Ólafur Logi Jónasson fæddist 30. nóvember 1948 í Reykjavík. Hann lést á heimili sínu 23. október sl. Foreldrar hans voru Rósa Gestsdóttir, f. 24. júlí 1920 í Rvík, d. 2001, og var hún frönskukennari við Verslunarskóla Íslands, og Jónas Halldórsson sundkennari, f. 13. júní 1914, d. 2005, á Hnausi í Ölfusi sem rak um árabil gufubaðstofu í húsi sínu á Kvisthaga 29. Ólafur ólst upp á Kvisthaga og gekk í Mela- og Hagaskóla. Hann lauk loftskeytaprófi 1968 og starfaði um árabil sem loftskeytamaður á farskipum og togurum. Seinna starfaði hann sem loftskeytamaður í landi við fjarskiptastöðina í Gufunesi. Þá var hann starfsmaður Danól en síðustu tvö árin starfaði hann hjá Sorpu. Ólafur á tvö börn, Rósu Hrönn, f. 6. desember 1966, og Jónas Helga, f. 11. október 1973. Útför Ólafs Loga fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 30. október, og hefst athöfnin kl. 13.

Hann var ekki hár í loftinu þegar ég sá hann fyrst fyrir tæpum sextíu árum. Báðir vorum við að flytja í ný hús með foreldrum okkar við Kvisthagann. Húsin stóðu hlið við hlið.

Fljótlega varð vinátta okkar innsigluð og hefur ekki verið rofin síðan. Í húsunum fjórum við enda Hjarðarhaga vorum við fimm strákarnir á líkum aldri sem lékum okkur mikið saman og áttum yndisleg ár saman, en nú eru tveir af hópnum farnir til himnaföðursins alltof snemma.

Við fylgdumst áfram í skólana í Vesturbænum, og síðan fórum við Óli saman í Loftskeytaskólann.

Báðir; vorum  óstýrlátir og erfiðir og vildum fara okkar eigin leiðir. Það var mikið að gera hjá okkur og áhugamálin gengu fyrir öðru. Ég segði ósatt ef ég neitaði að hugur okkar snerist helst ekki um annað en konur, skemmtanir, ævintýramennsku og bíla, auk laxveiðinnar sem við báðir ólumst upp við.

Við drukkum af lífsins bikar ótæpilega, báðir áttum við fullorðna foreldra sem allt vildu fyrir okkur gera. Hvorki hans eða mínir foreldrar voru ánægðir þegar við komum heim löngu síðar, en við ætluðum en við vorum ungir og það var gaman að lifa.

Mér er það minnisstætt þegar við vorum ungir að árum að skoppast niður við höfn og Óla Loga var litið á stórt skip sem lá við hafnarbakkann. Við litum á hvorn annan og orð voru óþörf. Um borð laumuðumst við og héldum á haf út. Ég var nappaður á Akureyri, en Óli Logi komst alla leið til Skotlands, forldrum okkar var ekki skemmt.

Þegar sá gállinn var á okkur stöðvaði okkur ekki neitt þó oft þyrftum við ýmis brögð til að komast þangað sem við ætluðum.

Engu skipti þó við værum sendir í sveit, til útlanda í nám eða heimavistarskóla; vinátta okkar var alltaf söm.

Við lifðum ljúfu lífi, en skynsemin réði ekki alltaf för. Dagurinn í dag var það sem skipti máli og ekki hugsað lengra.

En lífernið skildi eftir sinn toll og eftir  þrítugsaldur hófst barátta okkar beggja, Dímoninn sem völdin vildi hafa herjaði á okkur.  Það gekk upp og ofan en ég var svo lánsamur að takast að halda mér frá skrattakollinum þeim mun fyrr og hef ekki tekið við hann glímu í yfir tuttugu ár. Óli minn var hins vegar ekki eins lánsamur, en góða daga, vikur og jafnvel ár stóð hann uppréttur og lét ekki plata sig. En svo syrti í álinn og dagarnir urðu að baráttu, en hann gafst ekki upp. Reyndi áfram og lét ekki brjóta sig niður þó ekki ætti hann alltaf árangur sem erfiði.

Tíu dögum áður en hann kvaddi hitti ég hann hressan og kátan. Hann sagði að nú væri hann glaður og hamingjusamur því hann hefði fundið sinn lífsförunaut.

Ég talaði síðan við hann í síma, og hann var einn heima. Ég var á leiðinni í heimsókn eftir það á hverjum degi, þar til það varð skyndilega of seint.

Eigi skal sköpum renna og skyldi maður temja sér að rækta vinskapinn á meðan maður getur. Maður veit aldrei hvern annan grefur. Og enn síðar hvenær.

Óla Loga þakka ég ævilanga vináttu sem aldrei bar skugga á þó áhugamálin og eða stefna okkar í lífinu skaraðist með aldrinum. En væntumþykjan og vináttan var alltaf söm. Nú er til lítils að segja, bara ef ... Ég á eftir að sakna hans mikið.

Kristjönu sambýliskonu hans og börnum votta ég innilega samúð.

Smári Arnfjörð Kristjánsson.