Helga Vigfúsdóttir fæddist í Hrísnesi á Barðaströnd 3. október 1923. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Seljahlíð 8. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Vigfús V. Erlendsson bóndi, f. 5. apríl 1888, d. 18. maí 1940 og Guðbjörg Guðmundsdóttir, f. 31. júlí 1892, d. 23. júní 1974. Systkini Helgu voru: Guðmundur, f. 1915, d. 1983, Vigfús, f. 1917, d. 1979, Þuríður, f. 1918, Kristín, f. 1920, d. 2000, Guðný, f. 1922, d. 1997, Erlendur, f. 1926, d. 2005, Hannes, f. 1928, Halldór, f. 1929 og Hilmar, f. 1936. Helga giftist 5. ágúst 1944 Ólafi Kristni Þórðarsyni kennara frá Innri-Múla, Barðaströnd, f. 21. ágúst 1918. Þau eignuðust þrjú börn, þau eru: 1) Kolbrún, f. 25. okt. 1944, gift Herði Eiðssyni, f. 8. maí 1944. Börn Kolbrúnar: Kári Breiðfjörð Ágústsson, f. 24. júní 1965, d. 2006, eftirlifandi þrjár dætur. Berglind Brynjólfsdóttir, f. 12. feb. 1967, maki Guðmundur Jónsson, þau eiga tvö börn. Sölvi Breiðfjörð Harðarson, f. 14. feb. 1970, maki Anna Sigríður Grímsdóttir, þau eiga tvö börn. Ólafur Helgi Harðarson, f. 15. nóv 1980. Stjúpdóttir Steinunn Harðardóttir, f. 18. desember 1974. 2) Skarphéðinn, f. 10. okt. 1946, kvæntur Sigríði M. Skarphéðinsdóttur, f. 5. maí 1948. Barn Elín Kristín, f. 7. maí 1968, maki Owe Nilson, þau eiga þrjár dætur. Móðir Elínar Sigrún Bernótusdóttir, d. 1980. Stjúpsonur Skarphéðinn Rúnar Grétarsson, f. 14. feb. 1966, d. 2005, lætur eftir sig tvær dætur og Konráð Ara. Fóstursonur Konráð Ari Skarphéðinsson, f. 26. des. 1985. 3) Þórður Gísli, f. 8. júlí 1952 kvæntur Jónínu S. Jónasdóttur, f. 1. sept. 1957. Synir þeirra: Ólafur Kristinn, f. 1. mars 1979. Kjartan Valur, f. 20. apríl 1982, maki Hildur Ýr Viðarsdóttir, þau eiga einn son. Hjalti Jón, f. 4. mars 1992. Fjölskyldan bjó fyrir vestan, lengst af í Hrísnesi en einnig um tíma á Patreksfirði, Bíldudal og Tálknafirði. Flutti til Reykjavíkur 1961. Helga og Ólafur bjuggu lengi á Háaleitisbraut 44, síðan í Maríubakka 2 og síðustu árin í Seljahlíð, að Hjallaseli 55. Útför Helgu fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 16. nóvember, og hefst athöfnin kl. 13.
Helga Vigfúsdóttir er látin. Hún var ein þeirra sem skilur eftir spor í hjörtum – minningar. Ég kynntist Helgu sem unglingur í gegnum ættartengsl því Ólafur eiginmaður Helgu og Júlíus faðir minn eru bræður. Á tímamótaviðburðum á Innri-Múla á Barðaströnd, kom stórfjölskyldan saman og eiginkonur þeirra Múlabræðra voru samhentur hópur við skipulagningu þessara viðburða. Helga var röggsöm í framgöngu, örugg og tíguleg í fasi, sköruleg í ræðu og mátulega afskiptasöm. Seinna þegar ég dvaldist ungur námsmaður um árabil í Reykjavík þá átti ég ávallt öruggt skjól hjá þeim hjónum, Helgu og Ólafi. Helga tók mér eins og sínum börnum, lét sér annt um mína hagi og þá ekki síst fæðulega hlið þeirra. Hún kenndi mér t.d. að borða kæsta skötu. Verð ég ævinlega þakklátur henni fyrir að kynna það hnossgæti fyrir mér. Helga var fylgin sér og sínum skoðunum þegar kom að því að leiðbeina unga fólkinu. Hún var þó raunsæ á það hvað var eðlilegt fyrir ungviðið. Helga og Ólafur sögðu mér margt frá lífinu á Barðaströnd því auk þess að alast þar upp þá bjuggu þau í Hrísnesi, æskuheimili Helgu, um árabil. Þær frásagnir kenndu mér margt um föður minn og þar með minn eigin uppruna. Vigfús, faðir hennar, var einn þeirra manna sem faðir minn leit mjög upp til og sagði hreystisögur af. Nú að leiðarlokum finnst mér þessar sögur geti á vissan hátt alveg eins passað við Helgu dóttur hans.
Þegar um hægðist hjá þeim hjónum síðustu árin og heilsan lét nokkuð undan síga var andinn þó hinn sami er við hittumst. Enn var spurt, umhyggja og ástúð auðsýnd og reiddar fram góðgerðir að gömlum og góðum sveitasið.
Tengsl foreldra minna við þau Helgu og Ólaf voru ávallt mikil og held ég að telja megi þau samferðafólk í flestum skilningi þótt lengst af hafi landfræðilegur aðskilnaður verið raunin. Helga og Ólafur komu oft í heimsókn að Skorrastað. Þá var ævinlega glatt á hjalla. Móðir mín, Jóna Ármann, og Helga áttu skap saman. Báðar voru glaðsinna og röskar til allra verka. Það var engin lognmolla þar sem þær fóru saman. Það var heldur aldrei farið til Reykjavíkur héðan að austan, að ekki væri komið við hjá þeim Helgu og Ólafi og þá oftar en ekki gist hjá þeim. Helga var æðrulaus fram á hinstu stund og kvaddi sátt. Blessuð sé minning Helgu Vigfúsdóttur.
Þórður Júlíusson.