Bergþór Hávarðsson fæddist í Nýborg í Fáskrúðsfirði 5. september 1946. Hann varð bráðkvaddur á Landspítalanum Hringbraut þriðjudaginn 10. nóvember 2009. Foreldrar Bergþórs voru Hávarður Bergþórsson, f. 2.2. 1921, d. 7.4. 1997 og Dagrún Fjóla Þórlindsdóttir, f. 18.7. 1925, d. 13.1. 2000. Bergþór var tekinn í fóstur af Kjartani Vilbergssyni, f. 6.3. 1921, d. 20.4. 1993 og Þóru Jónsdóttur, f. 13.4. 1921, d. 20.10. 1998. Fóstursystur Bergþórs eru Kristrún Guðnadóttir, f. 24.6. 1942 og Þóra Björk Nikulásdóttir, f. 20.10. 1959. Bergþór á einnig eina alsystur, Stefaníu Maríu Hávarðsdóttur, f. 1943. Systkini Bergþórs samfeðra eru Aðalheiður H. Hávarðardóttir, f. 1954, Bjarni Hávarðsson, f. 1959, Björg Hafdal Hávarðardóttir, f. 1960 og Þórarinn Árni Hafdal Hávarðsson, f. 1962. Systur Bergþórs sammæðra eru Hrönn Hauksdóttir, f. 1954, Sigrún Harpa Hauksdóttir, f. 1956, Guðbjörg Alda Hauksdóttir, f. 1961 og Sigurlaug Hauksdóttir, f. 1965. Bergþór eignaðist fjögur börn. Einn son átti hann með Sigrúnu Ragnarsdóttur, f. 1944, hann er 1) Rögnvaldur Bergþórsson, f. 25.7. 1967. Bergþór kvæntist Bryndísi Þórhallsdóttur árið 1971. Foreldrar hennar eru Ásthildur Pálsdóttir, f. 5.10. 1925 og Þórhallur Halldórsson, f. 21.10. 1918. Bergþór og Bryndís slitu samvistum en eignuðust saman þrjú börn. Þau eru 2) Ragnheiður Bergdís Bergþórsdóttir, f. 18.12. 1968, gift Þórarni Hróari Jakobssyni. Börn þeirra eru Bryndís Þóra Þórarinsdóttir, f. 10.8. 1994 og Jakob Jóel Þórarinsson, f. 3.3. 2000 3) Páll Björgvin Bergþórsson, f. 18.11. 1970, maki Eleanor Goulding. 4) Kjartan Hávarður Bergþórsson, f. 30.10. 1975, maki Þorbjörg Rún Eysteinsdóttir, Kjartan á einn fósturson, Þröst Stein Vöggsson, f. 11.10. 2004. Bergþór ólst upp á Stöðvarfirði og bjó þar þangað til hann fluttist til Reykjavíkur árið 1980. Bergþór lauk vélstjóranámi frá Vélskóla Íslands árið 1974 og starfaði sem vélstjóri um langt skeið. Hann stundaði ýmis störf og ferðalög, meðal annars skútusiglingar um heimsins höf. Útför Bergþórs fer fram frá Háteigskirkju í dag, 17. nóvember, og hefst athöfnin kl. 13.

Mig langar að minnast bernskuvinar míns Bergþórs Hávarðssonar, sem kvaddi þennan heim 10. nóvember. Við vorum jafnaldrar og vorum leikandi börn í blómsturbrekkum og við glitrandi sæ Stöðvarfjarðar fyrstu ár bernskunnar. Bergþór var stór og sterkur strákur og hafði bros í augunum. Hann var mildur og góður í sér og það var gott að vera nálægt honum. Ég var litla stelpan Lilla, sem vissi að hann var einn af verndurunum. Það var einstök ró yfir Bergþóri. Hann gat staðið kyrr eins og yfirvakari og horft yfir hópinn, svipfallegur og þroskaður. Hann hafði falleg augu, mild og skilningsrík og fallegt brúnt hár.

Mér líkaði svo vel við þennan vin og leikfélaga og fannst hann svo fínn. Ég flutti burt úr firðinum norður í land 8 ára gömul með fjölskyldu minni og þar með skildu leiðir okkar sem leikfélagar. Við uxum upp langt burtu hvort frá öðru og fórum mismunandi leiðir þannig að við vissum ekki mikið um líf hvors annars nema ég hafði vitneskju um að hann hefði stofnað fjölskyldu, eignast börn og sótt sjóinn. Hann varð eftir á Stöðvarfirði en ég fór af landi brott. Minningar bernskunnar lifa samt með okkur og hlýjar minningar um hjartagóðar manneskjur og kæra vini gleymast ekki.

Það var ekki fyrr en 50 árum síðar að leiðir okkar lágu saman aftur og sá atburður snerti mig djúpt. Enda þótt ég byggi erlendis hafði ég tekið mig upp og sótt nám í guðfræði við Háskóla Íslands í 5 vetur. Árið 2006 lauk ég námi og fór í mitt fyrsta starfsviðtal á Íslandi. Viðtalið átti að vera í Grensáskirkju í einu fundarherberginu. Ég kom tímanlega og ákvað að fara inn í helgidóminn og setjast þar niður. Þarna var friður og ró og gott að vera. Það var dags að hreyfa sig og ég stóð upp og sá að hávaxinn og kraftmikill maður var að gera við hurðina. Ég gekk hægum skrefum út kirkjuskipið. Það heyrðist ekkert í manninum sem var að laga hurðina, það var friður sem fylgdi verki hans og það var góð tilfinning, heilagt verk á helgum stað. Ég nálgaðist manninn, bauð góðan daginn og sagði: Það er gott að sitja hérna inni. Hann leit rólega upp frá vinnu sinni og bauð mér góðan dag. Ég var komin að hlið hans og þá leit hann upp og sagði: Lilla! Ég horfði með undrun og gleði á hann og hálf hrópaði: Bergþór! Og í fang hans flaug ég himinlifandi. Hann hafði sama brosið í augunum sem hann hafði fyrrum daga og við þekktum hvort annað strax eftir öll þessi ár. Við vorum ennþá litlu börnin sem lékum okkur saman í fallega firðinum fyrir austan fyrir meir en 50 árum. Við vorum glöð að hittast aftur og ég fann að mér þótti vænt um þennan vin minn. Og aftur fann ég mig trygga nálægt honum. Yfir honum hvíldi einstök ró. Við töluðum saman góða stund og ég sagði við hann, að nú værum við komin í sömu fjölskylduna, þar sem Kjartan sonur hans og Þorbjörg Rún, bróðurdóttir mín væru kærustupar. Við brostum og glöddumst yfir því.

Ég hugsa með gleði, þökk og virðingu til góðs drengs.

Guðbjörg Ólöf Björnsdóttir

Guðbjörg Ólöf Björnsdóttir

Vinur okkar Bergþór Hávarðarson, varð bráðkvaddur hinn 10. nóv sl. í Kópavogi. Bergþór hafði átt við vanheilsu að stríða um magra ára skeið.

Bergþór var hjálpsamur maður og nutum við þess oft enda Bergþóri margt til lista lagt, einstaklega verklaginn og útsjónsamur.

Bergþór var söngmaður, mikill sögumaður og hafði háleit markmið.

Sjómennskan átti hug hans allan þó ekki  leyfði líkamleg heilsa slíka atvinnu.  Bergþór bjó að Hátúni 10 í Reykjavík, átti þar hlýlegt heimili og naut öryggis í því umhverfi sem þar er skapað til handa þeim er þess þurfa.

Bergþór upplifði margt sem enginn annar hefði komist í gegnum. Mikill siglingakappi og sigldi heimsálfa á milli.  Í einni slíkri siglingu braut á skútunni úti á reginhafi,  yfirbyggingin laskaðist og fátt að gera annað en sitja ofan þilja og stýra. Til að bjarga sökkvandi skútinni blés Bergþór upp björgunarbátinn ofan í lúkarnum til að fá flot og til að þétta í hið sökkvandi skip.  Öldurnar voru háar og krappar. Við stýrið sat reyndur maður án siglingatækja og fjarskipta, maður sem náði landi eftir ævintýralega ferð,  þar sem sem til þurfti kunnáttu, kjark og þor til að komast af.

Hugurinn stefndi  ávallt á að sigla aftur.  Nú er hinsta siglingin hafin og kúrsinn settur  á betri stað, til heimahafnar í faðm þess sem öllu ræður.

Hugur okkar er hjá honum.

Hafðu þökk fyrir allt kæri vinur, þín er saknað.


Guðbjörn Haraldsson, Gísli Ásmundsson