Svanhvít Friðriksdóttir fæddist á Efri-Hólum í Núpasveit, Norður-Þingeyjarsýslu, 27. mars 1916. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi föstudaginn 6. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Friðrik Sæmundsson bóndi, f. 12. maí 1872, d. 25. október 1936, og Guðrún Halldórsdóttir ljósmóðir, f. 12. júlí 1882, d. 15. október 1949. Þau bjuggu á Efri-Hólum. Systkini Svanhvítar eru Halldóra, f. 3.6. 1903, d. 21.10. 1985, kennari; Sæmundur, f. 28.6. 1905, d. 3.8. 1977, framkvæmdastjóri; Dýrleif, f. 14.10. 1906, d. 1996, ljósmóðir; Þórný, f. 24.12. 1908, d. 18.8. 1968, húsmæðrakennari; Margrét, f. 11.6. 1910, d. 9.10. 1989, húsmóðir; Kristján, f. 21.7. 1912, d. 26.4. 1980, iðnrekandi; Jóhann, f. 21.5. 1914, d. 8.3. 1986, iðnrekandi; Guðrún Sigríður, f. 29.9. 1918, d. 4.4. 2002; Barði, f. 28.3. 1922, hrl. Svanhvít giftist 1948 Stefáni Björnssyni, frá Grjótnesi á Melrakkasléttu, Norður-Þingeyjarsýslu, f. 8. mars 1914, d. 3. febrúar 2009, skrifstofumaður hjá versluninni Ultima, Shell og Útflutningssjóði. Síðar endurskoðandi hjá Skattstofu Hafnarfjarðar og Skattstofu Reykjavíkur. Börn þeirra eru: 1. Friðrik, viðskiptafræðingur, f. 11. júní 1949. Friðrik giftist 1972 Sigríði Hjálmarsdóttur, f. 5. janúar 1950, kennara. Börn þeirra eru: a)Svanhvít, sagnfræðingur, f. 19. október 1978, gift Jóni Ólafi Sigurjónssyni, tannlækni, f. 2. apríl 1975. b) Hjálmar, f. 22. mars 1988, háskólanemi. Þau skildu. Friðrik er giftur Samruai Donkanha. 2. Björn, framleiðslutæknifræðingur, f. 26. janúar 1955. Sonur hans og Matthildar Ágústsdóttur, f. 7. júní 1956, er Stefán Þór, viðskiptafræðingur, f. 14. júlí 1973, giftur Svöfu Þóru Hinriksdóttur viðskiptafræðingi, f. 7. maí 1970 og eiga þau einn son, Hektor, f. 20. apríl 2003, og fóstursonur Stefáns, Hinrik Viðar, f. 30.október 1992. 3) Guðrún Stefánsdóttir, arkitekt, f. 7. júlí 1957. Sambýlismaður hennar er Einar Þorsteinn Þorsteinsson, f. 3. október 1949. Sonur hennar og Sigurjóns Gunnarssonar tölvufræðings, f. 15. apríl 1954, er Svanur, háskólanemi, f. 25. ágúst 1989. Svanhvít lærði við Húsmæðraskólann á Hallormsstað 1934-35. Dvaldi á stríðsárunum í Noregi og Svíþjóð og stundaði þar nám. Undirbúningur fyrir kennarapróf við Bergens kommunale kvinnelige industriskole í Bergen 1939-40, Statens kvinnelige industriskole í Ósló 1940-42, lauk þaðan kennaraprófi. Vefnaðar- og teikninámskeið hjá Handarbetes vänners og tískuteikning hjá Tilskerer akademi, Stokkhólmi 1942-43. Framhaldsnám á Norðurlöndum 1946-47. Námskeið við Statens lærerskole i forming, Ósló 1969. Starfaði hjá Útvarpstíðindum 1938. Skólastjóri Húsmæðraskólans að Laugalandi 1943-50. Handavinnukennari við Gagnfræðaskóla verknáms við Brautarholt, síðar í Ármúla 1952-68. Handavinnukennari við Kennaraskóla Íslands 1969-77, síðan lektor við Kennaraháskóla Íslands 1977-84. Formaður HKÍ, Handavinnukennarafélags Íslands 1964-66. Formaður N.T.F., Nordisk tekstillærerforbund á Íslandi 1973-81. Útför Svanhvítar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 18. nóvember, og hefst athöfnin kl. 15.

Svana frænka var hefðardama og heimsborgari.
Hún var alin upp á stóru sveitaheimili í Norður-Þingeyjarsýslu ásamt níu systkinum, samhentum foreldrum, móður sem var ljósmóðir og föður sem var stórbóndi. Efri Hóla  hjónin komu öllum sínum börnum til mennta.
Á heimilinu var margt annarra manna og kvenna og gefa lýsingar á heimilishaldinu mynd af lifandi og skapandi samfélagi.
Á Efri Hólum var stundaður búskapur og umfangsmikill heimilisiðnaður.
Þar var kembt, spunnið og ofið. Þar voru tíndar jurtir og búin til smyrsl.
Þar var líka skrifað og teiknað.
Svana sem var mikil og góð sögukona  sagði okkur borgarbörnunum  margar sögur úr sveitinni.
Það sem hún sagði frá um handverk á heimilinu vakti sérstaklega áhuga minn.
Þar lýsti hún öllu í smáatriðum svo maður sá allt fyrir sér.
Hún sagði mér frá því að þegar búið var að spinna bandið, áður en sett var upp í vefinn sem ýmist var ullarefni í flíkur eða þá tvistur  í sængurföt, lokuðu foreldrar hennar sig inni í betri stofu og lögðu á ráðin um liti og útfærslu á efnunum sem vefa átti. Ullarefni voru  lituð ef efnið var ætlað í sparikjóla handa þeim systrum eða annað fínirí, en oft voru náttúrulitir látnir halda sér. Sængurfötin voru  hvít oft með örmjóum svörtum röndum.
Svana sagði mér að nokkuð hefði verið um það að vaðmáls strangar væru seldir  til útlanda og þá fengin alskyns varningur í staðinn.
Siðar meir sendi Guðrún amma svo ullina til Englands og fékk strangana ofna og unna heim aftur.
Áhugi Efri Hóla hjónanna á hverskyns handverki og framleiðslu hafði mótandi áhrif á mörg barna þeirra.
Svana var við nám í fjögur ár í Svíþjóð og Noregi. Lagði stund á  kjólasaum, hannyrðir og matreiðslu.
Í Noregi lenti hún í ýmsum hrollvekjandi ævintýrum sem frægt er orðið úr bókinni "Býr Íslendingur hér"  en hún var í  Noregi í miðri hringiðu stríðsins.
Hún sagði mér frá því að hún og önnur stúlka á skólanum hefðu á tímabili verið sendar heim til Vidkun Quisling sem þá var við völd í Noregi, til þess að gera við dýrmætan  myndvefnað. Hún sagði þá sögu þannig að manni fannst maður sjálfur sitja þarna í höllinni við hannyrðir og sötra súkkulaði.
Manni er í lifandi minni saga af draugi á hesti, Jóku gömlu, sem reið inni í tóma hlöðuna á Efri Hólum og hvarf. Líka sagan sem hún sagði af þeim litlu bræðrum" Kristjáni (pabba mínum) og Jóhanni þegar þeir voru sendir eftir vatni í  lækinn. Þeir voru eitthvað ósáttir þennan dag og á heimleiðinni  sást til þeirra þar sem þeir með jöfnu millibili, lögðu frá sér vatnsfötuna, ofur varlega, þannig að ekki færi dropi til spillis, köstuðu sér hver á annan og flugust á eins og brjálaðir menn. Svo tóku þeir fötuna ofur varlega upp aftur. Þeir komu svo sneisa fullri vatnsfötunni í hús.
Svana frænka var skólastýra á húsmæðraskólanum að Laugalandi um miðja síðustu öld. Námsmeyjarnar þar sýndu henni allatíð mikla vinsemd og sóma. Þær hafa komið saman og rifjað upp góðar stundir á skólanum fram á þennan dag. Hún var við góðan orðstír lektor í Kennaraháskólanum handavinnudeild í fjölda mörg ár  þangað til hún hætti kennslu.
Það lék allt í höndunum á henni  að taka á móti gestum" fékk nýja og æðri merkingu þegar maður fylgdist með því hvernig hún gerði það.
Svana frænka fylgdist mjög vel með þjóðmálum og ræddum við frænkurnar fram og til baka allar uppákomur í pólitíkinni, góðan árangur og vondan og fórum útí fínustu blæbrigði í spjalli okkar um þessi málefni.
Þótt að henni blöskraði oft framganga einstakra manna og flokka,  þá dró hún alltaf fram það sem viðkomandi hafði sér til málsbóta. Það var hennar háttur, að leita alltaf jafnvægis.
Ég held að það hafi verið einstakt hvað Svana lét sér annt um systkinabörn sín.
Hún veitti manni ætíð stuðning og hvatningu og leiðsögnin var góð.
Svana er okkur sem umgengumst hana mikill harmdauði.
Hún var okkur systkinadætrum sínum fyrirmynd í svo mörgu.
Hún var lifandi vitnisburður um konu sem brúar bilið á milli glæsilegrar íslenskrar sveita menningar og nútíma borgarmenningar.
Elsku Svana frænka megir þú uppskera í næsta lífi allt það góða sem þú sáðir í þessu.


Ásrún Kristjánsdóttir

Elsku Svana, þá er mikil kona gengin.

Það er hægt að lýsa þér í mörgum orðum en í fáum orðum er hægt að segja að þú varst frábær húsmóðir, móðir, amma, mikill kennari, hafsjór af fróðleik, gleðigjafi og stórkostleg á allan hátt. Þín verður sárt saknað af öllum sem kynntust þér og þeir eru margir. Börnin mín voru svo heppin að fá njóta samvista við þig og Stefán þegar við Benni bjuggum í Reykjavík.  Þau voru ekki gömul þegar þau fóru að lauma sér í heimsókn til ykkar í Hvassaleitið en við bjuggum í Hlíðunum. Ég var ansi skelkuð þegar þau hurfu svona að heiman en þú hringdir strax í mig og skilaðir þeim til baka eftir að gefið þeim vel að borða og rætt við þau um alla heima og geima. Þau búa að því enn í dag.

Það var virkilega skemmtilegt þegar Svana sonardóttir þín og Jón maðurinn hennar komu norður í brúðkaupsferð fyrir tveimur árum og dvöldu hjá mér. Það sýnir kærleika þeirra til þín að þú fékkst að koma með í brúðkaupsferðina. Þið fóruð að Efrihólum æskustöðvum þínum og hafði þú mjög gaman að því.

Elsku Svana ég mun sakna þín og samtalana okkar sem gáfu mér svo mikið.

Guð blessi þig.

Ég sendi, fjölskyldu, vinum og öllum sem kynntust þér mínar samúðarkveðjur. Missir okkar er mikill. Kær kveðja,

Sigurbjörg Steindórsdóttir