Guðmundur Jón Benediktsson fæddist á Ísafirði 15. október 1926. Hann lést sunnudaginn 8. nóvember 2009. Foreldrar hans voru Benedikt Gabríel Benediktsson verkamaður, f. 10.12. 1893, d. 4.1. 1954 og Sesselja Þorgrímsdóttir húsmóðir, f. 9,5. 1889, d. 11.9. 1971. Bræður Guðmundar voru Ásgrímur verkamaður, f. 27.8. 1920, d. 23.6. 1994 og Haukur framkvæmdastjóri, f. 29.2. 1924, d. 30.8. 2008. Guðmundur kvæntist 3.7. 1948 Sigurlaugu Jónu Jónsdóttur, f. á Siglufirði 19.8. 1927 . Foreldrar hennar voru Jón Kristjánsson verkamaður, f. 29.1. 1902, d. 3.1. 1973 og Sigríður Jónsdóttir húsmóðir f. 12.10. 1896, d. 25.8. 1969. Börn Guðmundar og Jónu eru: 1) Birna, f. 25.2. 1955, maki Sverrir Davíð Hauksson, f. 1955. Synir þeirra eru: a. Hákon, f. 1973, maki Sigurrós Óskarsdóttir, f. 1974, börn þeirra Steinar, f. 2001, Óskar, f. 2003, Sverrir, f. 2003 og Hekla, f. 2009. b. Eyþór, f. 1977, sambýliskona Anna Guðný Ólafsdóttir, f. 1980, sonur þeirra er Elfar Freyr, f. 2007. c. Guðmundur, f. 1979, d. Kristinn, f. 1979. 2) Sigríður, f. 29. 8. 1957, maki Heimir Þór Sverrisson, f. 1957, börn þeirra eru a. Anna Jóna, f. 1981, börn hennar og Harðar Sveinssonar eru Högni Alvar, f. 2004 og Vigdís Elfur, f. 2006. b. Lára, f. 1988, unnusti Ari Gunnar Þorsteinsson, f. 1988. c. Guðmundur, f. 1991. 3) Jón Orri, f. 23.1. 1959, maki Júlía Ágústsdóttir, f. 1965, börn þeirra eru Alexandra, f. 1989 og Ágúst, f. 1993. 4) Benedikt Þór, f. 24. 8. 1961, maki Guðrún Pétursdóttir, f. 1962. Börn þeirra eru Pétur, f. 1984, d. 2006, Vignir, f. 1987, Sindri, f. 1993 og Sigríður Birta, f. 1999. Guðmundur ólst upp á Ísafirði. Hann stundaði nám við Gagnfræðaskóla Ísafjarðar. Starfaði við netagerð á Ísafirði 1942-1946. Lauk námi í Samvinnuskólanum 1947. Prentnám í Prentsmiðjunni Ísrúnu á Ísafirði 1947-1951 og starfaði þar til 1954. Vann í prentsmiðjunni Eddu 1954-1956, prentsmiðju Morgunblaðsins 1956-1961 og varð síðan prentsmiðjustjóri hjá dagblaðinu Vísi 1961-1967. Frá 1967-1992 rak hann prentsmiðju undir eigin nafni. Guðmundur og Jóna stofnuðu sitt fyrsta heimili á Ísafirði, en árið 1954 fluttu þau til Reykjavíkur og bjuggu þar í eitt ár. Árið 1956 fluttu þau í Víðihvamm 19 í Kópavogi sem varð þeirra heimili til ársins 1997 er þau fluttu í Gullsmára 7 í Kópavogi. Guðmundur hafði alla tíð mikinn áhuga á íþróttum og stundaði á sínum yngri árum knattspyrnu, skíði og frjálsar íþróttir. Hann var formaður og í stjórn Knattspyrnufélagsins Harðar á Ísafirði 1945-1954. Hann var einn af stofnendum og í fyrstu stjórnum Styrktarfélags knattspyrnudeildar Breiðabliks. Guðmundur var Breiðabliksmaður af lífi og sál og varla leið sá dagur að hann færi ekki í Smárann að athuga hvort ekki væri allt eins og það ætti að vera. Hann og fleiri komu á fót leikfimihóp eldri Blika sem hittist reglulega enn þann dag í dag og fer í göngu í Fífunni og tekur þátt í getraunum alla laugardaga í Smáranum. Útför Guðmundar verður gerð frá Digraneskirkju í dag, 16. nóvember, og hefst athöfnin kl. 13.

Okkar góði félagi Guðmundur Benediktsson lést sl. laugardag á heimili sínu 83 ára að aldri. Guðmundur var ræktunarmaður lýðs og lands alla ævina. Hann var maður réttlætis og samvinnu. Guðmund þekkja flestir Blikar sem komnir eru til vits og ára. Upp úr 1970 fór Guðmundur að láta sig Breiðablik varða og var m.a. einn af stofnendum styrktarfélags Breiðabliks sem lagði félaginu - og einkum knattspyrnudeildinni lið um árabil. Guðmundur var atvinnurekandi lengst af starfsævinnar og rak prentstofu G. Ben um árabil. Fyrirtæki Guðmundar studdi og styrkti Breiðablik um árabil á margvíslegan hátt.

Eftir að Breiðablik eignaðist aðstöðu í Smáranum var Guðmundur tíður gestur og fylgdist vel með starfinu. Hann var einkar áhugasamur um sögu félagsins og lagði mikla vinnu í að halda til haga og varðveita ýmiss gögn þar að lútandi. Það er alveg óhætt að segja að Guðmundur var kappsamur og lifandi í stuðningi sínum við Breiðablik. Hann hikaði ekki við að segja mönnum til syndanna ef honum þótti gert á hlut félagsins eða líkaði ekki hvernig menn höguðu seglunum, gilti þá einu hverjir áttu í hlut. En að sama skapi var hann óspar á hrósið þegar honum líkaði vel.

Guðmundur var mikill Breiðabliksmaður og þegar við Blikar unnum okkar fyrsta bikarmeistaratitil í meistaraflokki nú á dögunum voru fáir sem kættust meira en hann.Knattspyrnudeild Breiðabliks vill þakka Guðmundi samfylgdina, framlag hans til knattspyrnunnar í Kópavogi og fyrir ómetanlegan stuðning við deildina í gegnum árin. Fjölskyldu og vinum Guðmundar sendum við samúðarkveðjur.

Fyrir hönd knattspyrnudeildar Breiðabliks,

Einar Kristján Jónsson, formaður.