Erika Anna Stakalies Einarsson fæddist í Austur-Prússlandi, sem nú er Litháen, 18. ágúst 1923. Hún lést á heimili sínu, Hraunvangi 1 í Hafnarfirði, 10. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Maria Matzellus og Fredrik Stakalis og var hún ein af 8 systkinum, eftirlifandi eru Gertrud, Ewald og Helmut. Erika giftist 1951 Snæbirni Einarssyni kennara frá Raufarhöfn, f. að Garði í Þistilfirði 25. október 1902, d. 22. október 1982. Foreldrar hans voru Einar Einarsson og Björg Sigmundsdóttir er síðar bjuggu í Garðstungu, sem kallast mátti nábýli í landi Garðs. Börn Eriku og Snæbjörns eru: 1) Ingvar Guðmundur múrari, f. 24.6. 1951, maki Ingigerður Guðmundsdóttir, f. 17.7. 1954. Börn þeirra eru a) Guðmundur iðnverkamaður, f. 18.5. 1975. Dóttir hans Anna Dögg, f. 16.9. 2009, b) Snæbjörn iðnverkamaður, f. 26.8. 1978, c) Eva Lind, f. 8.12 1985. Fyrir átti Ingigerður Ástu Björk, f. 1.10. 1971, maki Guðjón Benediktsson, f. 26.12. 1960, börn þeirra eru Finnur Snær, Ingvar Már, Gerður Arna og Kolbeinn Benedikt. 2) Einar Friðrik iðnverkamaður, f. 25.3. 1953, sambýliskona Ólafía Agnarsdóttir, f. 1.4. 1960. Börn þeirra eru a) Þórarinn Jóhann, f. 14.2. 1979, b) Eiríkur Snæbjörn nemi, f. 19.7. 1981, c) Jóhanna nemi, f. 18.11. 1991. 3) Fannlaug Svala, f. 1.3. 1954. 4) Guðjón Sigurður múrarameistari, f. 27.4. 1955, maki Soffía Björnsdóttir bókari, f. 18.3. 1956. Börn þeirra eru a) Elín Anna nemi, f. 3.5.1974. Hennar börn eru Guðjón Geir og Máni Freyr, b) Björn múrarameistari, f. 28.7, 1979. Maki Ólafía Friðbjörnsdóttir, f. 22.6. 1981, c) Hrafnhildur nemi, f. 18.10. 1983. Hennar sonur er Björn Andri, d) Helga Soffía nemi, f. 20.6. 1990, 5) Snæbjörn, f. 7.5. 1958, d. 10.8. 1965. Árið 1945 flúði Erika ásamt systkinum sínum og ömmu til Barmstedt í Vestur-Þýskalandi en foreldrar hennar voru þá látnir. Þar á hún enn 2 systkini á lífi og marga ættingja. Hún kom til Íslands árið 1949 og réð sig í vist að Klúku í Bjarnarfirði, þar sem hún kynntist Snæbirni en hann var þá farandkennari á Vestfjörðum. Þau settust að á Raufarhöfn þar sem Erika vann úti eins og kostur var ásamt því að sjá um börn og heimili. Árið 1972 fluttu þau til Hafnarfjarðar og fór hún að vinna á Hrafnistu þar í bæ og var það vinnustaður hennar í um það bil 20 ár. Síðustu ár sín bjó hún í þjónustuíbúð á Hrafnistu og tók þátt í félagsstarfi þar af lífi og sál. Útför Eriku fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 16. nóvember, og hefst athöfnin kl. 13.
Við andlát elskulegrar ömmu Eriku, rifjast upp minningar liðinna ára, sem verða mér um aldur og ævi ómetanlegar. Í uppeldi mínu skipaði amma stórt hlutverk og var mér ávallt sýnd mikil hlýja og góðmennska. Hún var alltaf hress og náði fram brosi með sínum skemmtilegu frásögnum.
Amma var ein af þeim þýsku kjarnakonum, sem komu hingað til Íslands árið 1949, í leit að nýjum tækifærum eftir svaðilfarir stríðsins. Fljótlega eftir komuna hingað til lands var hún svo heppin að kynnast afa mínum, Snæbirni Einarssyni kennara og áttu þau saman farsælt líf þar til að afi lést árið 1982. Þau eignuðust fimm börn en misstu eitt, hann Snæbjörn.
Amma og afi bjuggu á Raufarhöfn í fyrri tíð en seinna fluttu þau til Hafnarfjarðar. Þegar ég kynntist konu minni, Ólafíu, heillaðist hún af tilgreindum eiginleikum ömmu.Við eigum eftir að sakna ömmu mikið og vitum að hún er komin á góðan stað þar sem afi og Snæbjörn taka á móti henni. Með þakklæti og virðingu fyrir samfylgdina, megi minning ömmu Eriku lifa í afkomendum hennar.
Björn Guðjónsson og Ólafía Friðbjörnsdóttir