Ásgeir Hafliðason fæddist í Hvítárholti í Hrunamannahreppi 10.desember 1925 og lést á Landsspítalanum í Fossvogi 21 október s.l. Foreldrar hans voru Björg Eyjólfsdóttir f. 13.06.1907, d.01.07.1981 og Hafliði Óskar Friðriksson f.árið 1900, d.1947. Hann ólst upp hjá hjónunum Vigdísi Jónsdóttur og Bjarna Jónssyni að Auðsholti í Hrunamannahreppi og átti þar fjögur uppeldissyskini sem öll eru látin. Alsystir Ásgeirs er Hulda Hafliðadóttir f.25.11.1924 sem búsett er í Bandaríkjunum. Systkini Ásgeirs sammæðra eru Haukur Engilbertsson f. 10.04.1938, Svava Engilbertsdóttir f. 07.11.1939, Runólfur Engilbertsson f. 22.05.1941 og Eyjólfur Engilbertsson f. 09.10.1943. Barn Ásgeirs og Lilju Eiríksdóttur er Áslaug f. 04.05.1946 maki Sveinn Tumi Arnórsson f.03.03.1949 d.09.03.2002, barn þeirra: Lilja Rún Sveinsdóttir f.30.03.1984. Börn Ásgeirs og Ástu Hróbjartsdóttur: 1.Hafsteinn Viðar f. 19.04.1949 maki Kristín Oktavía Árnadóttir f. 25.06.1950, börn þeirra: Kristín Oktavía f.11.10.1973, Katrín Ásta f.23.12.1975 og Sófús Árni f. 13.01.1985. 2. Hjördís f. 27.05.1950 maki Helgi Þorsteinsson f.28.01.1949, börn þeirra: Ásgeir f.26.08.1968, Hjalti f.19.11.1972 og Davíð f.24.01.1980. 3. Guðfinna f. 06.06.1954 maki Guðbjörn Guðbjörnsson f.23.07.1949, börn þeirra: Árni Þór f.27.10.1974, Eva Karen f.10.12.1979 og Ester f.15.06.1985. 4. Kristinn Þór f. 01.09.1957 barn hans og Eyrúnar Kjartansdóttur er Eðvarð Örn f.29.08.1981, maki Kristins er Inga K.Guðmannsdóttir f.29.03.1960, börn þeirra: Guðni Már f.13.01.1987, Benedikt Reynir f.25.11.1990 og Bjarki Þór f.26.04.1994. 5.Berglind Björk f. 11.07.1966 maki Jóhannes Kristófersson f.07.07.1962, börn þeirra: Ívar Örn f.15.07.1987, Íris Ösp f.06.05.1991 og Kristbjörg Una f, 20.09.1995. 6. Benedikt Reynir f. 03.02.1971, d. 16.09.1988. Ásgeir var járnsmíðameistari að mennt og starfaði um árabil við iðn sína hjá Kaupfélagi Árnesinga á Selfossi. Hann starfaði um skeið við uppbyggingu Búrfellsvirkjunar uns hann hélt til Svíþjóðar árið 1968 til starfa í skipasmíðastöð. Þá var hann einnig til sjós sem vélstjóri til margra ára og vann síðan við smíðar í Reykjavík síðustu ár starfsævi sinnar. Eftirlifandi sambýliskona Ásgeirs frá árinu 1982 er Guðrún Brynjólfsdóttir f. 24.03.1931 ættuð frá Sólheimum í Hrunamannahreppi. Börn Guðrúnar eru Kristbjörg Guðjónsdóttir, Brynjólfur, Birgir og Gunnar Guðjónssynir. Útför Ásgeirs hefur farið fram í kyrrþey, að hans ósk.

Hann faðir minn hefur dregið nökkvann í naust, var borinn til grafar þann 5. nóvember.
Það fer ekki hjá því að ýmislegt komi upp í hugann að leiðarlokum. Mínar fyrstu minningar um hann tengjast vinnubílnum sem þeir starfsmenn KÁ. sem bjuggu niðri á ströndinni notuðu til að komast til vinnu á Selfoss. Þegar ég var fimm ára var bifreið þessi notuð til að flytja fátæklega búslóð og tvær systur mínar á Selfoss og ég man eins og það hefði verið í gær þegar Guðfinna var borinn útí bíl, nokkurra daga gömul.

Á Selfossi vann pabbi hjá smiðjum Kaupfélagsins. Marga dagana stóð ég hjá honum við eldinn í smiðjunni og horfði á hann hamra járnið og móta úr því skeifur, ístöð o.fl. fyrir hestamenn og ég fékk aldrei nóg af að horfa á ýmsa hluti verða til og koma alskapaða af steðjanum. Hann var mjög góður verkmaður, að hverju sem hann gekk og skipti þá engu hvort hann var að móta járn eða tré, en við trésmíðar vann hann á seinasta kafla starfsdagsins.

Ég kynntist raunar vel verkfærni hans þegar hann byggði hús við Engjaveginn á Selfossi, nánast með eigin höndum. Ég var um þær mundir að læra trésmíðar hjá KÁ, hafði aðgang að vélum og tækjum þar á laugardögum og þar urðu til gluggar og útihurðir ásamt einhverjum vísi að eldhúsinnréttingu. Að öðru leyti var hann allt í öllu, fékk smið til að starta og bera ábyrgð á uppslætti, væntanlega í skiptivinnu og sama var með múrverk, sem sennilega var samt það eina sem hann keypti einhverja vinnu við, nema fínpússninguna, vann þetta allt á sjálfum sér. Mér er minnisstætt hvað hann gat verið upptekinn af að elta millimetra við að sníða klæðningar í loftið, en þannig verkmaður var hann, kastaði aldrei til höndum við neitt, alveg sama hvort manni fannst það skipta máli eða ekki.

Þegar hann gat losað um sig í Smiðjunni, var kominn úr leiguhúsnæði Kaupfélagsins, fór hann að líta í kringum sig. Hafði raunar skroppið til sjós bæði á vetrarvertíð og humar uppúr ´60 og þá sem matsveinn hjá Jósef Zoph. á Fróða og líkaði vel. Vann við Búrfellsvirkjun, fór til Svíðjóðar í skipasmíðastöð í kreppunni ´68 en þegar heim kom úr þeim leiðangri lá leiðin til Þorlákshafnar þar sem hann gerðist vélstóri hjá Guðna Sturlaugssyni á Jóni Sturlaugssyni. Þar lendum við saman í skipsrúmi þegar ég kem úr fyrsta bekk Stýrimannaskólans og gerist stýrimaður á Drífunni hjá Guðna og síðar vorið ´72 þegar skólanum lauk og ég tók við Sturlaugi gerðist hann vélstjóri hjá mér. Nú líður tíminn hratt og við keyptum saman bát sem við skírðum Guðfinnu Steinsdóttir ÁR 10 og áttum þrjá báta með með sama nafni og gerðum út á allan almennan veiðiskap, utan línuveiða. Alltaf var gamli lykilmaður um borð þó oft væri hann þjáður af meini í mjöðm, sem framan af ævi kvaldi hann mjög en hann fékk ekki bót á fyrr en hann var hættur til sjós líklega ´83 þegar hann fór í aðgerð og fékk nýjan lið.

Þegar ég lít yfir veginn, þá sé ég að við höfum ekki alltaf verið hvor öðrum auðveldir, þó okkur kæmi yfirleitt vel saman. Ég minnist atviks þegar pabbi ætlaði að fara yfir helgi að heimsækja fólkið sitt í Auðsholt. Ég taldi mig hafa snúið út samþykki fyrir að fá að fara með, en eitthvað snérist það í meðförunum og þegar ég vakna eldsnemma laugardagsmorguns hafði hann vaknað ennþá fyrr og var farinn. Ég var 12 ára og hafði fengið notað rautt og fallegt reiðhjól sem Ágúst frændi okkar Morthens var vaxinn uppúr. Það var ekkert verið að velta neinum vöngum yfir hlutunum, heldur sest á hjólið og lagt af stað í Tungurnar, 60-70 km leið. Það sóttist seint ferðin, enda vegakerfið ekki mjög slétt og fellt á þessum árum og man ég sérstaklega eftir kaflanum frá Stóru Laxá vestur í Auðsholt, hversu stórgrýttur hann var. En á þrjóskunni hafðist þetta og það varð auðvitað uppi fótur og fit þegar pjakkurinn birtist á hlaðinu í Auðsholti. Þetta kostaði það að pabbi þurfti að drífa sig heim, til að láta vita um mínar ferðir, enda enginn sími heima til að láta vita, svo túrinn var ónýtur fyrir honum. Ég fékk hinsvegar nokkra daga í sveitinni og ég man, að Jón bóndi hafði af lúmskt gaman og kom mér í sveit í Unnarholti um sumarið.

Sama sumar þegar leið að hausti og ég kominn úr sveitinni var Fróði kominn á snurvoð. Ég sótti fast að fá að fara róður og það var ekki tekið illa í það. Ég taldi mig vera með vissu frá pabba fyrir róðrinum einn daginn að lokinni landlegu, en gamli var farinn að morgni. Ég settist á hjólið og hjólaði á Stokkseyri og tók á móti bátnum úr róðrinum og talaði sjálfur við skipstjórann, (auðvitað hefur gamli verið með í ráðum) Jósef lofaði róðri næsta dag. Til að vera viss um að missa ekki af neinu þá vildi ég sofa um borð og það gerðu reyndar flestir. Þetta varð mín fyrsta sjóferð og ekki sú síðasta, endaði með strandi á skerjum úti fyrir Stokkseyri, hvar við vorum sóttir út á árabát.

Það sem ég minnist sérstaklega, auk þessa, er hversu fallega rithönd hann hafði og hvað hann var ljóðelskur og fór afar vel með ljóð. Oft sátu þeir uppeldisbræður í Auðsholti og ræddi kveðskap og fóru með Einar Ben, sem var í sérstöku uppáhaldi og kunni hann mörg ljóða hans, ásamt ljóðum Steins Steinarr, Davíð heyrðist líka og fleiri góðir. Nú trúi ég að þeir vinirnir hafi tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið og þetta fyrsta erindi úr ljóði Einars, Móðir mín, væri vel við hæfi:

Móðir. Ég sigli minn sjó fram á haust.
Til suðurs hver fold er í kafi.-
En Sóley rís úti, sveipuð laust
Í svellgljá og kvöldroða trafi.
Hér á að draga nökkvann í naust.
Nú er ég kominn af hafi.
(Einar Benediktsson.)

Blessuð sé minning Ásgeirs Hafliðasonar.

Hafsteinn Ásgeirsson og fjölskylda.

Afi minn, Ásgeir Hafliðason, er nú látin eftir stutta og snarpa  sjúkrahúslegu.

Minningar mínar um afa tengjast flestar  bernsku minni enda bjó hann um tíma á heimili foreldra minna á þeim tíma þegar hann var á sjó.

Þannig háttaði að samband okkar afa var lítið seinni hluta ævi hans og er það svo að þær góðu minningar sem ég hef um hann frá fyrri tíð eru þær minningar sem ég mun varðveita.

Ég  verð ævinlega þakklátur fyrir það að hafa hitt afa, fyrir stuttu síðan, í afmæli og þar náðum við að fara yfir mörg heimsins mál, en afi hafði alla tíð sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálum og var gaman að hlusta á hann segja frá og stutt var í húmorinn sem var eitt af sérkennum hans.

Afi hefur nú lagt upp í sína hinstu siglingu og langar mig að þakka honum fyrir þær stundir sem við áttum saman og megi minningin um góðan mann lifa.

Hjalti Helgason.