Þóra N. Stefánsdóttir Bachmann fæddist í Hafnarfirði 29. janúar 1917. Hún lést á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði 10. nóvember síðastliðinn. Foreldrar Þóru voru Stefán Ólafur Bachmann, fæddur á Akranesi 12. maí 1886, d. 21. ágúst 1965 og Margrét Sveinsdóttir, fædd í Hafnarfirði 11. nóvember 1889, d. 25. september 1936. Þóra var annað barn þeirra hjóna en systkini Þóru voru: 1) Sveinn Viggó, f. 9. september 1913, d. 15. ágúst 1987, 2) Súsanna María, f. 4. desember 1920, d. 28. október 1993. Þóra giftist 17. febrúar 1940 Ágústi Ottó Jónssyni frá Gróf í Hafnarfirði, f. 28. júní 1914, d. 31.október 1987. Foreldrar hans voru Guðfinna Margrét Einarsdóttir, fædd í Haukshúsum á Álftanesi 10. nóvember 1888, d. 5. ágúst 1982 og Jón Jónsson, fæddur í Lásakoti á Álftanesi 12. ágúst 1879, d. 26. október 1936. Þóra og Ágúst eignuðust tvö börn. 1) Stefán Grétar, f. 25. júlí 1940, d. 6. júlí 1993, kvæntur Sjöfn Jónasdóttur, f. 7. desember 1942. Börn þeirra eru: a) Þóra, f. 11. febrúar, maki hennar er Kristinn Marteinsson, f. 29. júlí 1962. Sonur þeirra er Stefán Ottó, f. 8. febrúar 1997. b) Silja, f. 9. júlí 1969, maki hennar er Jón Ingvi Geirsson, f. 28. október 1963. Dóttir þeirra er Regína Von, f. 21. nóvember 2008. c) Jónas, f. 10. mars 1976, í sambúð með Sigríði Sigfúsdóttur, f. 15. ágúst 1978. Dóttir þeirra er Unnur Sjöfn, f. 28. apríl 2004. 2) Jónína, f. 30. maí 1948, gift Ragnari Erni Ásgeirssyni, f. 9. janúar 1946, d. 8. febrúar 2001. Börn þeirra eru: a) Berglind, f. 17. nóvember 1971, maki hennar er Ásmundur Edvardsson, f. 13. júní 1969. Börn þeirra eru Helena, f. 23. apríl 1996, Viktor Örn, f. 22. janúar 2001 og Embla, f. 21. júní 2006. b) Ágúst Þór, f. 9. maí 1979, í sambúð með Hildi Einarsdóttur, f. 28. júní 1980. Börn þeirra eru Hilmir, f. 15. apríl 2006 og Freyja, f. 21. ágúst 2009 . c) Svala, f. 13. október 1984, í sambúð með Atla Bollasyni, f. 2. maí 1985. Þóra bjó alla sína ævi í Hafnarfirði. Hún var mikil húsmóðir og sinnti heimili sínu af kostgæfni. Auk húsmóðurstarfa vann hún í fiskvinnslu, við saumaskap og síðustu 32 starfsárin vann hún í þvottahúsi Súkrahúss Sólvangs í Hafnarfirði. Hún var heiðursfélagi Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar. Þar sat hún í stjórn um árabil. Einnig sinnti hún ýmsum öðrum félagsmálum í Hafnarfirði. Útför Þóru fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin kl. 13.
Þegar móðir Tótu, Margrét Sveinsdóttir lést árið 1936, tók Tóta við heimilishaldinu, þá 18 ára, með föður sínum Stefáni Bachmann og systkinum sínum þeim Sveini Viggó, þá 22ja ára og Súsönnu Maríu, þá 16 ára.
Nokkrum mánuðum síðar 1937 dó móðir mín Þuríður móðursystir Tótu. Þær voru dætur Vigdísar Jónsdóttur og Sveins Auðunssonar bæjarfulltrúa og eins af stofnendum verkamannafélagsins Hlífar og stúkunnar Danielshers í Hafnarfirði.
Þar sem ég, þá 8 ára, var á rölti niður Brekkugötuna 18. apríl 1937, kom Súsanna systir Tótu á móti mér og sagði: Hún mamma þín er dáin, komdu heim með mér. Stefán faðir Tótu og þau systkinin höfðu þá ákveðið að taka mig til sín sama dag og móðir mín lést á St. Jósepsspítala í Hafnarfirði, eftir skyndilegt hjartaáfall.
Tóta tók á móti mér og vísaði til herbergis uppi í risi. Þar voru tvö svefnstæði með náttborðum, glugginn sneri í vestur yfir lækinn og út á sjó. Ég var þá kominn aftur á fæðingarstað minn í Sveinsbæ, að Lækjargötu 6 í Hafnarfirði. Þá þegar setti Tóta mér ákveðnar og að mér fannst strangar lífsreglur um útivist, umgengni á heimilinu, skólagöngu o.fl.
Þetta voru mikil viðbrigði fyrir mig að fara úr lítilli 2ja herbergja íbúð í þetta stóra einbýlishús sem var mjög menningarlegt, með myndum á veggjum, bókum í hillum og í stofunni var píanó sem þær systur æfðu sig á, einkum Súsanna sem náði töluverðri leikni og samdi nokkur lög. Á píanóinu voru alltaf Fjárlögin og mikið spilað úr þeim. En þar sem heimilishaldið hvíldi að mestu á Tótu, gaf hún sér minni tíma en Súsanna til að æfa píanóleik.
Þær systur voru mjög samrýmdar og vöktu oft athygli fyrir snyrtimennsku í klæðnaði og fágaða framkomu. Á alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930 vöktu þær sérstaka athygli fyrir þjóðbúninginn sem þær skörtuðu og sem varð til þess að þjóðhátíðarnefndin ákvað að láta útbúa og hafa til sölu lítinn spegil með mynd af þeim systrum á bakhliðinn. Var Jón Kaldal fenginn til að mynda þær og lít ég á þessa mynd sem eitt af hans listaverkum.
Segja má að Tóta hafi fórnað öllu námi eftir barnaskólann fyrir heimilisstörfin, því þá þegar var móðir hennar orðin mikill sjúklingur og Stefán faðir hennar alltaf á sjónum.
Þrátt fyrir kreppuna sem ríkti á þessum árum, varð ég aldrei var við skort á neinu. Tóta var mjög hagsýn, sífellt að sauma og laga fatnað.
Þeir voru ófáir íþróttabúningarnir sem hún saumaði á mig og alltaf voru þeir flottastir. Fiskhjallur var við húsið, einskonar forðabúr, þar sem fiskspyrður og hausar héngu, sen Stefán og Jón bróðir ,sem líka var til sjós, báru í bæinn. Og þegar nýr fiskur var ekki við hendina, sem var sjaldan, þá var leitað í hjallinn. Það var ótrúlegt hvað Tóta gat búið til góðan mat úr því trosi. Einnig var alltaf tekið slátur á haustin og sett í súr. Er það ógleymanlegt þegar Tóta sat við saumaskap á vömbum og sjá síðan stóra suðupottinn í þvottahúsinu fullan af blóðmörs- og lifrapylsukeppum.
Tóta var mjög trúuð og þær systur stunduðu vel fundi í stúkunni Danielsher.
Ég hafði ekki verið þarna lengi þegar Tóta skipaði Súsönnu að fara með mig í barnastúkuna Kærleiksbandið, þar sem ég fékk mína fyrstu biblíulegu fræðslu og fagleg spor í félagsstarfi og mannlegum samskiptum, með heiðarleika og sannsögli að leiðarljósi.
Tóta var sívinnandi við heimilishaldið á veturna og á sumrin fór hún í síldarsöltun, bæði til Siglufjarðar og Ingólfsfjarðar, þegar síldin var sem mest hér við land. Þau sumur var ég sendur á góð barnaheimili, bæði að Hörðuvöllum og út í Viðey. Var dvölin í Viðey mjög lærdómsrík og þroskandi, sífelldar ferðir úti í náttúruna þegar gott var veður, því þar var nóg að sjá, sérstaklega fjölskrúðuga fuglalífið. Eftir að ég varð 11 ára var ég sendur í sveit á sumrin að Uppsölum í Norðurárdal og var það ekki síður þroskandi. Var ég þar fjögur sumur. Má segja að þar hafi ég lært hefðbundin bústörf og veiða silung, bæði í net og á stöng.
Tótu féllu aldrei verk úr hendi; t.d. þegar bresku hermennirnir komu til Hafnarfjarðar 1940 og lögðu undir sig Barnaskólann sem er aðeins handan við lækinn, þá tók Tóta að sér þvott fyrir yfirmennina. Má því segja að þá hafi heimilið oft verið undirlagt af hermannafatnaði.
Árið 1940 giftist Tóta, Ágústi Ottó Jónssyni. Þau hófu sinn búskap í Sveinsbæ og það sama ár eignast Tóta sitt fyrsta barn, Stefán Grétar, sem var mjög veikur fyrsta árið. Í hönd fóru því erfiðir tímar fyrir Tótu, vinna við heimilisstörfin og þvottana á daginn og gangandi um gólf með Stefán grátandi í fanginu á næturnar.
Um 1945 réðust þau Tóta og Ágúst Ottó í það stórvirki að byggja sér hús ofar við Lækinn, að Tjarnarbraut 23. Var þá gott að geta hjálpað aðeins til við að grafa fyrir húsinu og síðar að mála. Árið 1947 fluttu þau í húsið og ári seinna eignuðust þau sitt síðara barn Jónínu (Jonnný), sem syrgir nú móður sína.
En áfram hélt Tóta að vinna og nú á sjúkrahúsinu Sólvangi sem var í göngufæri frá heimilinu. Starfaði hún þar í 32 ár eða allt til ársins 1989, síðustu árin sem verkstjóri. Milli þess sem hún starfaði á Sólvangi sat hún við prjónaskap og útbjó flestar jólagjafir í höndunum. Einnig saumaði hún mikið út, bæði veggteppi, áklæði á stóla o.fl.
Tóta sinnti einnig félagsmálum, sat í stjórn Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar og var heiðursfélagi þess félags. Einnig var hún nokkur ár formaður Kvenfélags karlakórsins Þrasta, þar sem bæði Ottó og Stefán sonur þeirra sungu. Með karlakórnum fór Tóta nokkrar ferðir, bæði innanlands og utan.
Ottó féll frá 1987, þá 73 ára og svo missir hún Stefán 1993 aðeins 53ja ára. Við fráfall feðganna setti mikinn harm að Tótu og dauði þeirra markaði djúp spor í sálarlífið. 2001 varð þriðja óvænta dauðsfallið í fjölskyldunni, þegar tengdasonurinn Ragnar Örn Ásgeirsson lést aðeins 55 ára, þvílíkt áfall.
Sem betur fer var hús þeirra að Tjarnargötu 23 þannig hannað að hægt var að hafa í því tvær íbúðir, aðra á efri og hina á neðri hæð. Því gat Tóta, þegar hún var orðin ein á efri hæðinni, leigt barnabörnum sínum neðri hæðina. Tóta bjó ein í íbúðinni frá því að Ottó féll frá eða í 27 ár og hafði mikinn metnað til þess að halda húsinu vel við, jafnt innan sem utan.
Heimilið var sérlega glæsilegt, vel búið húsgögnum og veggir þaktir málverkum. Tóta var höfðingi heim að sækja, ávalt tilbúin með hlaðið borð af tertum og kökum. Aldrei fengum við hjónin að drekka kaffi við eldhúsborðið, það var alltaf lagt á borð með sparistellinu í borðstofunni.
Tóta var alla tíð mjög heilsuhraust og lagðist ekki á sjúkrahús fyrr en í júlí sl. þá 92ja ára. Hún þakkaði þessa góðu heilsu heilbrigðu líferni, hafði aldrei neytt víns né tóbaks. Hún var aldrei sátt við þennan stutta tíma sem hún var á sjúkrahúsinu og talaði sífellt um að hún vildi fara heim, þar til síðustu vikuna að hún var orðin algjörlega rúmföst. En hún hafði lifað heilbrigðu og hamingjusömu lífi og mátti vera þakklát fyrir að ná svo háum aldri og hafa skilningarvitin í lagi allt til hinstu stundar.
Jonný sinnti mömmu sinni alla tíð mjög vel frá því að Ottó féll frá og ekki síst eftir að hún veiktist. Verðskuldar hún sérstakar þakkir fyrir og votta ég henni innilega samúð. Einnig Sjöfn Jónasdóttur (ekkju Stefáns) og öllum ömmu- og langömmubörnunum. Ég kveð Tótu með þakklæti fyrir það eftirlit og þá umhyggju sem hún sýndi mér meðan ég dvaldi í Sveinsbæ.
Blessuð sé minning frænku og fóstru.
Rafn Hafnfjörð.
Að koma heim til hennar fékk maður á tilfinninguna að svona ætti hvert heimili að vera, allt svo snyrt og fágað. Móttökurnar höfðinglegar og elskan og hlýjan streymdi frá henni og hún var alltaf þakklát hverri heimókn.
Nú hefur hún fengið hvíldina og trúi ég að hún hafi innst inni verið henni jafnvel fegin, eftir svo langa og viðburðarríka ævi. Ekki þarf hún að kvíða þeim móttökum sem bíða hennar, þar sem örugglega verður vel tekið á móti henni, því þar bíða hennar: maki hennar, sonur, tengdasonur, bróðir og systir, svo og foreldrar og aðrir sem lagt hafa upp í þessa ferð á undan henni. Nú að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti til hennar fyrir alla þá tryggð og vináttu að ógleymdum þeim styrk, sem hún hafði á sinni löngu ævi lagt mér og mínum í té. Megi hinsta ferð þín, kæra frænka, verða okkur eftirlifandi hvatning til dáða meðan við njótum jarðvistar okkar.
Jón.
Í dag þegar ég kveð Tótu frænku langar mig að minnast hennar með nokkrum orðum.
Því margar góðar minningar á ég tengdar henni. Ein af þeim er til dæmis sú að þegar ég var lítil stúlka voru hátíðarhöldin á 17.júní haldin á Hörðuvöllum og því ávallt farið í kaffi til Tótu frænku á Tjarnarbrautina í leiðinni. Ávallt var fullt út úr dyrum hjá þeim en endalaust pláss fyrir alla þá sem vildu fá sér kaffi og með því. Þannig var hún Tóta frænka einmitt gestrisin með eindæmum. Eins þótti manni mjög flott að sjá Fjallkonuna svona í návígi þar sem hún klæddi sig upp í hátíðarbúninginn hjá þeim á Tjarnarbrautinni.
Við hjónin hófum svo að segja búskap okkar í kjallaranum hjá henni Tótu frænku og fæddist hún Alexandra Eir okkar á meðan við bjuggum þar. Um leið og hún byrjaði að tala fór hún að kalla hana Tótu frænku ,,ömmu Tótu" og eftir það hefur hún gengið undir því nafni hjá okkur og held ég bara að henni hafi þótt það notalegt.
Góð kona sem vildi öllum vel og allt fyrir alla gera hefur nú kvatt okkur en tel ég víst að hún hafi fengið hlýjar móttökur í öðrum heimi nú. Elsku Jonný og fjölskylda, Sjöfn og fjölskylda, minning um góða
mömmu,tengdamömmu,ömmu og langömmu lifir í hjörtum okkar.
Kærleikskveðja til ykkar allra.
Elfa Sif Jónsdóttir og fjölskylda.