Hlín Stefánsdóttir fæddist í Haganesi í Mývatnssveit 21.10.1915. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Hlíð 5. nóvember 2009. Hún var dóttir hjónanna Áslaugar Sigurðardóttur frá Arnarvatni, f. 20.12. 1884, d. 1979 og Stefáns Helgasonar, Haganesi, f. 30.05. 1884, d. 1972. Systkini Hlínar voru Sigurður, f. 1905, Helgi, f. 1912, Hjördís, f. 1918 og Ívar Haukur, f. 1927 og eru þau öll látin. Eiginmaður Hlínar var Rögnvaldur Rögnvaldsson, f. á Litlu Þverá í Miðfirði 21.10. 1912, d. 15.11. 1987, sonur Margrétar Björnsdóttur og Rögnvaldar Hjartarsonar Líndal. Dætur Hlínar og Rögnvaldar eru: A) Margrét, f. 26.5. 1940. Sonur Margrétar og Péturs G. Helgasonar er Rögnvaldur Dofri, f. 1960, maki Sigríður Björk Guðmundsdóttir, dóttir hennar er Rakel Sölvadóttir. Börn Rögnvaldar Dofra og fyrri eiginkonu hans, Unnar Bjarnadóttur, eru Margrét, f. 23. 10. 1989, d. 1992, Pétur og Bjarni. Dóttir Unnar og stjúpdóttir Dofra er Nanna Kristín Magnúsdóttir. Börn Margrétar og fyrri eiginmanns hennar Brynjars H. Jónssonar, f. 18.9. 1935 eru: 1) Stefán Tryggvi, f. 1965, sambýliskona Sigríður Erla Sveinbjörnsdóttir, sonur hennar er Júlíus Arnarsson. Stefán og Silja Sverrisdóttir eiga dótturina Andreu Báru. Stefán og Elínborg Björnsdóttir eiga soninn Agnar Dofra. 2) Guðrún Hlín, f. 1967, maki Hlynur Bjarkason. Börn þeirra eru Katrín og Bjarki. 3) Björn Ágúst, f. 1977, sambýliskona Svanhildur Edda Kristjánsdóttir. Brynjar og Margrét skildu. Pétur G. Helgason, f. 27.07. 1932, d. 2004, barnsfaðir Margrétar, var síðari eiginmaður hennar. B. Dóttir andvana fædd 9. ágúst 1942 C. Úlfhildur, f. 1.9. 1946, maki Hákon Hákonarson, f. 6.2. 1945. Börn þeirra eru: 1) Hákon Gunnar, f. 1967, maki Petra Halldórsdóttir. Börn þeirra eru Álfhildur Rögn og Hákon Birkir. 2) Helga Hlín, f. 1972. Dóttir Helgu Hlínar og Sigurðar Guðmundssonar er Aðalborg Birta. Helga Hlín og sambýlismaður hennar, Unnar Sveinn Helgason, eiga dótturina Úlfhildi Örnu. Hlín ólst upp í Haganesi. Eftir hefðbundið nám í sveitinni var hún einn vetur í Alþýðuskólanum á Laugum. Þaðan lá leiðin til Akureyrar í nám í kjólasaumi og svo til Reykjavíkur í frekara nám í saumaskap. Þar kynntist hún Rögnvaldi og árið 1939 hófu þau búskap á Akureyri. Þau bjuggu um skeið í Haganesi en frá 1949 á Akureyri, lengst af í Munkaþverárstræti 22. Nánast allan starfsaldur þeirra hjóna unnu þau saman við umsjón og rekstur almenningssalerna bæjarins, við rekstur Verslunarinnar Hlín og RR búðarinnar og síðast við húsvörslu og ræstingar hjá Akureyrarbæ. Hlín vann einnig á um tíma við saumaskap í Sambandsverksmiðjunum. Með vinnu utan heimilis tók Hlín alla tíð að sér að sníða föt og sauma heima fyrir fólk. Hlín og Rögnvaldur ólu að miklu leyti upp dótturson sinn Rögnvald Dofra. Hlín var ákaflega vandvirk og virt sem saumakona, tók þátt í ýmsu félagsstarfi, hafði yndi af ljóðlist og tónlist. 2004 flutti Hlín á Dvalarheimilið Kjarnalund og í júlí 2008 á hjúkrunardeild Hlíðar. Útför Hlínar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 16. nóvember og hefst athöfnin kl. 13.30.
Nú er hún amma Hlín búin að kveðja þennan heim 94 ára að aldri.
Við amma vorum miklir vinir og félagar. Hún sagði okkur barnabörnunum sögur og ævintýri sem hún kunni gnótt af þegar við gistum í Munk 22 og þegar við vorum í sumarbústaðnum í Haganesi en þaðan var hún ættuð.
Ég, amma og afi vorum mikið áhugafólk um hesta og riðum stundum út öll saman. Ég var í miklu uppáhaldi hjá þeim báðum og ofdekraður oft á tíðum. Amma var lærð saumakona og saumaði hún á okkur barnabörnin öll þau föt sem okkur vantaði. Þegar ég var að læra bifvélavirkjun bjó ég í kjallaranum hjá ömmu og þar var hugsað um mig eins og prins. Amma vakti mig blíðlega á morgnana í vinnu og þegar ég kom upp í eldhús biðu mín tvær brauðsneiðar, heitt te með sykri og búið að hræra í bollanum fyrir elsku litla drenginn. Svona var hún amma, alltaf að þjónusta aðra og passa upp á að öllum liði vel.
Þú hélst mikið uppá Andreu dóttur mína og varst svo glöð yfir því þegar þú fréttir að hún ætlaði að mennta sig, en það langaði þig til líka, en þá voru aðrir tímar og þess ekki kostur.
Ég var hjá þér síðustu stundina sem þú lifðir og þá fór margt í gegnum hugann. Allt frá því ég var barn. Alltaf varst þú okkur barnabörnunum svo góð og þær eru ógleymanlegar stundirnar þegar þú leiddir okkur um sveitina þína og hver hóll og hellir átti sér nafn og sögu.
Það eru ekki allir sem hafa átt þau forréttindi að vera kominn á fimmtugsaldur og eiga bestu ömmu í heimi. Þú varst réttsýn og hafðir ákveðnar skoðanir á lífinu. Þið afi ferðuðust mikið til útlanda og ég veit hátindurinn á þeim ferðalögum var þegar þið fóruð til Rússlands. En þið voruð bæði vinstrisinnuð. Amma ég vil þakka þér fyrir alla þína hlýju og ást í minn garð. Minningarnar um þig eru dásamlegar og þar ber hvergi skugga á. Ég veit að þú ert búin að hitta afa Rögg.
Far þú í friði og guð blessi minningu þína. Ástarþakkir fyrir allt.
Stefán Tr. Brynjarsson.
Ég skrifa þessar línur til þess að minnast ömmu minnar og afa. Vorið 1960 fæddist ég í hjónarúmi þeirra í Munkaþverárstræti 22 á Akureyri, en þar bjó þá einnig móðir mín sem og systir hennar, Úlla frænka sem þá var á 14. ári. Móðir mín fluttist til Ísafjarðar þegar ég var á öðru ári og varð ég eftir hjá afa og ömmu. Þegar móðir mín flutti aftur til Akureyrar ásamt fósturföður mínum, Brynjari Jónssyni, fluttu þau í Kringlumýrina og þá var ætlunin að ég flytti til þeirra og það varð úr. Dvölin varð ekki löng í Kringlumýrinni því ég ákvað að best væri fyrir mig að snúa aftur til ömmu og afa í Munkann. Amma tók mér opnum örmum og sagði að ef ,,elsku drengurinn (en það kallaði hún mig gjarnan) vildi vera hjá þeim þá yrði það þannig. Aðrar sögur segja að ég hafi farið til ömmu og sagt henni að ég vildi frekar vilja búa hjá henni og afa og hafi gefið þá skýringu á því að ég vildi ekki vera hjá mömmu, vegna þess að þar væri ég látinn taka til, en hjá ömmu og afa sá amma alfarið um þau mál. Ekki man ég svo gjörla eftir því hvernig þessir hlutir æxluðust á þessum tíma, en niðurstaðan varð sú að ég varð hjá ömmu og afa og ólst þar upp, raunar með heimili á báðum stöðum, þar til ég flutti frá Akureyri tvítugur.
Hjá ömmu og afa naut ég taumlausrar væntumþykju og ástúðar í alla staði og sumir hafa haldið því fram að ég hafi verið algjörlega ofdekraður. Allt var látið eftir mér svo að mörgum þótti nóg um. Amma eldaði fyrir mig grasamjólk eða sauð fyrir mig baunasúpu ef ég sagðist vera svangur og skipti þá engu máli þótt komið væri langt fram á kvöld eða jafnvel nótt þegar svo bar undir. Fyrstu árin svaf ég á milli ömmu og afa. Amma sagði mér sögur af alls kyns furðuverum úr Mývatnssveitinni á hverju kvöldi og afi kenndi mér bænir sem alltaf var farið með upphátt fyrir svefninn, en afi var mjög trúrækinn maður. Þegar ég var orðinn nokkurra ára og farið að þrengjast um okkur í hjónarúminu, færði amma mig í dívan, sem á kvöldin var komið fyrir þétt við rúmgaflinn hennar megin á hjónarúminu. Fljótlega eftir að ég hóf skólagöngu var hætt að færa dívaninn að rúminu og hann látinn standa tæpan einn metra frá rúminu hennar megin. Síðar var dívaninn færður til og hafður afa megin við rúmið, enda plássið í herberginu meira þeim megin. Ég held að ég hafi verið orðinn 12 ára þegar ég loksins hætti á það að víkja lengra frá þeim að næturlagi en þetta og fór í annað herbergi.
Afi var góður skákmaður og kenndi mér mannganginn. Kannski var kunnátta hans í skákíþróttinni því að þakka að hann var einnig góður stærðfræðingur þrátt fyrir að skólaganga hans hafi ekki verið löng. Ég naut vel kunnáttu hans í stærðfræði þegar ég hóf skólagöngu. Hann var einnig góður hestamaður og átti jafnan góða hesta. Amma og afi gáfu mér hest þegar ég var 4 ára og fórum við gjarnan saman í útreiðatúra á hestunum okkar þeim Skjóna, Grána og Blesa. Amma og afi höfðu álíka sýn á lífið og tilveruna, voru bæði miklir jafnaðarmenn og stóðu ætíð með þeim sem minna máttu sín.
Afi sagði mér frá því að þegar hann var lítill drengur og verið var að taka hann frá móður sinni, sem þá lá mikið veik, hafi hún sagt við hann, ,,Valdi minn, stattu alltaf með lítilmagnanum. Ég veit að afi hefur ætíð virt þessa ósk móður sinnar. Ég minnist þess að hafa farið með umslag sem í voru peningar til séra Péturs, með þeim skilaboðum að þetta væri frá ömmu og afa og peningarnir ættu að fara til líknarmála. Amma rak barnafataverslun á Akureyri, Hlín búð, á árunum upp úr 1960. Einhverju sinni fyrir jól kom í búðina maður, sem stakk inn á sig barnafötum og fór út án þess að borga. Þegar amma var innt eftir því af hverju hún hefði ekki stoppað manninn, sagði hún að þetta hefði verið fátækur maður sem langaði að gleðja börnin sín, það væri ekki hægt að meina honum það.
Ég minnist þess aldrei að amma hafi nokkurn tíman skammað mig. Afi gat kannski hækkað róminn eitthvað ef honum mislíkaði við mig. Þá sjaldan það gerðist kom amma mér ávallt til varnar og yfirleitt voru málin leyst í rólegheitum. Boð og bönn voru ekki í hávegum höfð hjá þeim, í það minnsta ekki gagnvart mér. Afi var fæddur að Litlu Brekku í Miðfirði en amma í Haganesi í Mývatnssveit. Þangað lágu leiðir okkar flestar helgar yfir sumarið. Fyrstu árin sem ég man eftir mér, þá bjuggu þar langafi minn og langamma, þau Stefán og Áslaug, en yngsti sonur þeirra, Ívar hafði þá tekið við búskapnum. Stundirnar í sveitinni voru skemmtilegar, eggjatýnsla, heyskapur, veiðar í vatninu og ánni og leikir með frændsystkinum mínum í Haganesi. Ferðir á bátnum með Ívari út í hólma til eggjatöku eða fyrirdrátt, gönguferðir með ömmu þar sem hún sýndi manni hvar ,,Skessan í Bláfjalli átti heima eða veiði í ánni með afa, allt er þetta ógleymanlegur hluti af ævintýraheimi.
Bæði amma og afi voru nátengd Mývatnssveitinni. Hin seinni ár leitaði hugur ömmu þangað gjarnan og spurði hún oftar en ekki að því hvort ekki væri allt gott að frétta úr sveitinni þegar maður kom í heimsókn til hennar á Hjúkrunarheimilið Hlíð. Afi, sem var hagyrðingur góður orti mörg af sínum fallegustu kvæðum um Mývatnssveitina og dylst það engum sem heyrt hefur vísur hans um sveitina hversu miklar mætur hann hafði á þeim stað. Meðan afi og amma ráku bæjarklósettin undir kirkjutröppunum lögðu margir góðir menn í vana sinna að koma þangað til að ræða pólitíkina, tefla eða fá eina góða vísu hjá afa. Menntskælingar lögðu gjarnan leið sína þangað og voru margir þeirra einnig tíðir gestir í Munkanum og var þá jafnan glatt á hjalla. Hjá ömmu og afa í Munkanum átti maður alltaf öruggt skjól og til þeirra var jafn gott að leita í gleði og sorg.
Afi lést 75 ára að aldri haustið 1977. Hin síðustu ár hefur amma dvalið á elliheimili, fyrst í Kjarnalundi og frá miðju ári 2008 á sjúkradeildinni í Hlíð. Þar var sem amma gengi í endurnýjun lífdaga og fyrir mig voru það mikil viðbrigði að heimsækja hana þangað í fyrsta sinn í júlí 2008. Hún var svo falleg, glöð og vel til höfð. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að koma á framfæri mínum bestu þökkum til starfsfólksins í Hlíð fyrir alla þá væntumþykju og alúð sem það sýndi ömmu minni meðan hún dvaldi þar.
Að lokum vil ég þakka þér amma mín fyrir það góða veganesti sem þú og
afi gáfuð mér í uppeldinu og ég vona að mér takist að halda í og rækta þau
góðu gildi sem þið stóðuð fyrir, manngæsku, kærleika og trú á Guð og geti
miðlað því til minna barna.
Rögnvaldur Dofri Pétursson.