Stefán Aðalsteinsson fæddist á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal 30. desember 1928 Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eir 5. nóvember 2009. Foreldrar hans voru Ingibjörg Jónsdóttir, f. 1901, d. 1987 og Aðalsteinn Jónsson, f. 1895, d. 1983. Stefán ólst upp í hópi 10 systkina. Systkini hans eru Guðrún, f. 1923, d. 1999, Jóhanna, d. 1924, d. 2007, Guðlaug, f. 1925, d. 1991, Jón Hnefill, f. 1927, Sigrún, f. 1930, Aðalsteinn, f. 1932, Ragnhildur, f. 1934, d. 1939, Hákon, f. 1935, d. 2009, Birgir Ásgeirsson, f. 1939, fóstursonur og Ragnar Ingi, f. 1944. Maki 1: 2. okt. 1954, Ellen Sætre, f. 1935 (skilin) . Foreldrar Karsten Sætre, f. 1900, d. 1973 og Signe Sætre, f. 1900, d. 1967 Synir þeirra: 1) Gunnar, f. 1955, maki Kristín Rafnar, f. 1955. Synir a) Bjarni, f. 1981 sambýliskona Graciete das Dore, sonur Gunnar Kári, f. 2009, og b) Stefán Björn, f. 1988. 2) Ragnar, f. 1957, maki Íris Friðriksdóttir, f. 1960 (skilin). Börn Sóley, f. 1991, Bergsteinn Gauti, f. 1993, og Axel Logi, f. 1996. 3) Stefán Einar, f. 1963, maki Ranie Sahadeo, f. 1964. Börn Lára, f. 2002, og Róbert, f. 2004. 4) Kjartan, f. 1964, maki Nancy Stefansson, f. 1965. Sonur Adam Brendan, f. 2007 5) Halldór Narfi, f. 1971, maki Masako Atake, f. 1965. Börn Nanna, f. 2003, og Lena, f. 2006. Maki 2: 19. júní 1999, Erla Jónsdóttir, f. 1929. Foreldrar Ingibjörg Benediktsdóttir, f. 1900, d. 1988 og Jón H. Einarsson, f. 1895, d. 1963. Börn með Guðmundi Bjarnasyni, f. 1930: 1) Bjarni, f. 1955, sambýliskona Linda Harðardóttir, f. 31. júlí 1957. Börn Erla Kristín, f. 1977, Guðmundur, f. 1986, Berglind, f. 1988, Gabriella Siv, f. 2003, og Eva Lilja, f. 2005. 2) Hallur, f. 1957, maki Jóna Helgadóttir, f. 1954. Börn Hallur Ingi, f. 1986, Tinna Björg, f. 1988, og Magnús Þór, f. 1990. 3) Snorri, f. 1962, maki Bryndís Kristinsdóttir, f. 1965. Börn Snædís 19. des. 1988, dóttir hennar Ísold Orka Egilsdóttir, f. 2009, Sturla Snær, f. 1994, og Vordís Sól, f. 1997. Stefán varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri, þá búfræðikandídat frá Landbúnaðarháskólanum í Ási og lauk doktorsprófi frá tölfræðideild Edinborgarháskóla 1969 með ritgerð um erfðir sauðfjárlita en þær erfðarannsóknir eru þekktar víða um heim. Hann var framkvæmdastjóri Norræna genabankans fyrir búfé 1991-1996, áður deildarstjóri við Rannsóknastofnun landbúnaðarins 1970-1991, tölfræðiráðgjafi og háskólakennari. Stefán skrifaði fræðibækur fyrir börn og fullorðna og tvær barnabækur. Liggur eftir hann fjöldi fræðiritgerða auk greina um þjóðfélagsleg efni. Hann var virkur við félagsstörf, m.a. í Félagi ísl. náttúrufræðinga, Biometric Society og American Genetic Association og félagi í Rótarý þar sem hann var Paul Harris-félagi. Stefán var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og fékk viðurkenningar, m.a. úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright. Ritstörf hans fengu ýmsar viðurkenningar, m. a. sem bestu fræðibækur fyrir börn og unglinga. Útför Stefáns fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 16. nóvember, og hefst athöfnin kl. 13.

Með Stefáni Aðalsteinssyni er genginn maður sem seint mun gleymast þeim sem hlotnaðist sú gæfa að fá að starfa með um lengri eða skemmri tíma. Ég var einn þeirra og langar því að leiðarlokum að minnast hans nokkrum orðum.

Kynni mín af Stefáni hefjast sem unglingur með lestri á mörgum af greinum hans. Þá hafði ég óþrjótandi áhuga á búfjárrækt og skrif Stefáns á sjöunda áratugnum um búfjárrækt voru mér mikill fræðabrunnur. Mest að þessu var í Búnaðarblaðinu þar sem Stefán sat í ritstjórn á þessum árum eða Búnaðarritinu þar sem hann skrifaði nokkrar sígildar greinar. Á þessum tíma verða mjög harkalegar ritdeilur um stefnur í sauðfjárrækt á milli Stefáns og Halldórs Pálssonar, sem þá var nýorðinn Búnaðarmálastjóri en hafði verið óskoraður leiðtogi sauðfjárræktarstarfs í landinu um áratuga skeið. Fyrir ungling sem hafði drukkið í sig skrif þeirra beggja í nokkur ár og litið á það sem ómetanlega fræðslu um sauðfjárrækt virkaði þetta sem eins konar fárviðri þar sem á þeim tíma skorti að mestu faglegar forsendur til að leggja mat á rök þeirra og gagnrök.

Faglegt starf Stefáns er gríðarlega mikið og vil ég hér á eftir nefna nokkur af þeim verkefunum sem þekktust hafa orðið og mestu skiluðu. Lokaverkefni hans í búvísindanámi í Noregi fjallaði um rannsóknir á eðliseiginleikum íslenskra ullar. Hann hafði tekið ullarsýni af nokkuð hundruð íslenskum kindum og gerði mælingar á fjölda eðliseiginleika ullarinnar, en slíkar mælingar voru þá víða um heim fastur þáttur í sauðfjárrækt, þó að aldrei væru þær teknar upp hér á landi. Þarna er enn í dag að finna eina umfangsmestu rannsókn á eðliseiginleikum íslenskrar ullar sem til er. Alveg frá þeim tíma varð Stefán óumdeildur sérfræðingur Íslendinga í sambandi við ull og síðar gærur. Sérstaða íslenskrar ullar er slík að það kallar á sérstaka tækni við vinnslu og vann Stefán lengi að rannsóknum með tæknimönnum um þróun sérstakra véla fyrir úrvinnslu á íslenskri ull, sem samt urðu aldrei að veruleika. Meðan uppgangur ullarframleiðslu var mestur á sjöunda og áttunda áratugnum vann Stefán að því að bæta eðliseiginleika íslenskrar ullar. Gular illhærur var þá talinn mestur eðlisgallinn og hóf Stefán tilraunir sínar á tilraunabúunum með að útrýma þeim úr ullinni með skipulegu úrvali. Þessar tilraunir, sem stóðu á annan áratug, leiddu í ljós að þetta er auðvelt að gera og erfðir að baka eru nátengdar þeim lögmálum litaerfðanna sem Stefán hafði þá sett fram og hlotið heimsfrægð fyrri. Hann stundaði marvíslegar fleiri rannsóknir til að bæta ull og gærur sem hráefni fyrir iðnaðinn. Þar er t.d. rétt að nefna tilraunir sem urðu upphaf þeirrar þróunar að íslenskir bændur tóku upp vetrarrúning á fé á sjöundan áratugnum og á síðustu árunum á RALA vann hann að tilraunum með haustrúning, sem urðu upphafa þeirra búskaparbreytinga.

Þegar Stefán hefur störf sín hjá Atvinnudeild Háskólans að loknu kandídatsnámi starfar hann náið með Halldóri Pálssyni sem þá var forstjóri stofnunarinnar og þekktasti landbúnaðarvísindamaður Íslendinga. Stefán hóf þá strax að skipuleggja doktorsverkefni sitt um litaerfðir sauðfjár. Þá voru þau erfðalögmál enn brotakennd, þó að fjöldi vísindamanna víða um heim hefðu glímt við finna þau um áratuga skeið. Með snjöllu tilraunaskipulagi og skýrum tilraunatilgátum sínum tókst Stefáni á örfáum árum að leiða þessi lögmál fram. Þegar hann hafði sett þau fram á skýran hátt virtust þau einföld og þekkja flestir fjárbændur á Íslandi þau í dag eins og fingur handa sinna. Strax höfðu þessar tilraunaniðurstöður verulega áhrif fyrir íslenska sauðfjárbændur við að skipuleggja framleiðslu á gráum lambagærum, sem voru á þeim árum í mjög háu verði. Síðan kom Stefán að rannsóknum á litaerfðum bæði hjá nautgripum og hrossum (og fleiri dýrategundum) hér á landi og var kenningasmiður í því að sýna fram á að litaerfðavísasæti mismundan búfjártegunda eru nátengd. Þetta er vafalaust það rannsóknarstarf Stefáns sem þekktast er meðal vísindamanna um allan heim. Verkefni sem Stefán og Halldór skipulögðu í lok sjötta áratugarins á Hesti var þróun aðferða við afkvæmarannsóknir á hrútum. Þetta mun vera upphaf slíkra rannsókna í heiminum og þó að þeir bæru ekki gæfu til að ljúka því sem rannsóknarverkefni urðu slíkar afkvæmarannsóknirnar með tímanum burðarásinn í þeirri fjárrækt á Hesti sem leitt hefur ræktunarstarfið hér á landi síðustu árin.

Snemma á sjöunda áratugnum urðu ritdeilur milli Stefáns og Halldórs, sem áður eru nefndar. Ástæður þeirra eru mér, eins og líklega flestum, enn jafn ruglingslegar og huldar og áður er rætt. Í mínum huga virðist sem tilraunabúið á Hesti hafi á þeim tíma ekki verið nógu stór starfsvettvangur fyrir tvo jafn mikla og stórhuga vísindamenn, þar sem hugmyndir til einstakra viðfangsefna hafa líklega ekki að öllu fallið í sama farveg. Þessar ritdeilur, sem voru sóttar af miklum þunga og rökfimi af beggja hálfu, urðu hatrammar. Því miður varð samstarf þessara snjöllu manna lítið eftir þetta um leið og deilurnar sköpuðu ákveðinn klofning í sauðfjárræktarstarfi í landinu um fjölda ára. Íslenskri sauðfjárrækt varð það því miður ekki til góðs.

Á fyrstu starfsárum Stefáns voru verkefnin mjög fjölbreytt. Hann kom að úrvinnslu fjölbreyttra tilraunaverkefna á þeim árum en þá var hann áreiðanlega sá einstaklingur í hópi íslensku búvísindamannanna sem bjó yfir mestri þekkingu í tilraunastærðfræði. Minnast má þess að á þessum árum vann hann með norrænum samstarfsmönnum fyrstu rannsóknir á blóðflokkum íslenskra nautgripa sem varpaði ákveðnu ljósi á uppruna íslensks búfjár. Segja má að slíkum rannsóknum hafi síðan lítt verið sinnt þar til undir lok starfsævi Stefáns að hann, sem forstöðumaður hjá Norræna genbankanum fyrir búfé, var í forsvari fyrir skipulagi á mjög umfangsmiklum rannsóknum á því sviði á öllum Norðurlöndunum og víðar og einnig fyrir fleiri búfjártegundir. Þegar tölvuöldin gengur í garð á sjöunda áratugnum gerir Stefán sér um leið grein fyrir þeirri byltingu sem þar er að verða í meðhöndlun og úrvinnslu gagna. Hann varð strax brautryðjandi í notkun þessarar tækni í landbúnaði á Íslandi og líklega er doktorsverkefni hans fyrsta stóra íslenska rannsóknarverkefnið þar sem úrvinnsla gagna er unnin með aðstoð þessara tækni, a.m.k. innan landbúnaðarins. Fljótt eftir 1970 verð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að komast í persónuleg kynni við Stefán. Gerðist það með því að hann lagði mér í hendur mjög umfangsmikið gagnasafn frá tilraunabúunum sem hann hafði umsjón með til að vinna úr í lokaverkefni mínu. Var þetta upphaf að farsælu samstarfi okkar sem varði meðan Stefáni entist aldur. Þegar hér var komið sögu var Stefán orðinn deildarstjóri búfjárdeildar RALA. Starfaði ég þannig undir hans verkstjórn meira og minna í nokkur ár. Var það ákaflega ánægjulegt samstarf. Mikill kraftur var í starfi deildarinnar undir forystu Stefáns og rannsóknir unnar á fjölbreyttum sviðum. Þarna kynntist ég leiftrandi gáfum og færni Stefáns á sviði búfjárkynbóta, erfðafræði og tilraunstarfræði. Mikið var unnið að þróun í notkun á tölfræðiforritum til að auka möguleika á fjölbreytni og umfangi í úrvinnslu gagna, en þá var ekki aðgangur að tölfræðisöfnum eins og menn búa við í dag, heldur þurftu menn mest að forrita alla úrvinnslu sjálfir. Á því sviði var Stefán fádæma mikill verkmaður og beitti þekkingu sinni af snilld. Ekki var síður lærdómsríkt að vinna með honum að frágangi vísindagreina og tilraunaskýrslna, en ritsnilld og skýrleiki hans í framsetningu efnis naut sín þar mjög. Það sem stöku sinnum var Stefáni ákveðinn fjötur um fót var að hann var mikill kappsmaður og hætti einstöku sinnum til að gera niðurstöður of persónulegar. Mest gerðist þetta þegar kom að því ræktunarstarfi í sauðfjárræktinni sem unnið var á tilraunabúunum samhliða tilraunastarfinu.

Það verkefni, sem við Stefán unnum sameiginlega að og verður mér minnistæðast, er uppgötvun stórvirks stakerfðavísis fyrir frjósemi hjá íslensku sauðfé. Þetta var snemma á níunda áratugnum. Ég hafði vitað af sérstökum eiginleikum hjá fé í Austur-Skaftafellssýslu sem sýndi ótrúlega mikla frjósemi og höfðum við Stefán raunar staðið að flutningi nokkurra gripa þaðan nokkrum árum áður að tilraunastöðinni á Skriðuklaustri án þess að gera okkur fulla grein fyrir hvað við vorum með í höndunum. Ég man að þegar ég hafði loks náð saman gagnagrunninum að fullu um féð og við settumst niður við úrvinnslu þá varð okkur fljótt ljóst að við værum með í höndunum mjög sérstaka hluti. Kappið við verkið og fögnuðurinn hjá Stefáni þegar fyrir lágu stórkostlegar niðurstöður er ógleymanlegt. Síðasta verkið sem við Stefán unnum á þennan hátt saman var sumarið 1994 þegar við ákváðum að fara á heimsráðstefnu um búfjárrækt í Kanada með kynningu á íslensku forystufé. Ekki tókst þar betur til en svo að í alþjóðaritum um sauðfé má sjá sagt frá því að við höfum líklega ekki áttað okkur á að við hefðum fundið fé sem væri hrætt við okkur. Við Stefán vorum hins vegar báðir jafn sannfærðir um að þarna værum við að kynna hlut sem er einstakur í heiminum. Það bíður betri tíma að sannfæra heiminn um það.

Hinir miklu og fjölbreyttu hæfileikar Stefáns gerðu það að verkum að það var einstök ánægja að ferðast með honum um landið en slíkar ferðir á tilraunabúin urðu ófáar. Þar jós hann af mikilli þekkingu sinni um staðfætti, örnefni og fólk um allt land. Stefán stundaði talsvert kennslu bæði á Hvanneyri við HÍ og fleiri skóla og var rómaður og dáður kennari enda hæfileikar hans til að miðla flóknu efni ákaflega miklir. Þegar samdráttarskeiðið var sem mest í íslenskum landbúnaði á níunda áratugnum var mjög dregið úr rannsóknarstarfsemi á sviði sauðfjárræktarinnar. Stefán sneri sér þá að nýsköpunarverkefnum í landbúnaði en skipti brátt um starfvettvang og flutti til Noregs. Þar tók hann að sér stöðu forstöðumanns Norræna genbankans fyrir búfé. Hann varð fyrsti starfsmaður þessarar stofnunar og mótaði hana í upphafi. Hún hefur síðan vaxið umtalsvert á síðustu árum. Undir lok starfsferils síns og eftir að honum lauk skrifaði Stefán allmargar alþýðlegar fræðibækur og barnabækur. Þarna sameinuðust víðtæk þekking hans og miklir hæfileikar til miðlunar á efni í mörgum gimsteinum.

Með Stefáni er genginn gríðarlega hæfileikaríkur fræðimaður og ógleymalegur persónuleiki. Ævistarf hans á sviði rannsókna var með ólíkindum mikið að umfangi og hagnýt og fræðileg þýðing margra rannsókna hans mjög mikil.

Að leiðarlokum eru Stefáni þökkuð ómetanleg kynni og óborganleg fræðsla. Um leið vil ég votta eiginkonu hans, sonum hans og öðrum aðstandendum samúð mína.

Jón Viðar Jónmundsson.