sigurður Ingþór Hraundal Pálsson, f. 26.5. 1957, Jón Benedikt Jónsson, f. 10.9. 1960, Georg Jónsson, f. 28.4. 1965, og Súsanna Jónsdóttir, f. 1.7. 1968. Rannveig giftist Jóni Hauki Arnarsyni, f. 30.7. 1955, d. 27.10. 1991 og fluttust þau til Njarðvíkur. Eftir lát Jóns Hauks giftist Rannveig Ingimari Sumarliðasyni og voru þau búsett í Sandgerði þar til þeirra samvistum lauk. Börn Rannveigar eru: 1. Tryggvi Freyr Jónsson, f. 17.11. 1979, kvæntur Írisi Anítu Hafsteinsdóttur, f. 27.9. 1976. Börn þeirra eru Karen Huld, f. 16.5. 1996 Aron Freyr, f. 20.5. 1999 og Adam Breki, f. 26.6.2008. 2. Kristín Ósk Óskarsdóttir, f. 21.4. 1981. 3. Klara Margrét Jónsdóttir, f. 18.3. 1991. 4. Ingimar Jenni Ingimarsson, f. 19.11. 1997. Rannveig fluttist ung að árum með foreldrum sínum til Akraness. Þaðan fluttist hún til hjónanna Páls Valbergs Ólafssonar og Huldu Snorradóttur í Dagsverðartungu í Hörgárdal. Sem ung kona fluttist hún til Reykjavíkur og stofnaði sitt fyrsta heimili þar. Rannveig var húsmóðir alla sína ævi. Þó lærði hún svæðanudd í Heilsusetri Þórgunnar og útskrifaðist þaðan 23. september 1999 eftir tveggja ára nám. Útför Rannveigar fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 14. nóvember, og hefst athöfnin kl. 13.

Baráttukona er fallin frá langt fyrir aldur fram.  Erfiður og lævís sjúkdómur varð  þess valdandi að Ransý yfirgaf þá sem hún elskaði, allt of snöggt. Það er sárt að sjá á eftir konu eins og henni, sem af einurð barðist við Bakkus fyrir lífi sínu. Aftur og aftur steig hún upp og leitaði sér aðstoðar í von um að ná bata frá sjúkdómnum alkóhólisma. Við undirritaðar þekkjum þá baráttu af eigin raun og vitum hve mikinn dugnað og baráttuvilja þarf til þess að rísa upp , leita sér hjálpar og berjast áfram, jafnvel margsinnis eins og vinkona okkar gerði. Fyrir bragðið bárum við allar mikla virðingu fyrir henni.

Við vorum þeirrar gæfu aðnjótandi að vera samskipa Ransý, eins og hún kaus að vera kölluð,  á sjúkrahúsinu Vogi og eftirmeðferðarheimilinu Vík  í nýliðnum ágúst- og septembermánuðum.  Það fór ekki fram hjá neinum að þar var á ferð dugnaðarforkur , sterkur persónuleiki og góð manneskja.  Ransý var til staðar fyrir okkur meðferðarsystur hennar  ef einhver okkar þurfti  öxl að halla sér að eða  skilningsríkan hlustanda.  Henni var tíðrætt um börnin sín og Inga.

Væntumþykja hennar í garð fjölskyldu sinnar og einlæg ósk um að ná sjálf bata og að  fjölskyldan næði að sameinast  var það sem hún hugðist berjast fyrir. Gleði  skein úr hverjum andlitsdrætti þegar hún ræddi um börn sín og barnabörn.  Því miður varð hennar ekki að ósk sinni.

Í hjörtum okkar og huga ríkir mikil sorg. Við samhryggjumst ástvinum hennar innilega. Hvíldu í friði kæra vinkona.

Hildur Kristín, Olga, Kristjana Margrét, Kristjana Jóns, Íris Líndal, María Sveins, Sigga Harðar, Unnur Margrét, Herdís og Jóhanna.